5113 Gagnleg húsráð gömul

5113

Gagnleg húsráð gömul

Útfærsla gamals húsráðs
Kaloríutalning og matardagbók eru í rauninni bara nákvæm útfærsla á gömlu húsráði.
* Það segir þér að borða þrisvar á dag,
* fá þér einu sinni á diskinn og
* ekkert milli mála.

* En “einu sinni á diskinn” er teygjanlegt hugtak.
* Ég fór á veitingahús og fékk bleikju.
* Heima hefði ég matreitt bleikjuna upp á 500 kaloríur.
* Á matstaðnum jóðlaði rétturinn í olíu og kartöflurnar voru í stöppu.

Ég reiknaði réttinn upp á 800 kaloríur, sem er anzi mikið.
* Þannig er einn diskur ekki sama og einn diskur.
* Að fá sér einu sinni á diskinn getur verið of mikið, ef þú stýrir sjálfur ekki matreiðslunni.

Að kunna að bíða
* Þú þarft að kunna að bíða.
Borðir þú þrisvar á dag og fáir þér bita tvisvar að auki, líða varla meira en þrír tímar milli mála.
* Þú þarft að geta haldið út í þessa þrjá tíma.

* Gangir þú (“af tilviljun”) inn í eldhúsið kl.14, verður þú að muna, að kaffitími er ekki fyrr en kl.15.
* Við því er ekkert að gera. Svindlir þú á tímanum, getur kerfið hrunið.
* Byrji menn að borða fram í tímann, er engin leið að átta sig á, hvar það endar.

Þú ert mikill fíkill, ef þú getur ekki beðið eftir, að klukkan verði 15. Þú verður að grípa til örþrifaráða.
Þú verður þá að stökkva út í göngutúr eða gera eitthvað annað, sem dreifir örvæntingu hugans í biðinni.
Fáðu þér vatnsglas eða te.

Gefðu þér sekúndur
Þegar fíknin læðist að mér, gef ég mér nokkrar sekúndur til að hugsa.
* Á ég að fara út að ganga?
* Á ég að fá mér vatnsglas?
* Þarf ég magafyllingu?
* Á ég að lesa kafla í bók?
* Á ég að fara á netið og lesa fréttir?
* Á ég að klippa neglurnar?

Margvíslegt kemur til greina og eitt af því nægir til að bægja frá stundargræðgi þessa andartaks.
Smám saman vandi ég mig á, að þrír tímar líða milli mála og ég varð þann tíma að hugsa um eitthvað annað en mat eða snarl.

Stöðug hugsun um mat verður óbærileg og þú verður að bægja henni frá þér.
Strax.
Oftast er áhlaup fíknarinnar skammvinnt og þú sleppur með skrekkinn.

Matreiðsla skiptir máli
* Betra er að steikja en djúpsteikja.
* Betra er að sjóða eða baka í ofni eða grilla en að steikja.
Steikingu fylgir olía eða smjör og djúpsteikingu fylgir meiri olía en venjulegri steikingu.

* Kleina hefur fleiri kaloríur en jafnþung kökusneið. Það gerir djúpsteikingin.
* Djúpsteiktur fiskur hefur fleiri kaloríur en steiktur fiskur, sem hefur fleiri kaloríur en soðinn fiskur, bakaður eða grillaður.

* Á sama hátt hefur steikt grænmeti fleiri kaloríur en hrátt grænmeti.
* Sósur og froður eru oft kaloríubombur, svo og hveitiþykktar og rjómavæddar súpur.
* Gættu þín vel á hliðaratriðunum.

Notaðu stuttar uppskriftir
Farðu varlega í langar uppskriftir.
* Ef lengdin stafar af röð af ýmsu kryddi, er það í lagi.
* En önnur hliðaratriði geta verið bólgin af kaloríum.

* Stuttar uppskriftir eru öruggastar. Svo sem þær, sem kokkalandsliðið birtir í bókum sínum.
* Ef þú notar uppskriftir, er auðveldast að telja kaloríur í stuttum uppskriftum.
Heildarmagn þeirra er venjulega því minna sem uppskriftin er styttri.

* Enginn getur sannfært mig um, að lengd uppskriftar auki gæði hennar.
* Mér finnst ferskur fiskur beztur kryddlaus og gufusoðinn í ofni, svo góða fiskbragðið komi fram.
* Sú matreiðsla gefur líka fæstar kaloríur.

Gagnleg
húsráð
gömul