5145 Takmörkuð ráð

5145

Þessi ráð eru takmörkuð

Ekki kennslubók í OA
Þetta er ekki kennslubók í umgengni þinni við OA, GSA eða FAA.
Hér er aðeins ráðlagt að taka þátt í slíku starfi.
Þar verðurðu að læra, hvernig þú notar samtökin til að styðja þig í fráhaldinu.

Umgengni við OA, GSA eða FAA verður ekki kennd í fyrirlestrum, enda verða samtökin ekki skilin, bara skynjuð.
Með aðild átt þú smám saman að skynja gagnið af að gera samtökin að þínum æðra mætti.

Þar muntu vonandi fyrr eða síðar öðlast hugarró og skilja mátt bænarinnar:
“Gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.”

Bezta bókin
Bezta bókin, sem ég hef lesið um Overeaters Anonymous, hefur verið gefin út á íslenzku.
Hún heitir: “Matarfíkn, leið til bata”, eftir Jim A., þýdd úr ensku.

Þar er rækilega fjallað um þessi samtök, hvernig þau virka og hvernig þú getur notað þau til hjálpar.
Þar er vikið að ótal atriðum, allt frá tæknilegum varúðarráðstöfunum yfir í aðferðir til að bæta persónuleikann.

Hægt er að fá hana keypta sums staðar á fundum samtakanna, sem yfirleitt eru opnir öllum, er leita aðstoðar.
Hennar er getið á stuttum bókalista aftast í þessari bók, ásamt ýmsum öðrum bókum, sem mér hafa líka fundizt gagnlegar.

Ekki kennsla í matarkúr
Þetta er ekki kennsla í matarkúr.
Slíkt snýst oftast um mikla megrun á stuttum tíma.
Henni mistekst ætlunarverkið, því að hún fjallar um afleiðingu vandamáls, ekki um forsendu þess.

Slík kennsla snýst ekki um átfíkn eða matarfíkn sem sjúkdóm.
* Þessi kennsla hér fjallar um fáar meginreglur þeirra, sem vilja losna úr bóndabeygju vandans.
* Um kaloríutalningu og um matardagbók.

* Um fráhald frá matvælum, sem valda þér vandræðum, svo sem sykri, mjöli og sterkju.
* Og um, hvernig þú getur beitt hópefli til að berjast við vanda, sem þú ræður ekki einn við.
Hópeflið færðu hjá sérfræðingi eða í OA.
* Markmiðið er hugarró.

Engin hraðferð úr vanda
Þessir fyrirlestrar kenna enga hraðferð úr vandanum.
* Þeir gera ráð fyrir, að þú léttist á löngum tíma, kannski þremur árum.
* Þeir gera ráð fyrir, að þú sért rétt fyrir neðan ráðlagða matarneyzlu.

* Sumt geturðu ekki lært strax, til dæmis að hreyfa þig.
* Þú þarft að komast í bata til að vera undir það búinn að fara út að ganga eða fara í ræktina.
* Þú þarft að breyta persónu þinni og það tekur langan tíma.

* Fyrst þarftu að ná jafnvægi og síðan notarðu það til að ná enn frekari árangri, sem smám saman leiðir til megrunar.
* Hún er ekki markmiðið, heldur bein afleiðing af markmiði betra lífs í góðu jafnvægi.

Engin vörn við lystarstoli
Þessi bók kennir ekki leiðir til að komast út úr anorexíu, lystarstoli.
Ekki heldur út úr bulimíu, bylgjum ofáts og sultar.
Aðrar bækur fjalla um slík vandræði og leiðirnar eru að ýmsu leyti aðrar en hér er lýst.

Anorexía og bulimía eru sérstakir sjúkdómar, sem kalla á sérstakar leiðir til lausnar.
Þetta tvennt á oft sálrænar eða félagslegar rætur.
Ég þekki ekki nógu vel til þeirra sjúkdóma til að geta fjallað um þá með sama hætti og um matarfíkn eða átfíkn. .

Á fundum í OA eru oft sjúklingar á þessum sviðum.
Þar geturðu leitað hjálpar og samhjálpar, sé það anorexía eða bulimía, sem hrjáir þig.

Þessi ráð
eru
takmörkuð