5107 Innirækt og útivist

5107

Innirækt og útivist

Hreyfing skiptir miklu máli, þótt hún vegi ekki eins þungt og mataræðið í baráttunni gegn ofþyngd.
* Þrekhjól, göngubretti og skíðagönguvélar brenna kaloríum.
* Lyftingatæki færa þyngdina frá ístrunni yfir í vöðvana.

* Þetta gerist hraðast á líkamsræktarstöðvum.
* Útivist er hægvirkari, en er þó betri, því hún er skemmtilegri.
Gönguferð í fögru og fjölbreyttu landslagi slær út einhæfni vélanna á líkamsræktarstöðvum.

Útivist er almennt ákjósanlegri en innivera.
En þú þarft að gefa þér meiri tíma í útivist heldur en þú þarft að gera í ræktinni.
Gott er að blanda þessu hvoru tveggja saman eftir veðri.

Ekki byrja geyst
* Ef þú ert lítið fyrir mikla hreyfingu, er óráðlegt að byrja eins bratt og hér er lýst.
* Þú byrjar bara á þeirri hreyfingu, sem þér finnst hæfileg og færir þig síðan upp á skaftið á löngum tíma.

Farir þú of geyst, þannig að úr því verði eins konar átak, er hætt við, að þú gefist upp.
Hreyfing kemur þér ekki að gagni, nema hún falli að getu þinni og vilja þínum hverju sinni.
Sennilega hentar flestum að byrja ekki í líkamsræktarstöð, heldur fara bara út að ganga.

Farðu út að ganga. Til að byrja með í 10 mínútur á dag, fimm daga í viku.
Smám saman er hægt að lengja gönguna upp í það, sem hér er ráðlagt.
Ekki byrja of geyst.

Varúð: Kröfuharka einkaþjálfara
Lítill áhugi á hreyfingu fer oft saman við ofþyngd og offitu.
Samt verður þú að auka hreyfinguna, því að hún er mikilvægur þáttur í nýjum lífsstíl.

* Með því að byrja nýja lífið í smáum stíl er minni hætta á, að þú ofgerir getu þinni eða vilja.
* Einkaþjálfarar reyna oft að mana fólk upp í of mikið átak.
* Slíkt hefur oft leitt til strengja og vöðvabólgu, sem fælir fólk frá frekara átaki.

Farðu heldur léttu og ljúfu leiðina.
* Reyndu ekki að bæta árangurinn.
* Láttu batann koma eðlilega í kjölfar lengri tíma í þjálfun.
* Gefðu þér nokkra mánuði eða ár til að komast upp í það, sem hér er mælt með.

* Átak er hættulegt
* Allt, sem lyktar af átaki, er hættulegt matarfíkli. Hvort sem er í hreyfingu eða mat.
* Ekki djöflast of mikið niður.
* Vertu rétt neðan við ráðlagða hreyfingu, þá er minni hætta á uppgjöf.

* Ef 2000 kaloríur á dag eru þinn ráðlagði skammtur, skaltu vera nálægt 1900 kaloríum á dag meðan þú ert að léttast.
* Farir þú mikið neðar, fer líkaminn að líta á hreyfingu og tilveruna alla sem erfiða fangabúðavist.

Líkami í vörn gerir gagnráðstafanir.
Hann hægir á sér, brennir færri kaloríum.
Jafnvægispunktur þinn fer úr 2000 kaloríum niður í 1900 og jafnvel í 1800 kaloríur.
Megrun verður því erfiðari sem gassalegar er rokið í þjálfun.

Hægt aukin hreyfing
Um hreyfinguna er það sama að segja og um matinn.
Þú byrjar hægt og bætir smám saman í.
Tuttugu mínútna ganga þrisvar í viku er nóg til að byrja með.
Síðan eykurðu tímann og fjölgar skiptunum smám saman.

* Eftir hálft ár ertu kominn upp í klukkutíma gang fimm sinnum í viku.
* Eða sambærilega þrekþjálfun á líkamsræktarstöð.
* Það er sú hreyfing sem fólki almennt er ráðlögð nú á tímum, ekki bara matarfíklum.

* Veldu þér hreyfingu, sem þér líkar vel við, sund, golf, göngu, hjólreiðar.
* Tækin í líkamsræktinni gefa meiri þjálfun á styttri tíma, þar nægir hálftími á dag.
* En sú hreyfing er sumum leiðigjörn.

Innirækt
og útivist