5110 Mataráætlunin

5110

Mataráætlunin

Matardagbók er
þjálfun í skipulagi
* Mörgum hrýs hugur við skipulaginu, sem felst í mataráætlun og matardagbók.
* En skipulag er einmitt eitt fyrsta skrefið að léttu leiðinni ljúfu.

Hvað eftir annað sé ég, að fólk, sem nær skipulagi á smáatriðum í lífi sínu, á léttara með að taka á verkefnum og vandamálum.
* Sá, sem kemst á fundi á tilsettum tíma, er í betri málum en hinir.
* Sá, sem missir ekki af flugi, er í betri málum en hinir.

* Sá, sem skrifar minnislista fyrir kaupstaðarferð, er í betri málum en hinir.
Skipulag léttir nefnilega lífið og skipulagsskortur flækir það.
Þjálfun í skipulagi er fyrsta skrefið í átt að léttu leiðinni ljúfu.

Skipulagsleysi er þungt
Skipulagsleysi er þungt, skipulag er létt.
Með skipulagi kemstu inn á létta leið til bata.
* Skipulag felst í að borða á tilteknum matmálstímum.

* Skipulag felst líka í að vita, hvað þú ætlar að borða mikið.
Og það felst í að vita, hvað þú borðaðir mikið.
* Það felst í að plana hegðun þína við óvenjulegar aðstæður, svo sem á ferðalagi eða í matarboði.

* Felst í að sperra sig ekki of mikið við að fara niður í neyzlu.
* Felst í að forðast aðstæður, sem þú veizt að verða þér erfiðar.
Skipulag felst í svo mörgu smáu.
Skipulag er fyrsta og mikilvægasta skrefið inn á léttu leiðina ljúfu, sem þessi bók snýst um.

Skipulag eykur hugarró.
Hugarró skiptir mestu. Mín reynsla er, að skipulag stuðlar að hugarró.
* Með skipulagi kemur fátt þér á óvart yfir daginn.
* Þú lendir síður í hremmingum á borð við tímahrak.

Þú blekkir síður sjálfan þig með því að gleyma þáttum í fráhaldi þínu.
Ef þú greiðir afborgun á eindaga fremur en degi síðar, spararðu viðbótarkostnað og lendir auk þess ekki á vanskilaskrá.
* Allt lífið verður svo miklu auðveldara með góðu skipulagi.

* Með góðu skipulagi veit matarfíkillinn miklu betur, hvar hann stendur.
* Hann getur snúið sér að því, sem mestu máli skiptir, að koma ró á hugann.
* Hann verður andlega betur í stakk búinn til að sinna fráhaldi.

Tapaði heilum áratug
Ég tapaði áratug á skipulagsleysi.
Fyrir alla muni ekki frysta þig inni í skipulagsleysi.
Ekki líta á þig sem krónískan flautaþyril.
Farðu á námskeið í skipulagi.

Lærðu tímastjórn og lærðu að hafa yfirsýn fjármála þinna.
Skipulag er tæknileg forsenda þess, að þú getir farið þá leið, sem þessi bók lýsir.
Skipulag verður að lokum ein bezta undirstaðan að hugarró, sem er lokastigið í ferli þínu.

Ég náði því ekki strax, að ég þyrfti að hafa matarplan og halda matardagbók til að ná árangri.
Tapaði við það heilum áratug í bata.
Þegar ég loksins lærði að ná yfirsýn, komst ég loksins inn á léttu leiðina ljúfu.
Og komst alla leið.

Heiðarleg matardagbók
Sá, sem heldur heiðarlega matardagbók, veit fljótlega margt um líkama sinn og breytingar á honum.
Þú veizt, þegar þú ferð yfir eða undir ráðlegan dagsskammt og þarft ekki einu sinni að vigta þig.

Þú öðlast tilfinningu fyrir samhengi kaloríufjölda og breytinga á líkamsþyngd.
Fari neyzlan úr skorðum, hefur þú færi á að leiðrétta kúrsinn á skjótan hátt.
Þú finnur líka, ef þér er um megn að tempra þig.

Í fyrstu virðist dagbókin hafa mikla fyrirhöfn í för með sér, en fljótlega kemst þú upp á lag með að fylla hana út og nota hana.
En ekki gleyma, að hún þarf að vera heiðarleg.
Ekki falsa matardagbókina.

Mataráætlun
er nauðsynleg