5112 Matardagbókin

5112

Matardagbókin

Heiðarleg matardagbók
* Sá, sem heldur heiðarlega matardagbók, veit fljótlega margt um líkama sinn og breytingar á honum.
* Þú veizt, þegar þú ferð yfir eða undir ráðlegan dagsskammt og þarft ekki einu sinni að vigta þig.

* Þú öðlast tilfinningu fyrir samhengi kaloríufjölda og breytinga á líkamsþyngd.
* Fari neyzlan úr skorðum, hefur þú færi á að leiðrétta kúrsinn á skjótan hátt.
* Þú finnur líka, ef þér er um megn að tempra þig.

Í fyrstu virðist dagbókin hafa mikla fyrirhöfn í för með sér, en fljótlega kemst þú upp á lag með að fylla hana út og nota hana.
En ekki gleyma, að hún þarf að vera heiðarleg.
* Ekki falsa matardagbókina.

Léttur og þungur matur
* Matardagbók auðveldar þér að átta þig á misjöfnu vægi matar við talningu á kaloríum.
40 gramma brauðsneið er 100 kaloríur, en 60 gramma kleina er 250 kaloríur, enda er hún djúpsteikt.

Fiskur og kjöt eru létt í kaloríum, 200 grömm af fiski eru 160 kaloríur.
Hálfur snúður er 315 kaloríur.
Fljótt lærirðu að taka magra og létta vöru fram yfir feita og þunga.
Þannig geturðu alveg myndað pláss fyrir 100 gramma og 430 kaloríu súkkulaðisneið að kvöldi.

Jafnaðu út punktana
Þú ert búinn að innbyrða átján punkta í morgunmat og hádegismat og stendur andspænis súkkulaðitertu í kaffitímanum.
Auðvelt er að gizka á, að hún sé upp á eina tólf punkta.

Þú stenzt ekki freistinguna, en stendur þá andspænis því að þurfa að sleppa kvöldmat eða að fá þér bara eina sneið með osti og án smjörs.
Þannig er bezt að jafna út sveiflur innan sama dags, ef þær eru ekki þeim mun hastarlegri.

* Matardagbókin verður því tæki fyrir þann, sem er með matargangráð líkamans í ólagi.
* Þegar boðefni heilans virka ekki rétt, þarf annað að koma í staðinn.
* Sítalning á kaloríum eða punktum er gott haldreipi.

350 grömm á viku
Segjum, að þinn ráðlagði dagskammtur sé 2000 kaloríur, sem gerir 40 punkta á dag.
* Læknisfræðin og næringarfræðin mæla með, að þú farir ekki of geyst í að léttast.

* Hæfilegt er að fækka kaloríum um 100 á dag, það er um tvo punkta á dag.
* Það á að létta þig um 350 grömm á viku, hálft annað kíló á mánuði.
* Það er hæfileg breyting.
* Harðara aðhald er líklegra til að sprengja þig í langhlaupinu.

Enda er gott að venjast því strax að hafa hóf á öllu, jafnvel á batanum.
Sumir vilja ganga að megrun með meiri ofsa en þetta, en þeir eru oft í of miklu ójafnvægi hugans til að geta nýtt sér viðurkenndar aðferðir.

Minn bati var hæfilega hægur.
Sjálfur fór ég ekki svona hratt í þetta.
Mér nægði að léttast um 250 grömm á viku eða eitt kíló á mánuði.
Ég stefndi að neyzlu upp á 1700 kaloríur eða um 34 punkta á dag.

Suma daga tókst þetta ekki, en ég fór eiginlega aldrei yfir 1800 kaloríur, er voru þá mín jafnvægis-neyzla.
Það er sú neyzla, sem heldur þyngd minni í jafnvægi.
Þessir fáu ofneyzludagar voru svo veigalitlir, að meðaltal þyngdar-minnkunar varð 250 grömm á viku..

Frá nóvember 2009 til nóvember 2012 léttist ég á 36 mánuðum um 36 kíló, þar af um 8 kíló fyrsta mánuðinn á heilsuhælinu í Hveragerði.
Það var of mikið.
Ég fór síðan hægar í sakirnar.

Um jól og áramót þyngdist ég meira að segja, í árslok 2011 um hálft annað kíló.
Ég náði því aftur af mér fyrir 10. janúar.
Ég trúi, að kaloríutalning og matar-dagbók mín hafi gert sveiflurnar miklu vægari en þær hefðu annars orðið.

Heiðarleg
matardagbók