5115 Gleðileg jól

5115

Gleðileg jól

Hátíð ofneyzlunnar
Jólin eru minn erfiðasti tími, hátíð ofneyzlunnar.
Matarveizlur keppa við tertuveizlur.
Þá er hætt við ofáti í matar- og kaffitímum.
Freistingarnar bylja á mér daginn út og daginn inn.

* Helzt vildi ég kveðja jólin og halda á jólalausan stað, til dæmis til Istanbul.
Margur hefur bjargað sér á flótta, þegar öll sund virðast lokuð.
* Sumir taka því með æðruleysi að bæta á sig kílóum yfir jól, en reikna með að ná þeim til baka í janúar.

Flestir matarfíklar þjást þó í þögulu vonleysi, taka hverju jólaboðinu á fætur öðru eins og hverju öðru hundsbiti.
Jól eru sannkölluð ögrun hverjum matarfíkli.

Erfið síðustu jól
Síðustu jól voru mér erfið eins og fyrri jól.
Á dagskránni voru matar-boð og kaffiboð heima og í öðrum húsum.
Hvarvetna ilmuðu stórar steikur, skálar fullar af konfekti og smákökum, diskar hlaðnir af tertum.

Hreint út sagt eru jólin heilt helvíti fyrir fíkla.
Flest jól hef ég tapað stríðinu við fíknina og síðustu jól voru ekki heldur til sóma.
En ég hef öðlast jafnaðargeð og hugarró gagnvart mat, læt ekki ósigur eins dags spilla sigri annarra daga.

Þess vegna lifði ég jólin af og var aðeins lítið mæddur af sárum.
Flestir dagar jóla voru sigurdagar eins og aðrir dagar hjá þeim, sem hafa náð frambærilegum tökum á sykurfíkninni.

Bókhaldið hrynur ekki
* Mikilvægt er að láta matardag-bókina ekki hrynja á jólunum.
* Þú verður að færa allt til bókar, hverja tertusneið og hverja smáköku, hvern konfektmola og hvert kókglas.

Annars hefurðu takmarkaða sýn yfir vondu stöðuna á vígvelli ofátsins.
* Af bókhaldinu sérðu í síðdegis-kaffinu, að þú ert búinn með kvótann og verður að sleppa kvöldveizlunni.
Bókhaldið gerir þér kleift að standa andspænis vali um hegðun.

* Án bókhaldsins ertu á skipulags-lausu undanhaldi frá því lífi, sem þú vilt lifa.
* Þú verður að vita um stöðuna til að geta tekið á vandamálum, sem fylgja vondri stöðu.
* Færðu því bókhaldið alveg rétt.

Hernaðaráætlun dagsins
Matardagbókin ein dugar oftast skammt á jólunum.
Þú verður líka á hverjum degi að taka ákvarðanir um hegðun þína einn dag í einu.
Alla morgna þarftu að líta yfir útlit dagsins og velja þér skref fyrir skref.

* Hvað ætlarðu að borða
í hádeginu,
í síðdegisboðinu
í jólaveizlunni.
* Þú verður að haga þér þar eins og venjulegt fólk og ekki láta fíknina hlaupa með þig í gönur.

* Sért þú með áætlun til viðbótar við dagbókina, hefur þú náð einu vopni til viðbótar við hin.
* Þú ert í stríði og þarft í senn að vita, hvar þú stendur og hvað þú ætlar að gera.
* Allir herforingjar þurfa hernaðaráætlun, líka þú.

Slysið orðið staðreynd
Ef þú missir stjórn á þér í boðinu hjá frænku, er úr vöndu að ráða.
Aukalega ertu kannski búinn að innbyrða 1000 kaloríur utan mála.
Sumir sleppa að bóka sukkið í dagbókina, rétt eins og það láti sukkið hverfa.

* Sjálfsblekking er eftirsótt, enda helzta einkenni matarfíkla.
* Aðrir setja undir sig hausinn og hyggjast jafna sukkið út á tveimur dögum.
* Mun betra er að gefa sér lengri tíma, eina viku.

* Ekki er gott að sveifla sér niður úr ráðlögðu kaloríumagni, ekki frekar en að sveiflast upp.
* Bezt er að vera aldrei fjarri því magni, sem þér er ráðlagt á degi hverjum.
* En frestaðu alls ekki aðgerðum í málinu.

Gleðileg jól