Reykjanes

Selsvallafjall

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Grindavík til Vigdísarvalla.

Förum með vegi 427 austur á Skálasand og víkjum þar austur af veginum. Síðan til austurs sunnan við Borgarfjall og Langahrygg og norðaustur með fjallgarðinum að Selsvallafjalli. Skammt norðan Selsvalla er skarð í fjallið til suðausturs. Við förum um það til Vigdísarvalla.

25,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Selkotsvegur

Frá Skeggjastöðum undir Haukafjöllum um Stíflisdal og Selkot að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Einn mest notaði vegur hestamanna nú á tímum. Fyrr á tímum lá leiðin sunnar, frá Miðdal og eftir Kóngsveginum austur Mosfellsheiði í Vilborgarkeldu.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Förum frá Stíflisdal austur Kjósarheiði um eyðibýlið Selkot, sem leiðin er kennd við. Austan við Selkot eru eyðibýlin Melkot og Hólkot. Áfram höldum við upp með Kjálká, um Kirkjuflöt og upp með Gljúfri. Síðan eftir Kárastaðaás, hjá Brúsastöðum og beina leið í Skógarhóla.

30,0 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellsheiði, Illaklif, Maríuhöfn, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Seljadalur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Fossá í Hvalfirði um Seljadal að Vindáshlíð í Kjós.

Þetta er eðlilegt framhald leiðarinnar úr Reykjavík um Svínaskarð. Var þess vegna mest farna leiðin yfir Reynivallaháls. Hinar eru Reiðhjalli, Gíslagata og Reynivallaháls, öðru nafni Kirkjustígur.

Förum frá Fossá suður og upp Klif, þar sem er þverleið vestur Reynivallaháls til Reynivalla. Förum ekki beint áfram upp Djúpadal, þar sem eru leiðir um Gíslagötu og Reiðhjalla, heldur áfram suður Seljadal, austan Sandfells. Síðan förum við suðvestur um Hrygg að austurhlið Sandfells og þaðan suður brekkur að Vindáshlíð.

5,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Svínaskarð, Reiðhjalli, Gíslagata, Reynivallaháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sauðbrekkugjá

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Straumsvík um Sauðbrekkugjá á slóð til Lækjarvalla.

Föst búseta var í Straumsseli á síðari hluta 19. aldar í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði.

Förum frá Straumsvík suður yfir þjóðveg 41 og suðsuðaustur eftir Straumsselstíg um Selhraun að Straumsseli. Síðan um Sauðbrekkugjá og til suðvesturs fyrir austan Mávahlíðar og Fíflavallafjall að Lækjarvöllum og slóð til Vigdísarvalla.

14,6 km
Reykjavík-Reykjanes

Skálar:
Lækjarvellir: N63 55.407 W22 05.082.

Nálægir ferlar: Vigdísarvellir.
Nálægar leiðir: Vatnsleysufjöll, Snókafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sandakravegur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Vogum á Vatnsleysuströnd um Sandakraveg að þjóðvegi 427.

Á ferlir.is segir m.a.: “Gengið var um Skógfellaveg, beygt út af veginum skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá) og haldið upp Mosadal vestan við Kálffellið, upp fyrir Mosadalsgjá og áfram um sandsléttur norðvestan Nauthóla. Síðan var slóðinni fylgt suður með Fagradalsfjalli allt að Drykkjarsteinsdal.”

Förum frá Vogum um Reiðskarð og suður yfir Keflavíkurveg 41. Síðan áfram til suðausturs, austan við Snorrastaðatjarnir og um Mosadali að Fagradal. Svo til suðurs vestan við Fagradalsfjall, um Sandhóla að þjóðvegi 427.

13,0 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Skógfell, Stapafell, Einiberjahóll, Vatnsleysuheiði, Vatnsleysuströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reynivallaháls

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Reynivöllum í Kjós um Reynivallaháls til Fossár í Hvalfirði.

Þessi leið kallast líka Kirkjustígur. Um hálsinn eru líka leiðir frá Vindási og Vindáshlíð og koma þær allar niður hjá Fossá. Ýmsir hafa lent í basli á Reynivallahálsi. Séra Friðrik Friðriksson segir frá suðurferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðamótin september-október 1887. Lentu í roki og skafhríð á Reynivallahálsi. “Þegar við komum á brúnina, sáum við ljósin í glugganum á Reynivöllum, er sýndust beint fyrir neðan. En tvo tíma tók það að komast ofan hálsinn. Það var lang versta raunin í allri ferðinni.”

Förum frá Reynivöllum beint norðaustur milli Kippsgils að vestan og Þinghússgils að austan um Fannahlíð upp á Reynivallaháls, hæst í 300 metrum í Grenshæðum og Langamel. Síðan austur hjá Prestsvörðu og Teitsvörðum niður í Klif ofan við eyðibýlið Fossá. Þaðan beint niður á þjóðveg 1 í Hvalfirði.

3,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Gíslagata, Reiðhjalli, Seljadalur, Leggjabrjótur, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Reykjavík

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Nesstofu í Blesugróf.

Leið þessi er tæpast fær hestum nú á dögum vegna umferðar, nema þá í lögreglufylgd.

Frá Læknum voru farnar Arnarhólstraðir á ská yfir núverandi Arnarhólstún og áfram, þar sem er Prentarafélagshúsið við Hverfisgötu. Þaðan lá leiðin á Skólavörðuholt. Þar voru beitarhús frá Arnarhóli, en undir aldamótin 1800 notuðu skólasveinar úr Hólavallaskóla efnið úr þeim til að reisa Skólavörðuna við gömlu göturnar. Þaðan lágu þær milli Norðurmýrar og Vatnsmýrar að vörðunni Háaleiti í skarði milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar. Síðan austur Bústaðaholt nánast eins og Bústaðavegur liggur í dag, að vöðum á Elliðaánum. Inn undir Elliðaám sunnan megin við veginn stóð bærinn Bústaðir. Yfir Elliðaár lá leiðin um vað fyrir ofan Búrfoss og síðan yfir Ártúnsvað, sem er á eystri ál Elliðaánna. Þaðan svo fyrir sunnan Ártún og um Reiðskarð suður og vestur á land.

Förum frá Nesstofu austur Neströð, suður Nesbala, austur sömu götu, suður Lindarbraut, austur Hæðarbraut, yfir Valhúsahæð, þar sem heitir Læknisgata, austur Kirkjubraut og suður Nesveg. Hann förum við næstum að Vegamótum og beygjum þar norður Grænumýri, síðan austur Tjarnarbraut og Frostaskjól, eftir gönguleið hjá KR-velli, austur Álagranda og Framnesveg. Næst suðaustur Vesturgötu, norður Grófina, austur Geirsgötu, yfir hornið á Arnarhóli, suður Ingólfsstræti, austur Bankastræti og suðaustur Skólavörðustíg og Eiríksgötu. Þá suður Snorrabraut og Bústaðaveg, sem við förum alla leið að horni hans og Reykjanesbrautar, þar sem eru hesthús gamla Fáks. Þaðan liggur leið upp Elliðaárdal.

10,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Borgargötur

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson Frá Nesstofu í Blesugróf.

Rauðhólahringur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Mikið farinn reiðhringur hestamanna á svæði Fáks í Elliðaárdalnum eftir að frost er að farið úr jörðu.

Um Rauðhóla segir Vísindavefurinn: “Rauðhólar eru þyrping af gervigígum – fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. … Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. … Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu. … Helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir. … Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum.”

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Förum um hesthúsin í Víðidal yfir götuna Hundavað og áfram norður og undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Þar förum við til austurs meðfram vatninu og síðan skógargötu frá austurhorni vatnsins að Almannadal. Þar förum við undir þjóðveg 1 og inn í Rauðhóla. Förum slóðina áfram yfir reiðbrú á Bugðu og áfram um Norðlingaholt og undir Elliðabraut að hestahúsahverfi Fáks.

7,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Elliðavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Rauðavatnshringur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Ein mest farni reiðhringur hestamanna á svæði Fáks í Elliðaárdalnum.

Um Rauðavatn segir Vísindavefurinn: “Rauði liturinn stafar af vatnaplöntunni síkjamara (Myriophyllum alterniflorum) sem vex upp af botni í miklum og þéttum breiðum og þekur vatnið að miklu leyti. Plantan blómstrar á yfirborði rauðleitum smáblómum og blómstönglarnir eru einnig rauðleitir.” Við Rauðavatn voru fyrstu skref skógræktar á Íslandi tekin í upphafi 20. aldar.

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Förum um hesthúsin í Víðidal yfir götuna Hundavað og áfram norður og undir þjóðveg 1 við Rauðavatn. Þar förum við réttsælis eða rangsælis umhverfis vatnið og svipaða leið til baka.

6,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur, Dyravegur, Elliðavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Óskotsleið

Reykjanes, Þjóðleiðir

Hringleið um Mosfellsbæ og Reynisvatnsheiði.

Rétt þar hjá, sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum, var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt.

Síðasti bóndinn í Óskoti var Janus Eiríksson, sem hætti búskap 1970. Hann sagði gríðarlega umferð hafa verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll. Á leiðinni skammt frá Hafravatni stóð bærinn Búrfell. Í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 segir bæinn hafa þá verið í eyði í átta ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir: “Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.”

Förum frá Ferðamannavaði á Korpu/Úlfarsá um fjöruna hjá Leiruvogi yfir Dýjakrókslæk norðan golfvallar í hesthúsahverfið á Varmárbökkum. Þaðan yfir brú á Köldukvísl og síðan upp með ánni að norðanverðu inn í Mosfellsdal. Þar förum við suður yfir þjóðveg á veg suðaustur með Helgafelli og upp Skammaskarð í Skammadal og að Suður-Reykjum. Þar liggja götur út með hlíðinni að Hafravatni. Óskot er suðvestan vatnsins sunnan við afrennslið úr Úlfarsá til vesturs. Þaðan liggja troðningar um Óskotsheiði suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þar komum við á veg að Reynisvatni. Þaðan liggja góðar götur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni og aðrar götur um Hólmsheiði. Ein þeirra liggur niður Almannadal. Um hann voru ýmsar leiðir áður fyrr, til dæmis leið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja. Einnig til norðurs að verstöðvunum við Kollafjörð. Niðurgrafnar götur eru víðs vegar um heiðarnar á þessu svæði. Frá Reynisvatnsheiði förum við með vegi framhjá eyðibýlinu Engi niður að Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan förum við loks eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og stuttan spöl eftir árfarveginum að Ferðamannavaði á Blikastöðum. Hringnum er lokað.

23,3 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Örn H. Bjarnason

Ólafsskarð

Frá Litlu kaffistofunni að Híðarenda í Ölfusi.

Ólafsskarð er styzta leiðin frá Reykjavík austur í Ölfus og býður bezta útsýnið yfir fjöllin sunnan Hellisheiðar. Er hins vegar ógreiðfær og var aldrei fjölfarin. Í þoku og myrkri er hún hins vegar villugjörn, enda ekki vörðuð. Hún hentar þeim, sem eru á leið til Þorlákshafnar eða um neðstu Ölfusárbrú yfir í Flóann. Um Jósepsdal orti Grímur Thomsen: “Engin börn í berjaheiði / ber þar tína glöð og rjóð, / sjálf hjá dalnum sauðkind sneiðir, svo er han gjörsamlega í eyði / aldrei þangað stökkur stóð.”

Förum frá Litlu kaffistofunni til suðurs undir hrauninu, förum um Þórishamar og síðan suðvestur í Ólafsskarð milli Vífilfells að vestan og Sauðadalshnjúka að austan. Beygjum síðan til suðurs upp slakkann milli Sauðadalshnjúka að norðan og Ólafsskarðshnjúka að sunnan, erum þar í 400 metra hæð. Þegar við komum niður úr slakkanum höldum við áfram suður meðfram austurhlíðum Bláfjalla, við jaðar Lambafellshrauns. Við förum norðan og austan við Fjallið eina og tökum stefnu á norðurenda Geitafells. Förum þar um Þúfnavelli og síðan áfram beina stefnu sunnan við Krossfjöll og loks niður Fagradal í Ölfus hjá eyðibýlinu Litlalandi vestan við Hlíðarenda.

21,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Mosfellssveit, Þrengsli, Dyravegur, Lágaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Múlafjall

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá mótum þjóðvegar 1 og Brynjudalsvegar um Múlafjall til Botnsdals í Hvalfirði.

Förum frá vegamótunum austur Brynjudal og fylgjum veginum norður yfir Brynjudalsá og áfram austur Brynjudal. Síðan norðaustur og upp á fjallið, annað hvort austur á Múlafjall eða norðaustur á Hrísháls. Þaðan er leið til norðvesturs um Ásmundartungu niður í Botnsdal.

8,4 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Reynivallaháls, Leggjabrjótur, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Mosfellssveit

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Víðidal í Reykjavík til Hrafnhóla við Esju.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Í Ártúni var fyrrum veitingasala. Eiríkur Ólafsson frá Brúnum rak hana 1879-1881. Þar gerðist hann mormóni og stofnaði mormónakirkju í Ártúni. Fyrir ofan Ártún er Reiðskarð við Elliðaár, þar var vegurinn úr bænum. Úr skarðinu lá vegurinn um Grafarvog, fyrir vestan Keldur, um Keldnaholt að Korpúlfsstöðum að Ferðamannavaði á Blikastaðaá, sem nú heitir Korpa. Leiruvogs er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Fyrir norðan hesthúsahverfið er svo Skiphóll. Bátar fóru þar upp um flóð meðal annars til að taka hey úr Skaftatungu, mýrum sem lágu undir Helgafelli.

Byrjum í hesthúsahverfi Fáks í Faxabóli við Elliðaár. Þaðan förum við reiðslóð að Rauðavatni og síðan norður Hádegismóa og undir þjóðveg 1 við Grafarholt. Þá meðfram þjóðveginum að Korpu og síðan á vestri bakka árinnar norður að Ferðamannavaði. Er þá komið á gömlu þjóðleiðina úr bænum. Þaðan fylgjum við reiðslóðinni að hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ. Síðan eftir reiðslóð yfir Varmá og Köldukvísl og upp með Köldukvísl, undir þjóðveg 1 og síðan meðfram Köldukvísl austur í Mosfellsdal. Áfram fyrir sunnan Mosfell og yfir Háaleiti og Borgarmela norðvestur að Skeggjastöðum, beint yfir Leirvogsá og í Hrafnhóla.

20,8 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Þrengsli, Ólafsskarð, Dyravegur, Kóngsvegur, Óskotsleið, Mosfellsheiði, Stardalsleið, Svínaskarð, Illaklif, Selkotsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Mosfellsheiði

Frá Skeggjastöðum í Mosfellssveit um Mosfellsheiði í Jórukleif í Grafningi við Þingvallavatn.

Förum frá Skeggjastöðum eftir jeppaslóð suðsuðvestur að vestanverðu við Skyggni og Leirtjörn að þjóðvegi 36. Förum hundrað metra niður með þeim þjóðvegi og síðan inn á aðra jeppaslóð neðan við Seljabrekku í Mosfellssveit. Fylgjum jeppaslóðinni suðaustur að eyðibýlinu Bringum. Þaðan austur um Suðurmýrar og áfram austur Mosfellsheiði og tökum svo stefnu beint austur á norðurenda Sköflungs. Förum fyrir horn Sköflungs og þaðan austur á brún Jórukleifar. Förum niður Jórukleif að þjóðvegi 360 um Grafning.

17,9 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellssveit, Selkotsleið, Geldingatjörn, Illaklif, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Maríuhöfn

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Maríuhöfn á Búðasandi í Kjós að Stíflisdal á Selkotsleið á Kjósarheiði.

Norðan Stíflisdalsvatns liggur leiðin sumpart í Stíflisdalsvatni til að komast út fyrir kletta, sem ganga út í vatnið.

Maríuhöfn var stærsta höfn landsins á 14. öld. Þangað komu skip með vöru og vistir til Skálholtsstóls. Biskupar notuðu líka Maríuhöfn til utanferða. Stutt er milli Maríuhafnar og Þingvalla um Kjósarheiði og Selkotsleið. Stundum var farið inn í Brynjudalsbotn og þaðan um Leggjabrjót til Þingvalla. Umhverfi hafnarinnar er einn fegursti staður Hvalfjarðar, Búðasandur með fjörukambi og lóni. Á kambinum hafa fundizt leifar mannabústaða .
Förum frá Maríuhöfn með þjóðvegi 48 austur með Laxá í Kjós norðanverðri og framhjá Reynivöllum. Síðan til suðurs með veginum fram dalinn hjá Vindáshlíð og áfram suðaustur með Laxá. Förum norðan við Stíflisdalsvatn að Stíflisdal. Þaðan er Selkotsleið austur í Skógarhóla.

23,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Reynivallaháls, Gíslagata, Reiðhjalli, Seljadalur, Selkotsvegur, Svínaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins