Reynivallaháls

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Reynivöllum í Kjós um Reynivallaháls til Fossár í Hvalfirði.

Þessi leið kallast líka Kirkjustígur. Um hálsinn eru líka leiðir frá Vindási og Vindáshlíð og koma þær allar niður hjá Fossá. Ýmsir hafa lent í basli á Reynivallahálsi. Séra Friðrik Friðriksson segir frá suðurferð skólapilta í Latínuskólann um mánaðamótin september-október 1887. Lentu í roki og skafhríð á Reynivallahálsi. “Þegar við komum á brúnina, sáum við ljósin í glugganum á Reynivöllum, er sýndust beint fyrir neðan. En tvo tíma tók það að komast ofan hálsinn. Það var lang versta raunin í allri ferðinni.”

Förum frá Reynivöllum beint norðaustur milli Kippsgils að vestan og Þinghússgils að austan um Fannahlíð upp á Reynivallaháls, hæst í 300 metrum í Grenshæðum og Langamel. Síðan austur hjá Prestsvörðu og Teitsvörðum niður í Klif ofan við eyðibýlið Fossá. Þaðan beint niður á þjóðveg 1 í Hvalfirði.

3,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Maríuhöfn, Gíslagata, Reiðhjalli, Seljadalur, Leggjabrjótur, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins