Þjóðleiðir

Holtsós

Frá Skálakoti undir Eyjafjöllum um Holtsós að Hvammi undir Eyjafjöllum.

Guðmundur Viðarsson í Skálakoti veitir margvíslega þjónustu við hestamenn. Þar er hægt að fá leiðsögn yfir Holtsós, sem er sífelldum breytingum undirorpinn.

Förum frá Skálakoti suður yfir þjóðveg 1 og áfram jeppaslóð niður að Holtsós. Förum yfir hann þar. Síðan vestur með ströndinni og til baka yfir Holtsós nálægt ósnum. Þaðan norðvestur á þjóðveg 247 og eftir honum að þjóðvegi 1 og Hvammi undir Eyjafjöllum.

14,3 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Eyjafjöll, Miðskálaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Holtsdalur

Frá Skaftárdal um Holtsdal að Hunkubökkum.

Gamla þjóðleiðin milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftártungu. Þetta er fögur og gróðursæl leið, einkum þegar komið er í skógargötuna niður Kleifar. Ein eftirsóttasta reiðleið landsins, en komst í pattstöðu, þegar Seðlabankinn girti af dalinn. Eftir útistöður við hestamenn lét bankinn af frekju sinni og gerði hlið á girðinguna. Hestamenn geta því óáreittir farið þessa lögvörðu reiðleið, þar sem engir jeppar eiga að geta verið á ferð, fyrr en komið er að sumarhúsum Seðlabankans neðst í dalnum. Fallegt og gróðursælt er einnig frá dalnum og austur að bænum Holti.

Förum frá Skaftárdal. Nú er brú á Skaftá við Skaftárdal, en áður var farið á vaði neðan við núverandi brú. Við förum suðvestur með Skaftá austanverðri og síðan hlíðina upp Skafl og áfram norður af austri í Selfellsmýrar. Förum þar fyrir sunnan Austastafell í 320 metra hæð. Síðan suðaustur um eyðibýlið Hervararstaði að Bunuskeri og áfram suður í Holtsdal milli Skálarheiðar að vestan og Steinsheiðar að austan og um kjarri vaxnar Kleifar niður í Fremri-Dal. Förum niður dalinn um Sótatungur meðfram Holtsá út á jeppaveg, sem liggur austur um eyðibýlið Böðmóðstættur og um Holt að fjallvegi upp í Laka. Við förum austur og niður með þeim vegi framhjá Hellisnesi að Hunkubökkum við veg 206 yfir Skaftá.

20,3 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Skaftá, Laki, Leiðólfsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Holtavörðuheiði

Frá Sveinatungu í Norðurárdal að Melum í Hrútafirði.

Holtavörðuheiði var lengst af eini færi fjallvegurinn að vetri til milli Suður- og Norðurlands. Var nefnt “að fara sveitir” gagnstætt því “að fara fjöll” en þá var farið um Arnarvatnsheiði eða Tvídægru.

Þegar Kolbeinn ungi Arnórsson fór með mikinn flokk að Þórði kakala Sighvatssyni í nóvemberlok 1242 reið hann suður Tvídægru og til baka Holtavörðuheiði. Farið var upp hjá Sveinatungu og komið niður fyrir framan Mela í Hrútafirði. Vegur þarna var víða grýttur og blautur. Heiðin sjálf frá Fornahvammi var talin ein þingmannaleið eða 37.5 km. Litlum sögum fer af Holtavörðuheiði í Sturlungu, enda kusu vígamenn hennar frekar að fara Arnarvatnsheiði og síðan beint niður í þá dali, þar sem þeir áttu sökótt við menn. Svo að njósn bærist síður af ferðum þeirra.

Förum frá Sveinatungu til norðurs með austurhlið Sveinatungumúla og vestan Norðurár, reiðleið um Kattarhrygg að gangnakofa í Fornahvammi. Þar var lengi hótel og veitingasala. Þaðan förum við til norðausturs eftir gömlum vegum meðfram Norðurá og yfir hana hjá Heiðarsporði. Förum síðan norður með ánni, meðfram Rauðhól og vestan við Bláhæð í 360 metra hæð. Síðan austan með Holtavörðuvatni og Grunnavatni, vestan núverandi þjóðvegar 1, norður með Miklagilskvísl og vestur fyrir gljúfur Miklagils og niður í Grænumýrartungu, þar sem lengi var gisting, en er nú í eyði. Áfram förum við með vegi vestan við Hrútafjarðará að gömlu brúnni yfir ána og áfram að gömlu símstöðinni á Melum í Hrútafirði.

27,3 km
Borgarfjörður-Mýrar, Húnavatnssýslur

Skálar:
Fornihvammur: N64 54.120 W21 11.550.

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hrútafjarðará, Sölvamannagötur, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Holárdalur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Klængshóli í Svarfaðardal um Holárdal að Skriðu í Hörgárdal.

Var áður skemmsta leið Skíðdælinga til Akureyrar, en er ekki fær hestum.

Förum frá Klængshóli suður Skíðadal tvo kílómetra að Holá og yfir brúna á henni. Beygjum þar til suðausturs upp í Holárdal sunnan Holár. Innst í dalnum sveigir dalurinn til suðurs og síðan förum við aftur til suðausturs upp efstu brekkurnar. Skarðið er í 1180 metra hæð. Síðan austur og niður í Skriðudal sunnan megin árinnar að Syðri-Tunguá og þaðan suðaustur brekkuna niður að Skriðu við þjóðveg 815 í Hörgárdal.

18,5 km
Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Skíðadalsjökull, Heiðinnamannadalur, Þverárjökull, Þorvaldsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hokinsdalur

Frá Hokinsdal í Arnarfirði um Steinanesháls að Steinanesi í Geirþjófsfirði.

Byrjum við sjó í Hokinsdal. Förum suðaustur Hokinsdal að bænum Hokinsdal og þaðan suðvestur yfir Steinanesháls í 200 metra hæð. Að lokum sneiðing suðsuðaustur og niður að Steinanesi í Geirþjófsfirði.

4,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Geirþjófsfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hofteigsalda

Frá leið um Smjörvatnsheiði að Hofteigi í Jökuldal.

Þeir, sem fóru Smjörvatnsheiði komu oft niður við Hofteig í Jökuldal, fremur en að Fossvöllum í Jökulsárhlíð.

Förum frá Beinavörðu á Beinavörðuhálsi á Smjörvatnsheiði í 700 metra hæð. Við förum suður Hofteigsöldu og Áfangabrekkur, Laxárkrók og Vegufs, niður með Svelgsá, á þjóðveg 1 austan við Hofteig í Jökuldal.

14,8 km
Austfirðir

Skálar:
Smjörvatnsheiði: N65 30.096 W14 52.725.
Vaðlabúð: N65 30.288 W14 53.224.

Nálægar leiðir: Smjörvatnsheiði, Fallegiklettur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hofsdalur

Frá Hofi í Hofsdal um Hnútuvatn að Egilsseli á Kollumúlaheiði.

Torfær jeppaslóð er frá Hofi inn fyrir Stórafoss. Töluvert er um kjarr á þeirri leið. Þar er líka mikið um ljósar bergtegundir, líparít og flikruberg. Um Hofsdal og Flugustaðadal segir í Árbók FÍ 2002: “Miklir og óslitnir fjallgarðar umlykja vatnasviðið, sundurristir af ótal giljum. Þeim er aðeins hægt að kynnast á ferð um dalina, sem búa yfir fjölbreytni í landslagi og jarðmyndunum, fossum og vænum gróðri.”

Förum frá Hofi vestur dalinn og norðan Hofstungu upp með Hofsá að Stórafossi. Síðan um Ytri-Bót og Innri-Bót og vestur um Innstabotn að Hofsvötnum undir Hofsjökli. Förum norður fyrir jökulinn, mest í 800 metra hæð, yfir á slóð, sem liggur úr Geithelladal til Kollumúlavatns. Fylgjum þeirri leið vestur að Hnútuvatni og síðan suður yfir Víðidal á Kollumúlaheiði að skálanum í Egilsseli.

32,6 km
Austfirðir

Skálar:
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Flugustaðadalur, Fossbrekkur, Egilssel, Sauðárvatn, Geldingafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hofsárdalur

Frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði um Hofsárdal á þjóðveg 85 suðaustan undir Brunahvammshálsi.

Önnur þjóðleiðin úr Vopnafirði vestur á Möðrudalsöræfi.

Förum frá Þorbrandsstöðum suðvestur Hofsárdal undir Þorbrandsstaðaháls. Norðvestur fyrir Steinvarartungu hjá Tunguseli. Suðvestur með Hofsá undir Tungufelli að fjallakofanum á Fossi. Vestsuðvestur upp úr dalnum innan við Foss og suðvestur um Hauksstaðaheiði, á þjóðveg 85 suðaustan undir Brunahvammshálsi.

25,2 km
Austfirðír

Skálar:
Fosskofi: N65 33.784 W15 16.547.
Sjafnarbúð: N65 32.257 W15 25.994.

Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Fríðufell, Sauðahryggur, Vopnafjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hofsafrétt

Frá Ingólfsskála á Eyfirðingavegi að Laugafelli.

Orravatnsrústir eru sérstæð gróðurvin í auðninni. Rústir eru sérkennilegt og síbreytilegt fyrirbæri við sífrera og frostþenslu, hólar og tjarnir á hægfara ferðalagi. Rústirnar geta orðið tveggja metra háar og 10-15 metra víðar. Þær eru stundum blásnar að ofan. Gróðursælt er við skálann í Laugafelli. Þjóðsagan segir, að Þórunn á Grund hafi flúið Svartadauða með fólks sitt að Laugafelli og beðið þess, að sóttinni linnti. Sagt er, að hún hafi látið gera fyrstu jarðhitalaugina og má vera, að enn sjáist leifar hennar í gili ofan við núverandi laug.

Förum frá Ingólfsskála í 830 metra hæð eftir jeppaslóð norður frá skálanum og síðan austur fyrir norðurenda Ásbjarnarfells og áfram austur um Ásbjarnarvötn. Síðan fyrir sunnan Rauðhóla og norðan Rauðafell. Við Rauðhóla sveigir leiðin til norðausturs á Bleikáluháls og síðan áfram norðaustur á jeppaslóð, sem kemur upp úr Skagafirði áleiðis til Laugafells. Við förum á þá leið til suðausturs, framhjá afleggjara til vesturs að Rústaskála, síðan fyrir sunnan Reyðarvatn að vegamótum fyrir sunnan Orravatn. Við förum áfram suðaustur að Austari-Jökulsá og yfir hana og síðan austur að Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

49,5 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði, Háöldur.
Nálægar leiðir: Gimbrafell, Strompaleið, Skiptamelur, Ingólfsskáli, Vatnahjalli, Eystripllar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hnjótsheiði

Frá Naustabrekku á Rauðasandi um Hnjótsheiði til Örlygshafnar í Patreksfirði.

Sneiðingarnir ofan Naustabrekku eru vel lagðir og sumstaðar er hlaðið í þá, þar sem þeir fara yfir skorninga. Lítill bratti er í sneiðingunum og þeir léttir göngu. Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Byrjum hjá Naustabrekku vestast á Rauðasandi. Við förum norður og upp sneiðinga í Brekkudali og þar kvíslast reiðvegurinn, í vestur að Keflavík og beint í norður á Hnjótsheiði í 280 metra hæð. Næst með háspennulínu austan við Stákanúpshæð og vestan við Núp og norður Heiðardal að Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði.

7,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hyrnur, Dalverpisvegur, Mosdalur, Tunguheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hnífárver

Frá Sprengisandsleið á Gnúpverjaafrétt um Hnífárver að Arnarfelli.

Tvær fornar gæsaréttir eru leiðinni, önnur á Nautöldu og hin á Réttaröldu í Illaveri, þar sem reiðliðin liggur um, um það bil mitt á milli Miklukvíslar og Fremri-Múlakvíslar.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, fyrr en farið er austur yfir Þjórsá eftir gamla Arnarfellsveginum.

Förum frá Hnífárósi eftir jeppaleið í átt að Setrinu. Fylgjum þeirri leið, sem austust er og sveigir austur að Hnífá sunnan við Steingrímsöldu. Förum af slóðinni yfir Hnífá og síðan austan öldunnar að Blautukvísl fyrir suðvestan Nautöldu. Blautt er það í öllum tilvikum. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Þegar við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til austurs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð. Hér er enginn skáli, svo að við förum eftir jeppaslóð austur yfir Þjórsárkvíslar og loks á stíflu yfir Þjórsá við Háumýri, nálægt Innra-Hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þar er hestagerði og heysala. Við erum komin á fjallveg um Sprengisand.

29,6 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Skálar:
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881.

Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfell, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hlöðuvíkurskarð

Frá Búðum í Hlöðuvík um Hlöðuvíkurskarð að Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Í Hlöðuvíkurskarð er haldið upp hjallana þar sem fjörðurinn beygir í austur á gróðursnauðan fjalldalinn vestan við Lónhorn með stefnu í skarðið. Leiðin er greið, ekki vörðuð, liggur yfir urðarana hið efra. Þá upp er komið opnast dýrðarsýn á fjöll og jökul og fjalldalina er ganga uppaf Hlöðuvík austan við Álfsfell og út sér í norðurátt bakvið Atlantshafið.”

Förum frá Búðum beint suður Bæjardal og austan við Ólafsdalsá í bröttum sneiðingum upp í Hlöðuvíkurskarð í 470 metra hæð. Úr skarðinu um bratta sneiðinga suðvestur að Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði.

7,3 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar: Hlöðuvík: N66 24.860 W22 40.520.

Nálægar leiðir: Skálarkambur, Almenningar, Hafnarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hlöðufell

Hringleið um Hlöðufell og Þórólfsfell.

Austari hlutinn er greiðfærari en vestari hlutinn.

Hlöðufell er brattur og formfastur móbergsstapi með Herðubreiðarlagi, 1190 metra hár. Fjallið er helzt kleift hjá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum suðvestan undir fjallinu. Hamrabelti er umhverfis háfjallið og hærri tappi þar fyrir ofan.

Byrjum á línuvegi norðan Skjaldbreiðar við fjallaskálann norðaustan Þórólfsfells. Förum réttsælis umhverfis Þórólfsfell og Hlöðufell. Fyrst austan með fjöllunum og suður fyrir þau á Hlöðuvelli. Síðan förum við með vestanverðum fjöllunum á línuveginn norðvestan Þórólfsfells.

18,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.
Þórólfsfell: N64 27.495 W20 30.534.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið, Skjaldbreiður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hljóðaklettar

Frá Gilsbakka í Kelduhverfi um Hljóðakletta í Hólmatungur.

Þetta er ekki reiðleið, heldur eingöngu fyrir göngufólk. Hljóðaklettar eru sérkennileg þyrping stuðlabergskletta í mynni Vesturdals við Jökulsá á Fjöllum. Þeir eru gígtappar gígaraðar, sem síðara hamfarahlaup Jökulsár skolaði burt fyrir 3000 árum. Stuðlarnir hafa alls konar legu og ýmsar kynjamyndir. Nafnið er dregið af bergmáli af suði árniðarins. Skammt sunnan þeirra eru Karl og Kerling, hraunstandar neðst í gljúfrinu. Karlinn er 60 metra hár og Kerlingin lægri og grennri. Tröllahellir handan árinnar var bústaður þeirra áður en þau urðu að steini.

Förum frá Gilsbakka um gönguslóðina til suðurs og nálgumst Jökulsárgljúfur og förum áfram meðfram gljúfrinu. Förum um Rauðhóla og Hljóðakletta að Vesturdal og yfir Vesturdalsá. Áfram til suðurs hjá klettunum Karli og Kerlingu alla leið í Hólmatungur. Komum inn á leiðina um Hólmatungur hjá Vígabergsfossi.

16,8 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Klappir
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Hólmatungur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hlíðarvegur

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Kerlingarskarði til Hjaltatanga við Hlíðarvatn

Leiðin er stundum kennd við Kerlingarskarð, sem er vestasta skarðið af Grindarskörðum og það eina, sem er hestfært. Gömul þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Þegar upp skarðið kemur eru fleiri leiðir en sú, sem hér er lýst, niður að öðrum bæjum í Selvogi. Þegar þessi leið var farin úr Selvogi til Reykjavíkur, var það kallað að fara suður, þótt raunar sé leiðin í hánorður. Til baka var kallað að fara austur í Selvog.

Byrjum á Selvogsgötu suðaustan Kerlingarskarðs og sunnan við Litla-Kóngsfell. Við förum suður milli Vesturása og Austurása og förum síðan suðsuðaustur að fjallsbrúninni, þar sem við förum niður um Hlíðarskarð að Hjaltatanga við Hlíðarvatn.

9,6 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Selvogsgata, Stakkavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins