Hnífárver

Frá Sprengisandsleið á Gnúpverjaafrétt um Hnífárver að Arnarfelli.

Tvær fornar gæsaréttir eru leiðinni, önnur á Nautöldu og hin á Réttaröldu í Illaveri, þar sem reiðliðin liggur um, um það bil mitt á milli Miklukvíslar og Fremri-Múlakvíslar.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, fyrr en farið er austur yfir Þjórsá eftir gamla Arnarfellsveginum.

Förum frá Hnífárósi eftir jeppaleið í átt að Setrinu. Fylgjum þeirri leið, sem austust er og sveigir austur að Hnífá sunnan við Steingrímsöldu. Förum af slóðinni yfir Hnífá og síðan austan öldunnar að Blautukvísl fyrir suðvestan Nautöldu. Blautt er það í öllum tilvikum. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Þegar við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til austurs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð. Hér er enginn skáli, svo að við förum eftir jeppaslóð austur yfir Þjórsárkvíslar og loks á stíflu yfir Þjórsá við Háumýri, nálægt Innra-Hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þar er hestagerði og heysala. Við erum komin á fjallveg um Sprengisand.

29,6 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Skálar:
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881.

Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfell, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson