Hofsafrétt

Frá Ingólfsskála á Eyfirðingavegi að Laugafelli.

Orravatnsrústir eru sérstæð gróðurvin í auðninni. Rústir eru sérkennilegt og síbreytilegt fyrirbæri við sífrera og frostþenslu, hólar og tjarnir á hægfara ferðalagi. Rústirnar geta orðið tveggja metra háar og 10-15 metra víðar. Þær eru stundum blásnar að ofan. Gróðursælt er við skálann í Laugafelli. Þjóðsagan segir, að Þórunn á Grund hafi flúið Svartadauða með fólks sitt að Laugafelli og beðið þess, að sóttinni linnti. Sagt er, að hún hafi látið gera fyrstu jarðhitalaugina og má vera, að enn sjáist leifar hennar í gili ofan við núverandi laug.

Förum frá Ingólfsskála í 830 metra hæð eftir jeppaslóð norður frá skálanum og síðan austur fyrir norðurenda Ásbjarnarfells og áfram austur um Ásbjarnarvötn. Síðan fyrir sunnan Rauðhóla og norðan Rauðafell. Við Rauðhóla sveigir leiðin til norðausturs á Bleikáluháls og síðan áfram norðaustur á jeppaslóð, sem kemur upp úr Skagafirði áleiðis til Laugafells. Við förum á þá leið til suðausturs, framhjá afleggjara til vesturs að Rústaskála, síðan fyrir sunnan Reyðarvatn að vegamótum fyrir sunnan Orravatn. Við förum áfram suðaustur að Austari-Jökulsá og yfir hana og síðan austur að Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

49,5 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði, Háöldur.
Nálægar leiðir: Gimbrafell, Strompaleið, Skiptamelur, Ingólfsskáli, Vatnahjalli, Eystripllar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort