Hofsdalur

Frá Hofi í Hofsdal um Hnútuvatn að Egilsseli á Kollumúlaheiði.

Torfær jeppaslóð er frá Hofi inn fyrir Stórafoss. Töluvert er um kjarr á þeirri leið. Þar er líka mikið um ljósar bergtegundir, líparít og flikruberg. Um Hofsdal og Flugustaðadal segir í Árbók FÍ 2002: “Miklir og óslitnir fjallgarðar umlykja vatnasviðið, sundurristir af ótal giljum. Þeim er aðeins hægt að kynnast á ferð um dalina, sem búa yfir fjölbreytni í landslagi og jarðmyndunum, fossum og vænum gróðri.”

Förum frá Hofi vestur dalinn og norðan Hofstungu upp með Hofsá að Stórafossi. Síðan um Ytri-Bót og Innri-Bót og vestur um Innstabotn að Hofsvötnum undir Hofsjökli. Förum norður fyrir jökulinn, mest í 800 metra hæð, yfir á slóð, sem liggur úr Geithelladal til Kollumúlavatns. Fylgjum þeirri leið vestur að Hnútuvatni og síðan suður yfir Víðidal á Kollumúlaheiði að skálanum í Egilsseli.

32,6 km
Austfirðir

Skálar:
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Flugustaðadalur, Fossbrekkur, Egilssel, Sauðárvatn, Geldingafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort