Þjóðleiðir

Hólsfjöll

Frá Grímsstöðum á Fjöllum í Sandskála við Hólsmynni.

Hólsfjöll ná frá Jökulsá á Fjöllum að Dimmafjallgarði og Haugsöræfum. Hæsta og afskekktasta sveit landsins, sem nú er að mestu í eyði. Þarna var fyrst byggt á Hóli á 14. öld og síðar á Grímsstöðum.  Hólssel byggðist í kringum 1650.  Um miðja 19. öld spruttu upp nýbýli á Hólsfjöllum og sveitin var gerð að sérstakri sókn með kirkju á Víðirhóli.  Þarna bjuggu hundrað manns árið 1859. Hólsfjallahangikjötið var rómað fyrir gæði og óvíða annars staðar voru sauðir jafn vænir og á Hólsfjöllum. Nú er aðeins búið á Grímsstöðum og Grímstungu. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð, að minnsta kosti ekki þegar farið er að nálgast Mynnisöxl.

Förum frá Grímsstöðum norður jeppaslóð um Hólsfjöll. Við förum um gróið land með lækjum og vötnum og hálendisgróðri. Á eystri hönd er fjallgarðurinn sunnan Mynnisaxlar, oft kenndur með einu nafni við fjallið Haug og kallaður Haugsöræfi. Um þau liggur leið austur í Vopnafjörð. Fyrst förum við um Grundarhól og Strilli. Förum framhjá afleggjara til vesturs að Nýhól. Síðan vestan og norðan Viðarvatns að Víðirhól og áfram norður meðfram Víðirhólsfjallgarði og síðan norður um Stóruhæð. Förum til norðurs vestan Bunguvatns og síðan vestan Mynnisvatns norður að vesturhlíð Mynnisaxlar. Leiðin niður í Þistilfjörð liggur austan Mynnisvatns. En við höldum áfram í norður. Að síðustu förum við austan og norðan Silungavatns að fjallaskálanum Sandskála, sem er í 460 metra hæð og hálfum öðrum kílómetra frá Silungavatni.

29,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Grímsstaðir: N65 38.615 W16 07.050.
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Álandstunga.
Nálægar leiðir: Dimmifjallgarður, Heljardalur, Haugsleið, Hestatorfa, Smjörbítill.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Sæmundur Eiríksson

Hólmsheiði

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Rauðavatni í Reykjavík um Hólmsheiði að Hafravatni í Mosfellssveit.

Vinsæl reiðleið hestafólks í Reykjavík.

Förum frá undirgöngum sunnan Rauðavatns og til austurs meðfram vatninu. Síðan upp og norðaustur á Hólmsheiði eftir greinilegri reiðleið og vestan við Langavatn að vesturenda Hafravatns og þar norður með vatninu að sumarhúsahverfi við Úlfarsá.

6,9 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Hólsfjall

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Laugarhóli í Bjarnarfirði um Hólsfjall til Laugarhóls í Bjarnarfirði.

Um Svanshól segir á Vestfjarðavefnum: “Í Njálu og Grettissögu segir af Svani á Svanshóli í Bjarnarfirði. Hann var mikill galdramaður … magnaði þoku mikla á Bjarnarfjarðarhálsi, sem varði hann fyrir óvinum sínum. Þeir reyndu í þrígang að komast yfir hálsinn, en galdraþokan kom ætíð í veg fyrir það.

Ofan við bæinn á Svanshóli er grunnt gil í hlíðina er heitir Svansgjá og er samnefnd gjá í Kaldbakshorni norðar á Ströndum. Munnmæli herma að Svanur hafi gengið inn í Hólsfjall við bæ sinn og út um Svansgjá í Kaldbakshorni þá er hann fór til sjóróðra. Njála getur þess að hann hafi týnst í sjóróðri út af Veiðileysufirði og þá hafi fiskimenn í Kaldbaksvík séð hann ganga í land undir Kaldbakshorni og hverfa inn í Svansgjá.”

Förum frá Laugarhóli. Leiðinni er þannig lýst á Vestfjarðavefnum: “Við þjóðveginn þar sem hann liggur yfir Hallardalsá, rétt utan við Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði, er gönguleiðaskilti sem markar upphaf leiðarinnar. Gengið er yfir brúna á þjóðveginum sem liggur yfir Hallardalsá og síðan upp með ánni eftir varnargarði. Gengið er meðfram Hallardalsárgljúfri og að Goðafossi sem steypist ofan í gljúfrið efst í því. Ofan við fossinn er haldið yfir ána og stefnt í norðvestur á skarð í fjallsöxlina og skásneitt upp að klettum. Víðsýnt er yfir Bjarnarfjarðarháls, Steingrímsfjörð, til Húnaflóa, Langjökuls og Eiríksjökuls. Þverá er síðan fylgt niður af fjallinu en hún steypist í mörgum fossum ofan í Þverárgljúfur. Neðan við gljúfrið er göngubrú yfir ána og þaðan er fylgt götum niður í dalinn fyrir ofan bæinn Svanshól og út að Laugarhóli aftur.”

8,1 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Urriðavötn, Þórisgata, Dimmudalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hólmsá

Frá Brytalækjum á Syðri-Fjallabaksleið með Hólmsá í Fjallakofann við Hólmsárfoss í Skaftártungu.

Þetta er skemmtileg og fjölbreytt leið niður með efri hluta Hólmsár við undirleik af fossanið. Hestarnir koma ofan af Mælifellssandi og gleðjast við að sjá allan þennan gróður koma í fangið. Vilja helzt fara í loftköstum niður brekkur Álftaversafréttar. “Þeir stytta sporin, þeir stappa hófum / og strjúka tauma úr lófum og glófum. / Höfuðin lyftast. Hin lifandi vél / logar af fjöri undir söðulsins þófum” (Einar Ben).

Förum frá Brytalækjum við vegamót Mælifellssands og Öldufellsleiðar Til austurs eftir leirunum upp á Einhyrningsleið, sem liggur austur frá Öldufellsleið. Förum norðan við Skiptingarhaus og sveigjum þar til suðausturs af slóðinni niður að Hólmsá og förum þar austan við Einhyrning. Síðan niður Einhyrningsaxlir og áfram nálægt ánni niður að Fjallakofanum við Hólmsárfoss.

12,9 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Öldufell.
Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hólmavatnsheiði

Frá Sólheimum í Laxárdal í Dölum að Prestbakka í Hrútafirði.

Förum frá Sólheimum norður og upp Sólheimaöxl austanverða. Áfram norður fyrir austan Hólmavatn og vestan Reiðgötuvatn á Hólmavatnsheiði í 240 metra hæð. Síðan norðaustur fyrir norðan Reyðarvatn og sunnan Reyðarvatnstjörn og niður Bakkadal að Prestbakkaá og meðfram henni norðaustur á Prestbakka.

15,2 km
Snæfellsnes-Dalir, Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hólmatungur

Frá Svínadal í Hólmatungum að vegi 862 á Dettifossleið.

Þetta er aðeins gönguleið. Fylgið merkingum þjóðgarðsins.

Um Hólmatungur segir svo á Norðurlandsvefnum: “Hólmatungur er mjög gróskumikið svæði í Jökulsárgljúfrum og eru þar margar fagrar stuðlabergsmyndanir. Göngusvæðið á milli Hljóðakletta og Hólmatungna meðfram Jökulsá á Fjöllum er með því allra fegursta á landinu. Óteljandi lindir spretta upp í Hólmatungum og vatnið fellur af stalli niður í Jöklu. Þar er einnig að finna Gloppuhelli í Gloppu, sem er sérstök náttúrusmíð.”

Förum frá Svínadal suðaustur yfir Myllulæk, norður og austur fyrir Þúfubjarg. Síðan yfir Brandslæk og suður á Hnausa vestan Fossgils, og uppi á veg 862 á Dettifossleið.

5,5 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Aðeins næturhólf

Nálægir ferlar: Klappir, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Jörundur & Eilífur, Dettifoss, Dettifossvegur, Hljóðaklettar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hólaskjól

Frá Gröf í Skaftártungum að fjallaskálanum Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

Hólaskjól er vinsæll áningarstaður hestamanna.

Förum frá Gröf og fylgjum þjóðvegi F208 alla leið. fyrst norður yfir Hvammsá. Framhjá afleggjara í Búland og Skaftárdal. Við förum áfram til norðausturs milli Þorláksstaðafells að vestanverðu og Króks að austanverðu. Síðan norður yfir Núpsheiði og um Kálfasléttur að Syðri-Ófæru. Vestan Bleikáluhrauns norður að fjallaskálanum í Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

24,5 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Ljótarstaðaheiði, Mælifellssandur, Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Skælingar.
Nálægar leiðir: Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hólamannavegur

Frá Hólum í Hjaltadal að Barká í Hörgárdal.

Leið þessi er tæpast fær hestum.

Einn af allra hæstu fjallvegum landsins, hrikalegur og ætíð fáfarinn. Héðinsskarð og Hólamannaskarð eru samhliða, Héðinsskarð á Barkárjökli og Hólamannaskarð á Tunguhryggsjökli.

Förum frá Hólum fyrst norður og síðan beint austur Víðinesdal milli Hólabyrðu að sunnan og Elliða að norðan. Austur við Ármannsfell beygjum við til suðurs í Hóladal milli Ármannsfells að austan og Hólabyrðu að vestan. Upp úr dalnum förum við Hólamannaveg til suðausturs vestan undir Lambárhnjúki og þaðan upp og austur á Hólamannaskarð á Tungnahryggsjökli í 1210 metra hæð. Á þeim kafla þarf tvisvar að klöngrast yfir klettahöft. Við höldum okkur nálægt klettaveggnum í suðvestri og erum þar efst í Tungnahryggsjökli. Förum í skarðið suðvestan undir Péturshnjúk i 1210 metra hæð. Þaðan förum við til suðausturs niður í botn Barkárdal sunnan undir Eiríkshnjúki. Austur dalinn um Baugasel og Féeggsstaði til Hörgárdals, út að Barká við þjóðveg 814 í Hörgárdal.

37,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Baugasel: N65 39.370 W18 36.640.

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Héðinsskarð, Skíðadalsjökull, Tungnahryggur, Heiðinnamannadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hólaheiði

Frá Presthólum í Núpasveit til Kollavíkur í Þistilfirði.

Lagður hefur verið bílvegur með slitlagi þessa leið og um framhald hennar í Hófaskarði. Því má líta svo á, að leiðin sé ekki lengur fær hestum.

Förum frá Presthólum austur um Efri-Hóla og Hildarselshraun. Síðan um Hnotastein upp á Hólaheiði. Þaðan austnorðaustur yfir Ormarsá og um Biskupsás að Fjallgarði við Kollavíkursel. Förum þaðan austur Bjarnaskarð og niður að Kollavík í Þistilfirði.

28,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þverárhyrna, Rauðhólar, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Hólsstígur, Sléttuvegur, Hófaskarð, Kollavíkurskarð, Krossavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hólafjall

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Þormóðsstöðum í Eyjafirði um Hólafjall að Bergvatnskvísl við Sandbúðir á Sprengisandi.

Förum frá Þormóðsstöðum um þjóðveg 827 norðan við Tungufjall alla leið, fyrst vestur að Hólafjalli og bratt upp hlíðina á fjallið. Förum síðan suður eftir fjallinu, mest í 1020 metra hæð, og áfram suður þjóðveginn að fjallaskálanum Landakoti. Þaðan áfram suður og þvert yfir Galtabólsleið milli Laugafells og Kiðagils. Áfram förum við suður að Bergvatnskvísl og beygjum til austurs á þjóðveg 26 um Sprengisand, skammt vestan fjallakofans Sandbúða.

45,8 km
Eyjafjörður

Skálar:
Landakot: N65 05.164 W18 04.043.
Sandbúðir: N64 55.920 W17 59.239.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hófaskarð

Frá Sléttuvegi á Melrakkasléttu um Hófaskarð til Kollavíkur í Þistilfirði.

Lagður hefur verið bílvegur með slitlagi þessa leið. Því má líta svo á, að leiðin sé ekki lengur fær hestum.

Rétt sunnan Hófaskarðs eru þrjú önnur skörð í Fjallgarði, Bjarnaskarð, Kollavíkurskarð og Svalbarðsskarð, sem mest er farið. Förum frá eyðibýlinu Krossavíkurseli vestur um Hófaskarð í 220 metra hæð. Síðan suðvestur og niður heiðina og síðast vestur í Kollavík á Melrakkasléttu.

5,4 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir hesta

Nálægir ferlar: Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Sléttuvegur, Hólaheiði, Kollavíkurskarð, Krossavík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hornstrandir

Frá Barðsvík á Hornströndum að Látravík við Hornbjarg.

Ótrúlegt er, að byggð skuli hafa verið á litlu klettanesi, þar sem bærinn Bjarnarnes er. Drífandisá fellur í tveimur fossum í sjó fram og er sá neðri 50 metra hár.

Förum frá sæluhúsinu í Barðsvík tvo kílómetra vestur dalinn og síðan þvert norður um dalinn. Þaðan förum við norðvestur á Smiðjuvíkurháls, þar sem við náum 250 metra hæð. Síðan norðaustur af hálsinum niður í Smiðjuvík og áfram niður að sjó. Þaðan förum við um og upp eftir hjalla norður á Smiðjuvíkurbjarg í 140 metra hæð. Þar er lægð, sem hallar inn til lands. Við fylgjum lægðinni um mýrasund og mela fram á brekkubrún austan við álfabyggðina Rauðuborg. Þaðan förum norðvestur í Drífandisdal og yfir ána ofan við efri fossinn við ströndina. Og áfram norðvestur með björgum ofan við ströndina. Við förum yfir Digranes og um Hólkabætur í 140 metra hæð. Síðan neðan við Bjarnarneshæð niður að Bjarnarnesi í Hrollleifsvík. Þaðan um víkina og allbratt um sneiðinga yfir Axarfjall í 240 metra hæð og loks norður og niður í Látravík, þar sem er gitihús.

13,7 km
Vestfirðir

Skálar:
Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.
Látravík: N66 24.641 W22 22.741.

Nálægar leiðir: Almenningsskarð, Sópandi, Bolungarvíkurheiði, Bolungarvíkurbjarg, Göngumannaskörð, Snókarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hornsskriður

Frá Dys í Hornafirði til Syðra-Fjarðar í Papafirði í Lóni.

Hornsskriður eru stórkostleg göngu- og reiðleið, sem liggur í ótal krókum milli stórra bjarga, er fallið hafa úr 600 metra háu og snarbröttu fjallinu. Þetta var þjóðleiðin milli Hornafjarðar og Lóns, þegar Almannaskarð var lokað vegna fanna. Hér má sjá ótal litbrigði sjaldgæfra bergtegunda. Framundan Kastárdal eru leifar af verzlunarstaðnum í Papósi. Hann var notaður af Austur-Skaftfellingum frá 1864 fram undir aldamótin 1900, þegar Höfn í Hornafirði tók við sem verzlunarstaður.

Byrjum við þjóðveg 1, þar sem hann liggur úr Hornafirði upp í Almannaskarð. Þar heitir Dys, er göturnar liggja af veginum og út að Horni. Við förum meðfram Skarðsbrekkum og út fyrir Litlahorn, þar sem við komum að Horni. Frá bænum förum við út að Hafnartanga, þar sem Hornsskriður byrja. Austast heitir Brunnhorn. Þaðan er greiðfært framhjá Kastárdal að Syðra-Firði. Stutt er að þjóðvegi 1.

16,2 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Austursandur. Endalausidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hornbrynja

Frá Sturluflöt í Suðurdal í Fljótsdal um Hornbrynju til Eyjólfsstaða í Fossárdal í Berufirði.

Forn verzlunarleið Fljótsdælinga til Berufjarðar. Gamlar götur og vörðubrot sjást sums staðar á þessum slóðum. Fossárdalur er leynidalur, sem sést ekki frá hringveginum. Þar voru þó sagðir fjórtán bæir, þegar mest var, en er nú bara einn, Fossárdalur. Í dalnum er mikið af krókum milli ása, fullum af lyngi og kjarri og blómum. Í Fossá er fjöldinn allur af fallegum fossum. Í dalnum eru fjölbreyttar bergtegundir eins og víðar á sunnanverðum Austfjörðum. Nokkur veiði er í Líkárvatni og er nafn þess talið stafa af slysförum. Sunnan vatnsins fundust mannabein, sem talin eru af strokufanganum Þorgrími Hermannssyni, er slapp úr haldi á Djúpavogi 1837.

Förum frá Bessastöðum suður að brúnni austur yfir Jökulsá. Síðan með þjóðvegi 935 suður að Sturluflöt. Þar förum við austur yfir drög Gilsárdals suðaustur í Hornbrynjuslakka norðan fjallsins Hornbrynju og þaðan suðsuðaustur að fjallaskálanum Bjarnarhíði. Þaðan förum við stuttan kafla suðaustur með jeppaslóð, sem liggur að þjóðvegi um Öxi. En förum fljótt suður úr slóðinni að Líkárvatni austanverðu. Við förum austsuðaustur í Fossárdal og fylgjum slóð meðfram Fossá austur að eyðibýlinu Eyjólfsstöðum í Fossárdal.

36,3 km
Austfirðir

Skálar:
Bjarnarhíði: N64 50.853 W14 51.507.

Nálægar leiðir: Flosaleið, Kelduá, Sauðárvatn, Ódáðavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Hornafjarðarfljót

Frá Bjarnanesi yfir Hornafjarðarfljót að Holtateigum.

Milli Bjarnanessands og Holtateiga eru fimm kílómetrar, að miklu leyti í vatni. Þetta er því lengsta vað á Íslandi. Þar geta verið djúpir álar, svo að nauðsynlegt er að fara með staðkunnugum. Að jafnaði er Hornafjarðarfljót þó auðvelt yfirferðar. Í Skógey höfðu menn slægjur síðustu aldir, en lengi hefur þar enginn skógur verið.

Byrjum við þjóðveg 1 hjá Fornustekkum í Nesjum í Hornafirði. Förum austur að vaði við Bjarnanessand yfir gamlan farveg Austurfljóta, sem nú hafa sameinast Suðurfljótm við jökulsporð. Síðan um Ferðamannahraun þvert yfir norðurenda Skógeyjar að vaði á Hornafjarðarfljótum norðan við Kríusker og þar beint yfir í Prestafit. Þaðan er stutt upp á þjóðveg 1 milli Tjarnar og Holta á Mýrum.

8,1 km
Skaftafellssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Skógey, Vítisbrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort