Hólamannavegur

Frá Hólum í Hjaltadal að Barká í Hörgárdal.

Leið þessi er tæpast fær hestum.

Einn af allra hæstu fjallvegum landsins, hrikalegur og ætíð fáfarinn. Héðinsskarð og Hólamannaskarð eru samhliða, Héðinsskarð á Barkárjökli og Hólamannaskarð á Tunguhryggsjökli.

Förum frá Hólum fyrst norður og síðan beint austur Víðinesdal milli Hólabyrðu að sunnan og Elliða að norðan. Austur við Ármannsfell beygjum við til suðurs í Hóladal milli Ármannsfells að austan og Hólabyrðu að vestan. Upp úr dalnum förum við Hólamannaveg til suðausturs vestan undir Lambárhnjúki og þaðan upp og austur á Hólamannaskarð á Tungnahryggsjökli í 1210 metra hæð. Á þeim kafla þarf tvisvar að klöngrast yfir klettahöft. Við höldum okkur nálægt klettaveggnum í suðvestri og erum þar efst í Tungnahryggsjökli. Förum í skarðið suðvestan undir Péturshnjúk i 1210 metra hæð. Þaðan förum við til suðausturs niður í botn Barkárdal sunnan undir Eiríkshnjúki. Austur dalinn um Baugasel og Féeggsstaði til Hörgárdals, út að Barká við þjóðveg 814 í Hörgárdal.

37,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Baugasel: N65 39.370 W18 36.640.

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Héðinsskarð, Skíðadalsjökull, Tungnahryggur, Heiðinnamannadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins