Laxárgljúfur

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi til Helgaskála á Hrunamannaafrétt.

Við förum meðfram voldugum gljúfrum Stóru-Laxár, hrikalegum og fallegum, einum stórfenglegustu gljúfrum landsins. Hin eiginlegu gljúfur byrja að ofan þar sem Leirá fellur í Stóru-Laxá úr norðri. Gljúfrin eru tíu km löng niður að eyðibýlinu Hrunakróki ofan við Kaldbak. Dýpt þeirra er 100-200 m. Þrengsti og efsti hlutinn nefnist Svartagljúfur. Á köflum eru gljúfraveggirnir þverhníptir til beggja handa, en sums staðar er víðara. Gljúfrin eru víða torfær eða jafnvel ófær göngumönnum. Bæði menn og skepnur hafa fallið þar niður og slasast. Stóra-Laxá rennur silfurtær í botninum.

Förum frá Kaldbak austur yfir bæjarlækinn og fylgjum dráttarvélaslóð, sem liggur í sneiðingum um hálsana milli bæjar og Stóru-Laxár. Síðan norðaustur milli Kaldbaksfjalls og Stóru-Laxár, um tún á eyðibýlinu Hrunakrók og um gilið upp af bænum, milli Seláss að vestan og Skollaáss að austan. Þegar við komum upp úr gilinu eru Laxárgljúfur á hægri hönd. Við förum norður með gljúfrunum, undir Flóðöldu að vestan og síðan um Stóraver og Laxárklettsver. Þar förum við um hlið á afréttargirðingu og síðan austur brekkur niður að Leirá. Við förum hana á vaði og síðan norðaustur yfir Leirártungu og yfir Stóru-Laxá. Svo yfir Tangaás og erum þá komin í Tangahorn og sjáum Helgaskála handan árinnar. Við getum farið hér beint yfir ána eða haldið áfram jeppaslóðina að vaði, sem er austan skálans og farið þar yfir ána áður en við komum að skálanum.

20,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.

Nálægir ferlar: Kaldbakur, Laxárdalsvað, Fagridalur, Kaldbaksland, Fjallmannaleið, Kaldbaksvað, Ísahryggur.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Svínárnes, Leirá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson