Punktar

Sænsk viðbrögð

Punktar

Ráðuneytisstjóri dómsmála í Svíþjóð sagði norrænum ritstjórum í síðustu viku, að engin einkalífslög væru til í Svíþjóð. Setja þyrfti slík lög, ef fara ætti eftir evrópska Karólínudómnum. Ófriður af völdum papparassa væri stærra mál í þessu sambandi en sjálf birting myndanna. Ríkisumboðsmaður fjölmiðlunar tók undir það við sama tækifæri. Hann sagði einnig, að þýzki dómurinn feli í sér það grundvallarviðhorf til fjölmiðlunar, að slúður sé löglegt, þar á meðal um líf hefðarfólks á borð við Karólínu. Engin leið væri að líta öðru vísi á Karólínu prinsessu en sem opinbera persónu.

Evrópskur Karólínudómur

Punktar

Mannréttindadómstóll Evrópu tók aðra afstöðu til þessara atriða í sínum fræga Karólínudómi. Prentfrelsi hafi gengið of langt í Evrópu og koma þurfi á nýju jafnvægi milli þess og persónuréttar fólks. Auk þess sé Karólína ekki opinber persóna, þótt hún komi stundum fram fyrir hönd Monako. Dómurinn fjallaði um friðarspjöll af völdum ljósmyndara, þegar þeir vinna störf sín. Þegar margir papparassar eru í sama verki, myndast oft öngþveiti. Slíkt umsátursástand skerði rétt fólks til einkalífs. Að svala forvitni fólks sé ekki næg ástæða til að taka myndir af Karólínu prinsessu.

Þýzkur Karólínudómur

Punktar

Hæstiréttur Þýzkalands sagði í frægum Karólínudómi sínum, að prinsessan í Monako sé opinber og geti ekki kvartað yfir athygli fjölmiðla. Tilgangur þeirra væri að segja fréttir, svala forvitni. Fjölmiðlun hafi alltaf verið persónuleg. Dómstóllinn sagði, að ekki væri hægt að gera greinarmun á virðulegri fjölmiðlun og persónulegri fjölmiðlun. Hann sagði, að prentfrelsi væri æðra einkalífsrétti. Heimilt hafi verið að taka og birta myndir af Karólínu prinsessu á veitingahúsi, á hestbaki, í verzlun, á skíðum, á baðströnd, svo framarlega sem þessir staðir séu opnir almenningi.

Frábært Disneyland Eddukvæða

Punktar

ALLS STAÐAR ER framtakssamt fólk að reyna að gleðja gesti og gangandi. Setur af ýmsu tagi hafa sprottið upp um allt land. Við höfum auðvitað draugasetur, Njálusetur og Heklusetur. Við höfum setur Jóhanns svarfdælings, vesturfarasetur og reðursetur. Við höfum setur Eiríks rauða og álfasetur.

HAFNFIRÐINGAR HAFA lagt áherzlu á álfa og huldufólk annars vegar og víkinga hins vegar. Engu máli skiptir, hvort hér hafa einhvern tíma verið álfar, huldufólk eða víkingar. Spurningin er bara, hvort hugmyndin selzt. Og ferðamenn reynast hafa töluverðan áhuga á að skoða álfa og víkinga.

SUMIR MYNDLISTARMENN leita fanga í fornum minnum, til dæmis úr þýzkri goðafræði, og fjalla um Fáfnisbana, Freyjukynóra og annað slíkt, er sjá má í myndum á einu setrinu, á hótelinu í Reykholti. Myndir Alfreðs Flóka eru frægar og Haukur Halldórsson hefur stundum svipað yrkisefni.

NÚ HEFUR HAUKUR tekið saman höndum við annan listamann, Sverri Sigurjónsson. Þeir hafa lagt mikla vinnu í að búa til teikningar og jafnvel líkön af miklum goðafræðigarði, sem verður auðvitað til þess fallinn að gleðja gesti og gangandi. Ennþá frekar en Tívólí eða Húsdýragarðurinn.

ÞEIR ERU MEÐ HUGMYND að risastórum skemmtigarði utan um undraveröld Eddukvæða, eins konar Disneyland, þar sem fólk getur gist á hótelum og farið í leiki í Jötunheimum, Niflheimum, Hvergemli, Dvergheimi, Múspelli eða Ásgarði, þar sem verða endalausar hátíðir með svalli og bjórdrykkju.

ÞETTA Á AÐ VERÐA fjölmargra ferkílómetra svæði og kemur til með að kosta milljarða að mati hugmyndasmiðanna. Þeir sýndu skipulagsuppdrætti, sem minna pínulítið á drauma Þórðar Ben um Vatnsmýrina. Yfirþyrmandi hugmynd þeirra er, að þetta verði langstærsta aðdráttarafl ferðamanna til Íslands.

ÞAÐ SÉRKENNILEGASTA við róttæka hugmynd þeirra félaga er, að hún gæti vel gengið upp. Ferðamenn vantar ekki bara hótel, heldur stanzlaus leikhús og bíó, stanzlausar skemmtanir og hátíðir, stanzlaus leiktæki og uppákomur. Það væri fínt að fá þetta í Vatnsmýrina eða við Bláa lónið eða í Leifsstöð.

DV

Einskærar tilviljanir í röð

Punktar

AF HREINNI TILVILJUN ákvað bankaráð Seðlabankans fyrir nokkrum dögum að hækka laun Seðlabankastjóra. Það var ekki í neinum tengslum við neina útreikninga um, að hækkun dygði til að hækka laun Davíðs Oddssonar um hálfa milljón á mánuði, ef hann flytti sig úr stjórnarráðinu á Köllunarklett.

AF HREINNI TILVILJUN ákvað Birgir Ísleifur Gunnarsson Seðlabankastjóri nokkrum dögum síðar, að heppilegt væri fyrir sig að hætta í bankanum tæpu ári áður en hann yrði sjötugur. Það var ekki í neinum tengslum við neinar ábendingar um, að gott væri, ef rýmt væri til í bankanum, svo að pláss yrði fyrir Davíð Oddsson.

AF HREINNI TILVILJUN ákvað Davíð Oddsson ráðherra hálftíma síðar að kominn væri tími til að rýma til fyrir efnilegu fólki í pólitík. Hann sagði af sér pólitík til að Einar Guðfinnsson gæti orðið ráðherra og Ásta Möller gæti aftur orðið þingmaður. Þetta var hreinn góðvilji ráðherrans í garð samflokksmanna.

ÁSTÆÐULAUST ER AÐ bendla þessar ýmsu tilviljanir saman. Laun Seðlabankastjóra voru ekki hækkuð til að geðjast Davíð Oddsyni, ekki frekar en Alþingi samþykkti fyrir tæpu ári sérstök eftirlaun fyrir ráðherrann til að geðjast honum. Það er bara gul pressa og sóðablöð og skítapappírar, sem fjalla um slíkt.

BIRGIR ÍSLEIFUR Gunnarsson var ekki látinn segja af sér til að rýma fyrir Davíð Oddssyni. Þetta voru sjálfstæðar og óháðar ákvarðanir, sem hvorug hafði neitt með hina að gera. Það er því alger tilviljun, að Davíð hefur hækkað um hálfa milljón í tekjum og getur þar á ofan farið að taka sér ráðherraeftirlaun.

EF EINHHVER EFAST UM, að allt sé með felldu í þessu ferli, getum við verið viss um, að þar eru á ferð öfundsjúkir asnar, sem hafa önugt hugarfar, mótað af langvinnu þurrafylleríi. Það eru menn sem eru alltaf fúlir á móti, sama hvaða blessun mætir þjóð vorri á hraðbraut hennar fram eftir vegi.

DV

iPod í farsímum

Punktar

Stærsta farsímafyrirtæki Bandaríkjanna, Cingular Wireless, mun tilkynna í þessari viku, að það bjóði upp á samtvinnað niðurhal á tónlist, þar sem Motorola leggur til farsímatækin og Apple Computer leggur til iTunes, hugbúnaðinn, sem er lykillinn að velgengni iPod tölvanna. Nokia og Sony Ericsson hafa þegar sett af stað tónlistarsíma, en Motorola er fyrsta fyrirtækið, sem nær samkomulagi um iPod aðferðina við niðurhal tónlistar. Málsaðilar telja, að þetta samstarf Motorola og Apple, sem boðað var fyrir ári, muni leiða til miklu hraðari aukningar á vinsældum tónlistarsíma.

Fólk vill bíósíma

Punktar

Nokia telur sig hafa komizt að raun um, að notendur farsíma vilji sjá bíómyndir í þeim. Þeir, sem hafi myndsíma, noti hann að meðaltali í 20 mínútur á dag til að horfa á sjónvarp og nokkur hluti þeirra horfi í 40 mínútur á dag. Kannanir hafa leitt í ljós, að slíkt fólk sé tilbúið til að horfa á heila bíómynd, ef það væri í boði. Ljóst er, að þjónustan verði dýr til að byrja með, en geti síðar orðið ódýrari, þegar fjöldinn komi á eftir forgöngufólkinu. Í fyrstu verði bíómyndir ekki vinsælastar, heldur beinar fréttaútsendingar, til dæmis frá flóðunum í New Orleans, eða frá íþróttum.

Linux 40% ódýrari

Punktar

IBM fullyrðir, að Linux tölvukerfi séu 40% ódýrari í rekstri en Windows tölvukerfi. Byggist það á rannsókn, sem Robert Frances Group hefur framkvæmt. Talað var við tölvustjóra 20 fyrirtækja, sem öll höfðu yfir 250 starfsmenn. Þessi mikli munur kom málsaðilum mjög á óvart og mun áreiðanlega hvetja marga til að skipta úr Windows yfir í Linux. Talið er, að þessar upplýsingar muni líka leiða til lækkunar á kostnaði við Windows tölvukerfi til þess að viðhalda stöðu Microsoft á markaði. Hingað til hefur Microsoft getað haldið uppi verði, en Linux er opið kerfi, sem að grunni er ókeypis.

Hamfarir af mannavöldum

Punktar

ENGAR ALMANNAVARNIR virtust vera í lagi í New Orleans gegn fellibylnum Katrínu. Fólk var skilið eftir á sjúkrahúsum og elliheimilum. Tugþúsundir voru enn í borginni, þegar flóðið kom. Áætlanir um brottflutning voru ekki til eða voru ekki notaðar. Þeir fóru einir, sem gátu bjargað sér sjálfir.

ÞJÓÐVARÐLIÐIÐ GAT EKKI hjálpað, af því að það er í Írak að rækta hatur á Bandaríkjunum. Herinn gat ekki hjálpað, af því að hann er í Írak til að rækta hatur á Bandaríkjunum. Heimsveldið sjálft er bjargarlaust á eigin heimavelli. Vopnaðir hópar þjófa ráðast á sjúkrahús og elliheimili.

FRÁ ÞVÍ AÐ GEORGE W. Bush kom til valda hefur hann skipulega strikað út fjárveitingar til að hindra stórtjón af völdum náttúruhamfara. Þar á meðal strikaði hann út tillögur verkfræðinga hersins. Þess vegna var ekki hægt að efla stíflurnar í tæka tíð og þess vegna brustu þær.

FRÁ ÞVÍ AÐ GEORGE W. Bush kom til valda hefur hann hafnað því, að aukinn útblástur koltvísýrings sé meiriháttar vandi mannkyns. Þess vegna hefur hitastig hækkað og þannig búnar til kjöraðstæður fyrir fellibylji á borð við Katrínu. Allir fræðimenn vissu, hvað mundi gerast, en Bush yppti öxlum.

Í NEW ORLEANS er verri glundroði og óöld en gerist, þegar hliðstæðir atburðir verða í þriðja heiminum. Það stafar af því, að undir niðri er heimsveldið ofvaxið þriðja heims ríki, þar sem andvaraleysi, spilling, fordómar, trúarofstæki og tillitsleysi ráða ríkjum. Uppskeran er eins og sáð var.

LÍKIN FLJÓTA UM borgina. Þjóðvarðliðar sinna þeim ekki, né heldur fólki, sem er hjálparvana. Þeir eru önnum kafnir við að reyna að hindra gripdeildir. 15.000 manns hafa 5 klósett á stóra leikvanginum. Þaðan er skotið á hjálparþyrlur. Svona þriðja heims ástand væri óhugsandi í Evrópu. Eða á Íslandi.

DV

Vill gleðjast yfir guðs mildi

Punktar

“MEÐ SKAÐLEGUSTU náttúruhamförum sögunnar”, segir Mogginn á forsíðu í gær. “Einn versti fellibylur í sögu Bandaríkjanna” segir Fréttablaðið sama dag. “Alger upplausn ríkir í New Orleans” segir DV við sama tækifæri. Allir segja sömu sögu.

NEMA BLAÐIÐ. Þar gerir Andrés Magnússon grín að fréttum ljósvakamiðla og segir þeim nær “að gleðjast yfir guðs mildi en að harma hana vegna þess að fréttatíminn varð minna spennandi”. Andrés kvartar líka yfir, að ljósvakamiðlarnir hafi reynt að gera sér mat úr hörmungum í New Orleans.

FLEST VIRÐIST VERA að koma fram af því versta, sem spáð var í fjölmiðlum um afleiðingar fellibylsins Katrínar. Eignatjón er meira en spáð var, mannfall meira, gangsetning innviða verður langdregnari, hækkun olíuverðs meiri. Í engu er sjáanlegt, að uslinn verði minni en spáð var í fjölmiðlum.

ANDRÉS ER EKKI BARA setinn af áhyggjum af ýkjum fjölmiðla um hamfarirnar við Mexikóflóa. Hann óttast líka, að málið verði notað til útmála, hvernig Katrín tengist gróðurhúsaáhrifum. Þar ratast honum satt á munn, því að flestir telja augljóst, að forsendur Katrínar stafi beinlínis af mannavöldum.

VIÐ HÖFUM SÉÐ og lesið bandaríska og íslenzka fræðimenn útskýra, hvernig aukin losun koltvísýrings hefur hitað yfirborð sjávar á þessum slóðum og framkallað ofsafenginn fellibyl. Við megum líka búast við fleiri náttúruhamförum, meðan trúbræður Björns Lomborg ráða ríkjum í heiminum.

GOTT ER, AÐ FRÉTTAMAT skuli vera misjafnt hér á landi og að notendur fjölmiðla eigi aðgang að gerólíku mati fjölmiðla á mikilvægum atburðum í nútímasögunni. “Almennt og yfirleitt er allt gott í fréttum”, segir Andrés að lokum.

DV

Landlæknir gegn Vioxx

Punktar

Landlæknir er að hefja rannsókn á hjartaáfalli og öðrum aukaverkunum gigtarlyfsins Vioxx hér á landi. Fimm manns hafa fengið hjartaáfall eftir notkun lyfsins. Í vor vannst íslenzkt skaðabótamál gegn öðrum framleiðanda annars lyfs, Lamictal. Lögfræðingurinn, sem vann það mál, vill kanna málaferli í Bandaríkjunum, þar sem þessi lyf og mörg önnur eru framleidd og þar sem skaðabætur eru margfalt hærri en í dómum hér á landi. Nýlega fékk bandarísk kona 16 milljarða króna í skaðabætur fyrir að nota Vioxx. Dómarinn taldi, að ekki hafi verið nægar aðvaranir á umbúðum lyfsins.

Spurningar frá New Orleans

Punktar

Stutt frétt í BBC sagði dramatíska sögu af fellibylnum, sem gekk á land í New Orleans á mánudaginn. Vindhraðinn náði 282 kílómetrum á klukkustund, meiri hraða en Kimi Raikkonen. 80% borgarinnar voru undir vatni, sem náði mest rúmlega sex metra hæð. Milljón manns flúðu borgina og hundruð talin vera látin. Til hversu mikils hluta Reykjavíkur mundi sex metra flóð ná? Er það meira flóð en Básendaflóðið var? Mundi ráðgerð byggð Sjálfstæðisflokksins í Hólminum standast slíkt flóð? Hafið þið tekið eftir, að orsaka fellibylsins er fyrst og fremst leitað í óhæfilegri hitun jarðar af manna völdum?

45 dagar fyrir 7000 kr

Punktar

Dómvenja í héraðsdómi er í mörgum tilvikum fráleit. Einkum skera í augu harðir dómar fyrir hnupl og vægir dómar fyrir ofbeldi. Nú síðast var maður, sem dómarinn viðurkenndi, að væri ekki heill á geðsmunum, dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir að stela 7000 krónum. Er Guðjón St. Marteinsson dómari sjálfur staddur í miðöldum? Er enginn dómstjóri eða annað yfirvald í dómskerfinu, sem getur hrist upp í forstokkuðu dómaraliði? Þeir tímar eru liðnir fyrir nokkrum öldum, að hnupl var talinn verri glæpur en ofbeldi. Nú á tímum eiga 7000 króna hnuplarar heima í meðferð, ekki á Litla-Hrauni.

Útlendingar eru óæðri í Mogga

Punktar

MORGUNBLAÐIÐ ER VANT að virðingu sinni að hætti kaþólskra dagblaða á sunnanverðri Ítalíu. Það birtir til dæmis ekki myndir af sakborningum á Íslandi, af því að sekt þeirra er ekki sönnuð. Það telur myndbirtingu vera eins konar dóm.

AF ÞVÍ AÐ MORGUNBLAÐIÐ er haldið útlendingafordómum að hætti kaþólskra dagblaða á sunnanverðri Ítalíu, birtir það hins vegar myndir af sakborningum, ef þeir eru útlendingar. Þannig var í gær gerð undantekning og birt mynd í Mogganum af Litháanum, sem flutti brennisteinssýru til landsins.

MORGUNBLAÐIÐ GERIR MUN á Íslendingum og útlendingum í sakamálum. Það birtir auðvitað myndir af útlendingum í málaferlum erlendis, þótt sekt þeirra hafi ekki verið sönnuð. Af því að svo er gert í útlendum blöðum, sem Mogginn þýðir upp úr.

FRÁ OG MEÐ DEGINUM Í GÆR vitum við, að þessi regla nær einnig til útlendinga fyrir íslenzkum dómstóli.

MORGUNBLAÐIÐ GERIR LÍKA greinarmun í fréttaslúðri um útlendinga og Íslendinga. Ekki má birta í blaðinu slúður um einkalíf íslenzks frægðarfólks, en hins vegar má birta þar slúður um einkalíf útlends frægðarfólks. Af því að svo er gert í útlendum dagblöðum, sem Mogginn þýðir upp úr.

ÞANNIG ER STÉTTASKIPTINGIN í slúðri í Morgunblaðinu, milli Íslendinga og útlendinga.

EF MORGUNBLAÐIÐ HEFÐI siðareglur, mundi ein greinin hljóða svo: Óheimilt er að skyggnast í einkalíf Íslendinga, en velkomið að skyggnast í einkalíf útlendinga. Óheimilt er að birta mynd af ódæmdum Íslendingum, en velkomið að birta slíkar myndir af útlendingum.

DV

Aftur til London

Punktar

Nú þarf ég aftur að hefja innkaupaferðir til London eftir aldarfjórðungs hlé. Þar eru búðir fyrir sérvitringa. Þar eru heilar götur með uppháum sokkum og tvíhnepptir bleizerar fást í að minnsta kosti fimm búðum. Þar er auðvelt að fá almennilega skó frá Pitti, létta skó, lága á ristina og með leðursólum, ekki þverskorna að framan. Ég sé fyrir mér, að ég komi með ferðatösku til baka, fulla af tímalausum vörum, nákvæmlega eins og ég vil hafa þær. London blífur nefnilega, meðan Reykjavík velkist um í tízkuvindum. Þetta verður fín ferð, enda er ég ennþá ákveðinn í að vera ekki útdauður.