Útlendingar eru óæðri í Mogga

Punktar

MORGUNBLAÐIÐ ER VANT að virðingu sinni að hætti kaþólskra dagblaða á sunnanverðri Ítalíu. Það birtir til dæmis ekki myndir af sakborningum á Íslandi, af því að sekt þeirra er ekki sönnuð. Það telur myndbirtingu vera eins konar dóm.

AF ÞVÍ AÐ MORGUNBLAÐIÐ er haldið útlendingafordómum að hætti kaþólskra dagblaða á sunnanverðri Ítalíu, birtir það hins vegar myndir af sakborningum, ef þeir eru útlendingar. Þannig var í gær gerð undantekning og birt mynd í Mogganum af Litháanum, sem flutti brennisteinssýru til landsins.

MORGUNBLAÐIÐ GERIR MUN á Íslendingum og útlendingum í sakamálum. Það birtir auðvitað myndir af útlendingum í málaferlum erlendis, þótt sekt þeirra hafi ekki verið sönnuð. Af því að svo er gert í útlendum blöðum, sem Mogginn þýðir upp úr.

FRÁ OG MEÐ DEGINUM Í GÆR vitum við, að þessi regla nær einnig til útlendinga fyrir íslenzkum dómstóli.

MORGUNBLAÐIÐ GERIR LÍKA greinarmun í fréttaslúðri um útlendinga og Íslendinga. Ekki má birta í blaðinu slúður um einkalíf íslenzks frægðarfólks, en hins vegar má birta þar slúður um einkalíf útlends frægðarfólks. Af því að svo er gert í útlendum dagblöðum, sem Mogginn þýðir upp úr.

ÞANNIG ER STÉTTASKIPTINGIN í slúðri í Morgunblaðinu, milli Íslendinga og útlendinga.

EF MORGUNBLAÐIÐ HEFÐI siðareglur, mundi ein greinin hljóða svo: Óheimilt er að skyggnast í einkalíf Íslendinga, en velkomið að skyggnast í einkalíf útlendinga. Óheimilt er að birta mynd af ódæmdum Íslendingum, en velkomið að birta slíkar myndir af útlendingum.

DV