Punktar

Hátæknispítalinn

Punktar

Gaman er að sjá hvern lækninn á fætur öðrum skrifa grein um, að forgangsverkefni heilbrigðisgeirans eigi að vera önnur en að verja milljörðum í hátæknispítala. Svo vel vill til, að við eigum slíkan spítala, sem montar sig af, að ekki séu biðlistar nema á tveimur sviðum. Nú hefur innanhússmaður, Guðjón Baldursson, læknir á bráðavaktinni í Fossvogi, kvatt sér hljóðs. Hann vill fremur þjónustu við aldraða og langveika, lágtækni í heilsuþjónustu, en ekki hátækni á spítala. Í grein sinni rekur hann ýmis verkefni, sem eru brýnni og betri en milljarðahús að hætti Davíðs Oddssonar.

Evrópu miðar fram

Punktar

Umhverfissáttmáli heimsins frá Kyoto 1997 er nú í skoðun á fjölþjóðaráðstefnu í Montreal. Komið hefur í ljós, að Evrópa stendur sig einna skást heimshlutanna, en er þó langt frá markmiðum sáttmálans. Útblástur gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað í Evrópu um 2,5%, en minnkunin á að verða 8% árið 2012. Evrópu miðar í rétta átt, en annað er að segja um Bandaríkin, sem neituðu að vera með í Kyoto og eitra heiminn meira en nokkru sinni fyrr. Bandaríkin taka þátt í Montreal-fundinum og reyna þar auðvitað að safna um sig liði helztu umhverfissóða heimsins, þar sem fremst fara Kína og Indland.

Samræmd vitleysa

Punktar

SKRÍTIÐ ER OFFORS menntaráðuneytisins við að ryðja samræmdum prófum í stærðfræði, ensku og íslenzku í framhaldsskólum fram á veg. Það hefur leitt til, að margir nemendur skila auðu þessa dagana. Það tryggir þeim altjend einkunnina fimm í prófunum og gefur þeim tíma til að lesa undir önnur próf.

ÞESSI PRÓF HAFA það göfuga hlutverk að gefa réttari samanburð milli skóla. Gallinn er, að einkunnir í þessum samræmdu prófum koma ekki fram á stúdentsprófi og að háskólar í landinu taka ekki mark á þeim, fara ýmist eftir stúdentsprófi eða þá að deildir hafa sín eigin inntökupróf.

HVERNIG Á AÐ bera saman fimm og ellefu einingar í stærðfræði? Auðvitað verður samræmt próf að miða við lægsta samnefndarann og spyrja út úr fimm einingum, en ekki ellefu. Slík niðurstaða hentar ekki í verkfræðideild, sem vill vita, hvaða einkunnir menn hafa fengið í ellefu einingum.

UNGT FÓLK STENDUR því andspænis þeim kosti að gera grín að samræmdu prófunum með að skila auðu og fá fimm í einkunn. Það uppfyllir þannig formsatriðið, sem menntaráðuneytið krefst, en hunzar innihaldið, sem ekki er frambærileg leið til að bera saman námsárangur nemenda og skóla.

SAMRÆMD PRÓF eru vel meint og geta gefið góða mynd. Þannig taka íslenzkir nemendur hér heima samræmt tölvupróf í ensku, sem bandarískir háskólar taka gilt til inntöku nemenda. Þannig taka íslenzkir læknanemar samræmt tölvupróf í læknisfræði, sem bandarískar læknadeildir taka gilt.

TIL ÞESS AÐ samræmt próf hafi eitthvert gildi, þarf það að veita einhvern rétt. Það gerir próf menntaráðuneytisins ekki. Það virðist bara vera að ráða framhaldsskólanemendur í ókeypis vinnu við að gera samanburð á þáttum skólakerfisins, en ekki koma hinum sömu nemendum að neinu gagni í staðinn.

DV

Dýrt fangaflug

Punktar

Fangaflug CIA er farið að hafa áhrif. Evrópusambandið skoðar málið gaumgæfilega. Böndin berast að Póllandi og Rúmeníu, sem talin eru hafa gefið CIA pláss fyrir pyndingar. Þetta getur stöðvað aðild Rúmeníu að bandalaginu. Ólíklegra er, að Pólland missi atkvæðisrétt, því að það er þegar orðið hluti af bandalaginu. Saksókn út af málinu er hafin á Spáni og rannsókn er hafin í Svíþjóð. Hér á Íslandi gerist lítið, enda er Bandaríkjastjórn ekki vön að svara vinsamlegum bréfum. Hvernig sem málið þróast úr þessu er ljóst, að menn efast í auknum mæli um siðferðisstig Bandaríkjanna.

Dýrar nætur

Punktar

Auðvitað kom í ljós, að fínustu hótel Parísar hafa samráð um verð eins og olíufélögin á Íslandi. Hrikalegt verðlag þeirra hefur farið upp úr öllu sambærilegu í öðrum heimsborgum. Þegar tveggja manna herbergi er komið upp undir 100.000 krónur á nótt, er eitthvað meira en lítið í ólagi. Þetta eru hótelin Crillon, Georg V, Ritz, Plaza Athénée, Meurice og Bristol. Þótt þetta séu allt góð hótel eru þau ekki svona miklu betri en önnur fín hótel, sem taka 20.000 krónur á nóttina. Auðvitað var það tölvupóstur, sem kom upp um þau, og nú hafa þau verið dæmd í háar fjársektir fyrir vikið.

Brauzt til dauða

Punktar

Lætin út af andláti George Best boltamanns minna örlítið á lætin út af andláti Díönu prinsessu. Fólk stóð í hópum utan við sjúkrahúsið, þegar hann var að deyja. Búizt er við, að 100.000 manns verði við útförina á laugardaginn. Enda var ævi hans dramatísk. Hann gekk brott á hátindi ferilsins og eyddi ævinni í sukk og svínarí, sem kostaði heilsuna og virðinguna. Endalaus röð brotinna loforða og drykkjutúra hafa verið fréttaefni í Bretlandi. Hún sýnir vel, hversu eindregið er hægt að klúðra góðum ferli. Um George Best gildir orðaleikurinn: Hann brauzt til fátæktar og dauða.

Félagslegur rétttrúnaður

Punktar

HÉR Á AÐ VERA fjölmenningarþjóðfélag, heyri ég stundum eða les. Mér er ekki ljóst, hver er skilgreiningin á þessu hugtaki og finnst raunar stundum, að þetta sé ákveðið orðalag um, að fólk eigi að vera gott hvert við annað.

RAUNAR MINNIST ég ekki, að sett hafi verið nein lög eða reglugerð um fjölmenningarþjóðfélag á Íslandi. Hef grun um, að hugtakið sé búið til af þeim, sem vilja hafa sem bezt samkomulag milli innfæddra og innfluttra íbúa landsins.

ORÐIÐ fjölmenningarþjóðfélag er svokallað PC, “politically correct”, það er bandarískt hugtak, sem þýtt hefur verið “félagslegur rétttrúnaður” á íslenzku. Raunar er þetta bara fínt orðalag yfir það, sem áður var kallað “klisja”.

ÞEIR, SEM RÁÐA félagslegum rétttrúnaði á Íslandi, eru ekki stjórnmálamenn, prestar eða blaðamenn. Það eru talsmenn hagsmunasamtaka, þáttastjórnendur og álitsgjafar. Þeir tala hver við annan og móta, hver sé félagslegur rétttrúnaður.

ANDSTAÐA VIÐ stríðið gegn Írak er félagslegur rétttrúnaður. Þótt sú andstaða kunni að vera réttmæt eins og svokallað fjölmenningarþjóðfélag kann að vera réttmætt, er hún notuð af flestum eins og meiningarlaus klisja, svona af því bara.

FÉLAGSLEGUR rétttrúnaður á Íslandi segir, að ekki skuli birta mannanöfn og mannamyndir í innlendum fréttum á Íslandi. Ennfremur, að fjölmiðlum skuli vera ritstýrt og fréttastýrt með hliðstjón af tillitssemi og almannaheill.

ORÐIÐ ALMANNAHEILL er þá sennilega skilgreint af handhöfum félagslegs rétttrúnaðar. Það er eitt af þessum þægilegu orðum, sem þýða í rauninni bara það sem erkiklerkar félagslegs rétttrúnaðar ákveða hverju sinni, að henti.

ALDREI HEFUR þótt skynsamlegt að efast um gildi félagslegs rétttrúnaðar. Eigi að síður er stundum gaman að velta fyrir sér, hvaða gamlar klisjur séu þar á ferð í nýjum fötum.

DV

Gleði og sorgir

Punktar

Við, sem erum ekki brennd af dálæti á pólitískri taktík hversdagsins á Alþingi, tökum líka eftir, að mara Davíðs Oddssonar þjakar ekki ýmsa millistjórnendur í valdakerfinu eins og áður. Allt þetta, sem hér hefur verið rakið að ofan, getur gert útgáfu Morgunblaðsins erfiðari en áður. En hins vegar er af nógu að taka hjá alvöru fjölmiðlum, sem átta sig á, að þjóðirnar í landinu eru tvær, annars vegar pólitíkusar og hirðmenn þeirra og hins vegar almenningur og gleði hans og sorgir, miklu merkilegri en pólitískt þref gamla tímans. Þið hafið líka séð, að af nógu er að taka í DV þessa dagana.

Ofbeldi eykst

Punktar

Við tökum líka eftir ofbeldinu, sem fikrar sig upp eftir þjóðfélaginu, án þess að valdaaðilar sinni því í nokkru og allra sízt dómsmálaráðherra, sem er upptekinn við að rexa við stjórnarandstöðuna um stórt og smátt. Hann kann aðeins þá pólitík, að andstaðan hafi alltaf og ævinlega rangt fyrir sér. En hann getur ekki virkjað lögreglu og allra sízt borðalagðan ríkislögreglustjóra gegn hraðfara áhrifum ofbeldis, þar sem dópsalar og fallinn forsetaframbjóðandi fara hamförum með eigin réttarfari til að innheimta skuldir. Það er helzt, að heimilisofbeldi kveiki í pólitíkusum.

Dómvenja í kross

Punktar

Mikið er í fréttum þessa dagana. Það finnst okkur, sem erum ekki uppteknir af pólitískum hanaslag flokksleiðtoga um lítilsverð mál á borð við fjarvistir ráðherra . Við hin sjáum fréttir í málaflokkum, sem pólitískt klapplið og álitsgjafar líta niður á. Við sjáum til dæmis, hvernig dómvenja í ofbeldismálum heldur sig vægar fangavistir upp á tvö hundruð þúsund krónur eða minna, meðan kona sem dettur á rassinn á svelli fær tvær milljónir í skaðabætur. Dómstólar landsins eru greinilega að dæma út og suður án þess að nokkurt samhengi sjáist og án þess að þeir skammist sín.

Abbast upp á fólk

Punktar

EKKI ER FYRR búinn slagurinn um Vatnsmýrina en hafinn er nýr slagur um Sundabraut. Íbúar í Grafarvogi telja vera litið framhjá hagsmunum sínum í ráðagerðum Reykjavíkurlistans um framtíðarbaut norður sund og vestur á land. Þeir mótmæla hástöfum á fundum og skrifa blaðagreinar gegn útfærslunni.

REYKJAVÍKURLISTINN abbast í andarslitrunum í auknum mæli upp á borgarana. Sífellt hrannast upp andmæli gegn ráðagerðum listans, sem borgurunum finnst beinast gegn sér og nágrönnum sínum. Listinn hefur tapað tilfinningunni fyrir veruleikanum og rambar áfram í graut af blindu og hroka einræðisherrans.

STÓRI GALLINN við Reykjavíkurlistann eftir allt of langa stjórn á borginni er, að hann hefur lítil tengsl við fólkið og ráfar með byrðar af margs konar hugmyndafræði, sem fólkið hafnar. Af fundum með borgarbúum má til dæmis ráða, að þétting byggðar sé stefna, sem menn vilja allra sízt kyngja.

UM ALLA BORG á Reykjavíkurlistinn í útistöðum við borgarbúa út af nýbyggingum ofan í gömlu þéttbýli. Þessi mannvirki skerða útsýni og svigrúm þeirra, sem fyrir eru og auka álag á samgönguæðar. Listinn virðist vera að kvelja fólk til að nálgast draumóra um þéttbýli evrópskra kastalaborga.

LISTINN VARÐ fyrir léttum aðhlátri, þegar Íslenzkir aðalverktakar buðust til að leggja Miklubrautina í stokk frá Grensásvegi að Snorrabraut og gera það frítt, gegn því að fá að byggja á yfirborði stokksins. Þessi hugmynd er auðvitað svo sjálfsögð, að hún rúmast ekki í hugmyndafræði listans.

MIKLABRAUT Í STOKKI á þessum kafla er lykilatriði í að koma á fót viðstöðulausri umferð um allt Reykjavíkursvæðið, allt frá Mosfellssveit vestur að Umferðarmiðstöð, frá Sundum og til Hafnarfjarðar. Reykjavíkurlistinn er hins vegar lokaður í hugmyndafræði strætódýrkunar og haturs á einkabílisma.

NÚ ER LISTINN búinn að uppgötva, að bílastæði séu ekki heppileg á götuhæð. Þá má hann kannski muna eftir bílastæðum ofan á Faxaskála og Tollstöð, sem raunar er búið að loka. Það er eitt dæmið um, að veruleiki og ímyndun eiga litla samleið í Reykjavík á útmánuðum Reykjavíkurlistans.

DV

Mogginn er sorprit

Punktar

MORGUNBLAÐIÐ upplýsir, að Ástþór Magnússon hafi kært DV til lögreglustjóra fyrir að segja, að hann hafi sent hrotta til að ógna leigjanda sínum og reynt að fá DV tekið úr sölu í stórverzlunum.

MOGGINN gerir enga tilraun til að kanna, hvort DV hafi rétt fyrir sér. Slíkt skiptir engu máli að mati Moggans, enda er blaðið sorprit, sem fer ekki eftir grundvallarreglu fjölmiðlunar.

ÞAÐ SKIPTIR Morgunblaðið engu máli, að saga Ástþórs hin síðari ár hefur verið saga ofbeldis og furðulegra uppátækja, sem ættu að vera venjulegum fjölmiðli aðvörun um að fara varlega í stuðningi.

ÞEGAR ÁSTÞÓR réðist á einn mesta geðprýðismann landsins, Gunnar V. Andrésson, birti sorpritið þá frétt eftir Ástþóri, að Gunnar hefði ráðist á hann. Mogginn hefur engan áhuga á staðreyndum.

UM DAGINN birti þetta sama sorprit drottningarviðtal við Ólaf Börk Þorvaldsson, þar sem hvergi var vikið að skoðunum ýmissa umsagnaraðila um, hvort hann gæti orðið dómari við Hæstarétt.

ÓLAFUR BÖRKUR stjórnaði þessu viðtali sorpritsins frá upphafi til enda. Engin tilraun var gerð af hálfu þess til að spyrja hæstaréttardómarann áleitinna spurninga. Þetta er dæmigert Morgunblað.

UM HVERN er verið að skrifa, spyr maður stundum við lestur Moggans. Eða þá: Hver er hin hliðin. Og af hverju segir blaðið aldrei frá því, þegar úrskurðir siðanefndar eru DV í hag, en annars rækilega.

ÞEGAR RITSTJÓRI Moggans semur bók, er fjallað um hana í metravís í blaðinu. Þegar ritstjóri samkeppnisblaðs ritar fjórtán þungaviktarbækur um hrossarækt, er þeirra hvergi getið í blaðinu.

Í MORGUNBLAÐINU eru fréttir settar í skúffur, ef þær henta ekki ritstjóranum. Þar er hlaðið upp drottningarviðtölum við gæludýr blaðsins. Þar eru birtar fréttir, sem lúta ekki fyrstu forsendum blaðamennsku.

MOGGINN hefur lengi verið sorprit. Samt er hálf þjóðin svo svæfð, að hún telur blaðamennsku Moggans vera fyrirmynd.

DV

Bilaðir menn

Punktar

Ráðamenn Bandaríkjanna eru ekki einir bilaðir, heldur líka hálf bandaríska þjóðin, sem er sannfærð um, að pyndingar séu í lagi. Engar aðrar vestrænar þjóðir hafa svo brengluð viðhorf til pyndinga, nema kannski Bretar, sem lengi hafa falið illgerðir heimsveldis síns í garð þriðja heims fólks undir fölsku flaggi föðurlegrar umhyggju að hætti Rudyard Kipling. Allir aðrir eru furðu lostnir yfir fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar um ýmsa flugvelli, meðal annars um Keflavíkurflugvöll. Meira að segja nýfrjálsar þjóðir í Austur-Evrópu eru furðu lostnir yfir bilun Bandaríkjamanna.

Bush sleppur

Punktar

Eftir þrjú ár sleppur George W. Bush úr embætti, sem hann er óhæfur til að gegna. Eftir situr bandaríska þjóðin með þrúgandi skuldir hins opinbera, stóraukna stéttaskiptingu, eitrað andrúmsloft í pólitíkinni og svo auðvitað stríðið í Írak. Um allt þetta geta Bandaríkjamenn sjálfum sér kennt, því að þeir hafa endurkosið forsetann eftir að öllum varð ljóst, að hann var illa gefinn rugludallur í greipum meiri háttar glæpalýðs á borð við Cheney varaforseta og Rumsfeld stríðsráðherra. Aðeins eitt er ógert hjá George W. Bush, lýsa sigri í Írak og flýja af hólmi með skottið milli fóta.

Hvítur fosfór

Punktar

Notkun á hvítum fosfór í sprengjur er almennt bönnuð í alþjóðlega efnavopnasáttmálunum. Margir fjölmiðlar hafa logið, að hún sé aðeins bönnuð gegn óbreyttum borgurum, en ekki gegn óvinahermönnum. Það er rangt, hún er bönnuð gegn öllum, líka gegn hermönnum, uppreisnarmönnum, skæruliðum og hryðjuverkamönnum. Notkun bandamanna Íslands á hvítum fosfór í Falluja og víðar í Írak er hreinn og beinn stríðsglæpur Íslendinga, framinn var á vegum Halldórs Ásgrímssonar og stuðningsmanna hans og málstaðarins hér á landi. Enda spyr Guardian: Hvaða glæpi drýgja okkar bandamenn ekki í Írak?