Auðvitað kom í ljós, að fínustu hótel Parísar hafa samráð um verð eins og olíufélögin á Íslandi. Hrikalegt verðlag þeirra hefur farið upp úr öllu sambærilegu í öðrum heimsborgum. Þegar tveggja manna herbergi er komið upp undir 100.000 krónur á nótt, er eitthvað meira en lítið í ólagi. Þetta eru hótelin Crillon, Georg V, Ritz, Plaza Athénée, Meurice og Bristol. Þótt þetta séu allt góð hótel eru þau ekki svona miklu betri en önnur fín hótel, sem taka 20.000 krónur á nóttina. Auðvitað var það tölvupóstur, sem kom upp um þau, og nú hafa þau verið dæmd í háar fjársektir fyrir vikið.