Mogginn er sorprit

Punktar

MORGUNBLAÐIÐ upplýsir, að Ástþór Magnússon hafi kært DV til lögreglustjóra fyrir að segja, að hann hafi sent hrotta til að ógna leigjanda sínum og reynt að fá DV tekið úr sölu í stórverzlunum.

MOGGINN gerir enga tilraun til að kanna, hvort DV hafi rétt fyrir sér. Slíkt skiptir engu máli að mati Moggans, enda er blaðið sorprit, sem fer ekki eftir grundvallarreglu fjölmiðlunar.

ÞAÐ SKIPTIR Morgunblaðið engu máli, að saga Ástþórs hin síðari ár hefur verið saga ofbeldis og furðulegra uppátækja, sem ættu að vera venjulegum fjölmiðli aðvörun um að fara varlega í stuðningi.

ÞEGAR ÁSTÞÓR réðist á einn mesta geðprýðismann landsins, Gunnar V. Andrésson, birti sorpritið þá frétt eftir Ástþóri, að Gunnar hefði ráðist á hann. Mogginn hefur engan áhuga á staðreyndum.

UM DAGINN birti þetta sama sorprit drottningarviðtal við Ólaf Börk Þorvaldsson, þar sem hvergi var vikið að skoðunum ýmissa umsagnaraðila um, hvort hann gæti orðið dómari við Hæstarétt.

ÓLAFUR BÖRKUR stjórnaði þessu viðtali sorpritsins frá upphafi til enda. Engin tilraun var gerð af hálfu þess til að spyrja hæstaréttardómarann áleitinna spurninga. Þetta er dæmigert Morgunblað.

UM HVERN er verið að skrifa, spyr maður stundum við lestur Moggans. Eða þá: Hver er hin hliðin. Og af hverju segir blaðið aldrei frá því, þegar úrskurðir siðanefndar eru DV í hag, en annars rækilega.

ÞEGAR RITSTJÓRI Moggans semur bók, er fjallað um hana í metravís í blaðinu. Þegar ritstjóri samkeppnisblaðs ritar fjórtán þungaviktarbækur um hrossarækt, er þeirra hvergi getið í blaðinu.

Í MORGUNBLAÐINU eru fréttir settar í skúffur, ef þær henta ekki ritstjóranum. Þar er hlaðið upp drottningarviðtölum við gæludýr blaðsins. Þar eru birtar fréttir, sem lúta ekki fyrstu forsendum blaðamennsku.

MOGGINN hefur lengi verið sorprit. Samt er hálf þjóðin svo svæfð, að hún telur blaðamennsku Moggans vera fyrirmynd.

DV