Félagslegur rétttrúnaður

Punktar

HÉR Á AÐ VERA fjölmenningarþjóðfélag, heyri ég stundum eða les. Mér er ekki ljóst, hver er skilgreiningin á þessu hugtaki og finnst raunar stundum, að þetta sé ákveðið orðalag um, að fólk eigi að vera gott hvert við annað.

RAUNAR MINNIST ég ekki, að sett hafi verið nein lög eða reglugerð um fjölmenningarþjóðfélag á Íslandi. Hef grun um, að hugtakið sé búið til af þeim, sem vilja hafa sem bezt samkomulag milli innfæddra og innfluttra íbúa landsins.

ORÐIÐ fjölmenningarþjóðfélag er svokallað PC, “politically correct”, það er bandarískt hugtak, sem þýtt hefur verið “félagslegur rétttrúnaður” á íslenzku. Raunar er þetta bara fínt orðalag yfir það, sem áður var kallað “klisja”.

ÞEIR, SEM RÁÐA félagslegum rétttrúnaði á Íslandi, eru ekki stjórnmálamenn, prestar eða blaðamenn. Það eru talsmenn hagsmunasamtaka, þáttastjórnendur og álitsgjafar. Þeir tala hver við annan og móta, hver sé félagslegur rétttrúnaður.

ANDSTAÐA VIÐ stríðið gegn Írak er félagslegur rétttrúnaður. Þótt sú andstaða kunni að vera réttmæt eins og svokallað fjölmenningarþjóðfélag kann að vera réttmætt, er hún notuð af flestum eins og meiningarlaus klisja, svona af því bara.

FÉLAGSLEGUR rétttrúnaður á Íslandi segir, að ekki skuli birta mannanöfn og mannamyndir í innlendum fréttum á Íslandi. Ennfremur, að fjölmiðlum skuli vera ritstýrt og fréttastýrt með hliðstjón af tillitssemi og almannaheill.

ORÐIÐ ALMANNAHEILL er þá sennilega skilgreint af handhöfum félagslegs rétttrúnaðar. Það er eitt af þessum þægilegu orðum, sem þýða í rauninni bara það sem erkiklerkar félagslegs rétttrúnaðar ákveða hverju sinni, að henti.

ALDREI HEFUR þótt skynsamlegt að efast um gildi félagslegs rétttrúnaðar. Eigi að síður er stundum gaman að velta fyrir sér, hvaða gamlar klisjur séu þar á ferð í nýjum fötum.

DV