Punktar

Nóbelsskáld talar út

Punktar

HAROLD PINTER sneri bókmenntahátíð Nóbels upp í harðskeytta árás á stríðsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak og á stuðning Bandaríkjanna við nánast alla ógeðslegustu glæpamennina í stétt þjóðarleiðtoga á síðustu áratugum.

HINN 75 ÁRA gamli rithöfundur sagði í ávarpi sínu, sem flutt var við afhendingu verðlaunanna: “Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerfisbundnir, stöðugir, ógeðslegir, samvizkulausir, en samt hafa fáir talað um þá.”

PINTER SAGÐI, að glæpir Sovétríkjanna hefðu verið nákvæmlega skráðir, en ekki hefði enn verið gerð skýr grein fyrir glæpum Bandaríkjanna, sem ættu þó að vera veigamesti efniviður veraldarsögunnar frá stríðslokum.

SÉRSTAKA ÁHERZLU lagði Pinter á snjallt orðalag, sem Bandaríkin hafi búið til um illsku sína á alþjóðavettvangi, allt frá skipulögðum pyntingum um allan heim yfir í endurteknar árásir á fátæk ríki í þriðja heiminum.

SLÍKT ORÐALAG hafi valdið því, að venjulegir Bandaríkjamenn skilja ekki og vita jafnvel ekki um framferði Bandaríkjanna í heiminum, sem Harold Pinter kallar “ríkisrekin hryðjuverk og fyrirlitningu á alþjóðalögum”.

HAROLD PINTER sagði líka nauðsynlegt, að Tony Blair yrði dreginn fyrir Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn í Haag fyrir eindreginn stuðning hans við stríðsglæpastefnu Bandaríkjanna og aðild Bretlands að þeim glæpum.

SJALDAN HEFUR ávarp verðlaunahöfundar á Nóbelshátíð vakið eins mikla athygli og ávarp Pinters að þessu sinni. Ýmsir aðrir höfundar hafa vaknað upp og birt greinar um svipað efni.

NAOMI KLEIN rekur í Guardian, hvernig Bandaríkin hafi pyntað ekki bara tugþúsundir manna, heldur hundruð þúsunda manna til dauða við ýmis tækifæri, sem hún rekur. Hún er að tala um hundruð þúsunda manna. Dauðra.

Á LOTFSLAGSRÁÐSTEFNUNNI í Montreal um helgina stóðu öll ríki heimsins saman um ályktun um framvindu Kyoto-bókunar. Aðeins einn neitaði: Bandaríkin, svívirða heimsins.

DV

Þolanleg sveit

Punktar

Sumir reisa eða kaupa sumarhús. Við keyptum jörð. Það kemur í sama stað niður. Samanburðurinn við heimilið er oftast seinni bústaðnum í óhag. Okkur þykir ISDN-tölvutengin sveitanna fornleg og bilanagjörn. Við erum ekki sátt við sturtuna. Við viljum fá rafdrifinn rúmbotn. Okkur finnst langt í fiskbúð og bakarí, höfum bara venjulegan stórmarkað í kortérs fjarlægð. Við sjáum bara ríkið í sjónvarpinu. Ef ekki væru hestarnir, þætti mér raunar þunnur þrettándinn í sveitinni, þótt fátt hafi verið til sparað að gera hana

Heima er bezt

Punktar

Bandarísk áhrif á evrópska hótelmenningu breyttu kröfum okkar um eigið húsnæði heima á Íslandi. Við fórum að gera meiri kröfur til rúma, vildum fá öflugar sturtur og stór handklæði. Við höfum meira að segja farið töluvert fram úr hótelmenningunni, heimtum rúm með rafdrifnum botni, svo að hægt sé að lesa í rúminu eða horfa á sjónvarp. Og víða er kominn heitur pottur hjá fólki. Svo er nú komið, að mörgu fólki líður hvergi betur en heima hjá sér. Ef við verðum að gista annars staðar, erum við farin að líta á það sem áhættu. Við söknum hversdagslegra þæginda heima hjá okkur.

Ekki kjósendavænir

Punktar

ÁRNI MAGNÚSSON hagaði sér eins og bulla, þegar hann varð ráðherra, taldi sér kleift að sýna mátt sinn og megin. Nú er eftirleikurinn búinn að ná í skottið á honum með niðurstöðu í Hæstarétti. Árni var ekki fulltrúi nýs tíma og ungs fólks í ríkisstjórn. Hann var frá upphafi einn af forngripunum.

MANNVAL FRAMSÓKNARflokksins líður fyrir grimmd sögunnar. Flokknum tókst ekki að hindra flótta þjóðarinnar á mölina og honum tókst ekki að hindra gjaldþrot samvinnustefnunnar. Hann er orðinn að vinnumiðlun, sem útvegar illa hæfu fólki vinnu hjá hinu opinbera. Ráðherrarnir eru partur af því.

VALGERÐUR SVERRISDÓTTIR höfðar ekki heldur til unga fólks, er alltaf með samanbitnar varir í sjónvarpi og geltir í sífellu eins og hundur að reka úr túni. Segir andstæðinga misskilja allt hundrað prósent og hafa hundrað prósent rangt fyrir sér. Varðhundar í pólitík eru ekki álitleg söluvara.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN hefur lítið fylgi í könnunum af ýmsum ástæðum. Málefni hans eru mörg hver útdauð eða úrelt. Allir sjá, að þau hafa vikið fyrir ágirnd í stöður. Þess vegna er flokkurinn kallaður vinnumiðlun. Hann er persónugervingur þess, sem ungt fólk vill sízt sjá í landsmálunum í dag.

HALLDÓR ÁSGRÍMSSON ber hæst í flokknum. Hann fer með skattfé eins og skít, eyðir þeim í sendiráð og aðra fínimannsleiki í útlöndum eða þá til að gefa sjálfum sér eftirlaunaauka og kvóta. Í sjónvarpi og á myndum virðist hann vera illa sofinn og pirraður, nema síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar.

JÓN KRISTJÁNSSON virðist afar daufgerður maður, sem helzt kann að búa til lausavísur. Hann þykist vilja vel öldruðu fólki og öryrkjum, sjúkum og slösuðum, en getur aldrei staðið við nein loforð og er alltaf með hala vandamála á eftir sér. Í rauninni er hann að skera niður velferðina.

GUÐNI ÁGÚSTSSON er eini maðurinn í ráðherraliði Framsóknar, sem höfðar til kjósenda. Hann hefur reynzt vera húmoristi innan um fýlupoka flokksins, hvarvetna eftirsóttur sem veizlustjóri og tækifærisræðumaður. Enda er fýluliðið í vinnumiðluninni alltaf að reyna að grafa undan honum.

FYRIR UTAN Guðna er ráðherralið Framsóknarflokksins ekki til þess fallið að afla flokknum fylgis meðal kjósenda.

DV

Bíllinn er úti

Punktar

Enn þarf ég að vetrarklæða mig til að komast úr húsi út í bíl og úr bíl inn á vinnustað. Sumir eru svo heppnir að búa í blokkum, þar sem bílageymslur eru í kjallara og vinna í hliðstæðum skrifstofublokkum og geta farið í Kringluna undir þaki. Þeir þurfa ekki að vetrarklæða sérstaklega upp fyrir þessa metra, sem ég þarf að standast á hverjum morgni. Það er auðvitað framtíðin, að fólki geti ákveðið, hvort það vilji umgangast veðrið meira en til spari um helgar. Mér líst æ meira svo á, að Samfylkingin og aðrir strætóflokkar einkabílaóbeitar séu lokaðir inni í vonlausri hugmyndafræði.

Góð afstaða

Punktar

Eina undantekningin á óbeit ríkisstjórnarinnar á góðum málum er stuðningur umhverfisráðuneytisins við bókunina um losun gróðurhúsalofttegunda, sem kennd er við Kyoto. Á alþjóðlegum framhaldsfundi í Montreal í Kanada hafa fulltrúar ráðuneytisins staðið með Norðurlöndum og öðrum Evrópuríkjum um afstöðu, sem er andstæð sterkri afneitun Bandaríkjastjórnar. Allir aðrir en Ástralía, þar á meðal Bretland, eru andvígir sjónarmiðum Bandaríkjanna, sem líkja má við kengúrur þær, sem stinga höfðinu í sandinn í Ástralíu. Afstaða Íslands er góð og laus við undanbrögð.

Mannréttindi vond

Punktar

Ríkisstjórninni og sérstaklega Birni Bjarnasyni ráðherra finnst mannréttindi vera vond, ef þau fjalla um innlend mál. Til dæmis lögregluofsóknir á hendur Falung Gong og á hendur þeirra, sem mótmæltu Kárahnjúkavirkjun. Ríkisstjórnin vill ekki, að Mannréttindastofa sé af skipta sér af ákvörðunum stjórnvalda af því tagi. Þess vegna hefur hún refsivönd á loft og afnemur greiðslur ríkisins. Magnúsi Stefánssyni var svo skipað að verja vondan málstað í fjárveitinganefnd og er það vel við hæfi. Allir flokkar stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt harðlega óbeit ríkisstjórnarinnar á mannréttindum.

Stimpill Tryggva

Punktar

Ég sé, að enn einu sinni hefur ríkisstjórnin kallað í Tryggva Þór Herbertsson til að gefa henni siðferðisvottorð. Nú gengur hann að vísu ekki undir dulnefninu Hagfræðistofnun Háskólans, en eins og jafnan áður er hann innilega sammála stjórnvöldum. Að þessu sinni segir Tryggvi, að Stefán Ólafsson hafi skrifað vitlausa skýrslu um hagi öryrkja. Jón Steinar Gunnlaugsson var notaður í svipuðu skyni, áður en hann varð prófessor, til að skrifa lögfræðiálit, sem voru hagstæð ríkisstjórninni. Það þykir mjög gott hjá kerfinu að hafa aðgang af óháðum álitsgjöfum, þegar mikið liggur við.

Þykist koma af fjöllum

Punktar

HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra segir sér hafa komið á óvart tölurnar í skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors um örorku og velferð á Íslandi. Þetta er undarleg yfirlýsing, því að ríkisstjórnin hefur skipulega ráðizt gegn fátækum.

ÁRIÐ 1996 voru laun og bætur aftengdar af Halldóri sjálfum og kollegum hans í ríkisstjórn. Þá byrjaði staða öryrkja strax að síga á ógæfuhliðina. Skattleysismörk fylgdu ekki verðlagsþróun árin 1995-2004, samkvæmt ákvörðun Halldórs.

STEFÁN REKUR í skýrslunni hvernig þessar og aðrar aðgerðir stjórnvalda hafa komið íslenzkum öryrkjum og gömlu fólki í vandræði. Öryrkjar geta ekki einu sinni unnið hálfa vinnu án þess að Halldór ræni af þeim tekjuaukanum að mestu leyti.

RANGAR ERU fullyrðingar afturhaldsmanna um, að hér á landi sé allt fullt af fölskum öryrkjum, sem lifi á kerfinu. Skýrsla Stefáns sýnir, að öryrkjar eru hlutfallslega fáir hér á landi og minni byrði á kerfinu en í nálægum ríkjum.

SKÝRSLAN SÝNIR mikla andstæðu milli markvissrar stefnu annarra ríkja um að auka þátttöku öryrkja og aldraðra í atvinnulífinu og þjóðfélaginu almennt og þeirrar markvissu stefnu Halldórs og félaga að kúga og niðurlægja þessa aðila.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir hefur tekið þetta mál upp af hörku á Alþingi. Þýðingarlaust er fyrir forsætisráðherra að þykjast koma af fjöllum, nema hann hafi árum saman verið meðvitundarlaus og þar af leiðandi óhæfur til starfa.

HALLDÓR MINNIR á flokksbróður hans, Jón Kristjánsson, sem telur sig ekki geta staðið við loforð um leiðréttingar og verður að sæta því, að með málaferlum sé réttlæti sótt í greipar ríkisstjórnar, sem hefur ranglæti að stefnumiði.

DV

Evrópa er klumsa

Punktar

CONDOLEEZZA RICE er þessa dagana að segja ráðamönnum Evrópu að éta það, sem úti frýs. Þeir eigi ekki að vera að væla um pyndingar og annað ógeð, heldur styðja Bandaríkin, sem standi ein á vaktinni gegn ógnum hryðjuverka, líka í Evrópu.

MARGIR RÁÐAMENN vita upp á sig samsektina. Víða í Evrópu, ekki bara í Austur-Evrópu, hafa leyniþjónustur starfað með bandarísku leyniþjónustunni, sums staðar án vitundar stjórnvalda og annars staðar með vitund einstakra ráðherra.

EFTIR UMRÆÐUNA um pyndingar í bandarískum fangelsum í Evrópu hefur slíkum fangelsum skyndilega verið lokað, til dæmis í Póllandi og Rúmeníu og fangar fluttir annað. Síðustu fréttir segja, að þeir hafi verið fluttir til ríkis í Sahara.

RICE SEGIR, að Bandaríkjamenn stundi ekki pyndingar. Hún segir það, af því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur endurskilgreint pyndingar á þann hátt, að þær feli ekki í sér pyndingar. Kenningar hennar eru byggðar á hundalógík.

RICE GETUR ÞESS ekki í leiðinni, að Bandaríkjastjórn gerir greinarmun á því, sem gert er í Bandaríkjunum sjálfum og því sem gert er í fangelsum þeirra utan landamæranna og laganna, svo sem í Abu Gharib og Guantanamo, Póllandi og Rúmeníu.

NIÐURSTAÐA ferðar Rice er, að evrópsk stjórnvöld verða með japl og jaml og fuður. Þau vita, að almenningur er á móti pyndingastefnu Bandaríkjanna, en vita um leið, að þau eru sjálf meðsek og vilja ekki sífellt vera að rífast við Rice.

ÞÝZKALAND hefur nýjan kanzlara, sem vill viðra sig upp við Bandaríkin. Bretland samþykkir allt, sem Bandaríkin gera. Frakkland hefur forseta í sárum. Pólland er kaþólskara en páfinn. Slíkt lið getur ekki haft hemil á Bandaríkjunum.

DV

Umferð í stokka

Punktar

Íslenzkir aðalverktakar hafa boðizt til að leggja Miklubraut í stokk gegn því að fá byggingarlóðir á landinu, sem verður til ráðstöfunar ofan á stokkunum. Þetta er frábær hugmynd, sem sýnir, að umferðarstokkar undir yfirborði jarðar eru alls ekki dýrir, heldur spara beinlínis peninga. Auk þess gefa þeir kost á mislægum gatnamótum, sem þurfa að vera á allri Miklubraut austan frá Grensásvegi vestur að nýju Hringbrautinni, sem sveigir fagurlega suður fyrir væntanlega stækkun Landsspítalans. Þótt sú braut sé ágætt mannvirki, hefði verið betra að setja hana í stokk vegna landnýtingar.

Frekir Bjöggar

Punktar

Enn hafa Björgólfar haft afskipti af útgáfustefnu Eddu og í þetta sinn kippt út þeim kafla bókar Guðmundar Magnússonar um Thorsarana, þar sem fjallað var um bandarískan leiðtoga nýnazista, George Lincoln Rockwell, sem fyrir margt löngu var kvæntur núverandi eiginkonu Björgólfs Guðmundssonar. Við höfum nokkur þekkt dæmi um það frá útlöndum, að ekki er hollt, að afskiptasamir auðmenn eigi fjölmiðla, þar á meðal bókaforlög. Rupert Murdoch er skæðasta dæmið um eitruð áhrif slíkra manna og annað er Robert Maxwell, sem raunar framdi sjálfsmorð, þegar fjölmiðlapælingar hans fóru út um þúfur.

Ljót kaþólska

Punktar

Pólland er orðið forusturíki afturhalds í Evrópusambandinu, berst gegn rétti til fóstureyðinga og sérstökum réttindum kvenna. Segja má, að ljótt og úfið andlit kaþólskrar kirkju sé aftur orðið sýnilegt í Evrópusambandinu, sem áður var orðið að veraldlegri stofnun, er ekki vildi nefna guð í stjórnarskránni. Nú er að frumkvæði Pólverja búið að draga fram ágreiningsefni, sem áður voru talin vera afgreidd. Það voru Pólverjar, sem reyndu að hindra fall Rocco Buttiglione ráðherra, sem lét falla ummæli andstæð konum og hommum. Stundum getum við verið fegin fáum kaþólikkum hér á landi.

Öfgar í veggjakroti

Punktar

VEGGJAKROT hefur farið út í öfgar að undanförnu. Sprautað hefur verið á umferðarskilti og spillt ýmsum öðrum texta á almannafæri, sem er til að þjóna fólki. Með því er graffiti komið langt frá hugmyndum sumra, að það sé list, veggjalist.

LÖGREGLAN og þjóðfélagið í heild hefur hingað til tekið milt á veggjakroti. Það breytist fljótt, þegar krotið fer út í öfgar. Hugmyndir vakna þá um, að fylgja fast eftir gildandi banni við veggjakroti og draga krotara til peningaábyrgðar.

EKKI ER SANNGJARNT að draga alla krotara undir sama hatt. En þeir verða að gera sér grein fyrir, að iðja þeirra er á viðkvæmu sviði, klárlega bönnuð lögum samkvæmt. Þeir geta þá aðeins þrifizt, að þjóðfélagið geri ekki uppreisn gegn þeim.

LJÓST ER að graffiti veldur miklum kostnaði hjá eigendum mannvirkja, til dæmis hjá Vegagerðinni og Strætó, sem eru að reyna að þjóna almenningi. Árlega fara tugir milljóna í að hreinsa veggjakrot. Sanngjarnt er, að krotarar borgi þetta.

Í NEW YORK var um skeið rekin svokölluð “zero tolerance” stefna, sem fól í sér, að tekið var hart á svokölluðum smáglæpum á þeirri forsendu, að stórglæpir mundu þá síður vera framdir. Þetta reyndist vera rétt, stórglæpir minnkuðu.

FLESTUM ER ljóst, að útkrotuð borg líkist samfelldu Harlem, fátækrahverfi, þar sem fíkniefnasalar og annar lýður undirheimanna fara sínu fram. Með því að hreinsa krotið daglega verjast þeir, sem standa undir reisn þjóðfélagsins.

TÍMI ER KOMINN til að elta krotara uppi og taka hart á þeim. Þeir hafa farið langt út fyrir eðlileg mörk, þegar þeir eru farnir að ráðast á skilti til upplýsingar fyrir almenning. Þeir skilja ekki stöðuna, fyrr en reikningurinn kemur.

DV

Botnvörpurnar

Punktar

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur nú hafnað tillögu um alþjóðlegt bann við botnvörpum. Tillagan kom fram, af því að komið hefur í ljós, að botnvörpur skrapa botninn og trufla á þann hátt mikilvægasta svæði sjávarins, til dæmis fyrir tímgun fiska og sjávardýra. Íslenzk stjórnvöld voru auðvitað á móti tillögunni, því að við höfum enn ekki áttað okkur á, að fiskimiðin við Ísland eru hætt að vera sjálfbær. Þau sæta rányrkju á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, enda munu fiskveiðar við Ísland ekki geta fengið vottun hjá Marine Stewardship og íslenzkar vörur munu detta úr keðjuverzlunum.