Þykist koma af fjöllum

Punktar

HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra segir sér hafa komið á óvart tölurnar í skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors um örorku og velferð á Íslandi. Þetta er undarleg yfirlýsing, því að ríkisstjórnin hefur skipulega ráðizt gegn fátækum.

ÁRIÐ 1996 voru laun og bætur aftengdar af Halldóri sjálfum og kollegum hans í ríkisstjórn. Þá byrjaði staða öryrkja strax að síga á ógæfuhliðina. Skattleysismörk fylgdu ekki verðlagsþróun árin 1995-2004, samkvæmt ákvörðun Halldórs.

STEFÁN REKUR í skýrslunni hvernig þessar og aðrar aðgerðir stjórnvalda hafa komið íslenzkum öryrkjum og gömlu fólki í vandræði. Öryrkjar geta ekki einu sinni unnið hálfa vinnu án þess að Halldór ræni af þeim tekjuaukanum að mestu leyti.

RANGAR ERU fullyrðingar afturhaldsmanna um, að hér á landi sé allt fullt af fölskum öryrkjum, sem lifi á kerfinu. Skýrsla Stefáns sýnir, að öryrkjar eru hlutfallslega fáir hér á landi og minni byrði á kerfinu en í nálægum ríkjum.

SKÝRSLAN SÝNIR mikla andstæðu milli markvissrar stefnu annarra ríkja um að auka þátttöku öryrkja og aldraðra í atvinnulífinu og þjóðfélaginu almennt og þeirrar markvissu stefnu Halldórs og félaga að kúga og niðurlægja þessa aðila.

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir hefur tekið þetta mál upp af hörku á Alþingi. Þýðingarlaust er fyrir forsætisráðherra að þykjast koma af fjöllum, nema hann hafi árum saman verið meðvitundarlaus og þar af leiðandi óhæfur til starfa.

HALLDÓR MINNIR á flokksbróður hans, Jón Kristjánsson, sem telur sig ekki geta staðið við loforð um leiðréttingar og verður að sæta því, að með málaferlum sé réttlæti sótt í greipar ríkisstjórnar, sem hefur ranglæti að stefnumiði.

DV