Punktar

Örmerki í gamlingja

Punktar

Örmerki hafa verði sett í aldrað fólk sums staðar í Bandaríkjunum, segir í Observer. Á merkinu er rakin sjúkrasaga þess. Þegar ekið er með aldrað fólk í sjúkrabíl á sjúkrahús má skanna örmerkið, fá þar sjúkrasögu þess og fara með það beint í viðeigandi aðgerð í stað þess að láta það liggja átta tíma aðgerðarlaust á spítalanum með verið er að finna sjúkrasöguna. Örmerkin eru ódýr, kosta nokkur þúsund krónur, og hver skanni kostar innan við 50 þúsund krónur. Þessi örmerki eru ekki sögð valda óþægindum. 80 spítalar hafa þegar tekið þau upp fyrir vestan. Hvenær koma þau hér?

Vaða um allt

Punktar

Landsvirkjun veður fram og aftur um hálendið og leggur út vegarspotta til að koma þungum tækjum fyrir á ótrúlegustu og afskekktustu stöðum. Ekki veit ég, hver leyfir henni þær landskemmdir. Í fyrra lagði hún veg meðfram Langasjó að Fögrufjöllum, sem eru eitt sérstæðasta svæði landsins, dulúðug vin í eyðimörkinni. Nú er Landsvirkjun búin að spilla þessu umhverfi án þess að tala við neinn. Þykist hún eiga Ísland? Er ekki kominn tími til, að stjórnvöld átti sig á, að forustumenn Landsvirkjunar eru ekki með öllum mjalla og láti þá svara til saka?

Ýktu tölurnar

Punktar

Flett er ofan af sölubæklingum Landsvirkjunar í bókinni Draumalandið eftir Andra Snæ Magnússonar, sem kemur út á morgun. Samkvæmt bæklingunum er virkjanlegt vatnsafl 30 teravattstundir, sem þýðir, að virkja þarf nánast hverja sprænu á Íslandi nema Gullfoss í Hvítá. Þar með þarf að virkja frægar laxveiðiár á borð við Grímsá, Selá og Stóru-Laxá. Alla þessa orku auglýsir Landsvirkjun erlendis í bæklingum sem vannýtta orku á vægu verði. Lengi hef ég talið, að forustumenn Landsvirkjunar séu landráðamenn, sem falsi tölur. En vissi ekki fyrr en nú, að þeir eru líka ruglaðir.

Ég vissi það

Punktar

Halldór Ásgrímsson segist hafa grunað um nokkurt skeið, að herinn mundi fara. Honum er sama, þótt næsta spurning sé, “af hverju léstu fólk þá ekki vita”. Hann segist hafa talað utan um það á miðstjórnarfundi Framsóknar. Þar var enginn nógu vel vakandi til að hlusta. Halldór þjáist mest af áhyggjum af að vera sakaður um að vita ekki, hvað gerist kringum hann. Þess vegna bregst hann við eins og gamall samstarfsmaður minn gerði alltaf. Til dæmis þegar ég sagði: “Það er ljós á bílnum þínum úti á plani.” Þá sagði hann “Ég vissi það.”

Þeir dá Jón væna

Punktar

Dick Cheney er frægastur fyrir að hafa sýnt mikið þrek við að sleppa undan herþjónustu rétt eins og forsetinn sjálfur. Fyrirmynd þeirra beggja er leikarinn John Wayne, sem líka tókst að sleppa undan herþjónustu. Wayne er frægasta tákn bandarísku ímyndunarinnar, þar sem löggiltir hugleysingjar þykjast vera töffarar, sérstaklega ef þeir komast yfir byssu. Cheney og Bush dá Wayne bíómyndanna og reyna að líkjast honum. Þeir eru ekki einir um trúna á goðið, heldur hafa milljónir Bandaríkjamanna byssu í kommóðunni og bíða eftir tækifæri til að skjóta þig.

Draumur gamlingjans

Punktar

Dick Cheney er táknmynd Bandaríkjanna, skotglaði gamlinginn, sem ráfar um heiðar þriðja heimsins með byssu og skýtur allt sem hreyfist, rétt eins og annar gamlingi, Ariel Sharon í Ísrael, sem hefur um áratuga skeið látið skjóta börn og gamalmenni á færi. Cheney er andlegur lærifaðir sérkennilegs hóps manna, sem lifir í draumaheimi, þar sem staðreyndir fá hvergi að trufla drauminn um, að Bandaríkin geti með stórvirkum manndrápstækjum skotið bandarískum gildum úr kúrekamyndum leið að hjörtum forviða fólks í þriðja heiminum. Cheney frelsar fólk með því að skjóta það.

Hættulegur gamlingi

Punktar

Dick Cheney, skotglaði gamlinginn bakvið George Bush forseta, er valdamesti varaforseti Bandaríkjanna frá upphafi, höfundur stefnunnar, sem hefur rutt Bandaríkjamönnum úr samfélagi þjóðanna. Cheney sér illa, en stundar samt fuglaveiðar, af því að stjórnmálamenn þar í landi verða að þykjast vera “macho” til að komast áfram í lífinu. Um daginn skaut hann 78 ára vin sinn í þriggja metra fjarlægð og fyllti hann af höglum. Karlinn fór í mikla aðgerð og dó ekki. Cheney gamla þótti þetta svo sjálfsagt, að hann hélt því leyndu nokkra daga, en fréttin lak þó út.

Björn svaf rótt

Punktar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur rústað landhelgisgæzlunni, svo að hún getur ekki tekið við björgunarþætti varnarliðsins. Viðhald á þyrlum gæzlunnar er í lágmarki og fjárveitingar þessa árs geta ekki haldið þeim úti. Skip gæzlunnar búa við enn meira fjársvelti og liggja í höfn mánuðum saman. Ef hann hefði skilið stjórnvöld Bandaríkjanna, hefði hann undirbúið brottför varnarliðsins í tæka tíð, en ekki sofið rótt á verðinum. Nú verða ákvarðanir um nýjar þyrlur miklu dýrari en ella, af því að ekki verður hægt að beita útboði og lækka þannig kostnað.

Geir var glaður

Punktar

Fyrst og fremst eru það Davíð og Halldór, sem hafa síðan 2003 logið því að þjóðinni, að þeir væru í fínu sambandi við ráðamenn Bandaríkjanna og gætu því hindrað brottför þota og þyrlna. Sennilega hefur Davíð hætt í pólitík til að þurfa ekki að mæta kjósendum með þessa lygi á bakinu. Geir Haarde hefur líka tekið þátt í að blekkja okkur. Hann var í Washington fyrir skömmu og lýsti ánægju með fundinn. Ætla mátti, að hann hefði fengið vilyrði fyrir langri frestun á brottför þota og þyrlna. Nú hefur komið í ljós, að hann laug eins og hinir tveir.

Þeir fari allir

Punktar

Davíð Oddsson sagði árið 2003, að varnarsamningurinn við Bandaríkin væri úr sögunni, ef annar aðili breytti honum einhliða. Sama ár sagði Halldór Ásgrímsson, að varnir án þota og þyrlna væru engar varnir. Bandaríska varnarmálaráðuneytið sagði fyrir nokkrum áratugum, að ólögleg væri einhliða ákvörðun um samsetningu varnarliðsins. Af þessum ummælum má ljóst vera, að varnarsamningurinn fellur sjálfkrafa úr gildi í haust, þegar þoturnar og þyrlurnar fara samkvæmt einhliða ákvörðun. Bandarískir hermenn verða því allir að fara í haust. Allir.

Ekki fullvalda

Punktar

Anne Applebaun gerir í Washington Post grín að hræðslu þingmanna við, að bandarískt fyrirtæki með hentifána í Dubai taki að sér rekstur sex hafna við austurströnd Bandaríkjanna. Hún bendir á, að hafnir í New York, New Jersey og San Francisco séu reknar af öðru fyrirtæki í Dubai, olíuhreinsun og vegatollar af brezkum og spönskum fyrirtækjum. Raunar hafa útlendingar keypt mikið af innviðum og efnahagslífi Bandaríkjanna. Auk þess sem Kína á svo mikið af dollurum, að það getur hvenær sem er valdið hruni hans í kauphöllum. Bandaríkin eru ekki lengur fullvalda.

Sullenberger

Punktar

Jón Sullenberger fær högg í úrskurði Hérðasdóms um sakleysi Baugsmanna í málaferlum, sem ríkið hóf gegn þeim að undirlagi Jóns Sullenberger, Jónínu Benediktsdóttur, Styrmis Gunnarssonar og fleiri aðila, sem af ýmsum átæðum töldu sig eiga um sárt að binda. Héraðsdómur sagði skýrt, að Sullenberger væri ekki áreiðanlegt vitni og hafnaði rökum hans og skjölum. Málið er svo sem ekki enn búið, en hingað til hefur leið þess um dómskerfið verið þyrnum stráð. Sú ganga hefur verið ríkislögreglustjóra og efnahagsbrotadeild hans til meiri skammar en áður hefur þekkzt í stjórnsýslunni.

Þyrlurnar fara

Punktar

Þá er herinn loks að fara, enda langt síðan Sovétríkin lögðu upp laupana. Þoturnar og þyrlurnar fara í síðasta lagi í september. Þetta eru mestu tímamót eftirstríðsáranna, því ekkert mál hefur sundrað þjóðinni eins og þetta. Brottförin stríðir gegn drýgindalegum yfirlýsingum Davíðs og Halldórs, sem hafa gortað af fínu sambandi við Washington, þar sem þeir hafi náð eyra George W. Bush. Annað hvort eru Davíð og Halldór ekki nógu greindir eða að þeir hafa látið bjartsýnina hlaupa með sig í gönur. Eða þá að þeir hafa bara verið að ljúga að okkur.

Einmana veldi

Punktar

Bandaríkin hafa einangrazt í Sameinuðu þjóðunum. Öll önnur ríki hafa komið sér saman um nýskipan mannréttinda í nýrri stofnun, sem Bandaríkin sættir sig ekki við. Almennt er talið hjá Sameinuðu þjóðunum, að sendiherra Bandaríkjanna sé að bregða fæti fyrir samtökin í hverju málinu á fætur öðru. Þetta hefur ekki leitt til þess, að ríki flaðri upp um Bandaríkin til að hafa þau góð, heldur hafa þau sameinazt um að hamla gegn yfirganginum. Við erum að sigla inn í tímabil, þar sem forustu Bandaríkjanna er hafnað í hverju málinu á fætur öðru.

Völdin gufa upp

Punktar

Bandaríkin eru að hætta að vera heimsveldi. Noam Chomsky rithöfundur bendir í Guardian á, að hvarvetna sé þriðji heimurinn að hafna forskriftum frá Bandaríkjunum. Suður-Ameríku er að mestu leyti stjórnað af vinstri sinnuðum andstæðingum þeirra. Venezúela hefur olíuna og er komið í viðskiptaklúbbinn Mercosur. Fín sambúð er milli Venezúlea og Kúbu, sem sendi flesta lækna til Pakistan eftir jarðskjálftana. Sambúð Írans og Kína er vaxandi og Kína hefur rýtinginn á hálsi Bandaríkjanna, því að ríkið heldur dollarnum á floti og getur hætt því fyrirvaralaust.