Punktar

Lögregluríki Egypta

Punktar

Egyptaland er hratt að breytast úr venjulegu einræðisríki í eindregið lögregluríki, þar sem fólk er ofsótt fyrir að mótmæla aðgerðum stjórnvalda. Lögreglumenn nauðga konum, sem safnast á mótmælafundi og dómarar eru reknir fyrir að reyna að fara að lögum. Mubarak forseti er fylgislaus í landinu, orðinn einn af einræðisherrum Bandaríkjastjórnar, sem hún flokkar undir sæmdarheitið “our son of a bitch”. Mannréttindabrot Mubaraks í skjóli Bandaríkjanna fara vaxandi með viku hverri.

Hrói höttur

Punktar

Hugo Chávez hefur vakið mikla reiði á Vesturlöndum, einkum í Bandaríkjunum, sem telja forseta Venezúela andstæðan hagsmunum sínum. Enda hefur hann komið hlutfalli læsra í landinu upp fyrir hlutfallið í Bandaríkjunum og dreifir auði landsins frá hinum ríku, sem áður héldu íbúum landsins í sárustu fátækt. Hann er Hrói höttur nútímans og hefur einnig hvatt nýjan forseta Bólivíu, Evo Morales, til að brjótast undan ofurvaldi Bandaríkjanna. Almenningur í Venezúela hefur mun betri lífskjör en áður var. Bandaríkin og Evrópa eru að vonum reið yfir þessu stílbroti í hnattvæðingunni.

Skannaðar bækur

Punktar

Þúsundir manna í heiminum hafa atvinnu af að skanna bækur í stafrænt form fyrir tölvur. Google er að skanna allar bækur fimm stórra bókasafna. Amazon hefur skannað nokkur hundruð þúsunda bóka. Komið er í notkun svissneskt tæki, 4DigitalBooks, sem flettir bókum og skannar þær sjálfvirkt. Sá tími nálgast, að almenningur hafi allar enskar bækur aðgengilegar til lestrar og uppflettingar. Höfundar og útgefendur telja þetta vega að höfundarétti og hafa fengið hann lengdan í Bandaríkjunum. Frekar ætti að stytta hann niður í fimm ár. Skönnun allra íslenzkra bóka er mesta þjóðernismál okkar, hvenær fáum við svissneska tækið?

Dauður Hummer

Punktar

Stóri Hummer-jeppinn selst hvergi nema á Íslandi. Aðeins 98 eintök hafa selzt í heiminum á þessu ári. Því hefur General Motors ákveðið að hætta að framleiða þennan umdeilda bíl, sem kom Framsókn-Exbé í vandræði, þegar honum var lagt í stæði fatlaðra. Áfram verða framleiddar minni útgáfur, sem byggðar eru á Chevrolet Tahoe og Colorado. Mikil sorg er kveðin að Arnold Schwarzenegger, sem fyrstur keypti stóran, og Framsókn-Exbé, sem lagði Hummer í stæði fatlaðra. Svo lágt er tegundin fallinn, að fimm óseld stykki voru um helgina notuð sem kyrrstæð dómhús á Reykjavíkurmóti hestamanna.

Elsku úthverfin

Punktar

Útlendingar eru ekki dómbærir um borgarskipulag í Reykjavík, af því að þeir hafa ekki séð það eða reynt eða lifað. Þeir hafa bara séð miðbæinn og umferðaræðarnar. Alls engin rök eru fyrir því, að borgin eigi að vera evrópsk. Hér þurfti aldrei að troða öllum inn fyrir borgarmúra. Fólkið elskar að búa í úthverfum og eiga bíla og eigin garð. Það er hrein meinsemi að leggjast gegn úthverfum og bílum og reyna að troða fólki í hverfi 101. Menntavitar mega búa þar, en eiga ekki að troða lífsmynztri sínu upp á fólk, sem reytir arfa og nennir ekki að sækja kaffihús eða ölstofur að staðaldri.

Götur í göngum

Punktar

Við þurfum Miklubrautina í stokk frá Klambratúni að Grensásvegi, einkum þó á mótum Kringlumýrarbrautar. Hluti af götuhornum þarf þó að vera uppi á yfirborðinu. Við þurfum líka Sundabraut, einkum þó vandaða tenginu hennar við Sæbraut og Miklubraut. Markmið beggja framkvæmda er viðstöðulaus akstur vestan og sunnan af landi inn að Vatnsmýri. Slíkur akstur sparar benzín og minnkar mengun og styttir ferðatímann um borgina. Of lengi hafa flokkar ríkisstjórnarinnar unnið gegn almennilegri gatnagerð í Reykjavík og eru þeir þó afar hrifnir af göngum úti á landi.

Mýri eða kartöflur

Punktar

Ódýrast er að hafna þriðja flugvellinum á suðvesturhorninu og nota heldur þá, sem fyrir eru. Sú ákvörðun ein sparar 10-20 milljarða króna, sem er slatti af peningum. Vilji menn ekki flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, verður það að vera áfram á gamla staðnum í Vatnsmýrinni. Þar væri að vísu gaman að endurlífga mýrina eða hafa þar kartöflugarða fyrir borgarbúa, í versta falli koma þar upp Árbæ. Miðbæir eru nægir á höfuðborgarsvæðinu, svo að óþarfi er að færa flugið til að fá lóðir. Engar lóðir þarf að útvega í Vatnsmýrinni, slíkt er bara meinloka, ónumið land er víðar.

Litlir sækja fram

Punktar

Nýjar sjónvarpsstöðvar bætast við í viku hverri í Bretlandi. Þetta eru litlar og sérhæfðar stöðvar, fjalla um barnauppeldi, kristni, lögfræði, samkynhneigð, spurningaleiki, bingó, ferðir, teikniseríur, íþróttir, tónlist, fjármál. Áhorfendur eru fáir hjá hverri stöð, en samanlagt klípa þær dálítið af stóru stöðvunum og ná 30% af athyglinni. Stóru stöðvarnar, ITV og BBC 1 hafa hvort um sig 20% áhorf og Channel 4 og BBC 2 hafa hvort um sig tæplega 10%. Litlu stöðvarnar hundrað hafa lítinn kostnað og fá smávegis af sérhæfðum auglýsingum, svo að þær ná nokkurn veginn að halda lífi.

Seifur endurreistur

Punktar

Loksins er trúfrelsi komið til Grikklands. Mönnum leyfist að dýrka gömlu goðin, svo sem Seif og Heru og Aþenu. Orþódoxar eru ekki hrifnir og fara spældum orðum um 2000 áhangendur gömlu trúarinnar, segja þá trúa á stokka og steina og nýaldarspeki. Ólíkt mildari var íslenzka lúterstrúin, þegar Ásatrúarmenn leituðu frelsis á sínum tíma. En nú hefur dómstóll í Aþenu samþykkt, að Grikkir megi fara sömu leið og Íslendingar. Enda er ófært, að enginn leiti halds og trausts hjá Póseidon og Hermesi, svo ekki sé talað um Apolló. En af hverju var ekki trúfrelsi í Grikklandi fyrir þennan dag?

Heimskra manna ráð

Punktar

Því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman. Við höfum dæmi um fáranlega undirskriftalista, einkum á internetinu. Frægust allra var þó símakosningin, sem fleytti skrípakellingu inn í Eurovision. Hún ber sig klunnalega og kann lítið að syngja, en kemur sér áfram á innihaldslausum dónaskap og vill verða fræg af að vera rekinn úr keppninni. Dónaskapur er fínn, ef hann meinar eitthvað, en dónaskapur Silvíu Nætur er bara stagl, klunnalegt eins og dansinn. Ef þið hugsið um, að tugþúsundir greiddu henni atkvæði, þurfið þið ekki önnur vitni um eindregna heimsku þjóðarinnar

Meiri mannréttindi

Punktar

Nokkur ríki mannréttindabrota féllu í kosningum til nýs Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Enn fleiri voru ekki í framboði. Af 47 ríkjum, sem náðu kosningu, voru stórlega brotleg aðeins Azerbadsjan, Kína, Kúba, Pakistan, Rússland og Sádi-Arabía. Það er mikil framför frá fyrri tíð, þegar Súdan, Líbía og Simbabve voru í ráðinu. Reglum um framboð hefur verið breytt þannig, að þyngra er fyrir brotleg ríki að bjóða sig fram. Ráðið er engan veginn orðið fullkomið, en er þó mun skárra en fyrra ráðið, sem var hreinn skrípaleikur, Sameinuðu þjóðunum til sárrar skammar.

Ungbarnadauði

Punktar

Ungbarnadauði er næstmestur í Bandaríkjunum meðal 33 iðnríkja heims, fimm börn á hvert þúsund. Aðeins Lettland hefur meiri ungbarnadauða, sex börn á hvert þúsund. Til samanburðar er ungbarnadauði helmingi minni á Íslandi, innan við þrjú börn á hvert þúsund. Samt er heilsukostnaður töluvert hærri á hvern íbúa í Bandaríkjunum en hér á landi. Þar nær opinbera kerfið ekki til tugmilljóna af fátæklingum og tugmilljóna af láglaunafólki, því að þar er hver talinn vera sjálfum sér næstur. Þar er kerfið meira eða minna einkarekið og ofboðsdýrt í rekstri.

Allir eru memm

Punktar

Öll bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi sendi mér áróðursplagg eins og öðrum Seltirningum. Þar er birt fjölskyldustefna, sem allir flokkar virðast vera sammála um. Það er örugglega mikill sparnaður við hvort tveggja, að allir flokkar hafi sömu stefnu og auglýsi hana saman. Fjölskyldustefnan spannar raunar flest svið sveitarstjórnarmála allt frá börnum til gamals fólks, frá fíklum til veitustofnana, frá fjölmenningu til skipulagsmála. Ég staðset þessa sameinuðu stefnu milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé í meirihluta á Nesinu.

Ríkir fá eftirgjöf

Punktar

Fasteignagjöld eru mikilvægari gjaldstofn í Bandaríkjunum en hér á landi, viðurkennd aðferð við að nota peninga hinna vel stæðu til að borga aðstoð við almenning. Þau fela þó í sér óbeina tvísköttun, þar sem fyrst eru skattlagðar tekjur og síðan eignir. Því hafa róttækir hægri menn óbeit á þessum skatti og vilja leggja hann niður. Fyrsta skrefið er að leggja niður fasteignagjöld aldraðra í Garðabæ og Árborg án tillits til efnahags þeirra. Aldraðir eru auðvitað fjölmennastir í hópi eigenda húsnæðis og margir hverjir vel stæðir. Réttlæti afnámsins er vafasamt.

Fatlaðir fjölmiðlar

Punktar

Þegar þetta er skrifað, hef ég ekki séð neinn fjölmiðil birta myndina af Hummer Framsóknarflokksins í bílastæði fatlaðra. Það sýnir, að við erum að hverfa aftur til samþagnar, þar sem sannleikurinn má ekki koma í ljós, ef hann er nógu óþægilegur. Mynd ársins fæst ekki birt í blöðum eða sjónvarpi. Það er bara of seint að stunda slíka samþögn árið 2006. Með þessu framhaldi flýta fjölmiðlar fyrir því, að veraldarvefurinn taki við af þeim, sem ímynda sér, að þeir geti í krafti gamallar aðstöðu skammtað upplýsingar ofan í fólk.