Punktar

Sett verði lög um Björgólf

Punktar

Björgólfur Thor Björgólfsson kann ekki að skammast sín. Hann rífur kjaft út í fjölmiðla, sem skrifa um hneykslismál hans. Í staðinn ber honum að iðrast og borga skuldir sínar. Þar er IceSave efst á blaði, síðan kemur bankaránið mikla í Landsbankanum. Björgólfur lækkar svo sem ekki í áliti af að lögsækja fjölmiðla, mannorð hans er þegar í botni. En einhverjir nákomnir honum þurfa að segja honum, að hann sé sambandslaus við veruleikann. Það þýðir ekki að setja samfélagið á hliðina og sýna ítrekaðan hroka í ofanálag. Kominn er tími til að setja lög um, að Björgólfur Thor megi ekki koma til landsins.

Galin þjóð styður Flokkinn

Punktar

Þjóðin er galin, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag. 30% kjósenda styðja sjálfan hrunflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn færði okkur IceSave og stóra bankaránið í fyrrasumar. Færði okkur Davíð Oddsson og gjaldþrot Seðlabankans, Geir Haarde og verðmætabrennslu í peningamarkaðssjóðum. Það var Sjálfstæðisflokkurinn, sem færði okkur frjálshyggju og græðgisvæðingu, einkavinavæðingu og skort á eftirlitsiðnaði í fjármálum. Færði okkur nýjan flokksformann, sem var þingflokksformaður í hruninu. Færði okkur varaformann í mynd kúlulánadrottningar. Þjóð, sem styður Flokkinn, er vissulega galin.

Landráðadómstóll hirði vegabréfin

Punktar

Eftir því sem rannsóknum vindur fram, minnka líkur á réttlæti. Saksóknarar muldra um, að eignaupptaka sé erfið í framkvæmd. Enginn hefur verið settur í gæzluvarðhald og enginn hefur verið kærður. Víkingar útrásar og hruns verða kannski ekki dæmdir samkvæmt lögum. Að minnsta kosti ekki til fangavistar. Samfélagið þarf að hafa aðra útvegi í málum af þessu tagi. Einfalt gæti verið að setja lög um sérstakan landráðadómstól, sem taki á fjárglæfrum af tagi útrásarvíkinga og útrásarbanka. Dómsóllinn má aðeins hafa eitt úrræði, sviptingu ríkisfangs og vegabréfs. Við viljum ekki sjá víkingana á götunum.

Uppreisn gegn réttarfarskerfi

Punktar

Ljóst er orðið, að yfirmenn bankanna verða dæmdir fyrir að opna hirzlurnar, svo að eigendur bankanna gætu látið greipar sópa. Bankastjórar og hirðir þeirra áttu að passa bankana og gerðu það ekki. Þar eru deildarstjórar og endurskoðendur inni í myndinni og verða vafalítið dæmdir. Spurningin er hins vegar, hvernig dómstólar taka á sjálfum skúrkunum, sem hirtu peningana. Björgólfsfeðgum, Wernerssonum, Bakkabræðrum. Sem sögðu bankastjórum fyrir verkum. Hætt er við, að litið verði á þá sem þjófsnauta, ekki sem þjófa. En sleppi þeir við fangelsi, verður uppreisn gegn réttarfarskerfi landsins.

Fjórir þættir tjónsins

Punktar

Komin er mynd á ýmsa helztu þætti tjónsins, sem þjóðin varð fyrir í hruninu. Fyrst og stærst er tjónið af völdum IceSave reikninga Landsbankans. Næst í röðinni er bankaránið í fyrrasumar, er stjórnendur bankanna opnuðu hirzlur þeirra og eigendurnir létu greipar sópa. Tóku lán með málamyndaveðum og alls engum veðum. Þriðja er gjaldþrot Seðlabankans í fyrrasumar, er Davíð Oddsson lánaði bönkunum villt og veðlaust. Það olli ríkissjóði 350 milljarða tjóni. Fjórða í röðinni er 270 milljarða innspýting í peningamarkaðssjóði bankana. Það var á ferðinni gerræði Geirs Haarde án samþykkis fjárveitingavaldsins.

Ráðherrar spá út í bláinn

Punktar

Ráðherrarnir Gylfi Magnússon og Steingrímur J. Sigfússon hafa ekki hugmynd um, hvort 75% innheimtist af IceSave eignum Landsbankans. Steingrímur játaði í sjónvarpinu í gær, að “við verðum bara að trúa því” að 75% náist. Hann játaði jafnframt að hafa ekkert fyrir sér um það. Þeir félagar halda líka fram, að efnahagur ríkisbúsins verði svipaður á næstu árum og hann var á gullöldinni fyrir hrun. Hlýtur samt að teljast ósennilegt. Hvort tveggja er mikilvægt, því að greiðslugeta þjóðarinnar ræðst af innheimtu IceSave og efnahag þjóðarinnar. Fullyrðingar stjórnvalda um það efni eru út í bláinn.

Ofurdýrir sjálfstæðismenn

Punktar

Hvað á að gera við Davíð Oddsson? Hann sólundaði í fyrrasumar 350 milljörðum í veðlaus lán til gjaldþrota banka. Tjónið jafngilti gjaldþroti Seðlabankans og ríkissjóður varð að taka við boltanum. Hvað á að gera við Geir H. Haarde? Hann pundaði í fyrrahaust 270 milljörðum króna í peningamarkaðssjóði. Gerði þar með ríkissjóð ófæran um að lina þjáningar annarra. Til dæmis eigenda lífeyris og allra skuldara landsins. Hvað á að gera við Bjarna Benediktsson? Þá var hann formaður þingflokks Sjálfstæðis, sem samþykkti gerræðið. Hvað á að gera við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur? Sem er drottning kúlulánanna.

Ef eitthvert réttlæti er til

Punktar

Miklu fleiri eru viðriðnir bankaránin í fyrrasumar en áður var talið. Ránin námu meira en helmingi allra útlána bankanna. Starfsmenn bankanna opnuðu fjárhirzlurnar upp á gátt. Buðu aðstandendum bankanna að ryksuga þær án þess að leggja fram nothæf veð. Að þessari sögu komu ekki bara bankastjórar og útrásarvíkingar. Vitorðsmenn voru deildarstjórar og endurskoðendur bankanna og einkum þó og sér í lagi bankaráðsmenn þeirra. Tugir manna eru sekir um að hafa vanrækt að gæta hagsmuna bankanna. Þeir verða vafalítið kærðir og dæmdir til langrar fangavistar. Ef eitthvert réttlæti er til í landinu.

Ríkissjóður var eyðilagður

Punktar

Óhæfur Davíð Oddsson og óhæfur Geir Haarde skildu okkur eftir í rústum. Rétt fyrir hrunið lánaði seðlabankastjórinn viðskiptabönkunum 350 milljarða án þess að taka gild veð. Öll upphæðin lenti á ríkinu, sem þurfti að bjarga Seðlabankanum frá gjaldþroti. Strax eftir hrunið setti Geir 270 milljarða í að minnka tjón eigenda græðgisreikninga. Samanlagt gerræði þeirra tveggja er dýrara en annað tjón hrunsins samanlagt. Kannski fyrir utan IceSave. Ríkið rambar á barmi gjaldþrots. Áður en ný ríkisstjórn tók við völdum voru hinir óhæfu búnir að eyðileggja ríkissjóð, gera honum ókleift að hjálpa skuldurum.

Hroki firrtrar bankastýru

Punktar

Veruleikafirrt bankastýra Íslandsbanka telur sig vera fórnardýr hrunsins, ekki málsaðila. Alveg eins og Jón Ásgeir telur sig vera fórnardýr aðstæðna. Handhafi týnda kúlulánsins segist í kranaviðtali DV lítið vita um, hvað gerðist í bankanum. Birna Einarsdóttir virðist hafa flotið meðvitundarlaus upp í hæstu hæðir. Þaðan svífa úrskurðir hennar um stórmennskubrjálæði og hroka Íslendinga. Sem séu bara bændur í jakkafötum. Hrunið var bara heimskri þjóð að kenna. Alls ekki meðvitundarlausri bankastýru, sem talar niður til bóndadurga. Ég veit ekki um mikilmennsku, en hroki hennar er mikilfenglegur.

Atvinnulífið blómstrar

Punktar

Gjaldþrot fyrirtækja í maí voru 95, svipuð og árið áður, þegar þau voru 92. Þetta sýnir, að atvinnulífið gengur bara vel. Dampurinn er að minnsta kosti 95% af því, sem hann var fyrir ári. Munar þar mest um, að ferðaþjónusta gengur frábærlega, þótt hún dragist saman í öðrum löndum. Sjávarútvegurinn gengur líka á fullum dampi. Atvinnuleysi er miklu minna en í öðrum löndum, en sýnist vera 9% vegna svartrar vinnu. Bankastarfsemi fyrir almenning er með eðlilegum hætti. Fyrirtæki venja sig við, að lán eru ekki sjálfgefin. Þótt hér hafi orðið bankahrun fyrir ári, sleppum við að ýmsu leyti bærilega.

Margir sáu lánabækurnar

Punktar

Spillingin er víðtæk, er bankar lána aðstandendum sínum stóran hluta innlána án veða. Þannig var ástandið í Landsbanka og Kaupþingi í fyrra. Fjöldi manns í bönkunum vissi af stöðu lánabókanna. Þeir eiga allir hluta í ábyrgðinni, ekki bara bankastjórarnir. Endurskoðendur áttu að hringja bjöllum. Bankaráð bera líka ábyrgð á lögbrotunum, þar á meðal Kjartan Gunnarsson. Bankarán upp á hundruð milljarða í hvorum banka. Það er IceSave stærðargráða. Hví sitja bankastjórar, deildarstjórar, endurskoðendur og bankaráðsmenn ekki inni? Gilda lög ekki, þegar rán fer yfir tíuþúsundkall? Hvar eru saksóknararnir?

Rugludallur skrifar bók

Punktar

“Þegar forstöðumaður greiningardeildar Kaupþíngs skrifar bók um efnahagshrunið, gæti Steingrímur Njálsson eins skrifað bók um barnavernd.” Svo bloggaði Eiríkur Jónsson réttilega í morgun um bók Ásgeirs Jónssonar, Why Iceland. Þar segir Ásgeir, að íslensku bankarnir hafi verið svo gott sem dauðadæmdir í lok árs 2007. Ári fyrir hrunið. Á því ári hömpuðu íslenzkir fjölmiðlar Ásgeiri sem einum helzta fjármálavitringi heimsins. Samt sagði hann nánast alltaf, að bankarnir væru í rosalega fínum málum. Eru íslenzkir fjölmiðlar enn að hlusta á ruglið í forstöðumanni greiningardeildarinnar?

Við þurfum opnar yfirheyrslur

Punktar

Í Bandaríkjunum starfa sannleiksnefndir fyrir opnum tjöldum. Sjónvarpað er beint frá yfirheyrslum. Það er talinn partur af lýðræðinu. Hér á landi er hins vegar talið afleitt, að alþýða manna fái að vita um gang mála. Þess vegna starfar sannleiksnefnd kerfiskarlanna Páls Hreinssonar og Tryggva Gunnarssonar í reykfylltu bakherbergi. Þeir hafa engan áhuga á að finna niðurstöðu, sem gæti komið öðrum kerfiskörlum illa. Þetta er kerfislægt sjónarmið kerfiskarla. Þeir þola ekki einu sinni, að kennari frá Yale opni glugga. Við þurfum opnar yfirheyrslur sannleiksnefndarinnar. Þurfum traust.

Vildi hitta græðgiskarlinn

Punktar

Hafa má til marks um fákænsku og eymd Geirs H. Haarde, að hann sóttist eftir að hitta Björgólf Thor Björgólfsson. Vildi að eigin sögn alltaf tala við hann, þegar Björgólfur væri á landinu. Á þessum tíma sagði ég, að menn ættu ekki að taka mark á Björgólfi. Hann væri aumingi, sem ekki borgaði skatta til samfélagsins. Árum saman var hann skattlaus og fyrir rest borgaði hann vinnukonuskatta. Fólk á ekki að taka mark á manni, sem ekki sinnir skyldum sínum við samfélagið. Fyrir mörgum árum sagði ég ítrekað, að Björgólfur Thor væri bara ómerkur græðgiskarl. Ég held, að Geir hafi ekki fattað það enn.