Eftir því sem rannsóknum vindur fram, minnka líkur á réttlæti. Saksóknarar muldra um, að eignaupptaka sé erfið í framkvæmd. Enginn hefur verið settur í gæzluvarðhald og enginn hefur verið kærður. Víkingar útrásar og hruns verða kannski ekki dæmdir samkvæmt lögum. Að minnsta kosti ekki til fangavistar. Samfélagið þarf að hafa aðra útvegi í málum af þessu tagi. Einfalt gæti verið að setja lög um sérstakan landráðadómstól, sem taki á fjárglæfrum af tagi útrásarvíkinga og útrásarbanka. Dómsóllinn má aðeins hafa eitt úrræði, sviptingu ríkisfangs og vegabréfs. Við viljum ekki sjá víkingana á götunum.