Punktar

Meðvirkni hinna Björtu

Punktar

Bjarni Ben hefur ítrekað viðurkennt að hafa falið skýrsluna um skattaskjól á aflandseyjum fram yfir kosningar. Hefur beinlínis sagt, að hann hafi talið, að hún mundi hafa truflandi áhrif á kosningarnar. Þrátt fyrir þessar játningar eru meðvirkir enn að gera því skóna, að fjögurra mánaða birtingartöfin hafi verið óviljaverk. Ein þessara mjög meðvirku er Nichole Leich Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar. Hún lætur sér ekki nægja orð Bjarna. Segir feluleikinn beinlínis hafa verið óviljaverk. Hún er svo ákaft meðvirk, að hún segir játningar Bjarna sjálfs marklausar. Segið svo, að Björt framtíð geri ekki hosur sínar grænar til hægri.

Sviknir kjósendur

Punktar

Fyrir kosningar þóttust Viðreisn og Björt framtíð vilja bjóða upp kvóta, tryggja meiri almannatekjur af þjóðarauðlindinni. Benedikt Jóhannesson fjármála sagði þá: „Veiðigjald hefur verið lækkað og öllum almenningi er misboðið. … Það er stefna Viðreisnar, að afgjaldið ráðist á markaði, þar sem ákveðinn hluti kvótans verði boðinn upp á hverju ári.“ Þó segir ekkert bitastætt í stjórnarsáttmála um uppboð kvóta og hækkun auðlindarentu. Viðreisn og Björt framtíð hafa gefið fullkomlega eftir í sjávarútvegsmálum. Stjórnarsáttmálinn gefur raunar til kynna, að stjórnin ætli sér að tryggja enn frekar sterka stöðu útgerðarinnar með langtímasamningum.

Hann faldi skýrsluna

Punktar

Sannað er, að skýrslan um aflandsfélögin barst þáverandi fjármála- og núverandi forsætisráðherra um miðjan september. Hann faldi hana fram yfir kosningar og viðræður um myndun ríkisstjórnar. Í fjóra mánuði. Þetta er meiri háttar svindl, sem varðar afsögn. Nú snýst umræðan um, að dagsetningin hafi eða hafi ekki verið hvíttuð út. Og hvernig hún hafi getað horfið á annan hátt. Píratar kunna vel á forrit og ræða mikið, hvernig of lítið textabox hafi látið dagsetninguna hverfa. Ekki er enn óyggjandi upplýst, hvernig það gerðist. En það breytir engu um, að forsætisráðherra lét þessa skýrslu hverfa fram yfir kosningar og stjórnarmyndun.

Síkvika lýðræðið

Punktar

Sem oftar kemur Gunnar Smári með mjög skynsamlega tillögu. Að „síkviku lýðræði“. Felst í að geta skipt út atkvæði sínu, hvenær sem er. Tillagan er mjög í anda pírata, enda notuð í þeim stafrænu kosningum, sem þeir halda innan sinna vébanda. „Ef flokkurinn stendur sig ekki, geta kjósendur tekið atkvæði sitt og fært það yfir á annan flokk. Ef til dæmis stór hópur kjósenda Viðreisnar eða Bjartrar framtíðar eru ósáttir við þátttöku flokkana í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, geta þeir sagt flokkunum upp og fært atkvæði sitt annað.“ Þetta er svo gáfuleg tillaga, að ekki er séns á, að hún verði nokkru sinni samþykkt á íhaldseyjunni.

Sátt er minn vilji

Punktar

Samgönguráðherra heldur uppteknum hætti sínum frá því hann var bara þingmaður. Gefur yfirlýsingar um, hvernig þingið muni afgreiða mál. Kallar það sáttaferli, þegar kröfur hans eru samþykktar óbreyttar. Jafnvel þótt þær falli ekki að sáttmála ríkisstjórnarinnar. Þannig hefur hann gefið út yfirlýsingar um, að innanlandsflug verði áfram í miðbæ Reykjavíkur og alls ekki flutt til Keflavíkur. Segist vilja hafa samráð og sátt við alla um þessi mál og að þetta verði útkoman. Jón Gunnarsson hefur mjög óvenjulegar skoðanir á, hvað felist í samráðum og sátt.  Vasaútgáfan af einræðisherra telur, að það snúist um sinn eigin gráðuga vilja.

Nú opnast augu fólks

Punktar

Þegar ég gef mér tíma til að rúlla yfir fésbókina, sé ég snögga breytingu eftir myndun hægri ríkisstjórnar. Margir eru óskaplega reiðir og fleiri eru sárir. En mjög fáir taka til varna fyrir nýju ríkisstjórnina. Hún virðist vera orðin afar óvinsæl á fyrsta degi. Mannval er greinilega lélegt og sumpart hættulegt, ekki bara aflendingurinn í skattaskjóli, Bjarni Ben. Fólk býst við frekari tilræðum, einkum við húsnæðismál unga fólksins og við heilsukerfi ríkisins, gamla fólkið og öryrkjana. Fólk er líka eðlilega hrætt við einkavæðingu þjóðarauðlindanna. En það er til lítils að væla, þegar fólk er búið að láta hafa sig að fífli í kosningum.

Norræn skattþyngd er fín

Punktar

Þótt firrt sé að segja skatta vera ofbeldi, er eðlilegt að segja hóf þurfa að vera á sköttum. Til dæmis er eðlilegt, að skattar séu svipaðir og þeir eru í löndum þeirrar velferðar, sem við væntum hér. Það þýðir, að skattar séu líkir sköttum á Norðurlöndum. Skattar á einstaklinga hækki ekki. Skattar á tekjur af fjármagni verði þeir sömu og skattar á launatekjur. Refsað sé fyrir skattsvik greifa, til dæmis á fé í skattaskjóli. Að auðlindarenta ráðist af verðgildi hennar samkvæmt mælingu uppboða á frjálsum markaði. Auknar tekjur af slíku tagi nægja til að halda hér upp sömu velferð og gildir að meðaltali á Norðurlöndum.

Er sama um þá óheppnu

Punktar

Tveimur slagorðum tók ég bezt eftir í kosningabaráttunni. Píratar voru lengi búnir að vera með ENDURRÆSINGU á oddinum. Vildu vekja fólk úr doða stuðnings við öflin illu, sem höfðu eignað sér samfélagið og beitt því sér til gróðasöfnunar á aflandseyjum. Þessi skoðun virtist eiga mikið fylgi fyrri hluta ársins, en fékk þó bara 15% upp úr kjörkössunum. Sumir kenna því um, að ungt fólk nenni ekki á kjörstað. Sjálfstæðisflokkur tefldi fram öðru, gagnstæðu slagorði, STÖÐUGLEIKA. Því var stefnt að þeim mikla fjölda, sem hafði það nokkuð gott og vildi enga endurræsingu. Í kosningunum og viðræðum um stjórnarmyndun kom í ljós, að mikill meirihluti kjósenda valdi STÖÐUGLEIKA umfram ENDURRÆSINGU. Er sama um þá óheppnu.

Afbragðs blanda

Punktar

Stefna ríkisstjórnarinnar á einfaldri íslenzku er þessi: Við styðjum öll góð mál með því að setja þau í nefnd, meta þau, endurskoða og hafa samráð um þau, greina og endurmeta, kanna og hafa áhyggjur af. Ræðum þau að minnsta kosti. Hins vegar verður engu fé ráðstafað til þessara góðu mála og engar tekjur innheimtar í því skyni, þótt slíkar séu greiddar í næstu löndum, svo sem fjármagnstekjuskattur, auðlindarenta og skattasniðganga. Góðvild ríkisstjórnarinnar er alltumlykjandi, en tekjuöflun „pólitískur ómöguleiki“, því að „skattar eru ofbeldi“. Annars vegar velferðarstefna og hins vegar íhaldsstefna. Telst vera „afbragðs blanda“.

Gerir grín að Íslendingum

Punktar

Washington Post gerir grín að íslenzkum kjósendum: Losuðu sig við einn pamamista sem forsætis og fengu svo annan panamista í hausinn. Það er ýmist í ökkla eða eyra hér á landi. Gengur vel fyrir leikhlé, en spilinu glutrað niður eftir hlé. Þannig urðu skiptin á Gunnlaugi Davíð (á að vera Sigmundi Davíð) og Bjarna Ben. Skoðanakannanir voru lengi góðar, píratar með 30%, en kosningarnar urðu verri, píratar með 15%. Lengi var nýrri stjórnarskrá ýtt fram, en allt í einu missti fólk móðinn. Íslendingar falla aftur og aftur fyrir gömlum brögðum, til dæmis ofsafengnum kosningaloforðum og ótrúverðugri eigin staðsetningu gerviflokka, svo sem kom í ljós núna um áramótin.

Washington Post

Kurteisir við bófa

Punktar

Engum þarf að koma á óvart, að Björt framtíð fer í ríkisstjórn með bófum. Hún hefur aldrei haft neina stefnu af hefðbundnu tagi. Allt frá tíma Guðmundar Steingrímssonar hefur flokkurinn mælt með, að menn hætti að rífast. Verði vinir eins og Dýrin í Hálsaskógi. Forustufólk flokksins hefur lagt áherzlu á að vera kurteist og forðast æsing. Það var alveg eins til í fimm flokka stjórn núverandi stjórnarandstöðu eins og þá hægri stjórn sem varð svo niðurstaðan. Eða í hvaða stjórn sem er. Ég hefði aldrei getað hugsað mér að kjósa svona flokk í því ástandi, sem hér hefur ríkt í aldarþriðjung. Bófar voru og verða við völd. Þeim þarf að sparka út í yztu myrkur. Björt framtíð gerir slíkt aldrei, núll og nix.

Aflendingurinn falsar

Punktar

Bjarni Benediktsson tafði útgáfu Panama-skýrslunnar í næstum fjóra mánuði, því að hún var mjög gagnrýnin á gerðir og aðgerðaleysi Sjálfstæðisflokksins. BB frestaði henni fram yfir kosningar. Og fram yfir viðræður um stjórnarmyndun, svo að hann gæti sjálfur orðið forsætis. Skýrslan gefur hér og þar innsýn í þann bófaflokk, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið síðan fyrir aldamót. Allt frá tíma Davíðs Oddssonar. Þar að auki reyndi Bjarni árangurslaust að falsa útgáfudag skýrslunnar og lét fikta við hana í ráðuneytinu til að fegra skattsvik aflendinga. Nú verður sjálfur aflendingurinn forsætis og brennimerkir þannig verðandi ríkisstjórn.

Um Panama-skýrsluna

Óþægileg kúvending

Punktar

Allir gátu sagt sér fyrirfram, að Viðreisn mundi fara í samstarf með Sjálfstæðis. Ekkert kom þar á óvart nema hvað útibúið var fljótt að hverfa frá aðalstefnumáli sínu, þjóðaratkvæði um viðræður við Evrópusambandið. Þetta er hvort tveggja sama yfirstéttin í þjóðfélaginu. Undarlegra er, hversu auðvelt Björt framtíð á með að kyngja hægri stefnu Sjálfstæðis. Að vísu hefur flokkurinn lítið gert af því að staðsetja sig í pólitík. Talað meira um ný vinnubrögð, rétt eins og píratar hafa gert. Kjósendur flokksins gátu vænzt samhljóms þar á milli. En rennsli Bjartrar framtíðar yfir á hægri kantinn kom mörgum þessara kjósenda óþægilega á óvart.

Skattsvik verðlaunuð

Punktar

Ef ríkisvaldið væri réttlátt, mundi það skattleggja þá tugmilljarða, sem árlega hverfa skattfrjálst úr umferð. Þegar það finnst í skattaskjólum, eru bófarnir hvattir til að koma skattfrjálst með það heim. Í verðlaun fá þeir 20% afslátt af gengi krónunnar. Þannig verða skattsvikarar að hrægömmum, sem kaupa fyrirtæki og íbúðir af hrægammabönkum fyrir slikk. Okra síðan á leiguverði til almennings. Það er með eindæmum, að þjóðin skuli hafa fallizt á þennan margfalda þjófnað. Með því að kjósa þrjá bófaflokka til valda, Sjálfstæðis, Viðreisn og Bjarta framtíð. Oft hefur þjóðin verið í ruglinu í kosningum, en aldrei eins og á þessum vetri.

Simmi fór og Bjarni kom

Punktar

Þegar Sigmundur Davíð varð uppvís að fé í skattaskjóli, mótmæltu tugþúsundir á Austurvelli. Hann varð að segja af sér forsætis. Nú er vitað meira um upphæðir, sem hafðar voru af ríkinu á þennan hátt. Og vitað er, að verðandi forsætis er uppvís að fé í skattaskjóli, svo og öll hans ætt. Við sjáum til, hvað verður um mótmæli og hvort bófinn verður hrakinn úr virðingarsessi. Íslendingar kunna að kvarta og kveina, en gefast jafnan upp í miðjum klíðum. Kom í ljós í kosningum þessa vetrar, þegar Engeyingar hlutu aukinn stuðning til að hafa fé af þjóðinni. Ef skattamál væru hér eins og á Norðurlöndum, hefðum við efni á þeirra velferð.