Punktar

Lítið fylgi fjórflokks

Punktar

Þegar búið er að draga frá hina óákveðnu, er fylgi flokkanna helmingi minna en af er látið í skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins með 20% fylgi, Lilja með 12%, Framsókn með 7%, Samfylkingin með 6%, Vinstri grænir með 5% og Guðmundur með 4%. Ótalin eru þá 47% spurðra, sem neita að svara, hafa ekki gert upp hug sinn. Að einhverju leyti munu þau atkvæði falla á fjórflokkinn. Komi fleiri bitastæð framboð til skjalanna, má þó búast við, að þau taki meira af hinum óákveðnu en fjórflokkurinn tekur. Enn er til dæmis pláss fyrir flokk fólks úr stjórnlagaráði, sem mundi gera mest rusk.

Ögmundur í tómu tjóni

Punktar

Ögmundur ráðherra gortaði í frægu Kastljósi, að hann væri eini maðurinn, sem sagði 1997 á Alþingi nei við lögunum um lífeyrissjóði. Sá sem sagði nei, var samt Jón Baldvin Hannibalsson. Ögmundur Jónasson sagði hins vegar já eins og aðrir þingmenn. Þegar upp komst um strákinn Tuma, var hann svo forstokkaður, að hann sakaði Ríkisútvarpið um sagnfræðileysi. Samt hafði það á réttu að standa, Ögmundur hafði sagt já, en ekki nei. Ögmundur getur ekki logið sig út úr því með þeirri hártogun, að já hafi raunar þýtt nei. Ber fulla ábyrgð á lögum, sem hann segir hafa þvingað braski upp á sig og lífeyrissjóðinn.

Hún hittir ekki bófana

Punktar

Réttilega hyggst Jóhanna Sigurðardóttir forsætis ekki ávarpa Viðskiptaþing. Þar eru á ferli mestu öfgasamtök landsins, þar sem hrunverjar sitja í röðum. Þingið hefur árum saman predikað óhefta græðgi í fjármálum og algeran skort á eftirliti af hálfu hins opinbera. Ríkisstjórnir hrunverja höguðu sér eftir fyrirmælum Viðskiptaþings hverju sinni. Þannig var þjóðin dregin fram á brún hengiflugs og henni sparkað fram af því. Gera þarf allt öfugt við fyrirmæli Viðskiptaþings. Það væri dónaskapur við þjóðina, ef forsætisráðherra legðist svo lágt að ávarpa helztu samkomu bófaflokksins. Jóhanna tók rétta ákvörðun.

Dómarinn og verjandinn

Punktar

Ísland er ekki einu sinni vasaútgáfa af ríki. Bófarnir í yfirstéttinni eru vinir, hvar sem þeir sitja hverju sinni. Dómari í Hæstarétti fer í bíó með verjanda ráðuneytisstjóra. Perluvinirnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson sáu saman Contraband. Vafalaust rætt þar um Baldur Guðlaugsson. Síðan hefur Benedikt sagt Ólafi Berki Þorvaldssyni, skjólstæðingi Davíðs, hvernig hann eigi að haga atkvæði sínu sem dómari í máli Baldurs. Sjálfur hefur Benedikt neitað að segja sig frá þessu tiltekna máli. Samræði óligarkanna lætur ekki að sér hæða. Þjóðin þarf að rísa á fætur, hreinsa óværuna út úr Hæstarétti.

Það voru pólitískir öfgar

Punktar

Mest er hrunið Davíð, Flokknum og Stefnunni að kenna. Þessir aðilar bjuggu til jarðveginn og eftirlitsleysið. Eins er það útrásarbófum og bankastjórum um að kenna. Einnig lagatæknum, hagtæknum og bókhaldstæknum hrunsins. Ábyrgð almennings felst mest í að hafa kosið öfgamenn til valda í pólitík áratugina kringum aldamótin. Davíð og Geir voru kosnir, einnig Halldór og Finnur, svo og Ingibjörg og Björgvin. Þremur árum eftir hrunið eru margir kjósendur svo forstokkaðir, að þeir hyggjast áfram kjósa Davíðana, Flokkinn og Stefnuna. Við megum þó ekki gleyma, að pólitískir hægri öfgar voru eldsneyti hrunsins.

Velviljaður verkleysingi

Punktar

Ögmundur Jónasson ráðherra sagði í Kastljósi í gær, að lífeyrissjóðir byggðu á braski. Hefði verið leyft með lögum árið 1997. Hann hefði sjálfur verið andvígur breytingunni. Samt settist hann í stjórn lífeyrissjóðs og varð þar formaður fram undir hrun. Hafði ekki þrek til að fylgja þar eftir skoðunum sínum. Sjóðurinn hans tapaði hundrað milljörðum, mest allra lífeyrissjóða. Ögmundur virðist vilja vera metinn eftir góðum vilja sínum, en ekki eftir verkum sínum eða verkleysi. Samkvæmt eigin lýsingu er hann góðviljaður auli, sem ráfar með mótmælaspjaldið um gylltar hallir. Skrítin mannlýsing það.

Einkalíf opinberrar persónu

Punktar

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur snúið við fyrri dómi sínum um Karólínu prinsessu af Mónakó. Þýzkt blað hafði birt mynd af henni á veitingahúsi og hún talið það vega að einkalífi sínu. Þýzkir dómstólar höfðu vísað málinu frá, þar sem Karolína er opinber persóna. Mannréttindadómstóllinn hefur nú komizt að sömu niðurstöðu. Þetta skiptir miklu fyrir tjáningarfrelsið. Hér á landi dæmdu dómarar um skeið í einkalífsmálum undir vondum áhrifum frá fyrri Karlólínudómi. Nú má reikna með, að aftur komizt inn heilbrigð skynsemi í meðferð dómara á meintu einkalífi opinberra persóna. Ekki er vanþörf á því.

Burt með okkar ólígarka

Punktar

Hluti uppgjörsins við hrunið er að losa um tök valdastéttarinnar á fjárhag okkar. Skoðum lífeyrissjóðina. Enn er þeim stjórnað af Vilhjálmi Egilssyni, Arnari Sigmundssyni og Helga Magnússyni, öfgamönnum til hægri í pólitík. Sá síðastnefndi er frægastur fyrir að lofa skattakerfi Rússlands, sem felst í að koma ránsfeng í hendur ólígarka. Hér erum við enn að þéna undir ólígarka Íslands. Þeir stjórna bönkum og stórfyrirtækjum. Þeir reka fiskveiðikvótann eins og þeir eigi hann. Ólígarkarnir stjórna Flokknum og Mogganum og ýmsum helztu vefmiðlum landsins. Þjóðinni ber að skrúbba alla þessa óværu af sér.

Endurreisn háð uppgjöri

Punktar

Hér varð algert bankahrun og í kjölfarið skuldsetning ríkisins upp í rjáfur. Þetta var ekki angi af erlendri kreppu, heldur séríslenzkt fyrirbæri. Bófar höfðu tekið völd í fjármálum og stjórnmálum. Sumpart lenti þetta á erlendum kröfuhöfum og sumpart á þjóðinni, ýmist sem skattgreiðendum, sem notendum velferðar eða sem skuldurum húsnæðislána. Uppgjör við bófa hrunsins er hluti af endurreisninni. Uppgjör við Davíð og Geir, bankabófa, útrásarbófa, einnig lagatækna, hagtækna og bókhaldstækna. Við þurfum að stinga inn tugum manna. Meðvirkur almenningur ber líka sök, en litla sök, miðað við gráðugu bófana.

Mestir óþurftarmenn

Punktar

Mestu óþurftarmenn sögunnar voru þeir, sem vörðust gegn erlendum áhrifum á Ísland. Á nítjándu öld reyndi danski kóngurinn að koma á umbótum á Íslandi. En innlendir embættismenn vörðust með kjafti og klóm. Reyndu til dæmis að verja vistarbandið. Sérhagsmunir ætíð teknir fram yfir almannahagsmuni. Eins og þjóðrembingar taka nú sérhagsmuni kvótagreifa fram yfir almannahagsmuni. Eftir hrunið 2008 hafa sérhagsmunir átt á brattann að sækja. Því hafa þeir í auknum mæli vafið um sig íslenzka fánanum og kyrjað þjóðsönginn. Og eiga sem áður létt með að æsa heimska og þjóðrembda kjósendur gegn Evrópusambandinu.

Atli og Ólafur Þór biluðu

Punktar

Þegar skýrsla sannleiksnefndar Alþingi var birt almenningi, töldu margir, að uppgjörið við hrunið mundi takast. Framhaldið glutraðist hins vegar niður. Mestu máli skiptir, að þingmannanefndin, sem tók við málinu, var ekki starfi sínu vaxin. Mest er það Atla Gíslasyni nefndarformanni að kenna. Hefði átt að halda opna og gegnsæja fundi eins og hliðstæðar nefndir í Bandaríkjunum og Evrópu. En hún var leyndó og allt fór síðan á hvolf. Hitt bölið var, að sérstakur saksóknari stóð ekki við loforð um skjóta afgreiðslu hrunmála. Nú er komið langt yfir alla framlengda fresti og alls ekki bólar þaðan á neinu.

Teymdir á asnaeyrunum

Punktar

Eignahrun lífeyrissjóða stafaði ekki af skorti á fjárfestingar-tækifærum eins og verkalýðsrekendur fullyrða. Síðustu misserin fyrir hrun fjárfestu sjóðirnir óábyrgt. Stjórnendur þeirra létu bófaflokka á borð við Exista og Baug teyma sig á asnaeyrunum. Fylgdust ekki með markaðinum og flutu sofandi að feigðarósi. Trúðu í blindni á gargandi snilld bófa, sem féflettu sjóðina. Létu þá draga sig í boðsferðir um heiminn til að tosa frá sér féð. Hagsýnar húsmæður hefðu aldrei fjárfest í slíku rugli. Atvinnu- og verkalýðsrekendur sviku þjóðina rétt eins og útrásarbófarnir, Flokkurinn og forseti Íslands.

Ögmundur verst ekki

Punktar

Ögmundur Jónasson verst ekki í blogginu. Segist bara hafa verið venjulegur stjórnarmaður lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna hrunárið 2008. Eins og það fríi af ábyrgð þann, sem var stjórnarformaður 2007. Segist alltaf hafa mælt með lægri ávöxtun lífeyrissjóða. En þeir hafi verið skyldaðir með lögum til að leita hæstu vaxta. Eins og það sé vörn fyrir ruglinu á sjóði opinberra. Segir rangt, að sjóðurinn hafi tapað mest allra, því að hann hafi ekki tapað hlutfallslega mest allra sjóða. Breytir því alls ekki, að hann tapaði mest, flestum krónum. Bull Ögmundar staðfestir, að hann er hrunverji eins og Geir.

Lóðrétt hugsandi fólk

Punktar

Fagritið Psychological Science segir frá rannsókn, sem sýnir íhaldsmenn að meðaltali heimskari en annað fólk. Hér kýs slíkt fólk Sjálfstæðisflokkinn. Þótt hann reki harða hagsmunagæzlu kvótagreifa og annarra eigenda ríkisins. Rannsóknin snýst hins vegar ekki um, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hugsa lóðrétt, en ekki lárétt eins og fólk gerir flest. Venjulegt fólk lítur á flesta sem jafningja. En lóðrétt hugsandi fólk lítur á fólk sem yfirmenn og undirmenn. Þannig varð mafían til á Suður-Ítalíu. Sunnan Rómar hugsa menn lóðrétt, undirgefið, kjósa Flokkinn eina, en norðan Rómar hugsa menn lárétt.

Skautað hjá spillingu

Punktar

Skýrsla rannsóknarnefndar um lífeyrissjóðina sökkar. Er samin að frumkvæði lífeyrissjóðanna sjálfra og höll undir þá. Skautar framhjá spillingu þeirra. Til dæmis boðsferðum til útlanda og eftirfylgjandi aðild sjóðanna að grófum fjárglæfrum. Þannig spillingar er getið í skýrslu sannleiksnefndar Alþingis, svo að hún hefur tæpast farið framhjá sérpöntuðum skýrsluhöfundum sjóðanna. Þunnur hvítþvottur nefndarformannsins í Kastljósi gekk út á, að hugsanlega hafi sumar boðsferðir verið frambærilegar kynnisferðir. Enda sagði enginn lífeyrisbófi af sér í kjölfar skýrslunnar. Hvorki stjórar né stjórnarmenn.