Punktar

Tobin-skattur í Evrópu

Punktar

Tobin-skatti eykst fylgi víðs vegar um Evrópu. Ráðamenn nokkurra ríkja vilja koma upp skatti á hreyfingar gjaldeyris. Skatturinn er rosalega lágur við hverja yfirfærslu, en hleðst upp við síendurteknar millifærslur. Skatturinn er kenndur við James Tobin, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Hefði hindrað áhlaup á gjaldmiðla, ef búið væri að innleiða hann. Innan Evrópusambandsins hafa Frakkland og Þýzkaland lagt til Tobin-skattinn, einnig Ítalía og Spánn, svo og Portúgal og Austurríki, Belgía og Finnland. Þarna er Bretland ekki á blaði, enda hefur ríkisstjórnin þar braskarana í City í heilagra manna tölu.

Snorri haldi starfi

Punktar

Snorri Óskarsson safnaðarstjóri hefur ekki predikað trúarofstæki í skólanum, þar sem hann kennir á Akureyri. Ekki getur komið skólanum við, nemendum eða foreldrum, þótt hann fjalli utan vinnutíma um hugðarefni sín. Hann á að fá að flytja trúarofstæki í söfnuði sínum eða bloggi sínu. Þar á meðal andstöðu við samkynhneigð, með tilvísun í Gamla testamentið. Hann má segja hana vera synd. Nánast ævinlega stimplar félagslegur rétttrúnaður vondar skoðanir sem vanhæfar. Hreki rétttrúnaðurinn fólk úr starfi fyrir vondar skoðanir utan vinnutíma, gengur hann of langt. Æsingur út af trúmálum gengur út í öfgar.

Andófið á krossgötum

Punktar

Andóf gegn peningavaldi á Vesturlöndum stendur á krossgötum. Annars vegar er gríska andófið að fjara út í gripdeildum, ránum og íkveikjum. Hins vegar eru áhrif frá Bandaríkjunum í tjaldbúðum Occupy Wall Street hreyfingarinnar. Svo og andóf gegn hertum ákvæðum um höfundarétt. Kemur fram í andófi á götum úti og í hinum nýju félagsmiðlum. Svo sem á fésbók, en einkum þó á twitter, sem er rammpólitískari miðill. Þar vestra gerjast núna samstaða um framboð í kosningum. Rétt eins og hér á landi þessa dagana. Kannanir í Bandaríkjunum sýna, að yngri kynslóðir styðja róttæk framboð gegn ofurvaldi fjármagnsins.

Formaður af gráa svæðinu

Punktar

Alvöru stjórnmálaflokkur getur ekki notað formann, sem kemur af gráu svæði í viðskiptalífinu. Sem skrifaði þá undir falskar dagsetningar skjala. Sem tók þátt í sjónhverfingum til að halda gjaldþroti Glitnis leyndu. Sem tók þátt í að hafa fé af banka. Getur ekki notað formann, er vissi ekki hvað hann gerði og heldur ekki haft formann, sem vissi hvað hann skrifaði undir. Bein aðild Bjarna Benediktssonar að fléttu Glitnis, Milestone og Vafnings kann að vera lögleg. En hún hentar ekki í ferilskrá manns, sem leiðir stjórnmálaflokk. Komið er að þeim krossgötum, að margir flokksmenn sjá, að þetta gengur ekki.

Krónan og vísitalan

Punktar

Vísitölukerfið íslenzka hefur gengið sér til húðar. Veldur ekki hlutverki sínu að tryggja verðgildi fjárskuldbindinga. Hliðarverkanir eru of miklar. Verstur er vítahringur innbyggðu verðbólgunnar. Hækkun á einum lið leiðir til hækkunar annarra liða, sem áfram leiða keðjuverkunina. Vítahringurinn er herkostnaður þjóðarinnar af ónýtum gjaldmiðli. Krónan hrynur sífellt, áratug eftir áratug. Tími er kominn til að hætta þessari vitleysu. Evran liggur í augum uppi sem arftaki. Hún er hins vegar of óvinsæl. Að sinni er bezt að taka upp frelsi í notkun hvers konar gjaldmiðla í innlendum viðskiptum.

Leyndarstefna í söngvakeppni

Punktar

Þótt 80.000 atkvæði bærust í síma til söngvakeppni Ríkisútvarpsins, voru mun færri, sem kusu, kannski 20.000. Fólk gat nefnilega greitt fleiri en eitt atkvæði. Og Íslendingum er gjarnt að reyna að svindla á tilverunni. Rétt eins og Grikkjum. Því er gróft að segja þjóðina hafi valið lagið, sem flest atkvæði fékk. Þrjú efstu lögin fengu svipað fylgi lítils hluta þjóðarinnar. Hins vegar er merkilegt, að fólk láti sig hafa það að eyða fé í að kjósa marklaust. Og svo tekur leyninefnd ákvörðun um niðurstöðu. Þetta er eins og í pólitíkinni. Leyndarstefna valdakerfisins tekur á sig undarlegar myndir.

Sveiflur eru eðlilegar

Punktar

Sveiflur á raunverði íbúða eru eðlilegar og hafa alltaf verið. Sumir kaupa í toppi og tapa, aðrir kaupa í botni og græða. Fasteignabólan fyrir Davíðshrun var ekki ný bóla, að vísu risavaxin. Fólk verður að gera ráð fyrir bólum, þegar það kaupir steypu. Kannski 15% sveiflu. Slík bóla er bara eitthvað, sem fólk tekur á sig án þess að mögla. Það getur talið sig óheppið, en varla heimtað að einhverjir aðrir borgi. Sveiflan var þó meiri en þetta árin 2005, 2006 og 2007. Það getur verið samfélagsleg nauðsyn að bæta fólki þá bólu að hluta. Að hluta, því að við megum ekki þjóðnýta allan vanda í samfélaginu.

Grikkland hrynur

Punktar

Grikkland er að hrynja. Þjóðin hatar pólitíkusana, sem reyna að semja við Evrópu. Þjóðverjar eru þar kallaðir nazistar, tveimur kynslóðum eftir síðari styrjöldina. Því neita þýzkir kjósendur að borga meira. Dæmið gengur ekki lengur upp. Grískir pólitíkusar standa ekki við nein loforð, sem þeir gefa Evrópu. Enda leyfir gríska þjóðin það ekki. Hún froðufellir. Grikkland er samfellt sjálfskaparvíti. Grikkir lifa enn um efni fram á kostnað Evrópu og neita að sjá veruleikann. Þverstæðurnar eru svo miklar, að ríkið verður óhjákvæmilega gjaldþrota. Allir munu tapa, en evran mun áfram standa traust.

Murdoch er að hrynja

Punktar

Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur er í öngstræti. Lokaði News of the World, sem komst í 2.812.005 eintaka upplag í október 2010. Blaðið féll í júlí 2011 á því að hafa hlerað síma fjölmargra. Nokkrir yfirmenn þess voru handteknir. Hin gullnáma veldisins er kominn í sama vanda. Yfirmenn The Sun lenda núna í gæzluvarðhaldi hver á fætur öðrum. Blaðið hafði 2.715.473 eintaka upplag í október 2010. Samt verður Murdoch líklega að loka því líka. Blöðin tvö voru gullnáma hans, græddu hundrað milljarða króna á hverju ári. Restin af veldi Murdoch er í dúndrandi tapi, þar á meðal Times með þrjátíu milljarða tapi.

Gjaldþrot er illskást

Punktar

Gjaldþrot er illskást í stöðu Grikklands. Ríki og þjóð verða að byggja sig upp frá grunni á eigin verðleikum. Hætta að þiggja ölmusu frá Evrópu og um leið hafna kröfum um greiðslu vaxta og afborgana. Landið lendir bara í sama vanda og sum önnur ríki og fjöldi einstaklinga. Enginn mun lána Grikklandi neitt, en það er svosem engin breyting. Grikkir eru sjálfir í afneitun og kenna öðrum um sitt eigið sjálfskaparvíti. Þeir þurfa að læra að velja sér heiðarlegri pólitíkusa, læra að borga skatta og læra að kenna ekki öðrum um ófarir sínar. Frekara samkrull þeirra við Evrópu yrði hvorugum til góðs.

Dómari án dómgreindar

Punktar

Einn helzti málsvari útrásarbófa og formaður félags lagatækna telur dómara seint verða vanhæfa. Þeir megi fara í bíó með verjandanum, megi spila golf með honum, fara á veitingahús með honum, vinna með honum að ýmsum verkefnum, til dæmis í dómnefndum. Brynjar Níelsson hefur greinilega önnur siðalögmál en venjulegt fólk og endurspeglar sérkennilega lífssýn lagatækna. Dómarar hafa líka sumir slíka lífssýn. Til dæmis Benedikt Bogason hæstaréttardómari, einkavinur verjanda Baldurs Guðlaugssonar. Með þessum dómgreindarskorti verða hæstaréttardómar marklaust rugl að mati venjulegra, siðprúðra borgara.

Sáttur við fylgistölur

Punktar

Ég er sáttur við að flokkur bófa og bjána fái 20% fylgi í næstu kosningum eins og skoðanakannanir sýna. Flokki hrunverja og kvótagreifa verður ekki komið neðar, því nóg er til af fábjánum, sem styðja valdastéttina. Mestu skiptir, að Flokkurinn fái ekki fylgi frá hinum óákveðnu, sem eru stærsti flokkurinn, hálf þjóðin. Til að virkja þau atkvæði þarf fleiri trúverðug framboð. Einkum væri gott að fá framboð fulltrúa úr stjórnlagaráði. Þar kom fram pólitísk hugsjón um samstarf, sem alveg skortir í fjórflokknum. Stóra verkefnið okkar er að hindra endurkomu flokks valdastéttarinnar að völdunum.

Heimsminjar brunnu

Punktar

Íbúðablokkin Cité Radieuse í Marseilles skemmdist í eldi í fyrrinótt. Eitt frægasta hús Le Corbusier, merkasta arkitekts 20. aldar. Corbusier hugsaði hönnun sína frá grunni. Fór með farþegaskipi frá Frakklandi til Argentínu. Dáðist á leiðinni að frábærri nýtingu á plássi í káetu sinni, hvernig öllu var haganlega fyrir komið. Hannaði síðan blokkir sínar út frá mannslíkamanum og skipulagi heimilis. Cité Radieuse er grind, þar sem forsteyptum íbúðum var skotið í heilu lagi í grindina eins og skúffum. Hannaði líka músíkhúsið Poème électronique, þar sem hreyfanleg tónlist var flutt í 425 hátölurum.

Ég um mig frá mér til mín

Punktar

Svik Rannveigar H. Ásgeirsdóttur bæjarfulltrúa við Kópavogslistann er þung áminning til kjósenda. Ekki er nóg að stofna nýja flokka og fá nýtt fólk til að ryðja spillingu úr vegi. Við höfum líka séð á Alþingi, að þingmenn skipta um lið á miðju kjörtímabili. Fulltrúar kjósenda hætta allt í einu að vera fulltrúar annarra en sjálfra sín. Nú eru að koma nýir flokkar á landsvísu og þeim munu fylgja nýir frambjóðendur. Verður hægt að treysta þessum nýju? Eða verða þeir bara: Ég um mig frá mér til mín? Stuðningsfólk nýrra lista þarf að vanda sig betur við val frambjóðenda til að verða ekki fyrir vonbrigðum.

Vinstri vængnum rústað

Punktar

Gott fylgi Samstöðu í nýrri skoðanakönnun gefur vonir um, að fjórflokkurinn verði felldur í næstu kosningum. Að vísu eru allar fylgistölur í könnuninni helmingi hærri en veruleikinn, því að helmingur spurðra neitar að svara. Í samanburði við gömlu flokkana er Lilja Mósesdóttir í góðum málum. Minna fer fyrir flokki Guðmundar Steingrímssonar og Gnarrista. Ef við lítum á stærsta flokkinn, hina óákveðnu, er ljóst, að góð færi eru fyrir enn fleiri framboð. Eins og Lilja og Guðmundur munu þau taka af vinstri vængnum. Kastali bófanna og bjánanna stendur hins vegar eins og klettur í hafinu hægra megin miðju.