Punktar

Kraftaverk í sjónvarpi

Punktar

Ríkissjónvarpið tók í gærkvöldi þátt í forheimskun þjóðarinnar með þætti um vestrænar kraftaverkalækningar. Þátturinn The Living Matrix var kynntur sem heimildamynd, en var nánast samfelldur ímyndanavefur. Aldrei hefur verið vísindalega sýnt fram á virkni kraftaverkalækninga. Þessi mynd sérstaklega hefur sætt harðri gagnrýni erlendis fyrir linnulaust bull undir yfirskini hjáfræða. Beinlínis lífshættulegt er að hvetja fólk til að leggja trúnað á kraftaverk gegnum síma eða með samtali við sjúkdóma. Ríkissjónvarpið á ekki að leggja sitt lóð á vogarskál hjáfræða og kraftaverka handa trúgjörnum.

Klófestu umræðuna

Punktar

Athyglisverðasta 1. maí ávarpið kom að þessu sinni frá verkalýðsfélaginu Afli á Austurlandi. Þar segir, að tekjuháir, með meira en 500 þúsund eftir skatta, hafi klófest umræðuna um niðurfellingu skulda. “Það er sami hópur og var skuldsettastur. Hafði veðsett eigur sínar upp í topp og oft lengra til að viðhalda lífsstíl og til að fjárfesta í góðærinu. Og úr hvaða tekjugeira kemur stærstur hluti þingmanna og hvaðan koma álitsgjafar fjölmiðla og þeir sem stjórna fjölmiðlum? Jú helstu áhrifavaldar samfélagsumræðu í dag eru úr þessum efsta tekjufimmtungi og því er umræðan svo einlit og öfgakennd.”

Efri miðstétt talar

Punktar

Þeir, sem segjast berjast fyrir skuldara, eru raunar að berjast fyrir hag tekjuhárra skuldara. Þeirra, sem offjárfestu í lífsstíl síðustu árin fyrir hrun. Þaðan kemur krafan um flata niðurfellingu skulda, sem kemur bezt þeim, sem mest skulda. Þaðan kemur Kögunarbarnið Sigmundur Davíð, sem gerði þetta að stefnu Framsóknar. Þaðan kemur kvótabarnið Lilja Mósesdóttir, sem gerði þetta að hornsteini nýs stjórnmálaflokks. Tekjuháir fjölmiðlungar hafa tekið undir þessa sérhagsmuni. Hafa haldið á lofti sérhagsmunum, sem fela í sér, að bólginn lífsstíll þeirra sjálfra greiðist af tekjulágum skattgreiðendum.

Krónan veldur vanda

Punktar

Stundum áður hefur verðbólga hækkað húsnæðislán, en ekki hækkað íbúðaverð á sama tíma. Slíkt gerist jafnan á samdráttartímum, þótt misvægið hafi áður ekki verið eins harðskeytt og eftir bankahrunið. Þetta er frávik frá þeirri reglu, að vísitölubinding lána endurspegli bara rýrnun krónunnar. Þegar frá líður jafnar misvægið sig. Við erum nú á millibilsskeiði, sem veldur fólki vandræðum. Ríkisstjórn og alþingi hafa reynt að milda misvægið og hafa ekki ráð á að gera meira. Bankar kunna að geta gert betur. En Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir þurfa að halda raungildi útlána sinna við ört rýrnandi krónu.

Gjaldmiðlafrelsi

Punktar

Ísland er svo fámennt ríki, að erlendir gjaldeyrisbraskarar geta gert áhlaup á krónuna. Hún er veikasta mynt heims, nánast eins og pappírinn í matador. Lengi enn verður hún áfram í gjörgæzlu Seðlabankans. Notar opinbert gengi upp á 170 krónur á evruna og aflandsgengi upp á 230-250 krónur á evruna. Tvöfalt gengi af því tagi er hreint eitur og eyðileggur framtíð krónunnar. Okkur er þar vandi á höndum, því að trylltir evrópuandstæðingar hafna evru sem gjaldmiðli. Við verðum því að fara aðra leið, taka upp frjálsa notkun erlendra mynta að eigin vali í almennum, innlendum viðskiptum og bókhaldi.

Plúsar og mínusar

Punktar

Ríkisstjórnin fær plús í minn kladda fyrir að hafa komið hagkerfinu í fyrra horf eftir hrunið. Alþjóðlegur hagtölur sýna ríkidæmi Íslendinga, hvað sem íslenzkir fjölmiðlar ljúga. Hins vegar hefur stjórninni ekki tekizt að koma upp nýju bankakerfi, þar er sama bófakerfið og áður. Og henni hefur ekki tekizt að losa okkur við helzta bölvaldinn, krónuna, enda elskar þjóðin krónuna sína. Stjórninni hefur ekki heldur tekizt það, sem þjóðin vill, að koma upp þjóðareign og uppboðsmarkaði á kvóta. Né heldur að bera undir hana uppkast að nýrri stjórnarskrá. Í kladdanum eru því bæði plúsar og mínusar.

Eiga ekkert erindi

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu ekki laga það, sem illa hefur gengið hjá ríkisstjórninni. Þeir munu ekki siðvæða spillt bankakerfi. Munu ekki koma kvótanum í þjóðareign og á uppboðsmarkað. Munu ekki bera undir þjóðina uppkast Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá. Munu ekki losa okkur við bölvald krónunnar. Munu ekki einu sinni koma hagkerfinu í gang eftir hrunið, því að það hefur þegar verið gert. Af þessu má ráða, að flokkarnir tveir eiga ekkert erindi við fólkið í landinu. Ekki fremur en dauðuppgefnir ríkisstjórnarflokkar. Við þurfum spánnýja flokka til að taka við keflinu.

Síblautir gigtarfætur

Punktar

Íslendingar fengu ekki síblauta fætur af samskiptum við einveldi Danakóngs. Forfeður okkar bjuggu við eilífan sagga vegna landkosta og húsakosts. Allar aldir voru þeir án gúmmístígvéla og án góritex. Það var ekki dönskum kóngi að kenna, né heldur einveldi eða einokunarverzlun. Gúmmí og góritex voru bara ekki til. Menn þvældust um land og skála síblautir í fætur. Enn þvælast menn um síblautir í þjóðrembu. Nú kennum við ekki lengur kónginum um ófarir okkar, heldur Evrópusambandinu í Bruxelles. Þjóðrembingar vilja fyrir allan mun fá að ösla sínar pólitísku mýrar með verðlausar krónur í götóttum vösum.

Sykur er sæluduft

Punktar

“Kross þinn Jesú kæri / þá kemur að höndum mér / gefðu hann hjartað hræri / hvergi í burt frá þér / gleðinnar sykri stráðu á hann.” Þannig orti séra Bjarni Gissurarson fyrir um það bil þremur öldum. Var það í fyrsta skipti, sem sykurs er getið á íslenzku. Þá var sykur svo eindreginn lúxus til spari, að prestur líkir honum við himnasælu. Nú er sá tími löngu liðinn. Sykur er orðinn uppistaða í fæðu fólks. Viðbættur sykur er einkum í gosi og nammi, en einnig í nánast öllum pakkamat, dósamat, glasamat og flestum skyndibita. Með sykurfíkn eru hrörnunarsjúkdómar þegar farnir að herja á börn og unglinga.

Ónefnanlegur sannleikur

Punktar

Svo mikill dampur er kominn á efnahag okkar, að staða Íslands í þjóðartekjum á mann er sextánda bezt í dollurum. Við erum ofan við Danmörku og Finnland, þótt ætla megi annað af lestri fjölmiðla. Þótt þjóðartekjur á mann séu ekki öll sannindi um hagkerfið, gefa samanburðartölur milli þjóða góða sýn á það. Fjölmiðlarnir spúa daglega hryllingssögum yfir þjóðina. Þær segja, að hér sé allt að fara fjandans til og fólk unnvörpum að flýja land. Það er samt bara þvættingur einn. Hér keyrir allt á fullum dampi og fólksflutningar svipaðir og í venjulegu árferði. Eftir hrunið hefur vel tekizt að rétta landið við.

Slípa þarf Schengen

Punktar

Schengen er að bila. Pólitíkusar um alla Evrópu sjá gallana, sem kontóristar í Bruxelles hafa ekki séð. Frakkland og Þýzkaland hafa lagt fram tillögu á innanríkisráðherrafundi Evrópu um breyttar Schengen-reglur. Samkvæmt henni geta ríki Evrópusambandsins einhliða tekið upp meira eftirlit á landamærum. Lönd um sunnanverða álfuna hafa þegar tekið upp aukið eftirlit, til dæmis í tengslum við fundi óvinsælla fjölþjóðastofnana. Ísland er í Schengen og nýtur góðs af frjálsri ferð um landamæri Evrópu. Samt fylgir frelsinu vandi fjölþjóðlegra glæpa, sem stemma þarf stigu við. Því þarf að slípa Schengen.

Formaður hæfir flokki

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæfir öfgaflokki Framsóknar. Rökstyður hvorki né sundurliðar gaspur sitt um, að ríkisstjórnin hafi unnið meira tjón en sem nemur hruninu. Þetta er í stíl við aðrar upphrópanir hans og öfgaliðs hans á Alþingi síðustu misserin. Hratt hefur flokkurinn verið að öfgast að hætti le Pen í Frakklandi. Gælir við þjóðrembu og daður við þá, sem Bandaríkjamenn kalla “hvíta ruslið”. Áður var flokkurinn tæki nokkurra græðgiskarla gegn almenningi og nú þykist hann þar á ofan gæta þjóðararfsins. Þú þarft ekki að elska ríkisstjórnina til að sjá, að SDG er lýðskrumari frá innsta grunni.

Gegnheil svik

Punktar

Ríkisstjórnin hefur svikið loforð sitt um þjóðareign sjávarauðlinda. Svikið eigin stjórnarsáttmála um þjóðareign og mannréttindi. Eftir heil þrjú ár í endalausu japli, jamli og fuðri er komið fram frumvarp Steingríms, er svíkur öll meginatriði sáttmálans. Samt hefur fyrning kvóta og þjóðareign auðlinda rúmlega 70% fylgi þjóðarinnar í könnunum. Þessi meirihluti vill innkalla veiðiheimildir, endurúthluta þeim á jafnréttisgrundvelli gegn markaðsverði. Þetta er ekki flókið og umboð til aðgerða er ljóst. Samt skelfur Steingrímur af ótta við kvótagreifana. Hann og ríkisstjórnin eiga að segja af sér strax.

Okrið á rafbókum

Punktar

Þunn eru rök Egils Arnar Jóhannssonar fyrir okurverði rafbóka. Kostnaður við útgáfuna er miklu lægri en hann gefur í skyn. Nánast alltaf er textinn til í stafrænu formi. Síðan settur í forrit, sem brýtur hann um prentfræðilega eftir stílsniði lestrartölva. Gerist sjálfvirkt eftir þörfum lesanda hverju sinni. Kostnaður útgefanda felst bara í að eiga forritið. Mjög sjaldan þarf að skanna texta. Prentkostnaður fellur því að mestu út úr kostnaðardæminu. Þannig sparast nærri fjórðungur af kostnaði. Þar á ofan er eign í rafbók ótryggari en eign í kilju. Forrit og lestölvur bila og hverfa, kiljur ekki.

Þetta er ekki einleikið

Punktar

Nú er svo komið, að mönnum dettur almennt Framsókn í hug, ef þeir heyra um afbrigðilega hegðun. Fuglafræðingur telur, að framsóknarmenn beri ábyrgð á eyðingu arnarhreiðurs. “Þetta er framsóknargenið, bændahugsunarhátturinn, en það ætlar að taka eitt til tvöhundruð ár að rækta það úr Íslendingum”, sagði hann. Daginn áður hafði læknismenntaður sálarsagnfræðingur talið, að Egill Skallagrímsson væri framsóknarmaður. “Hann hefði getað orðið dæmigerður framsóknarbóndi og stundað þar grimma eiginhagsmunahyggju, en hann hugsaði alltaf fyrst og fremst um sig sjálfan”, sagði hann. Þetta er ekki einleikið.