Ónefnanlegur sannleikur

Punktar

Svo mikill dampur er kominn á efnahag okkar, að staða Íslands í þjóðartekjum á mann er sextánda bezt í dollurum. Við erum ofan við Danmörku og Finnland, þótt ætla megi annað af lestri fjölmiðla. Þótt þjóðartekjur á mann séu ekki öll sannindi um hagkerfið, gefa samanburðartölur milli þjóða góða sýn á það. Fjölmiðlarnir spúa daglega hryllingssögum yfir þjóðina. Þær segja, að hér sé allt að fara fjandans til og fólk unnvörpum að flýja land. Það er samt bara þvættingur einn. Hér keyrir allt á fullum dampi og fólksflutningar svipaðir og í venjulegu árferði. Eftir hrunið hefur vel tekizt að rétta landið við.