Punktar

Bannið bjó til mafíu

Punktar

Bannárin í Bandaríkjunum eru gott dæmi um hættu af banni á hegðun á gráum svæðum. Áfengisbann skóp bandaríska mafíu, sem gróf undan þjóðskipulaginu. Keppti við ríkið og magnaði spillingu fólks, sem sagði ekki til glæpamanna. Þegar áfengi var leyft aftur, rak mafían vændi, fjárhættuspil og fíkniefni. Sama sagan varð um allan heim. Bann við vændi, fjárhættuspili og fíkniefnum framleiddi skipulagðar mafíur. Fyrir stríð voru grá svæði leyfileg í Evrópu. Leyfa ber aftur vændi, fjárhættuspil og fíkniefni. Grefur undan skipulögðum glæpum. Bjargar einnig ríkisfjárhag með ríkisrekstri fíkniefna í apótekum.

Hægra ástarævintýri

Punktar

Pressan og vefmiðlar hægri jaðars Sjálfstæðisflokksins fara þessa dagana hamförum í ástarkvaki við frambjóðanda Flokksins hjá Samfylkingunni. Hægri vefmiðlarnir finna Guðbjarti Hannessyni allt til foráttu og lofa Árna Pál Árnason upp í hástert. Guðbjartur sé strengbrúða Jóhönnu, en Árni Páll sé maður fólksins. Í ráðherradómi sýndi Árni Páll eigi að síður, að hann hélt með bankastjórum gegn fólkinu. Nær lagi væri að kalla hann mann Flokksins, Sjálfstæðisflokksins. Verði Árni Páll flokksformaður sjá hægri vefmiðlarnir fyrir sér ástarævintýri hægri ríkisstjórnar Flokksins og Samfylkingarinnar.

Jóðsóttin og músin

Punktar

Nokkrum sinnum hef ég lýst undrun minni á seinagangi Sérstaks saksóknara. Hef bent á margsvikin loforð hans um ákærur á næsta leiti. Nú eru að bætast við fleiri áhyggjuefni. Ekkert virðist koma út úr ýmissi tækni, sem beitt er við rannsókn mála. Skjöl eru tekin í húsrannsókn, en ekkert af þeim er lagt fyrir dóm sem málsgagn. Símar eru hleraðir mánuðum saman, en ekkert símtal er lagt fyrir dóm sem málsgagn. Mikið er í húfi í málum þessum, Exista ein skiptir tugum milljarða. Eðlilegar eru húsrannsóknir og símhleranir í svo viðamiklum málum. En við búumst ekki við mús, þegar fjallið tekur jóðsótt.

Hættir að sigra heiminn

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn endurritar sagnfræðina rösklega. Búinn að taka lofið um útrásina úr sögu Flokksins á vefnum. Fjarlægt var: “Ítök stjórnmálamanna og opinberra aðila í atvinnulífinu hafa aldrei verið minni og fyrirtækin aldrei verið öflugri.” Nefnilega ekki lengur fínt að hrósa sér af skipulegu eftirlitsleysi með banksterum. Í sögu Flokksins er ekki heldur lengur þetta: “Atvinnulífið hefur nýtt sér til fulls það frelsi til athafna sem stjórnvöld komu á í lok 20. aldar og starfssvæðið er heimurinn allur.” Já, það verður að gera hlé á lofi um frelsið, meðan kjósendur ljúka við að gleyma hruninu.

Sconi, Morsi og Davíð

Punktar

Fleiri kjósendur eru foráttufífl en Íslendingar einir. Mario Monti segir af sér forsætis á Ítalíu og Berlusconi tilkynnir endurkomu sína. Vafalaust munu Ítalir enn kjósa sinn ofursterka leiðtoga. Egyptar kusu sinn Mohammed Morsi, sem var fljótur að gefa út tilskipun um sitt eigið einræði. Kjósendur munu vafalaust endurkjósa hann í hrifningu á sínum sterka leiðtoga. Írakar dáðu Saddam Hussein eins og Rússar dá Vladimir Putin, hvort tveggja örgustu bófa. Tveir þriðju hlutar íslenzkra kjósenda eru svo skyni skroppnir, að vonlaust er að koma upp nýju Íslandi. Gefur Davíð sterki ekki bara kost á sér aftur?

Framboð þingmanna

Punktar

Ný framboð valda mér sum hver vonbrigðum. Víðast eru þar þingmenn að verki, brenndir af rugli vinnustaðarins. Sé ekki, að Samstaða snúist um neitt annað en Lilju Mósesdóttur og einþykkar kenningar hennar. Björt Framtíð snýst um fátt annað en bjarta framtíð þingmanna, sem þangað hafa flúið af sökkvandi skipum. Dögun fylgja meiri væntingar, því að þar hafa birzt frambjóðendur úr lausnadrifnu stjórnlagaráði. Hægri grænir virðast alveg lausir við brennda þingmenn. Af þessum flokkum hefur aðeins Björt Framtíð kveikt í kjósendum. Ég bíð enn eftir nýjum frambjóðendum, sem hugsa eins og langþreytt þjóðin.

Æði verkfræðinga

Punktar

Benti í gær á áratuga reynslu af áætlunum verkfræðinga, sem jafnan eru rugl. Topparnir eru ráðgjafar Landsvirkjunar, Orkustofnunar og HS Orku. Reiknuðu feiknarlegt magn af auðveldri orku í jarðhitann. Þeir voru úti að aka. Samið var um álver í Helguvík, en ekki er enn búið að finna orkuna. Verkfræðingar höfðu tvíreiknað og þríreiknað orkumagnið og hefðu tæmt hitabirgðir skagans á skömmum tíma. Nú eru óðu ráðgjafarnir enn komnir á flug. Búnir að reikna útflutning á þreföldum Kárahnjúkum á streng til útlanda. Vinsælt væri þó, að áður leiðréttu fræðingarnir rugl sitt víða um Hellisheiði og Reykjanesskaga.

Ofurafl yfirstéttar

Punktar

Sérhagsmunir yfirstéttarinnar eru sterkasta aflið í þjóðfélaginu, þrátt fyrir norræna velferðarstjórn. Fjölmiðlar eru flestir áróðursvélar eigenda, einkum kvótagreifa. Embættismenn telja sig flestir vera yfirstéttar og eru stéttvísir. Dómarar eru á sama báti. Sérfræðingar eru kostaðir af stjórum og fyrirtækjum yfirstéttarinnar og gæta hagsmuna hennar. Yfirstéttin á Flokkinn og Framsókn, Moggann og nýmiðla og teygir sig inn í Samfylkinguna og Vinstri græna. Ekkert gerist af viti hér á landi fyrr en þjóðin sér ljósið og gerir uppreisn gegn kvölurum sínum. Sem ekki er fyrirsjáanlegt í náinni framtíð.

Óbilandi trúarstyrkur

Punktar

Frá ómunatíð hafa kostnaðaráætlanir verkfræðinga reynzt skrípó. Samt eru þeir enn látnir áætla. Fyrir hrun útlistuðu peningafræðingar snilld og dýrð bankabófa og útrásarbófa. Samt eru þeir enn að áætla, greiningardeildir bankanna blómstra enn. Allt frá hruni hefur hálf stétt lögfræðinga atvinnu af þjónustu við glæframenn. Samt eru þeir enn látnir skila áliti um allt milli himins og jarðar. Ofan á framhald kostnaðaráætlana, fjárhagsáætlana og álitsgerða eru meintir sérfræðingar nánast daglega í fjölmiðlum. Trúa menn virkilega enn á sérfræðinga? Vantar ekki eitthvað í hausinn á fjölmiðlungum?

Marshall í valdabraski

Punktar

Fráleitt er að telja uppkast þjóðarinnar að stjórnarskrá vera vanreifað. Var fyrst rætt almennum orðum á þjóðfundi. Síðan var orðalagið einróma samþykkt í stjórnlagaráði. Því orðalagi var gefið grænt ljós í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tók Róbert Marshall ekki eftir þeim yfirgnæfandi meirihluta? Svaf hann bara? Nú vill hann tefja málið fram yfir kosningar. Hann er ekki í lagi. Líklega er að baki dulbúið tilboð Bjartrar Framtíðar til Flokksins um samstarf. Um að flokkur hans og Guðmundar Steingrímssonar vilji fleygja uppkastinu. Björt Framtíð er ekki lengur vonin blíð, heldur hefðbundinn flokkur valdabraskara.

Skrítin sátt við greifa

Punktar

Ráðherrar vinstri grænna brutu gegn væntingum fólks eftir hrunið með því að eyðileggja þjóðareign auðlinda hafsins. Þverskölluðust við að fyrna kvótann. Í stað þess hófu þeir dans við kvótagreifa um svokallaða sátt. Enga slíka sátt þurfti við greifana, bara sátt þjóðarinnar við sjálfa sig. Fyrst kom Jón Bjarnason að þessu ógæfuverki og síðan Steingrímur J. Sigfússon. Út úr því er komið enn eitt frumvarp, sem engum líkar, hvorki þjóð né kvótagreifum og umboðsmönnum þeirra. Þannig hefur hvað eftir annað tekizt að spila málinu í tímahrak, sem endar bara á einn veg. Með verstu svikum ríkisstjórnarinnar.

Bjánar gegn bófum

Punktar

Bjánaflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna ganga nestislausir til kosninga eins og bófaflokkar Framsóknar og Flokksins. Hafa brugðist væntingum fólks og svikið helztu kosningaloforðin. Með ótrúlegustu undanbrögðum í heilt kjörtímabil hafa þeir vikizt undan fyrningu kvóta og þjóðnýtingu hans. Og nú er stjórnarskráin að fara í hakkavél bófaflokksins á síðustu dögum þingsins. Bjánaflokkarnir gátu sagt sér, að bófaflokkarnir mundu beita öllum brögðum til að fella stjórnarskrá fólksins á tíma. Eina leiðin að hindra endurheimt bófanna á valdakerfinu er að styðja nýja flokka til sigurs í kosningunum.

Hagsmunagæzla sérfræðinga

Punktar

Töluvert af svokölluðum sérfræðingum landsins eru partur af yfirstéttinni, einkum lögmenn. Flestir þeirra gæta hagsmuna yfirstéttarinnar, en alls ekki þjóðarinnar. Finna allt til foráttu þeim breytingum, sem fela í sér skert forréttindi og fríðindi yfirstéttarinnar. Eru þess vegna andvígir þjóðareign kvótans og nýrri stjórnarskrá. Hvort tveggja felur í sér tilfærslu á valdi frá þeim, sem ekki lúta sömu reglum og takmörkunum og aðrir landsmenn. Við skulum hafa þetta í huga, þegar við heyrum gagnrýni sérfræðinga á þjóðareign kvóta og nýrri stjórnarskrá. Sú gagnrýni er fyrst og fremst hagsmunagæzla.

Valtið yfir bófaflokka

Punktar

Hvernig skal meta, hversu mikið málþóf hæfi umræðu um nýja stjórnarskrá? Á að miða við fimmtíu klukkustundir eða kannski hundrað? Á að taka tillit til þess, hvort bófarnir tala um stjórnarskrána eða bara um daginn og veginn. Af því, sem á undan er gengið, er líklegt, að innihald umræðunnar rýri enn veg og virðingu Alþingis. Foringjar bófaflokkanna á Alþingi hafa dregið leifar þessarar virðingar fram og aftur um svaðið í nokkur ár. Höfnum eindregið samningi við bófa um skert framsal réttinda frá greifunum til þjóðarinnar. Millileið er ófær í stjórnarskrármálinu. Valta verður yfir bófaflokkana.

Málþóf skerðir virðingu

Punktar

Erfitt er að meta, hversu lengi þurfi að tala um fjárlög ríkisins í annarri umræðu af þremur. Hitt er hægt að heimta, að þessa fimmtíu klukkutíma tali menn um fjárlögin. Ekki bara út og suður um hitt og þetta. Menúett málþófs leynir sér ekki. Hefur bein áhrif á skort Alþingis á virðingu. Fátt hefur rýrt Alþingi meira en málþófið. Einnig koma þar við sögu óp og framíköll og spjaldburður götustráka. Virðing Alþingis er komin niður í 9% og eiga allir á því sök, málþófsmenn, götustrákar og forsetar Alþingis. Málþófið er sýnu alvarlegast, því að það er tilraun til að ýta óviðkomandi málum af dagskrá.