Punktar

Ekki lengur ein þjóð

Punktar

Límið er að mestu horfið úr íslenzku samfélagi. Við erum ekki lengur ein þjóð í einu landi. Núna eru bara ýmsir minnihlutar, sem hatast. Kvótagreifar sölsuðu undir sig arð þjóðarinnar og storka stórum minnihluta hennar. Umbar greifanna á þingi hyggjast lögfesta ránið á þessu ári. Að baki eru flokkasauðir, annar stór minnihluti, sem lætur hvað sem er yfir sig ganga. Jafnvel niðurrif heilsugæzlu og lækninga. Ríkisstjórnin gengur fram af þvílíku offorsi, að engar líkur eru á þjóðarsáttum. Fólk ælir bara, þegar það sér Gylfa Arnbjörnsson, umba greifanna í hjörð verkalýðsrekenda. Það mun kosta óratíma að líma samfélagið að nýju, ef einhverntíma.

300.000 krónur í vasann

Punktar

Þökkum læknum Landspítalans fyrir að sýna fram á gjaldþrot brauðmolastefnunnar. Þeir sýna í verki fram á, að þeir fara annað, þegar bófaflokkar ríkisstjórnar ætla að skammta þeim úr hnefa. Menntun lækna er nógu eftirsótt erlendis. Þess vegna geta þeir tekið forustuna af frosinni verkalýðshreyfingu. Hún þolir, að dagvinna láglaunafólks nægi ekki til framfærslu. Þjóðin á að sparka henni með bófaflokkunum, taka sér auðlindarentu af útgerð og stóriðju. Hún á að taka sér hálfa milljón á mánuði í lágmarkslaun fyrir skatta. Þrjúhundruð þúsund á mánuði í vasann ætti að halda fólki frá biðröðum í matargjöfum. Spörkum blóðsugunum.

Að vera með Orkum

Punktar

Biskup kvartaði ekki yfir fúnum og lekum Landspítala, heldur fátækum kirkjum. Við því var að búast eins og fölsunum á eign kirkjunnar á menningunni. Kristni er hluti okkar, en hún er ekki þjóðarsagan. Hér er ásatrú og Mammonstrú. Fólk skilur líka, að ekki þarf himnesk verðlaun til að haga sér vel. Siðir verðlauna sig sjálfir. En hún gekk lengra, vildi láta leiða aðkomulýð í kirkju. Þjóðrembd hugsun í stíl Flokksins í Kína, sem þvingar kristna til að nema þjóðrembu. Var að fiska í gruggugu eins og Framsókn. Mér varð illt. Þakka þó, að hún fríaði mig kirkjulausan af að vera Sannur Íslendingur. Vil sízt vera þar með Orkum.

Úreltar fyrirmyndir

Punktar

Aflið, sem „sannir Íslendingar“ hata er stærsta efnahags- og viðskiptaveldi heimsins, eins stórt og Bandaríkin og Kína til samans. Það er Evrópusambandið, sem kvelur Breta og Íslendinga með alls konar reglugerðum, til dæmis um bætta nýtingu á orku. Sannir Bretar og Íslendingar vilja ekki láta segja sér fyrir verkum. Evrópusambandsríkin verja miklu minna fé til heilsumála en Bandaríkin og ná samt þeim árangri að hafa beztu heilsukerfi í heimi. Bandaríkin eru þar í 37. sæti. En við höfum ríkisstjórn, er fylgir brezk-bandarískri brauðmolastefnu um að hossa hinum ríkustu. Ísland hefur úreltar fyrirmyndir í efnahagsmálum.

Fátækra-bissniss

Punktar

Þegar Íslendinga og Rússa skorti valútu á kaldastríðsárunum, stunduðu ríkin vöruskipti undir ríkisvæng. Við seldum þangað fisk og fengum olíu í staðinn og stundum ónýta bíla. Þetta þótti mikið hallæri. Nú skortir aftur valútu á báðum stöðum og aftur er farið að tala um vöruskipti. Rússar borga ekki lengur fyrir fiskinn, sem þeim er sendur. Pútínistar Sjálfstæðisflokksins vilja auðvitað að ríkið hjálpi fisksölum á kostnað skattgreiðenda. Sá flokkur hefur löngum verið duglegur að sukka með annarra manna peninga. Úr því að Rússar vilja ekki borga fyrir fisk, er kannski í staðinn hægt að svíða úr þeim svartolíu og ónýta bíla.

Harmsaga gjaldmiðla

Punktar

Fyrir áratug var gildi brezka pundsins ein og hálf evra. Í bankakreppunni árin 2007-2008 féll pundið niður í eina evru og fjórðung. Það gengi hefur síðan haldizt, en nú eru spár um, að pundið falli enn frekar. Dollarinn hefur þennan áratug haldið jöfnu gagnvart evrunni, en glatað yfirburðum sínum sem grunnmynt heimsins. Dollar og evra hafa í staðinn myndað tvíeyki. Einstaka myntum hefur vegnað betur, svissneskum franka og kínversku yuan, sem nú er þó farið að ramba hættulega. Í grimmum gengisheimi er ekki bara þýðingarlaust, heldur beinlínis sjálfsvíg að halda úti örmynt, sem hefur að baki langa og linnulausa harmsögu.

U-beygja lögreglustjóra

Punktar

Marklaus er Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri Hönnu Birnu. Fyrir nokkrum árum flutti hún erindi við Háskólann á Akureyri um, að lögreglan þyrfti að deila upplýsingum með almenningi. Hún þyrfti að tengjast fólkinu betur. Svo snýr hún við blaðinu, þegar hún er orðin lögreglustjóri í Reykjavík. Vill núna kerfisbundið ekki tjá sig við fjölmiðla. Á henni dynja spurningar um framferði hennar sem lögreglustjóra í Keflavík, en hún svarar engu. Margir hafa ítrekað reynt að ná sambandi við hana, en ekkert gengið. Skelfilegt dæmi um marklausan embættismann flokkspólitískan, er gerir sig breiða í fyrirlestrum án innihalds.

Óðinn og Mammon

Punktar

Ég er ekki andvígur trú, allra sízt kristinni. Hún er partur af fortíðinni, að vísu lítill partur, en samt mikilvægur. Hef aldrei fundið til þeirrar óbeitar, sem einkennir marga trúleysingja. Fremur mótast afstaða mín af efa. Af efa um allt, sem reglumeistarar þjóða hafa fyrir satt. Veit satt að segja ekki, hvort guð sé til. Segi bara pass við guðshugmyndinni. Þannig guðleysi kallast frekar agnosticismi, heldur en atheismi. Jól mín eru frekar veraldleg en kristin. Þau felast í gjöfum og áti, gætu flokkast undir dýrkun Óðins eða Mammons. Þannig held ég að séu jól margra, sem þykjast kristnir. Mest fagna ég hækkandi sól.

Risaeðlur paradísar

Punktar

Eitt af því fáa, sem skilur mann frá dýri, er skilningur góðs og ills. Adam og Eva hröktust úr paradís dýranna, því þau átu epli af skilningstré góðs og ills. Samt skilja margir ekki muninn. Siðblindir vaða fram í tillitsleysi í mannlegum samskiptum. Alveg eins og risaeðlurnar gerðu, er þær voru í okkar stöðu. Raunar stunda siðblindingjar ekki mannleg samskipti. Reyna að drottna, stela, ljúga, svíkja skatt, stunda umboðssvik og kennitöluflakk. Algengust er siðblindan í pólitík. Menn fara í pólitík til að drottna. Gerast aðstoðarmenn ráðherra til að ljúga. Á Íslandi eru víða leifar af siðblindu dýri paradísar.
Gleðileg jól.

Sólin og hvítskeggur

Punktar

Eingyðistrú á langa og skrykkjótta sögu. Fyrir rúmum þrjúþúsund og þrjúhundruð árum varð trú á sólina um skeið að ríkistrú í Egyptalandi. Sólartrú var víða í rómönsku Ameríku, þegar Spánverjar komu þangað. Trú á hvítskegg hófst á tíma biblíunnar og einkennir gyðingdóm, íslam og kristni. Frá þeim tíma hefur þess háttar trú breiðst út um allan heim. Sumir líta á guð sem eins konar reginafl í umheiminum frekar en hvítskeggjaðan karl. Sólin er nærtækur guð í sólkerfinu, en dugar skammt fyrir alheiminn. Tilgangslaust er að búa til snertiflöt milli vísinda og trúar. Vísindi byggjast á athugunum, tilraunum og tilgátum en trú er einfaldlega trú.

Vonbrigði með veltu

Punktar

Samtök verzlunar og þjónustu segja jólaverzlunina hafa staðið í stað milli ára. Er í samræmi við útreikninga Hagstofunnar á hagvexti ársins, það er að segja viðskiptaveltu. Hann reyndist ekki vera neinn, öfugt við spár seðlabanka og ríkisstjórnar, sem gerðu ráð fyrir miklum hagvexti. Fýldur Már seðlabankastjóri kvartaði yfir hagstofunni og sagði útreikningana koma sér á óvart. En nú hefur jólaverzlunin staðfest hrakspána. Eins og ég hef áður sagt stafar skortur á kaupgleði af ótta fólks við framtíðina. Menn reikna með frekari árásum þjóna auðgreifanna á lífskjör fólks í framhaldi af fjárlögum firrtra silfurskeiðunga.

Skjól útigangshrossa

Punktar

Útigangshross þurfa að hafa aðgang að skjóli. Þarf ekki að vera hús, því hross vilja ekki vera inni. Sé gefið inni, fara þau inn til að éta, en fara svo út um leið og þau eru södd, hvernig sem viðrar. Víða veitir landslag skjól eða gaflar útihúsa. Að öðrum kosti eru reistir veggir, oftast í formi Y, þar sem hross skýla sér fyrir hvaða vindátt sem er. Víða á láglendi hafa útigangshross engan aðgang að skjóli, til dæmis í þurrkuðum mýrum  á Suðurlandi. Hörmulegt slys á Álftanesi gefur tilefni til átaks í skjólveggjum fyrir útigangshross. Enginn vandi er að láta útigangshross koma glansandi betur undan vetri en hross á húsi.

Rústuðu fornminjum

Punktar

Fornleifafræðingar bera ábyrgð á fornminjum, sem þeir grafa upp og ofurselja náttúruöflunum. Sé ekki hægt að ganga sómasamlega frá minjum, á að láta þær í friði til betri tíma. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi voru nýlega opnaðar minjar í jörð frá fyrri öldum. Þær voru síðan skildar eftir í reiðileysi og urðu fyrir ágangi sjávar. Betra hefði verið að láta þær liggja óhreyfðar. Þegar leyfður er uppgröftur, ætti að skylda fornleifafræðinga til að undirrita loforð um verndun minjanna. Mér sýnist á Gufuskálum hafa verið unnið meira af kappi en forsjá. Látum þetta verða okkur víti til varnaðar. Ekki hleypa æðikollum í uppgröft.

Jól stéttaskiptingar

Punktar

Stóra pólitíkin snýst um aukna stéttaskiptingu og aukið bil milli stétta, aukna fátækt. Sjálfsfróun forsætis og fjármála megnar ekki að slá ryki í augu fólks. Við sjáum venjulegt láglaunafólk fara á sósíalinn eða fá aðstoð samtaka, sem sinna velferð. Við sjáum þá óheppnu, er slösuðust, lentu í örorku, langvinnum sjúkdómum, svo og einstæðinga og barnafólk. Alla velferð slíkra sker ríkið niður til að geta gefið auðgreifum tugi milljarða á ári. Við búum við hættulega ríkisstjórn og fáráðan stjórnarmeirihluta, sem vilja ekki sjá veruleikann. Þess í stað láta afleitu bófaflokkarnir foringjana ljúga Undralandi upp á ástandið.

Ríkiskontórar á Króknum

Punktar

Byggðastofnun hefur reiknað skiptingu ríkisstarfsmanna á kjördæmi. Þar kemur í ljós, að Reykjavík einokar alls ekki slík störf. Miklu frekar er það kjördæmið síkvartandi, Norðurland vestra, sem hefur of marga ríkisstarfsmenn. Þar eru 427 störf á vegum ríkisins, en ættu að vera 385, ef jafnræðis væri gætt. Þess vegna er engin ástæða til að flytja Landhelgisgæzluna og Rarik til Skagafjarðar. Miklu nær væri að flytja Byggðastofnun frá Króknum til Reykjavíkur til að ná jafnvægi í byggð ríkisstarfsmanna. Stefán Vagn Stefánsson framsóknarfrekja og  Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri ættu því að finna sér annað umkvörtunarefni.