Author Archive

Persónuval og greindarvísitala

Punktar

Persónuval er fín endurbót á alþingiskosningum. Flestir kjósendur telja það efla möguleika sína til að hafa áhrif. Undantekningar eru þó, einkum í Sjálfstæðisflokknum. Þar er mikið af fólki, sem vill ekki láta flækja mál fyrir sér, vill bara merkja við D-ið. Telur ekki í sínum verkahring að hafa afskipti af vali manna. Flokkurinn neyðist til að taka tillit til heimskra kjósenda sinna, mun því verða andvígur þessu ákvæði. Ef það verður samþykkt, getur flokkurinn neitað að nota sér möguleika þess. Það verður tilefni kaldrifjaðrar gamansemi um meðaltalið á greindarvísitölu kjósenda hans.

Fjölmiðlavandinn er annar

Fjölmiðlun

Fáokun af völdum auðkýfinga er ekki að drepa frjálsa fjölmiðlun. Hún sligast undir vondri stjórn, breytingum í tækni og efnahag, veraldarvefnum. Dagblöð tapa áskrifendum og auglýsingum og það drepur þau. Sjónvarp tapar líka áskrifendum og auglýsingum, nema það geti skattlagt fólk. Ekki er komið í veg fyrir valdþjöppun með því að hindra samkeyrslu Fréttablaðsins og Moggans. Það eina, sem skaðast, er geta hefðbundinna fjölmiðla til að birta alvörufréttir í samkeppni við ríkið. Fjölmiðlar eru svo illa á vegi staddir, að fáokun auðkýfinga er ekki hættulegasta vandamál fjölmiðlunar.

Skottið dillar hundinum

Punktar

Nánast enginn treystir sér í pólitískt framboð í Bandaríkjunum í andstöðu við baráttusamtök til stuðnings Ísraels. Hver forsetinn á fætur öðrum lofar eindregnum stuðningi við Ísrael. Nú síðast Barack Obama. Milljarðar streyma frá Bandaríkjunum á hverju ári. Ísrael fær gefins hergögn og peninga frá bandaríska ríkinu og bandarískum almenningi. Samt eru gyðingar ekki ráðandi afl í bönkum og fjölmiðlum þar vestra. Nema í New York Times, sem er hallt undir Ísrael. Efasemdir fólks og ráðamanna í Evrópu þekkjast varla í Bandaríkjunum. Ísrael er skottið, sem dillar bandaríska hundinum.

Leyndarkostnaður hvalkjöts

Punktar

Mörður Árnason alþingismaður segir flutning 82 tonna af frystu hvalkjöti hafa kostað 112 milljónir króna í fyrra. Ekki kemur fram, hvort þar sé líka geymslukostnaður á kjötinu í Japan. Það lá þar lengi óselt í frystiskemmu. Í skýrslum kemur fram, að útflutningsverðið nam bara 95 milljónum. Kristján Loftsson, útflytjandi hvalkjöts, segir þetta rangar tölur, en upplýsir hins vegar ekki, hverjar séu réttar. Það er einmitt algengt í íslenzkri pólitík að vefengja skráðar tölur. En koma ekki með réttar í staðinn, því að þær séu leyndó. Sjávarútvegsráðuneytið segist senn birta allar tölur í þessu máli.

Jóhanna og Ingibjörg

Punktar

Við höfum fengið að vita, hverjir njóta trausts í pólitíkinni. Það eru ekki margir, ekki Geir Haarde og ekki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og ekki Ólafur Ragnar Grímsson. Alls ekki Davíð Oddsson, sem er almennt fyrirlitinn. Öllum þessum er vantreyst. Trausts nýtur einkum heilög Jóhanna Sigurðardóttir. Í öðru lagi ópólitísku ráðherrarnir Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir. Í þriðja lagi pólitísku ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Ekki fleiri, samkvæmt skoðanakönnun. Kemur ekki á óvart og segir okkur, hvers konar pólitíkusa fólk vill fá. Mest læri Samfylkingin af þessu.

Veðsetning auðlindanna

Punktar

Tómt mál er að tala um að selja orkuver og fossa, jarðvarma og fiskimið til að grynna á skuldum ríkisins. Þetta eru auðlindir þjóðarinnar og verða ekki lagðar undir í glórulausum fjárglæfrum frjálshyggjustjórna Davíðs og Geirs. Ef þjóðin getur ekki borgað skuldir frjálshyggjunar, þá getur hún það bara ekki. Engar veðsetningar auðlinda mega verða inni í þeirri mynd.

Jóhanna nýtur ein trausts

Punktar

Réttilega segir Jón Baldvin Hannibalsson Jóhönnu Sigurðardóttur verða betri formann Samfylkingarinnar en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Viðbrögð Jóhönnu voru að vísu eindregin, hún styður Ingibjörgu. Sem gat engu svarað nema “ad hominem”, Jón Baldvin væri gamall fauskur með langt syndaregistur. Það er raunar mál grasrótarinnar að ákveða forustuna eins og annað. Jón Baldvin hefur hótað að fara fram til formanns, ef Jóhanna gerir það ekki. Það er lýðræðislegt. Minnir okkur á, að flestir þingmenn Samfylkingarinnar ætla að hanga á völdunum. Þótt þeir hafi steinsofið á vaktinni eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Heilög Jóhanna nýtur ein trausts þar á bæ.

Blair-ismi Samfylkingarinnar

Punktar

Formaður og þinglið Samfylkingarinnar eru sek um Blair-isma. Þau tóku trú á sömu nýfrjálshyggju og Tony Blair. Gengu í sæng með Davíð Oddssyni og Geir Haarde til að uppfylla spádóma Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Stefnan sprakk framan í Samfylkinguna, sem þarf nýja stjórn og nýtt þinglið. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur ein trausts þar á bæ. Hún er heilög og teflon-húðuð. Hinum öllum þarf að skipta út. Ef það gerist ekki, munu kjósendur væntanlega átta sig á brennuvörgum flokksins og fella þá. Kannski flokkinn líka.

Endurtaka mistök Rússa

Punktar

Þeir sem ekki læra sagnfræði eru dæmdir til að endurtaka söguna. Þannig hefur Nató endurtekið mistök Sovétríkjanna í Afganistan. Sovétríkin réðu landinu í níu ár og hrökkluðust síðan á brott með skömm. Nú hafa Bandaríkin og Nató hernumið landið næstum eins lengi og stöðugt sígur á ógæfuhliðina. Rússar gátu til dæmis hleypt stúlkum í nám, en það megna Vesturveldin ekki. Ríkisstjórn landsins stýrir aðeins miðbæ höfuðborgarinnar Kabúl. Alls konar herstjórar og talíbanar ráða restinni af ríkinu. Jonathan Steele skrifar um þetta í Guardian í dag. Hann segir Nató vera að endurtaka mistök Rússa.

Sífellt fangelsisrugl

Punktar

Þeir, sem fjalla um fangelsi, láta undir höfuð leggjast að taka afstöðu til þess, sem mestu skiptir. Að fangelsi halda síbrotamönnum frá iðju sinni um sinn. Í staðinn rífast menn um, hvort fangelsi eigi að vera refsing eða uppbygging eða skóli. Helmingur fanga er í síbrotum og bíða bara eftir færi á að taka upp fyrri iðju. Helmingur fanga er algerlega vonlaus, þótt öllum vandamálafræðingum sé sigað á þá. Samfélagið gerir þá kröfu til þeirra, sem sjá um fangelsin, að það sé ekki varnarlaust gegn síglæpamönnum. Langar innisetur þeirra gera þeim hvorki gagn né skaða. En þær frelsa samfélagið.

Stjórnlagaþing í haust

Punktar

Kosningar til stjórnlagaþings mega helzt ekki fara fram samhliða kosningum til alþingis í vor. Hætt er við, að of margir einblíni á stjórnlagaþing sem ofurlausn íslenzkra vandamála. Þeir vandi sig í vali til stjórnlagaþings og leyfi gömlu gaurunum og flokkunum að halda áfram að ráðskast með Alþingi. Mér finnst óráð að trufla og deyfa næstu þingkosningar með samhliða umræðu um stjórnlagaþing. Í vor þarf þjóðin að gera upp við drullusokkana. Síðan er í fínu lagi að kjósa til stjórnlagaþings næsta haust. Það er sjálfstætt framfaramál til langs tíma, en ekki brýnasta verkefni allra næstu mánaða.

Evrópusambandið er langtímamál

Punktar

Aðild að Evrópusambandinu hefði hindrað hrun Íslands. Það segir að minnsta kosti Hose Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins. En það er of seint núna að ganga í bandalagið til að forðast hrunið. Þess vegna er aðild ekki brýnasta mál dagsins. Það getur verið nauðsynlegt að vera kominn í bandalagið fyrir næsta hrun Íslands. En það gerist ekki fyrr en vanhæfur Sjálfstæðisflokkur kemst aftur til valda á Íslandi. Það gerist vonandi ekki næsta áratuginn, svo að við höfum góðan tíma til stefnu. Við þurfum að gæta okkar vel í samningaviðræðum og megum alls ekki landa samningi í tímahraki.

Allra manna heimskastir

Punktar

Furðulegt er, að hrunflokkarnir tveir hafa enn meirihlutafylgi þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Sjálfstæðið hefur 29% fylgi og Samfylkingin 24%. Samtals eru það 53% eða hreinn meirihluti. Að vísu eru margir óákveðnir, en ástæðulaust er að telja þá dreifast á flokka ólíkt hinum ákveðnu. Samkvæmt þessu er þjóðin sátt við flokkana tvo, sem komu henni á hausinn. Ég hef oft haldið fram, að þjóðin sé ótrúlega heimsk, sennilega vegna innræktunar. Tölur skoðanakannana um pólitík benda til, að ég hafi rétt fyrir mér. Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð.

Varið ykkur á ríkisrekstri

Punktar

Ríkisstjórnin hyggst setja upp umsýslufélag ríkisins um rekstur fyrirtækja, sem ekki er hægt að bjarga með neinum aðgerðum innan ramma einkaframtaks. Þetta er hættuleg leið, sem fyrst og fremst á að varðveita atvinnu. Sum eru eignarhaldsfélög, hafa fáa í vinnu og mega gjarna deyja drottni sínum. Öðru máli gegnir um vinnuaflsfyrirtæki. Verjandi getur verið að ríkisreka slík fyrirtæki um skamman tíma, fremur en að leyfa þeim að deyja. Aðalatriðið er, að stjórnendur þessa dæmis átti sig á reynslu sögunnar. Hún gefur slíkum fyrirtækjum á vegum ríkisins slæma einkunn. Munið til dæmis eftir Álafossi.

Dæmigert land múslima

Punktar

Egyptaland er dæmigert land múslima. Einræðisherrann Hosni Mubarak hefur ríkt í þrjá áratugi. Hefur tugi þúsunda manna í leyniþjónustu, sem heldur borgurum landsins í skefjum. Sjálfur tekur Mubarak prósentur af spillingu. ríkisins. Engin velferð er í landinu. Læknar hverfa frá skurðarborði til að biðjast fyrir. Stjórnarandstæðingar eru skipulega pyndaðir í ríkisfangelsum. Bandaríkin hafa Mubarak á framfæri sínu. Þýðir í raun, að borgararnir hata ekki bara Mubarak, heldur líka vestrænt samfélag yfirleitt. Harðstjórnin í Egyptalandi er dæmigerð fyrir samfélög múslima, harðstjórn í stað lýðræðis.