Author Archive

21. Írland – Carrigahowley

Borgarrölt
Carrigahowley Castle, Írland

Carrigahowley Castle

Carrigahowley

Við förum aftur út á N59, höldum þar áfram skamman veg og beygjum aftur til vinstri eftir afleggjara að gömlum hústurni.

Carrigahowley Castle er einnig nefndur Rockfleet Castle. Hann er á fjórum hæðum, reistur á 15. öld, eins og svo margir aðrir slíkir í landinu. Játvarður VI Englandskonungur niðurgreiddi slíka hústurna til að treysta tök lénsmanna sinna á óþægum þegnum írskum. Á neðstu hæð þeirra voru geymslur, en á fjórðu hæð voru vistar–verur húsráðanda. Carrigahowley Castle er vel varðveitt dæmi um þetta.

Dooagh, Írland

Dooagh

Dooagh

Hér getum við snúið við, ef við höfum lítinn tíma. Annars förum við áfram N59 til Mulrany, þar sem við beygjum til vinstri eftir R319 út í Achill-eyju til þorpanna Keel og Dooagh.

Achill-eyja er tengd með brú við meginlandið. Landslag þar er sérstætt og veðurbarið, kjörið fyrir öldureið, strandlegur og fiskisport. Sandstrendur og klettahöfðar skiptast á við ströndina. Trjálaus þorpin hvíla hvítmáluð við langa sanda.

Næstu skref

 

20. Írland – Burrishoole

Borgarrölt
Burrishoole Friary, Írland

Burrishoole Friary

Burrishoole

Frá Newport getum við farið suður N59 til Westport. Við getum líka tekið krók norður N59 til að skoða gamlar rústir og fara út í Achill-eyju. Í síðara tilvikinu beygjum við fljótlega til vinstri á afleggjara til Burrishoole-klausturs.

Burrishoole Friary var klaustur Dóminíkusa, stofnað 1486, en breytt í virki einni öld síðar. Uppi stendur breiður og skakkur kirkju- eða virkisturn, kirkjuskip, kór og syðra þverskip, einnig hlutar klausturs.

Næstu skref

19. Írland – Ballintubber

Borgarrölt

Breaffy

Leiðin liggur sömu leið til baka til Ballina og þaðan N59 og síðan N5 til Castlebar. Frá Castlebar getum við farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst krók úr Castlebar til vinstri eftir N60 í átt til Claremorris, þar sem við komum fljótt að skondnu sveitasetri.

Breaffy House er furðuleg blanda af gömlu og nýju, því að nýtízkulegri gler- og steypuálmu í reglubundnum stíl hefur verið skeytt við gamla og óreglulega höll. Hótelið stendur í stórum og fögrum garði. Það býður meðal annars fiskveiði, skotveiði og hestaferðir.

Ballintubber

Ballintubber Abbey, Írland

Ballintubber Abbey

Við förum sömu leið til baka til Castlebar. Þaðan getum við enn farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst annan krók úr Castlebar til vinstri eftir N84 til enn eins klaustursins, Ballintubber Abbey.

Í gotneskri klausturkirkju Ballintubber Abbey hefur messa verið sungin í 780 ár, án þess að dagur hafi fallið úr, þótt mikið hafi stundum gengið á, og er það sennilega Írlandsmet. Kirkjan var reist fyrir reglu Ágústínusa 1216, en endurbyggð að hluta eftir bruna 1265. Árið 1653 lét Cromwell eyðileggja klaustrið og brenna kirkjuþakið. Nýtt kirkjuþak í upprunalegum stíl var sett á kirkjuna 1966. Inni í kirkjunni eru ýmsir gripir frá 13. öld, svo sem altari.

Newport

Við förum til baka N84 til Castlebar og þaðan R311 til Newport. Í miðbænum förum við yfir brúna á ánni og beygjum strax til vinstri um mikið hlið inn á landareign herragarðs og hótels.

Newport House er gamalt sveitasetur í georgískum stíl, fagurlega klætt gróskumiklum rauðblaða vafningsviði, svo að rétt grillir í gluggana. Húsakynni eru einstaklega virðuleg, til dæmis mikill stigasalur í miðju húsi.

 

Næstu skref

 

18. Írland – Rosserk

Borgarrölt

Rossnowlagh

Frá Donegal förum við N15 í átt til Bundoran og beygjum til hægri í átt til Rossnowlagh-strandar.

Sand House Hotel stendur eitt sér á ströndinni, bjart hús með skrautskotraufum á þaki.

Rosserk

Rosserk Abbey, Írland

Rosserk Abbey

Við förum aftur til baka inn á N15 og höldum áfram suður, um Bundoran og Sligo, og beygjum nokkuð fyrir sunnan Sligo til hægri út á N59 til Ballina. Þaðan getum við farið sama veg beint til Castlebar eða tekið fyrst krók til hægri eftir R314 út að afleggjara til hægri til Rosserk Abbey.
Rústir Fransiskusar-klaustursins Rosserk Abbey frá miðri 15. öld eru tiltölulega vel varðveittar, þótt það hafi verið brennt á 16. öld, þegar Englendingar stökktu munklífi á brott. Ýmsar upprunalegar skreytingar sjást enn á vesturdyrum, austurglugga og suðurþverskipi.

Þetta afskekkta hérað heitir Mayo, þekkt fyrir fábreytilegt mýrlendi og strjála byggð til sveita og sandstrendur og klettahöfða til sjávar.

Næstu skref

17. Írland – Donegal

Borgarrölt
The Diamond, Donegal, írland

The Diamond, Donegal

Frá Killybegs höldum við áfram og komum fljótlega á N56, sem við fylgjum alla leið til Donegal-borgar. Þar reynum við að stanza sem næst aðaltorginu, Diagonal.

Donegal Castle, Írland

Donegal Castle

Donegal var upprunalega víkingaþorp, enda þýðir nafnið Útlendingavirki. Þar er nú miðstöð tweed-ullarvefnaðar á Írlandi. Þríhyrnt aðaltorgið var skipulagt 1610. Á því miðju er nú einsteinungur til minningar um fjóra írska lista- og fræðimenn. Rétt hjá torginu er Donegal Castle, sem að hluta er gamall kastali og að hluta sveitasetur frá fyrri hluta 17. aldar, einnig porthús kastalans næst aðaltorginu.

Næstu skref

B. Síkin

Amsterdam, Borgarrölt
Síkisbrú og síkisbátur

Síkisbrú og síkisbátur

Sú ferð, sem nýkomnir ættu að byrja á, er raunar engin gönguferð, heldur þægileg bátsferð um Grachten, síki borgarinnar. Þannig kynnumst við Amsterdam frá því sjónarhorni, sem áður fyrr var hið eðlilega. Við sjáum hana eins og siglandi gestir fyrri alda sáu hana.

Auk þess er bátsferð um síkin ágæt aðferð til að átta sig á lögun borgarinnar og afstöðu ýmissa merkisstaða, sem gaman væri að skoða nánar síðar á hestum postulanna. Við finnum líka, hvernig síkin liggja eins og skeifur, hver utan yfir aðra, og hvernig umferðargöturnar liggja eins og geislar út frá borgarmiðju, yfir hvert síkið á fætur öðru.

Næstu skref

16. Írland – Bunglass

Borgarrölt

Bunglass

Frá Glencolumbkille förum við til Carrick og beygjum þar til vinstri til Teelin og áfram samkvæmt vegpresti til Bunglass-bjargs, þar sem örmjór bílvegur liggur glæfralega utan í klettum fram á útsýnisbrún. Útskot eru þó á leiðinni, svo að bílar geta mætzt, ef aðgát er höfð.

Frá bílastæðinu er gott útsýni til 600 metra bjargsins Bunglass í suðurhlíðum Slieve League fjalls. Í dimmviðri er þetta drungaleg sjón, en litskrúðug í sólskini, því að mislitar steintegundir leiftra í bjarginu.

 

Killybegs, Írland

Killybegs

Killybegs

Frá Bunglass förum við til baka um Teelin og Carrick til Killybegs.

Killybegs er alvöru fiskveiðihöfn eins og við þekkjum þær á Íslandi. Hér eru nútíma fiskiskip og fjörlegt í höfninni, þegar landað er. Fámenn byggðin er í brattri hlíð ofan við höfnina. Í bænum eru handunnin teppi, sem eru kennd við staðinn og hafa verið vel þekkt frá því um miðja síðustu öld. Írski ullarvefnaðurinn tweed á einnig sína þungamiðju á þessum slóðum.

Næstu skref

15. Írland – Glencolumbkille

Borgarrölt

Rosses

Glencolumbkille Folk Village, Írland

Glencolumbkille Folk Village

Við erum á slóðum, sem kallaðar eru The Rosses, sem þýðir skagar. Lítið er um mannabyggðir og skóga, en þeim mun meira um mýrar og smávötn. Hér er töluverð móvinnsla úr mýrum, eins og raunar víðar í landinu. Efsta torfulagið er tekið ofan og síðan lagt ofan á aftur, þegar búið er að taka nokkrar skóflustungur af mó undan laginu. Þess vegna eru langir mókantar einkennistákn mómýranna (peat bogs) (H5).

Glencolumbkille

Við höldum áfram N56, fyrst um Rosses-mýrar, framhjá Dungloe og Gwebarra unz við erum komin rétt framhjá Ardara. Þar beygjum við til hægri eftir skilti til Glengesh-skarðs. Í skarðinu er í góðu skyggni skemmtilegt útsýni til baka niður dalinn. Við höldum alla leið til Glencolumbkille.

Stórbrotið landslag er í dalnum og við ströndina kringum Glencolumbkille. Hér er talið, að dýrlingurinn Columba, öðru nafni Kólumkilli, hafi setzt að á efri árum, fjarri heimsins glaumi. Hér í dalnum er líka töluvert af forsögulegum mannvistarminjum.

Í þorpinu utanverðu, sunnan ár er héraðsminjasafn í nokkrum húsum, sem hafa verið reist í fátæklegum stíl áranna 1720, 1820 og 1920. Í húsunum eru verkfæri og áhöld, húsbúnaður og húsgögn frá þessum tímum. Aðgangur £1,50 (H5).

Næstu skref

 

14. Írland – Doe Castle

Borgarrölt
Doe Castle, Írland

Doe Castle

Doe

Við förum til baka leið merkta Creeslough yfir á N56 og beygjum næst til hægri eftir vegvísi til Doe-kastala, rétt áður en komið er til Creeslough.

Rústir Doe-kastala eru tiltölulega heillegar. Mannvirkin standa fagurlega á höfða við sjávarsíðuna. Ekki er vitað um aldur kastalans, en hann var byggður á ýmsum tímum og oft skemmdur í árásum. Margir sögufrægir herforingjar hafa komið við sögu hans, ýmist til varnar eða sóknar. Í lok 18. aldar fékk kastalinn loks sitt endanlega útlit og hefur varðveitzt að mestu síðan.

Bunbeg

Frá Doe förum við aftur á N56 og höldum áfram, unz við komum að afleggjara til hægri til sjávarþorpsins Bunbeg.

Eins og í sumum öðrum írskum sjávarþorpum horfir byggðin í smáþorpinu Bunbeg ekki móti hafi, eins og við erum vön frá Íslandi, heldur inn til lands. Hafnarmannvirkin standa ein sér, töluvert frá byggðinni, sem er á víð og dreif. Það er eins og fólk hafi óttast sjóræningja eða náttúrukraft hafsins og viljað búa úr sjónmáli. Sjálf höfnin er ósköp friðsæl og nánast rómantísk, ber ekki vott um mikinn veiðiskap.

Næstu skref

Almenningur tapaði

Fjölmiðlun

Fráfarandi valdakerfi DV var frá upphafi veikt og bauð upp á hallarbyltingu. Fjármögnun fyrirtækisins byggðist á Lilju Skaftadóttir, sem var afskiptalítill eigandi í gamla stílnum. Þegar hún bilaði og seldi hrægömmum hlutabréfin, var úti um DV í núverandi mynd. Bakhjarl svona blaðs má ekki bila. Á aðalfundi félagsins kom í ljós, að þau bréf voru komin í hendur Sigurðar G. Guðjónssonar lagatæknis. Hann leiddi saman ýmsa hatursmenn Reynis Traustasonar, sem var felldur í sameinuðu átaki. Þannig fór tilraun Reynis til alvöru blaðamennsku. Mest er tjón almennings, sem reyrður verður fastar í fjötra eigenda ríkisins.

13. Írland – Glenveagh

Borgarrölt
Glenveach Castle, Írland

Glenveach Castle

Frá virkinu höldum við áfram N13 alla leið til Letterkenny og förum þar yfir á N56, sem við fylgjum í stórum dráttum alla leið til Donegal, með nokkrum útúrdúrum þó.

Við getum tekið krók frá Letterkenny eftir R245 og síðan R247 til Rathmullan, ef við viljum borða og gista á öndvegishótelinu Rathmullan House. Eftir það förum við R247 og R249 inn á N56, sem er áðurnefnd höfuðleið frá Letterkenny út á Donegal-skaga.

Af N56 förum við til hægri afleggjara til Glenveagh-þjóðgarðs og -kastala. Frá ferðamiðstöð þjóðgarðsins er farið í litlum strætisvögnum til kastalans.

Þjóðgarðurinn nær yfir tæpa 10.000 hektara af skógi og mýrum umhverfis gervikastala í Disney-stíl, sem reistur var við Beagh-vatn 1870 til að búa til rómantískt umhverfi fyrir hallareigandann og gesti hans. Undir niðri er kastalinn hefðbundið sveitasetur í virkisklæðnaði. Þar er nú minjasafn með ríkmannlegum húsbúnaði fyrri eigenda. Aðgangur £1 að garði og £1 til viðbótar að kastala.

Við erum á þessum slóðum í afskekktasta héraði Írlands, eins konar rana, sem gengur úr írska lýðveldinu upp með Norður-Írlandi. Hér erum við komin í gelískar sveitir, eins og við sjáum á mörgum skiltum. Landslagið er skarpt og fremur nakið. Áður hét héraðið Tirconnaill, en nú Donegal, sem er afbökun úr írsku heiti, Dún na nGall, er þýðir virki útlendinga, það er að segja víkinga. Á þessum slóðum er líka talinn bruggaður bezti landi Írlands, Poitin.

Næstu skref

12. Írland – Grianan of Aileach

Borgarrölt
Grianan of Aileach, Norður-Írland

Grianan of Aileach

Ef við förum ekki krókinn, tökum við stefnuna frá Derry eftir A2 í átt til Buncrana og áfram handan landamæranna N13 í átt til Letterkenny. Vegprestur til vinstri sýnir krók upp fjallið til Grianan of Aileach.

Grianan of Aileach er heilleg endurgerð frá 1870 á virki, sem upprunalega var reist á 5. öld, í upphafi írskrar kristni. Það var konungssetur Njálunga frá þeim tíma og fram á 12. öld, en var eyðilagt árið 1101 í innanlandserjum írskra konunga.

Hringlaga virkið er efst á hæðinni, 23 metrar í þvermál, 5 metrar á hæð og með 4 metra þykkum útveggjum. Að innanverðu eru útveggirnir skásettir tröppum til að auðvelda tilfærslur varnarliðs. Ágætt útsýni er af virkisveggjunum, meðal annars til Derry.

Næstu skref

11. Írland – Dunluce

Borgarrölt
Dunluce Castle, Norður-Írland

Dunluce Castle

Dunluce

Við höldum áfram A2 stutta leið að Bushmill. Í þessum enda þorpsins er sögufræg krá, þar sem við gistum, Bushmill’s Inn.

Frá þorpinu förum við áfram A2 og komum fljótlega að kastalarústum.

Dunluce Castle ber drungalegan svip draugaborgar á 30 metra háum klettahöfða, sem stendur út í sjó. Elztu hlutar kastalans, austurturnarnir og suðurveggurinn, eru frá 14. öld, en annað að mestu frá 16. öld. Árið 1639 hrundi eldhúsið með manni og mús niður í sjó og lagðist kastalinn við það í eyði. Aðgangur £0,75.

Derry

Enn höldum við áfram A2 til borgarinnar Derry, öðru nafni Londonderry og ökum inn í gömlu borgarmiðjuna innan borgarmúranna.

Borgarmúrinn frá 1613-1618 er helzta stolt Derry, upphaflega með fjórum borgarhliðum, sem nú eru orðin sjö alls. Þetta er bezta dæmi Írlands um borgarmúr, sem haldizt hefur svo heillegur til nútímans að ganga má hringinn eftir honum. Svæðið innan múranna er 500 metrar á langveginn og 250 metrar á þverveginn. Í miðjunni er torgið Diagonal. Þaðan liggur gatan Bishop’s Street Within til suðurs til dómkirkjunnar St Columb’s, frá 1628-1634, fyrstu dómkirkju, sem reist var á Bretlandseyjum eftir siðaskipti, í gotneskum stíl. Til norðurs frá torginu liggur verzlunargatan Shipquay Street, afar brött.

Malin Head

Við getum farið héðan í 160 km hringferð um fjalllendi Inishowen-skaga. Þá förum við úr Derry eftir R238 um Moville, Carndonagh og Malin Head og til baka sama veg um Carndonagh, Ballyliffin og Buncrana. Við komum þá inn á N13 rétt áður en komið er að Grianan of Aileach, sem lýst er í næsta kafla.

Milli Moville og Carndonagh komum við fyrst að afleggjara til vinstri að tveimur hákrossum og krossaðri grafhellu við Carrowmore og skömmu síðar til hægri að Clonca kirkjurúst og hákrossi. Malin Head er lítið fiskiþorp í skjóli sjávarhamra. Á bakaleiðinni er hákross frá 8. öld rétt handan Carndonagh og krossuð grafhella frá 7. öld í kirkjugarði þorpsins Fahan.

Krossaðar grafhellur eru frá 7.-12. öld, flöt og óregluleg steinbjörg, höggvin krossum, öðrum helgitáknum og áletrunum á latínu, lögð yfir grafir manna.

Næstu skref

10. Írland – Giant’s Causeway

Borgarrölt
Giants' Causeway, Norður-Írland

Giants’ Causeway

Áfram förum við B15 út á A2 og komum fljótlega að ferðamannamiðstöð, þaðan sem litlir strætisvagnar flytja fólk fyrir £0,50 niður á strönd að stuðlabergi, sem er þekktasta náttúruundur Írlands.

Giant’s Causeway er víðáttumikið stuðlaberg, sem gengur í sjó fram. Steinninn er úr basalti og hefur myndazt við afar hæga storknun hrauns, þannig að steinninn hefur náð að kristallast í margstrendar súlur. Þetta fyrirbæri er víða á Íslandi, en sjaldgæft annars staðar. Súlurnar í Giant’s Causeway eru taldar vera 40.000. Aðgangur £1,50.

Næstu skref

9. Írland – Carrick-a-Rede

Borgarrölt

Ballygally

Við ökum nú greiða leið áfram A2 og stönzum ekki fyrr en við gamalt kastalahótel á vegarbrúninni við sjávarsíðuna.

Ballygally Castle var reistur 1625 í skozkum stíl, enda er í góðu skyggni útsýni úr honum til Skotlands. Hann er vel varðveittur í upprunalegu ástandi, en mestur hluti hótelsins er í viðbyggingu. Sum gistiherbergin eru í gamla kastalanum og er sjálfsagt að panta þau.

Cushendun

Carrick-a-Rede, Norður-Írland

Carrick-a-Rede

Áfram höldum við A2 til Glenariff, þar sem okkur eru tveir kostir á höndum. Við getum farið til vinstri smáhringferð eftir A43 um Glenariff-skóg og -foss og síðan B14 til Cushendun eða farið til hægri með sjónum eftir B92 til Cushendall og Cushendun.

Cushendall og Cushendun eru rómantísk þorp við ströndina. Hið síðarnefnda er allt undir verndun þjóð–minjalaga. Hvít og friðsæl smáhús lúra milli
stóra trjáa við breiðar götur.

Carrick-a-Rede

Frá Cushendun förum við aftur inn á A2 og á honum til Ballycastle, þar sem við beygjum til hægri eftir B15 og komum fljótlega að bílastæði, þaðan sem gengin er hálftíma leið að frægri hengibrú fyrir göngufólk.

Carrick-a-Rede er 20 metra löng göngubrú, sem liggur í 25 metra hæð frá landi yfir í höfða, þar sem fiskimenn stunda laxveiðar á sumrin. Göngubrúin er úr reipum og sveiflast undir fólki, svo að ekki er heiglum hent að fara yfir hana. Ekki fara þó neinar sögur af slysum á brúnni í 200 ára sögu hennar.

Næstu skref