16. Írland – Bunglass

Borgarrölt

Bunglass

Frá Glencolumbkille förum við til Carrick og beygjum þar til vinstri til Teelin og áfram samkvæmt vegpresti til Bunglass-bjargs, þar sem örmjór bílvegur liggur glæfralega utan í klettum fram á útsýnisbrún. Útskot eru þó á leiðinni, svo að bílar geta mætzt, ef aðgát er höfð.

Frá bílastæðinu er gott útsýni til 600 metra bjargsins Bunglass í suðurhlíðum Slieve League fjalls. Í dimmviðri er þetta drungaleg sjón, en litskrúðug í sólskini, því að mislitar steintegundir leiftra í bjarginu.

 

Killybegs, Írland

Killybegs

Killybegs

Frá Bunglass förum við til baka um Teelin og Carrick til Killybegs.

Killybegs er alvöru fiskveiðihöfn eins og við þekkjum þær á Íslandi. Hér eru nútíma fiskiskip og fjörlegt í höfninni, þegar landað er. Fámenn byggðin er í brattri hlíð ofan við höfnina. Í bænum eru handunnin teppi, sem eru kennd við staðinn og hafa verið vel þekkt frá því um miðja síðustu öld. Írski ullarvefnaðurinn tweed á einnig sína þungamiðju á þessum slóðum.

Næstu skref