Author Archive

Khomeini og Savonarola.

Greinar

Khomeini erkiklerkur er ekki fyrsti strangtrúarmaðurinn, sem rís með stuðningi fjöldans gegn of hröðum veraldlegum breytingum og hyggst færa tímann aftur á bak til einfaldara og guði þóknanlegra lífs.

Árið 1494 var borgin Flórenz á Ítalíu orðin eitt voldugasta ríki heims. Þar höfðu ráðið ríkjum furstar af verzlunaraðalsættinni Medici. Þeir höfðu gert Flórenz að fjármálamiðstöð heimsins, að miklu efnahags- og menningarveldi.

Gífurlegur auður sogaðist til borgarinnar og með honum margir helztu listamenn og ævintýramenn endurreisnartímans. Flórenz Medici-ættarinnar var einn helzti burðarás breytingarinnar frá miðöldum yfir í nýöld.

Um leið höfðu myndazt gífurlegar félagslegar andstæður í borginni, meiri en í öðrum auðborgum Ítalíu, Feneyjum og Genúa. Almenningur bjó við sult og kaþólska trú og horfði agndofa á tiltæki hinna nýríku kaupmanna.

Þetta ár ógnaði franskur her borginni og olli mikilli ólgu meðal almennings. Þá reis upp dóminikanski munkurinn Savonarola og hreif fólkið með sér í byltingu trúar og lýðræðis. Medici-ættin var hrakin á brott.

Gagntekið af eldheitum vakningarræðum Savonarola og árásum hans á lifnaðarhætti hinna ríku valdamanna, gekk fólkið berserksgang, brenndi bækur og listaverk og braut höggmyndir og önnur dæmi um spillta hugsun þáverandi nútíma.

Meðan hrifinn múgurinn brenndi skart sitt, spariföt og óþarfan húsbúnað, réðst Savonarola að nútímaspillingu, siðleysi og trúleysi víðar en í Flórenz. Hann beindi spjótum sínum að sjálfum páfanum, Alexander Borgia.

Þessi páfi var glæpamaður, sem hafði komizt yfir páfastól þetta sama ár með augljósum og jafnvel opinberum mútum. Sonur hans var hinn illræmdi Cesare Borgia, frægasti stjórnmálahrappur og baktjaldamakkari allra tíma, tífaldur Nixon.

Örlögin ollu því, að Cesare varð fyrirmynd eins af embættismönnum Savonarola-stjórnarinnar í Flórenz, þess er samdi friðinn við franska herinn, sem ógnaði borginni. Þetta var stjórnvitringurinn Machiavelli, maki þriggja Kissingera.

Machiavelli ritaði bókina um “prinsinn”, hinn fullkomna stjórnmálamann, fullan af krafti og markvissum vilja, takmarkalausu siðleysi og bragðvísi, svikum, grimmd og hræsni. Þessi bók þykir enn hin merkasta.

Í fjögur ár ríkti lýðveldi guðs í Flórenz undir handleiðslu Savonarola. Á meðan undirbjó Alexander páfi samsæri gegn honum og fékk því komið til leiðar, að hugsjónamunkurinn var brenndur á aðaltorginu í Flórenz árið 1498.

Kaldhæðni örlaganna var sú, að nokkru síðar komust Medici-furstarnir til valda á ný í Flórenz og tóku aftur upp fyrri þráð, tilfærsluna í átt til nútímans. Og aumingja Machiavelli naut ekki skilnings og var rekinn í útlegð.

Samanburður á Savonarola og Khomeini er ýmsum annmörkum háður, svo og á Medici-ætt og hinni persnesku Pahlevi-ætt. Enn langsóttari er samanburður á Cesare Borgia og Nixon annars vegar og Machiavelli og Kissinger hins vegar.

Samanburðurinn sýnir þó, að ekkert er nýtt undir sólinni. Óbeit almennings á of örum breytingum er gamalkunn og sömuleiðis tímabundið hvarf fólks til trúarofsa og fornra dyggða.

Og hann gefur til kynna, að valdaskeið Khomeinis kunni fljótt eða að nokkrum árum liðnum að hrynja jafn óvænt og það hófst á sínum tíma.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hógvær varnaðarorð.

Greinar

Við setningu alþingis í gær flutti Kristján Eldjárn, forseti Íslands, þingmönnum meðal annars þessi hógværu áminningar- og hvatningarorð:

“Öllum er kunnugt, að þjóðin býr nú við ríkisstjórn, sem er starfsstjórn með þá takmörkuðu möguleika til að taka á málum, sem slíkum stjórnum er áskapað.

En þau vandamál, sem bíða þess, að á þeim sé tekið, eru mikil og mörg, eins og lýst hefur verið á ærið mörgum ræðustólum um land allt að undanförnu.

Og enn munu þau bíða um nokkurn tíma, eða þangað til alþingi hefur leyst þann vanda af höndum að koma sér saman um þingræðislega ríkisstjórn, sem með fullri getu og fullri ábyrgð getur lagt gjörva hönd á þau brennandi úrlausnarefni, sem eru í verkahring fullgildrar ríkisstjórnar og ekki er á neins annars færi að fást við.

Þjóðin hefur kjörið yður, góðir alþingismenn, til að taka sæti á alþingi, og þar með falið yður forsjá málefna sinna á hendur.

Hún hefur kosið sína gamalreyndu stjórnmálaflokka og að þessu sinni sýnt þeim öllum tiltölulega jafnari trúnað en stundum áður.

Enginn þeirra getur með sanni sagt sem flokkur, að honum hafi verið hafnað og hann þar með leystur undan ábyrgð.

Og hún hefur kosið jöfnum höndum þrautreynda þingmenn og nýliða, sem hún treystir vegna fyrri starfa þeirra.

Þér hafið boðið yður fram til þessara ábyrgðarstarfa, og þjóðin hefur tekið boði yðar.

Ég leyfi mér að fara með þessi orð á þessari stundu, þótt einhver kunni að kalla þau sjálfsagða hluti, vegna þess að mér virðist það brýnni nauðsyn nú en oftast endranær, andspænis öllum almenningi í landinu, að alþingi beri gæfu til að láta ekki dragast úr hófi fram að mynda starfhæfa, þingræðislega ríkisstjórn.

Hvort tveggja er, að vandamál bíða úrlausnar, þótt þau þoli illa biðina, og almenningur, sem er nýkominn frá kjörborði, vill ekki láta reyna um of á langlundargeð sitt.

Þjóðin mun eiga bágt með að skilja, hvers vegna hún gengur til kosninga hvað eftir annað með stuttu millibili og þurfi svo að horfa upp á það langtímum saman, að þeir menn og þeir flokkar, sem hún hefur veitt umboð sitt, geti ekki náð þeirri samstöðu, sem nauðsynleg er, eftir einhverri þeirra leiða, sem þó eru mögulegar samkvæmt þingræðislegum reglum.

Ég held, að hugsanir í þessa átt séu mjög ofarlega í mönnum þessa dagana og ég get vel skilið það.

Og þetta segi ég eins fyrir því, þótt öllum megi ljóst vera – og er ljóst – að lýðræðis- og þingræðislegar leikreglur verða að hafa sinn gang og það tekur óhjákvæmilega sinn tíma.

Ég vonast til þess, að menn skilji orð mín rétt eins og þau eru hugsuð og töluð, sem hógvær varnarorð, því að ég met störf stjórnmálamanna mikils og mér er annt um veg alþingis …

Ég hef oft látið þá skoðun í ljós, að því sé ranglega haldið fram, að þorri manna beri litla virðingu fyrir alþingi og þeim mönnum, sem það skipa …

Ef til vill eru mjög langdregnar stjórnarmyndunarviðræður það, sem einna mest reynir á þolinmæði fólks og vinnur áliti alþingis mest tjón … Ég óska yður öllum velfarnaðar í störfum yðar.”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Sex vikna sport.

Greinar

Gaman hefði verið að sjá upplitið á fundarmönnum á laugardaginn, þegar þríflokkarnir hófu viðræður um stjórnarmyndun. Þar þuldu framsóknar- og alþýðubandalagsmenn kosningastefnuskrár sínar!

Þetta var auðvitað stórfengleg byrjun á viðræðunum. Án efa hafa allir hlustað af kristilegu umburðarlyndi á fagnaðarerindi hinna flokkanna. Og án efa hafa alþýðuflokksmenn síðar fengið tækifæri til að koma sínu að.

Eftir helgina hafa fundir haldið áfram, auðvitað án þess að neinn merkjanlegur árangur hafi náðst. Enda hafa flokkarnir þrír um ýmislegt fleira að ræða þessa daga en upplestur gamalla kosningaloforða. Þeir þurfa að semja um rekstur alþingis.

Í dag kemur alþingi svo saman, tíu dögum eftir kosningar. Við skulum vona, að þegar sé komið samkomulag milli þríflokkanna um þingforseta og formenn helztu þingnefnda. En þar með er engin ríkisstjórn komin á flot.

Næstu daga þarf svo að sinna ýmsum formsatriðum á þingi, framkvæma þá hluti, sem samkomulag hefur orðið um, ýta þinginu á flot. Ekki verður mikill tími aflögu til viðræðna um stjórnarmyndun fram að helgi.

Síðan kemur helgi og síðasta vika jólaföstunnar. Þá viku eru íslenzkir stjórnmálamenn ekki vanir að vinna. Núna neyðast þeir líklega til að víkja frá hefðinni vegna stjórnarkreppunnar. En þeir verða meðfram með hugann við jólin.

Landsfeður verða eins og aðrir menn að velja og kaupa jólagjafir, jólatré og ýmislegt annað til jólanna. Þeir geta ómögulega verið á kafi í stjórnarmyndun nema hluta úr degi, þegar jólaundirbúningur stendur sem hæst.

Stjórn verður því ekki mynduð í næstu viku. Og þá eru komin jól, síðan enn ein helgin og loks áramót. Þetta verða ekki drjúgir vinnudagar, enda líklegast, að viðræður liggi að mestu niðri síðustu átta daga mánaðarins og ársins.

Einkamálin eru efst á baugi þessa frídaga. Foringjarnir þurfa kannski eins og aðrir að kaupa flugelda og annað til áramótanna. Þeir þurfa kannski að fara í jólaboð til frændfólks og tengdafólks og að gjalda boðin í sömu mynt.

Allt tekur þetta tíma. Til nýs hversdags munu stjórnmálamennirnir ekki vakna á nýársdag, þegar Kristján Eldjárn forseti segir þjóðinni, hvort hann gefur aftur kost á sér eða ekki. Daginn eftir er svo komin mið vika.

Sennilega fara fimmtudagur og föstudagur fyrir lítið. Viðræður í alvöru um myndun vinstri stjórnar þriggja flokka munu tæpast komast á fulla ferð fyrr en í næstu viku þar á eftir, frá mánudeginum 7. janúar.

Ekki er ósennilegt, að Steingrímur Hermannsson þurfi um tvær vikur eða fram yfir miðjan mánuð til að komast formlega að því, sem allir vita nú þegar, að fyrsta tilraunin til myndunar ríkisstjórnar mun mistakast.

Ný ríkisstjórn er því ekki í uppsiglingu að sinni. Íslendingar geta því tekið lífinu með ró, meðan verðbólgan magnast og hnútar atvinnulífsins bólgna. Verðbólgan er hvort sem er haldreipi mikils fjölda manna og atvinnulífið er ýmsu vant.

Samtals má búast við, að í þetta sinn þurfi að líða um sex vikur frá kosningum og fimm vikur frá upplestri hinna flokkslegu fagnaðarerinda, unz mögulegt verður að hefja stjórnarmyndunartilraun númer tvö.

Svo er það önnur saga, hve langan tíma hver tilraun tekur eftir það. Gamanið er rétt að byrja.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Allt kemur til greina.

Greinar

Ógerlegt er að sjá fyrir, hvaða flokkar munu mynda nýja ríkisstjórn að lokinni stjórnarkreppu, hugsanlega í lok janúar, en sennilega í febrúar og jafnvel síðar.

Steingrími Hermannssyni verður ekki að þeirri frómu ósk, að ný vinstri stjórn líti dagsins ljós fyrir jól, hvað þá vinstri stjórn á nákvæmlega umsömdum málefnagrundvelli.

Sú samstaða verður ekki búin til í hvelli, sem ekki náðist í rúmlega eins árs stjórnarsamstarfi. Aftursætisbílstjórarnir eru enn sama sinnis og þeir voru þá.

Framsóknarflokkurinn vill herða svokölluð Ólafslög með hinni svokölluðu norsku aðferð, sem felur í sér töluverða kjaraskerðingu. Slík lækning er ábyrgðarlitlum flokkum erfiður biti í hálsi.

Enn eru á lofti í Alþýðubandalaginu gamlar hugmyndir um, að flokkurinn þurfi að vera í stjórnarandstöðu á erfiðum tímum og safna fylgi til sóknar í næstu kosningum.

Að vísu er Þjóðviljinn farinn að fjölyrða um, hve nauðsynlegt sé að afgreiða og framkvæma frumvarp um öryggi, aðbúnað og hollustu á vinnustöðum og koma á fót opinberu vinnueftirliti.

Þessi áherzla á sérmál bendir til sveigjanleika gagnvart kjaraskerðingu. Með þessu er óbeint verið að bjóða upp á skipti á kjaraskerðingu og vinnueftirliti.

Þá gefur frestun kjararáðstefnu Alþýðusambandsins til 11. janúar Steingrími aukið svigrúm til að þrúkka um vinstri stjórn fram yfir jól og áramót.

Þessi kjararáðstefna fór út um þúfur um síðustu helgi vegna ágreinings milli fulltrúa verkamanna annars vegar og uppmælingaraðals hins vegar um verðbætur í prósentum eða krónutölum.

Alþýðuflokkurinn var svo hugulsamur að samþykkja vinstri viðræður án skilyrða. En undir niðri sýður óánægjan frá síðustu vinstri stjórn, magnaðri en nokkru sinni fyrr.

Steingrími Hermannssyni er vafalaust ljóst, að fyrsta tilraun hans til myndunar vinstri stjórnar er fyrirfram dauðadæmd. Samt verður hann að reyna til þrautar.

Hann er fyrir og eftir kosningar búinn að gefa slíkar yfirlýsingar, að hann getur ekki staðið upp frá vinstri viðræðum, nema sagt verði, að hann hafi gert sitt ítrasta.

Í næstu atrennu, sem hugsanlega gæti orðið um miðjan janúar, er ekki fráleitt, að reynt verði að koma saman minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.

Sjónarmið þessara flokka í efnahagsmálum eru hliðstæð og fara ekki saman við sjónarmið Alþýðubandalagsins. Slík minnihlutastjórn yrði samstæðari en vinstri stjórn.

Á móti kæmu svo erfiðleikarnir við að koma málum í gegn á alþingi, ýmist með hlutleysi frá hægri eða vinstri að danskri fyrirmynd. Og ekki hafa Danir góða reynslu af slíku.

En tíminn líður og fjölgar væntanlega möguleikum. Verðlagning búvöru og fisks er í aðsigi og allir kjarasamningar eru lausir. Vandamálin eru að hvolfast yfir þjóðina.

Um síðir kemur að því, að þjóðin verður orðin svo þreytt á stjórnarkreppunni og stjórnleysinu, að hún lofar landsfeðrunum að mynda hverja þá stjórn, sem þeim hentar.

Það gæti alveg eins verið helmingaskiptastjórn, viðreisnarstjórn eða nýsköpunarstjórn eða einhver annar möguleiki, sem nú er talinn óhugsandi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Not af EFTA.

Greinar

Fríverzlunarsamtök Evrópu, EFTA, eru um þessar mundir að safna upplýsingum um ríkisstyrki í atvinnulífi aðildarlandanna. Þessi athugun, gerð að frumkvæði Íslands, er vel á veg komin.

Það var í fyrra, að Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags íslenzkra iðnrekenda, kvartaði yfir því hjá samtökunum, að slíkir styrkir gætu spillt samkeppnisaðstöðu hliðstæðra atvinnugreina í öðrum þáttökulöndum.

Þegar tollar eru afnumdir, er stundum freistandi að lauma verndinni inn bakdyramegin. Íslendingar eru ekki barnanna beztir, svo sem sannar dæmið um innborgunarskyldu á innfluttum húsgögnum.

Sænsk stjórnvöld virðast hafa gengið einna lengst á þessu sviði. Sumpart er heil atvinnugrein lögð á herðar ríkisins, svo sem sænski skipaiðnaðurinn.

Meira er þó um aðstoð, sem bundin er við ákveðin landsvæði eða iðnaðarþætti, ýmist í formi greiðslna til fyrirtækja eða beint til starfsmanna þeirra.

Þessi aðstoð getur sumpart verið réttlætanleg, til dæmis á grundvelli byggðastefnu. En menn hafa þó áttað sig á, að hún getur gengið út í öfgar, beinzt gegn hagsmunum grannþjóða, spillt fríverzlun þjóða milli.

Búast má við, að upplýsingasöfnun EFTA leiði til samkomulags um, hver og hversu mikil ríkisaðstoð megi vera án þess að teljast brot á samkomulagi aðildarríkjanna um frjálsa verzlun.

Þetta er dæmi um gagn, sem lítil þjóð á borð við Ísland getur haft af þátttöku í samtökum á borð við EFTA. Fríverzlunarstefna er líka bráð nauðsyn hverri þjóð, sem hefur útflutning að hornsteini atvinnulífsins.

Fríverzlunarsamtökin eru einmitt í okkar stíl og anda. Þar er ekki um að ræða efnahagslega samræmingu, sem stefnir að samruna, eins og í Efnahagsbandalaginu, heldur eingöngu frjálsa verzlun, gagnkvæman aðgang að mörkuðum.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir dálæti Svisslendinga á EFTA. Þar telja þeir sig ná helztu kostum viðskiptasamstarfs milli ríkja án þess að fórna neinu af grunnmúraðri og sögufrægri sjálfstæðisstefnu sinni.

Ekki má heldur gleyma, að Fríverzlunarsamtökin voru á sínum tíma lykill okkar að Efnahagsbandalaginu. Það var stórsigur frjálsrar verzlunar, þegar þessi tvö samtök sömdu um afnám tolla milli aðildarríkja beggja samtaka.

Þar með opnaðist frjáls markaður um alla Vestur-Evrópu, án þess að smáríki eins og Sviss og Ísland neyddust til að sogast inn í flókið samrunakerfi stórvelda Efnahagsbandalagsins.

Samt eru not okkar af EFTA ekki eins mikil og þau gætu verið. Enn hefur ekki tekizt að koma því í kring, að fiskafurðir séu taldar iðnaðarvörur, en ekki landbúnaðarvörur.

Á sínum tíma reyndu fulltrúar Íslands að ná fiskafurðum á borð við mjöl, lýsi og lagmeti undir frjálsa markaðinn. Síðan var gefizt upp, enda minna í húfi, þegar Ísland hafði náð tiltölulega hagstæðum tollasamningi við Efnahagsbandalagið.

En það er engin ástæða til, að Ísland njóti síðri kjara í sínum eigin samtökum en í Efnahagsbandalaginu. Og auk þess á það að vera hornsteinn viðskiptastefnu okkar, að sem víðast séu fiskafurðir viðurkenndur hluti hins frjálsa markaðar.

Tímabært er að vekja aftur þetta mál í Fríverzlunarsamtökunum, rexa og pexa um það af stakri þolinmæði, unz hin þáttökulöndin þreytast vegna skorts á eiginhagsmunum og gefast upp.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Flókin hraðskák.

Greinar

Kjarasamningar eru lausir og fjárlög ríkisins eru ekki afgreidd. Hraði verðbólgunnar er kominn upp fyrir 80%. Þess vegna er lífsnauðsyn, að starfhæf ríkisstjórn verði fljótt mynduð.

Steingrímur Hermannsson er bundinn í báða skó. Fyrir og eftir kosningar hefur hann lýst því yfir, að eingöngu komi til greina ný vinstri stjórn. Þetta á eftir að tefja árangur hans.

Bezta ráðið til að þvinga óþæga flokka til hlýðni er að gefa þeim í skyn, að þeir séu ekki nauðsynlegir og að annars konar samstarf geti vel komið til greina.

Forustumenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sjá, að Steingrímur hefur engan hug á að tala nokkuð við forustumenn Sjálfstæðisflokksins. Og þetta munu óþægu flokkarnir nota sér.

Þegar hafa safnazt upp yfirlýsingar, sem benda til, að Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag muni ganga með þrjózku til viðræðna við Framsóknarflokk um stjórnarmyndun.

Þingmenn úr Alþýðubandalagi segja, að ný vinstri stjórn þurfi að vera raunveruleg vinstri stjórn. Með því eiga þeir við, að næst verði að taka meira tillit til Alþýðubandalagsins.

Þingmenn úr Alþýðuflokki og einkum þó ritstjóri Alþýðublaðsins segja, að Alþýðubandalagið sé tæpast hæft til stjórnarþáttöku og verði að fallast á efnahagsstefnu hinna flokkanna tveggja.

Allt stefnir því í sömu gryfju og áður. Væntanlegir samstarfsflokkar Steingríms Hermannssonar eru þegar komnir í hár saman, áður en viðræður eru hafnar um nýja vinstri stjórn.

Og Steingrímur getur ekki veifað neinni hótun um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur brennt brýrnar að baki sér og neyðist til að ná samningum til vinstri.

Satt að segja er vandséð, að honum takist það. Samningsaðstaða hans er veik. Samstarfsflokkarnir vaða uppi með kröfur og hótanir, sem stangast á í verulegum atriðum.

Þar á ofan er að magnast efi í hugum margra áhrifamanna í Alþýðuflokknum. Þeir eru þreyttir á samstarfi við Alþýðubandalagið og vilja fremur vera í minnihlutastjórn með Framsóknarflokki.

Auk þess er ekki laust við, að viðreisnardraumar hafi kviknað í Alþýðuflokknum. Fylgja þeir auknum áhrifum Jóns Baldvins Hannibalssonar, ritstjóra Alþýðublaðsins, í flokknum.

Jón Baldvin og aldavinur hans, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, áttu mikinn þátt í stjórnarslitunum, sem leiddu til þingrofs og kosninga.

Ný viðreisn átti að vera rökrétt niðurstaða. En fyrir Sjálfstæðisflokkinn var tímasetningin röng. Slæleg forusta með hrjúfa stefnuskrá klúðraði kosningabaráttunni á fullkominn hátt.

Alþýðuflokkurinn kom mun betur út úr þessu braski. Honum græddist fylgi á fáti Sjálfstæðisflokksins síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar og tókst að forðast alvarlegt fylgishrun.

Í Alþýðuflokknum telja margir, að flokkurinn eigi nú völ vinstri stjórnar, viðreisnar, minnihlutastjórnar með Framsóknarflokki og jafnvel eigin minnihlutastjórnar.

Verði ný vinstri stjórn ofan á, þarf Alþýðuflokkurinn að sýna fram á, að hann hafi í stjórnarsáttmála náð einhverjum þeim árangri, er réttlæti slit síðustu vinstri stjórnar.

Fróðlegt verður að sjá, hvernig Steingrími gengur hlutverk sáttasemjara við þessar erfiðu aðstæður. Ekki bætir það úr skák hans, að þjóðarbúið rambar og tímahrakið er geigvænlegt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Umboð til vinstri stjórnar.

Greinar

Fyrir kosningar lögðu Steingrímur Hermannsson og aðrir forustumenn Framsóknarflokksins sérstaka áherzlu á, að flokkurinn stefndi að myndun nýrrar vinstri stjórnar eftir kosningar. Þetta voru óvenju skýlausar yfirlýsingar á þeim bæ.

Því má gera ráð fyrir, að þeir kjósendur, sem gengu til liðs við Framsóknarflokkinn í kosningunum, hafi með atkvæði sínu stutt þessar hugmyndir um nýja vinstri stjórn eða að minnsta kosti ekki lýst neinum ótta við þær.

Steingrímur Hermannsson telur líka réttilega, að í kosningasigri flokksins felist umboð til myndunar slíkrar stjórnar. Það er því vinstri stjórn og engin önnur, sem er á dagskrá stjórnmálanna á þessari jólaföstu.

Að vísu er dálítil fýla í forustumönnum flokkanna, sem töpuðu fylgi í kosningunum, Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Þeir segjast ekki þurfa að gefa meira eftir í næstu vinstri stjórn, þótt þingstyrkur þeirra hafi minnkað.

Alþýðubandalagsmenn leggja áherzlu á, að næsta vinstri stjórn þurfi að vera meira en nafnið eitt. Hún þurfi að vera raunveruleg vinstri stjórn. Á almennu máli þýðir þetta, að áhrif Alþýðubandalagsins þurfi að vera meiri en áður.

Lúðvík Jósepsson er þó raunsærri en margur flokksbróðirinn. Hann leggur áherzlu á, að flokkarnir þrír verði að semja um málamiðlun sín á milli og að stjórnarsáttmálinn verði að vera ítarlegri en síðast.

Að sumu leyti er vinstri stjórnar vandi Alþýðuflokksins meiri. Hann sprengdi síðustu vinstri stjórn og verður því að feta sig varlega inn í næstu vinstri stjórn. Annars gæti flokkurinn orðið að athlægi fyrir upphlaupið.

Á móti þessu kemur, að efnahagshugmyndir Framsóknarflokks og Alþýðuflokks eru svipaðar. Á því sviði geta flokkarnir tveir náð saman. Mun erfiðara verður að draga Alþýðubandalagið inn í samræmda efnahagsstefnu þriggja flokka.

Þessi staðreynd hefur ýtt undir hugmyndir um minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, er afli sér hlutleysis til hægri eða vinstri eftir málefnum hverju sinni. Slík stjórn yrði náttúrlega samstæðari en þríflokkastjórn.

En minnihlutastjórn verður tæpast á dagskrá í alvöru, nema það komi í ljós, að flokkarnir þrír geti með engum hætti komið sér saman um ítarlega málamiðlun í stjórnarsáttmála. Og slíkt hefur ekki enn komið í ljós.

Samstarf einhvers þessara flokka við Sjálfstæðisflokkinn er ekki heldur á dagskrá. Vinstri stjórnmálamenn keppast við að lýsa því yfir, að ekki komi til greina að starfa með svo hægri sinnuðum flokki sem hann sé nú orðinn.

Morgunblaðið segir, að leiðtogar flokkanna þriggja og einkum Steingrímur Hermannsson séu haldnir vinstri stjórnar áráttu. Þetta er að vísu rétt. En það er þó ekki vani manna að væla um það opinberlega, að enginn vilji elska sig.

Við komum því alltaf aftur og aftur að vinstri stjórn. Framsóknarflokkurinn getur ýtt undir hina flokkana tvo með því að benda þeim á, að áróðurinn um heilindi flokksins og sáttasemjarahlutverk í síðustu vinstri stjórn eigi þátt í kosningasigrinum.

Það skiptir ekki máli, þótt flokkarnir tveir telji þetta rangan áróður. Hitt skiptir máli, að kosningar unnust á slíkum áróðri. Í því felst ábending um, að í næstu kosningum verði gott að hafa orð á sér fyrir heilindi og sáttfýsi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Stórsigur Framsóknar.

Greinar

Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari alþingiskosninganna. Hann jók fylgi sitt gífurlega og endurheimti hina hefðbundnu stöðu, sem hann hafði fyrir kosningarnar í fyrra.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hins vegar þessum kosningum. Honum tókst aðeins að vinna upp fjórðung af hruninu í fyrra, þótt hann hafi síðan getað leikið sér í stjórnarandstöðu.

Niðurstaða kosninganna er krafa um vinstri stjórn undir forustu Framsóknarflokksins og með auknu frumkvæði hans. Viðræður um myndun slíkrar stjórnar munu hefjast strax.

Enginn vafi er á, að Ólafur Jóhannesson á umtalsverðan persónuþátt í þessum sigri. Annaðhvort hann eða þó frekar flokksformaðurinn, Steingrímur Hermannsson, verður nú forsætisráðherra.

Mörgum kemur á óvart hinn lélegi endasprettur Sjálfstæðisflokksins. Hann er verulegt áfall fyrir Geir Hallgrímsson, sem hefur nú tapað tvennum alþingiskosningum í röð.

Stjórnarandstaðan hefur með furðulegum hætti náð að glopra niður þeirri óskastöðu, sem hún hafði í haust, þegar vinstri stjórnin var að gliðna í sundur.

Mun nú mörgum sjálfstæðismanninum þykja tímabært að skipta um forustu í flokknum og hefja til vegs yngri menn, sem ekki hafa flækzt inn í klíkumál flokksins.

Alþýðuflokkurinn tapaði mestu, en má þó sæmilega við úrslitin una. Hann heldur enn meirihlutanum af fylgisaukningunni frá í fyrra. Sumt lausafylgið heldur enn tryggð við hann.

Alþýðubandalagið kom á óvart með því að tapa næstum því eins miklu og Alþýðuflokkurinn. En tapið var þú ekki meira en við mátti búast hjá flokki, sem setið hefur í ríkisstjórn.

Athyglisvert er, að úrslit kosninganna eru nokkurn veginn nákvæmlega hin sömu og árið 1949, fyrir réttum þrjátíu árum, ef atkvæði Haukdals og Sólness eru lögð við Sjálfstæðisflokkinn.

Frávikin á þessum þrjátíu árum eru um og innan við 1% á flokk. Það minnir á þá kosningaspá leiðara Dagblaðsins á þriðjudaginn, að hefðbundið jafnvægi mundi nú aftur komast á.

Skoðanakönnun Dagblaðsins viku fyrir kosningar sýndi mikla tilfærslu fylgis frá Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Könnunin vanmat aukningu Framsóknarflokksins og ofmat aukningu Sjálfstæðisflokksins. Í heild var skekkjan þó ekki meiri en 3% að meðaltali á hvern hinna fjögurra flokka.

Eins og venjulega var könnun Dagblaðsins nákvæmari en hliðstæð könnun Vísis, sem hafði að meðaltali 4% skekkju á hvern hinna fjögurra flokka. Enda var aðferðafræðin misjöfn.

Hinn mikli sigur Framsóknarflokksins aflagar mjög atkvæðafjölda að baki hvers þingmanns. Framsóknarflokkurinn fær nokkru fleiri þingmenn en atkvæðatala hans gefur tilefni til.

Styrkur flokksins á þingi verður því enn meiri en styrkur hans meðal kjósenda. Það mun sennilega magna kröfur manna um breytt kosningalög, er gefi kjósendum jafnari rétt.

Sem heild styrktu stjórnmálaflokkarnir fjórir tök sín á þjóðfélaginu. Kjör Eggerts Haukdal á Suðurlandi var eina undantekningin frá þeirri reglu.

Við getum nú litið til fyrri áratuga og sagt, að því meira sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir í rauninni eins. Sú varð niðurstaða kosninganna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Við erum símstöð.

Greinar

Vonandi hafa lesendur Dagblaðsins ekki þreytzt um of síðustu daga á að fletta hverri síðunni á fætur annarri með kjallaragreinum frambjóðenda til alþingis. Þetta var auðvitað engin skemmtilesning, en nauðsynleg var hún.

Margt ber að hafa í huga, þegar dómur er lagður á þessar breiðsíður stjórnmála í Dagblaðinu síðustu daga og raunar vikur. Í fyrsta lagi hljóta þær að teljast skárri en breiðsíður þeirra blaða, sem birta einhliða flokksáróður.

Kjallaragreinar stjórnmálamanna voru heldur ekki birtar á kostnað annarra efnisþátta í Dagblaðinu. Þeir héldu allir sínu striki eftir sem áður. Blaðið var bara stækkað, auðvitað með miklum tilkostnaði í pappír og prentun.

Enn mikilvægara er þó, að Dagblaðið á öðrum þræði að vera eins konar símstöð skoðana þjóðarinnar. Það á að vera vettvangur skoðana stjórnmálamanna eins og annarra manna. Undan þessari skyldu getur blaðið ekki vikizt.

Sama er að segja um stjórnmálaskoðanir, sem Dagblaðið hefur birt sem “Raddir lesenda”. Þær eru einnig birtar á þeirri forsendu, að með mikilvægustu þáttum í lífi Dagblaðsins sé, að blaðið verði eins konar símstöð fyrir skoðanir.

Í kosningabaráttunni í fyrra voru Alþýðuflokksmenn duglegastir við að nota símstöðina. Dagblaðið varð undir lokin að grípa til skömmtunar til að jafnvægi næðist milli flokka. En þá var símstöðin líka ný af nálinni.

Í þetta sinn voru allir flokkar búnir að átta sig á, að í Dagblaðinu gátu frambjóðendur þeirra náð til lesendahóps út fyrir raðir flokksmanna, til stuðningsmanna annarra flokka og til óháðra kjósenda.

Fyrir bragðið náðist sjálfvirkt jafnvægi í Dagblaðinu. Allir flokkar notfærðu sér símstöðina í eðlilegum mæli og án þess að misnota hana. Fyrir bragðið þurfti blaðið sjálft ekki að grípa til neinnar jöfnunar milli flokka.

Margt hefur verið gasprað í greinaflóði þessu, svo sem tíðkast í stjórnmálaskrifum hér á landi. Hitt kom meira á óvart, að töluverður hluti flóðsins var á hærra plani en boltakastið milli flokksblaða hefur löngum verið.

Sumir frambjóðendur reyndu að rökstyðja málstað sinn í kjallaragreinum, fara hóflega í sakirnar, draga andstæð rök inn í myndina. Þeir reyndu sem sagt að tala við lesendur eins og þeir væru skyni bornar verur.

Allt er þetta spor í rétta átt, þótt stjórnmálaflokkarnir eigi enn nokkuð langt í það land, að hægt sé að tala um þá, stefnu þeirra og gerðir í fullri alvöru. Enn eru þeir í stórum dráttum að leika sér í Kardimommubæ.

Dagblaðið hefur nú eins og í fyrra ekki tekið neina afstöðu til mismunar flokkanna. Það hefur ekki mælt með neinum flokki sérstaklega, enda væri slíkt ábyrgðarhluti í þjóðfélagi, þar sem erfitt er að finna mun á gerðum flokka.

Hins vegar hefur Dagblaðið verið óvægið við að fjalla um einstaka stjórnmálamenn og um einstök atriði í stefnu og gerðum stjórnmálaflokkanna. Gagnrýni og lof af því tagi er gagnlegra en heildardómar.

Loks viljum við biðja hina flokkaþreyttu lesendur að meta það við Dagblaðið, að í síðasta blaði fyrir kosningar, á laugardaginn, gaf það lesendum algert frí frá flokkaþrasi, bæði í kjallaragreinum og lesendabréfum. Þann dag var símstöðin lokuð stjórnmálaflokkum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Látið kjósendur í friði.

Greinar

Dagblaðið getur aðeins gefið kjósendum tvö ráð í lok þessarar kosningabaráttu. Annað ráðið er að taka hóflegt mark á yfirlýsingum flokkanna, því að þær eru hið forgengilegasta heimi hér.

Hitt ráðið er að nota kosningaréttinn, einnig þeir, sem óánægðir eru með alla kosti. Þeir geta þó alténd breytt röð og strikað út á lista þeim, sem illskástur er, eða í versta falli skilað auðu. Umfram allt ekki sitja heima.

Hins vegar getur Dagblaðið gefið stjórnendum og starfsmönnum flokkanna nokkur vel valin ráð, sem öll beinast að auknum mannasiðum, kurteisi og tillitssemi á kjördegi.

Við viljum, að stjórnmálaflokkarnir ljúki kosningabaráttu sinni fyrir miðnætti á laugardagskvöld og láti kjósendur í friði við að gera upp hug sinn á sunnudegi og mánudegi. Slíkt tíðkast í flestum nágrannalöndunum.

Við viljum ekki, að kjósendur þurfi að þola hringingar síma eða dyrabjöllu á vegum stjórnmálaflokka kjörfundardagana tvo. Við viljum ekki, að þeir þurfi að þola hamingjuóskir vegna fengins kosningaréttar né áminningar um að fylgja eftir þátttöku í prófkjöri.

Allra sízt viljum við, að stjórnmálaflokkarnir reyni að notfæra sér þann aðgang, sem vinir og kunningjar kjósenda hafa að heimilum þeirra. Flokkarnir hafa allt of oft gerzt sekir um að rjúfa friðhelgi heimilanna með slíkum hætti.

Alveg eins og við viljum, að kjósendur fái að vera í friði heima hjá sér, þá viljum við, að þeir fái að vera í friði fyrir persónunjósnurum flokkanna í kjördeildum. Á þessu sviði hafa kjörstjórnir brugðizt hroðalega.

Kjósendur hafa skilyrðislausan rétt til að ræða við kjörstjórn, án þess að persónunjósnarar flokkanna séu viðstaddir. Þetta var staðfest af réttum yfirvöldum í kosningunum í fyrra. Enda kemur flokkunum ekki við, hver kaus hvenær og hver kaus ekki hvenær.

Því miður gera fáir kjósendur rekistefnu út af viðurvist persónunjósnaranna. Menn eru almennt svo áreitnislausir, að þeir þola með þögninni tillitsleysi stjórnmálaflokkanna á þessu sviði.

Auðvitað mega flokkarnir hafa menn á kjörstað til að fylgjast með, að kosningarnar fari rétt fram og að meðferð kjörgagna og kjörkassa sé með eðlilegum hætti. En þeir hafa engan rétt til persónunjósna um kjósendur.

Þess vegna mælumst við til þess, að flokkarnir láti af þeim ósið að hafa persónunjósnara inni í hverri kjördeild. Við teljum, að þessi ósiður beri vott um skort á mannasiðum og skort á virðingu fyrir kjósendum.

Persónunjósnir í kjördeildum hafa einkum verið notaðar til að rjúfa friðhelgi þeirra, sem einhverra hluta vegna hafa ekki gefið sér tíma til að kjósa að áliðnum kjörfundi. Þennan séríslenzka ósið viljum við feigan.

Auðvitað geta kjósendur kært fyrir yfirkjörstjórnum þær kjörstjórnir, sem neita að vísa persónunjósnurunum út og neita að halda leyndum fyrir þeim nöfnum kjósenda.

Auðvitað geta kjósendur líka kært fyrir lögreglunni þá útsendara stjórnmálaflokkanna, sem rjúfa friðhelgi heimila með hringingum í síma eða á dyrabjöllu.

En miklu eðlilegra er, að flokkarnir rækti sjálfir með sér hliðstæða mannasiði, kurteisi og tillitssemi, sem flokkar nágrannalandanna sýna kjósendum meðan kjörfundur stendur yfir.

Framfarir í þessu lýsa flokkunum betur en stefnuskrár þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ofmetnaður.

Greinar

Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti sagðist vera gæfusamur, ef hann hefði rétt fyrir sér í tveimur skiptum af hverjum þremur. Geir Hallgrímsson, stjórnarformaður Morgunblaðsins, telur sig honum fremri, því að hann lætur blað sitt segja um sig í heilsíðu ritstjórnargrein: “… er ekki skjótur til ákvarðana. En þegar þær eru teknar, eru þær undantekningarlaust réttar”.

Dýrðaróðurinn um Geir felur jafnframt í sér skítkast í garð annarra manna í forustusveit Sjálfstæðisflokksins og í garð þeirra flokksmanna, sem bjóða fram sérstaka lista. Þar með er afsannað oflofið í greininni um, að Geir sé “maður sátta og tillitssemi”.

“Geir Hallgrímssyni verða ekki á pólitísk mistök …” segir í lofgreininni. Samt segir þar annars staðar, að í kosningunum “endurvinni” hann traust kjósenda. Enda hefur komið í ljós í skoðanakönnunum Dagblaðsins og Vísis, að hann nýtur ekki trausts fleiri kjósenda en sem svarar hálfum Sjálfstæðisflokki. Annað hvort hafa kjósendum eða Geir orðið á mistök.

Dónaskapur.

Ólafur Jóhannesson lætur sér ekki lengur nægja að öskra á viðmælendur sína í sjónvarpi. Á sunnudaginn réðst hann í málgagni sínu, Tímanum, að Kristjáni Eldjárn forseta, sem hefur það verkefni að undirrita og gefa út skipunarbréf ráðherra og annarra embættismanna.

Ólafur sagði: “ … er það algerlega óviðeigandi og óforsvaranlegt að mínum dómi – og verður til ævarandi skammar – að hafa gefið út skipunarbréf til slíks manns (Vilmundar) um að vera æðsti yfirmaður dómsmála í landinu”.

Augljóst er af þessum texta Ólafs, að hann telur sig yfir mannasiði hafinn. Þar á ofan er furðulegt, að stjórnarskrárfræðingurinn notar orð, sem eingöngu geta átt við forseta Íslands, en hljóta þó að vera meint um þingflokk Alþýðuflokksins. Þingflokkar velja ráðherra, en forsetinn “gefur út” skipunarbréf þeirra.

Á prenti verður slíkur hugtakaruglingur Ólafs Jóhannessonar að dónaskap gagnvart forseta Íslands og embætti hans. En það virðist orðin venja Ólafs að tala út og suður og í marklausum gátum. Það er með hörmulegri staðreyndum stjórnmála þessa Kardimommubæjar, að hann skuli njóta langmests trausts íslenzkra stjórnmálamanna.

Kjósum samt.

Hér að ofan hafa tveir þekktustu stjórnmálamenn landsins verið gagnrýndir. Ekki er meira hald í forustumönnum annarra stjórnmálaflokka, þeim sem litdaufari eru. Enda finnur þjóðin, að hér vantar stjórnmálaforingja, sem hægt er að líta upp til.

Þetta er mikilvægasta orsök þess, að um það bil fjórðungur kjósenda getur ekki gert upp hug sinn til flokkanna fyrr en á kjördegi. Þessum kjósendum finnst, að þeir hafi ekki um neitt að velja.

Þessi tilfinning má ekki aftra mönnum frá því að nota kosningarétt sinn. Þeir mega breyta röð frambjóðenda á þeim lista, sem þeir kjósa. Og þeir mega skila auðu, ef þeir finna hvergi þingmannsefni á neinum lista. Hvort tveggja er betra en að sitja heima.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hvar er sérstaðan?

Greinar

Stjórnmálaflokkarnir keppast við að segja okkur kjósendum, að þeir hafi aðra stefnu en hinir flokkarnir. Hver flokkur um sig reynir að sýna fram á sérstöðu, er sé atkvæðis okkar virði.

Mesta áherzlu leggja flokkarnir á mun Sjálfstæðisflokks annars vegar og þriggja flokkanna hins vegar. “Leiftursókn gegn verðbólgu”, öðru nafni “Leiftursókn gegn lífskjörum” er tímafrekasta deiluefni kosningabaráttunnar.

Þessu fylgja óvenju ákveðnar yfirlýsingar þriggja flokkanna um, að samstarf við Sjálfstæðisflokk komi ekki til greina eftir kosningar. Má því helzt búast við nýrri vinstri stjórn, svipaðri hinum fyrri.

Í sjálfu sér er tómt mál að tala um vinstri stjórn og hægri stjórn. Reynsla þessa áratugar er, að alls enginn munur er á gerðum vinstri og hægri stjórna. Allar stjórnir áratugsins hafa verið stefnulausar í anda Framsóknarflokksins.

Undanfarin ár hefur munur flokkanna ekki falizt í meintum stefnum þeirra til hægri eða vinstri. Munurinn hefur eingöngu byggzt á því, hvort flokkarnir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Flokkar, sem eru í stjórnarandstöðu, einkennast af ábyrgðarleysi og yfirboðum. Þeir, sem eru í stjórn, einkennast hins vegar af vanafestu, hugmyndafátækt og bitlingasýki. Íslenzk stjórnmál felast Í þessum mun.

Lítum fyrst á Alþýðubandalagið, sem talið er vera lengst til vinstri. Það vill losna við varnarliðið, þjóðnýta heildsala og olíufélög, auka ríkisafskipti og millifærslur í þjóðfélaginu.

En hvað gerði Alþýðubandalagið í þessum málum í síðustu vinstri stjórn? Í næstsíðustu vinstri stjórn? Í vinstri stjórninni þar á undan? Auðvitað gerði Alþýðubandalagið ekki neitt, af því að ráðherrastólar eru merkari en stefnur.

Í næstu vinstri stjórn mun Alþýðubandalagið gefast upp á sérmálum sínum og fallast með semingi á, að stefnuleysi Framsóknarflokksins fái áfram að ráða ríkjum og fita verðbólgupúkann.

Lítum svo á Sjálfstæðisflokkinn, sem talinn er vera lengst til hægri. Hann vill skera niður ríkisútgjöld, selja ríkisfyrirtæki, dreifa valdi til sveitarfélaga og koma á frelsi í verðlagi og gjaldeyrisviðskiptum.

En hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn í þessum málum í síðustu hægri stjórn? Auðvitað gerði hann ekki neitt, heldur féllst með semingi á, að stefnuleysi Framsóknarflokksins og verðbólgupúkinn réði áfram ríkjum.

Hvernig eiga þessir flokkar til hægri og vinstri að geta sannfært okkur kjósendur um, að ný og falleg orð á pappír séu meira virði en nýleg afglapasaga sömu flokka sem ríkisstjórnarflokka.

Ekki er sannfæringarkraftur Alþýðuflokksins meiri í kosningabaráttunni. Hann situr á milli flokkanna til hægri og vinstri og hafði í sumar sömu efnahagsstefnu og Framsóknarflokkurinn.

Trúlega verður útkoman hin sama, hvort sem við fáum vinstri eða hægri stjórn eftir kosningar. Í báðum tilvikum verðum við áfram að þola stefnuleysi Framsóknarflokksins, bezta vinar verðbólgunnar á Íslandi.

Enda er Framsóknarflokkurinn eini flokkurinn með vott af sérstöðu. Hún felst í því, að í forustu flokksins örlar hvergi á minnsta skilningi á efnahagsmálum. Í hinum flokkunum öllum örlar á slíku, þótt í knöppum mæli sé.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hefðbundið jafnvægi.

Greinar

Enn höfum við fengið dæmi um, að því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til. að í kosningunum muni valdahlutföll stjórnmálaflokkanna færast í hefðbundið horf.

Áratugum saman hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið kringum 40%, Framsóknarflokksins kringum 25%, Alþýðubandalagsins kringum 20% og Alþýðuflokksins kringum 15%. Einu þingkosningarnar, sem rufu þessa hefð, voru þær í fyrra.

Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til, að nú fái Sjálfstæðisflokkurinn 42% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 22%, Alþýðubandalagið 19% og Alþýðuflokkurinn 14%. Þetta eru nánast sömu tölur og hér að ofan.

Frávikin frá hefðinni eru eingöngu þau, sem við má búast, er Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu, en hinir flokkarnir í stjórnaraðstöðu. Menn græða yfirleitt örlítið á að vera utan stjórnar.

Síðustu vikurnar virðist Alþýðuflokkurinn hafa rétt örlítið við eftir fyrra hrun. Í októberkönnuninni fékk hann tæp 13%, en nú rúm 14%. Samt er þetta ekki nema svipur hjá sjón í samanburði við úrslitin í fyrra, er flokkurinn fékk 22%.

Alþýðuflokkurinn hefur greinilega farið verst stjórnarflokkanna út úr stjórnarsamstarfinu. Með réttu eða röngu telja kjósendur, að hann hafi brugðizt þeim vonum, sem ollu velgengni hans í þingkosningunum í fyrra.

Þessar síðustu vikur virðist Sjálfstæðisflokkurinn heldur hafa dalað. Í októberkönnuninni fékk hann rúm 43%, en nú tæp 42%. Auðvitað er þetta gífurleg aukning frá tæpum 33% síðustu kosninga, en eigi að síður mikið hrun frá þeim 50%, sem flokkurinn hafði í júníkönnuninni.

Sjálfstæðisflokknum tekst greinilega ekki að nýta sér til fulls hina hrikalegu óánægju kjósenda með vinstri stjórnina. Sundurlyndi, klofningur og forustuleysi hafa leikið hann grátt á öndverðum þessum vetri.

Leiftursóknin svonefnda hefur ekki dugað til að koma flokknum aftur á flug, þótt þar hafi verið lögð fram einna athyglisverðasta stefnuskrá, sem fram hefur komið á síðustu árum. En stefnuskrár eru líka bara stefnuskrár.

Síðustu vikurnar virðist Alþýðubandalagið hafa dalað úr tæpum 22% í 19%. Í kosningunum í fyrra fékk bandalagið tæp 23%, svo að það er fyrst nú, að einhver bilbugur sést á fylginu. Staða Alþýðubandalagsins er þó mun betri en Alþýðuflokksins.

Framsóknarflokkurinn virðist hafa sótt í sig veðrið á síðustu vikum eins og raunar allt þetta ár. Aukningin frá því í október er úr tæpum 22% í rúm 22%. Þar með ætti hann að hafa endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn.

Telja má víst, að flokkurinn njóti Ólafs Jóhannessonar, sem gerist nú landsföðurlegri með degi hverjum. Hann forðast að tala um stjórnmál og segir í þess stað brandara eða talar beinlínis út og suður.

Auðvitað eru kjósendur þreyttir á stjórnmálum og flokkum. Samt er það alvarlegt umhugsunarefni, ef vinnubrögð Ólafs ná þeim árangri, sem þau virðast ná. Af hverju nær þá ekki Sólskinsflokkurinn líka árangri?

Eftir pólitískt brambolt síðustu tveggja ára standa kjósendur nú nokkurn veginn í sömu sporum og í upphafi, rétt eins og ekkert hafi gerzt. Hið hefðbundna valdajafnvægi flokkanna er aftur komið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Nytsamir sakleysingjar

Greinar

Sameinuðu þjóðirnar hafa í augum flestra glatað siðgæðisskikkju sinni. Mannréttindayfirlýsing samtakanna hefur rykfallið, enda taka fjórar ríkisstjórnir af hverjum fimm ekki hið minnsta mark á henni.

Auðvelt er að sjá, að Sameinuðu þjóðirnar eru fyrst og fremst vettvangur átaka milli hópa ríkja. Samanlagt mega lýðræðisríki sín ekki mikils á þeim vettvangi. Voldugasti hópurinn byggist á harðstjórnarríkjum þriðja heimsins.

Erfiðara er að átta sig á, að sama gildir um ýmsar sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna, ekki sízt Menningarstofnunina, UNESCO. Menn freistast til að halda, að hún sé ekki eins pólitísk og móðurstofnunin.

Ekki bætir úr skák, að meðal embættismanna Menningarstofnunarinnar er fullt af nytsömum sakleysingjum, einkum skólamönnum, sem hafa mikinn áhuga á að mennta íbúa þriðja heimsins. Undir fána þeirrar hugsjónar láta þeir afvegaleiða sig.

Þeir sjá, að fjölgun skóla og kennara gengur grátlega hægt í þriðja heiminum. Þeir sjá, að útvarp og blöð megi nota til að efla kunnáttu almennings, allt frá getnaðarvörnum yfir í verktækni af ýmsu tagi.

Silkimjúkir umboðsmenn harðstjóranna í Menningarstofnuninni telja skólamönnum hennar trú um, að forsenda þess, að fræðslugildi útvarps og blaða nýtist, sé, að stjórnvöld viðkomandi ríkis séu einráð um fjölmiðlun.

Þeir segja, að fátæk ríki hafi ekki efni á vestrænni tegund fjölmiðlunar. Byggja verði upp innri samstöðu hverrar þjóðar til að efla henni mátt til framfara og menningar og þjóðernisvitundar.

Þeir segja, að upplýsingar um glæpi stjórnvalda þessara ríkja, græðgi þeirra, spillingu, mútuþægni, kúgun og harðstjórn, séu annaðhvort vestrænn fjölmiðlaáróður eða bara til þess fallnar að grafa undan samstöðu og þjóðernisvitund.

Harðstjórum þriðja heimsins er nefnilega ákaflega illa við vestræna tegund fjölmiðlunar. Þeir vilja ekki, að fjölmiðlar séu með nefið niðri í skuggamálum. Þeir vilja fá frið til að kúga þegna sína.

Fulltrúar harðstjóranna hjá Menningarstofnuninni eru svo menntaðir og kurteisir, að hinir nytsömu sakleysingjar trúa því ekki, að harðstjórarnir að baki séu eins ógeðfelldir og sagt er í vestrænum fjölmiðlum.

Embættismenn stofnunarinnar hafa árum saman gengið erinda harðstjóranna í tilraunum þeirra til að grafa undan mannréttindaskránni með útgáfu yfirlýsingar um nýja skipan fjölmiðlunar í heiminum.

Harðstjórarnir stefna að því að stjórna sjálfir öllum straumi upplýsinga innan ríkja sinna, til ríkja sinna og frá þeim. Auðvitað gera þeir þetta til að halda völdum sínum og treysta þau.

Skólamennirnir hjá Menningarstofnuninni virðast ekki gera sér grein fyrir muninum á fólki og stjórnvöldum. Þeim finnst, að kurteisir fulltrúar harðstjóranna tali fyrir munn þjóða þeirra. Þeim finnst vilji harðstjóranna vera vilji þjóðanna.

Í öllu þessu harki gleymist sjálf mannréttindayfirlýsingin, sem harðstjórarnir traðka á í hverjum einasta lið. Þar á meðal gleymist réttur almennings til að fá fjölbreyttar upplýsingar um það, sem er að gerast í nánu og fjarlægu umhverfi.

Vesturlönd hafa enn náð að verjast beinni fjölmiðlayfirlýsingu Menningarstofnunarinnar gegn mannréttindum, en þau eru því miður samt á undanhaldi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Séra Ólafur og séra Gylfi

Greinar

Olafur Jóhannesson er ekki á flæðiskeri staddur, þótt svo ólíklega vildi til, að hann félli í aðvífandi þingkosningum. Stjórnmálaaðallinn hefur séð um. að tekjur hans munu síður en svo rýrna, ef hann sezt í helgan stein.

Sem fyrrverandi alþingismaður fengi hann 333 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Sem fyrrverandi ráðherra fengi hann 480 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Og sem fyrrverandi prófessor fengi hann 271 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun.

Samtals eru þetta yfir milljón krónur á mánuði eða nákvæmlega 1.084 þúsund krónur á núverandi verðgildi. Ólíkt eftirlaunum flestra annarra stétta eru þessi eftirlaun verðtryggð af sjálfum ríkissjóði.

Enn mundi bætast í sarp Ólafs hinn 1. marz næstkomandi, þegar hann verður 67 ára. Þá hefur hann aldur til að fá til viðbótar þær 68 þúsund krónur á mánuði, sem tryggingastofnunin ætlar öldruðum smælingjum að lifa á.

Þetta er ekki verðtryggð upphæð, enda ætluð smælingjum þjóðfélagsins. Sama er að segja um þær 55 þúsund krónur á mánuði, sem Ólafur fengí tveimur árum síðar, þegar kona hans nær einnig 67 ára aldri.

Ef við gerum ráð fyrir, að landsfeður okkar verði svo elskulegir að hækka ellilaun smælingja framvegis í takt við verðbólguna, eru samanlögð ellilaun Ólafs 1.207 þúsund krónur á mánuði á núverandi verðgildi.

Þórir Bergsson tryggingafræðingur rakti dæmi Ólafs í ágætri kjallaragrein í Dagblaðinu hinn 29. október síðastliðinn. Þórir rakti einnig dæmi Gylfa Þ. Gíslasonar, sem er enn hrikalegra, enda var Gylfi lengur þingmaður en Ólafur og starfar enn sem prófessor.

Eftir tveggja ára starf sem prófessor til viðbótar verður alþingismaðurinn, ráðherrann og prófessorinn Gylfi Þ. Gíslason búinn að vinna sér fyrir verðtryggðum eftirlaunum, sem nema samtals 1.237 þúsundum króna á mánuði á núverandi verðgildi.

Og Gylfi getur haldið áfram að vera prófessor í fimm ár til viðbótar og bætt við sig 10% lífeyrisrétti sem prófessor. Svo fengi hann auðvitað úr Tryggingastofnuninni eins og starfsbróðir hans, Ólafur.

Í greininni fjallar Þórir Bergsson tryggingafræðingur um skiptingu aldraðra í þrjár stéttir. Í lægstu stétt eru þeir, sem upp á Tryggingastofnunina eina eru komnir eða þá óverðtryggða lífeyrissjóði.

Starfsmenn ríkis og bæja eru hærra settir, því að eftirlaun þeirra eru baktryggð af almannafé. Hæst trónir svo háaðall alþingismanna og ráðherra, sem geta bætt hverjum eftirlaununum ofan á önnur.

Lagafrumvarpið um forréttindi stjórnmálaaðalsins kom fram í þinglok 29. apríl 1965. Með samhljóða atkvæðum var það keyrt í gegn með afbrigðum og samþykkt samhljóða í tæka tíð, 10. maí. Um málið var alger einhugur.

Í sérréttindahópnum voru og eru menn á borð við Eðvarð Sigurðsson og Pétur Sigurðsson, :sem áratugum saman hafa þótzt vera að berjast fyrir lífeyrissjóðum handa stéttum sínum.

Sú styrjöld Eðvarðs, Péturs og fleiri hefur aðeins dugað til að búa til óverðtryggða lífeyrissjóði handa smælingjunum. Þeir þingmenn voru hins vegar ekki nema tvær vikur að búa sjálfum sér til verðtryggðan lífeyri, þar sem hver liðurinn hleðst ofan á annan.

Svo eru stjórnmálamenn hissa á fyrirlitningu og vantrausti almennings!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið