Sameinuðu þjóðirnar hafa í augum flestra glatað siðgæðisskikkju sinni. Mannréttindayfirlýsing samtakanna hefur rykfallið, enda taka fjórar ríkisstjórnir af hverjum fimm ekki hið minnsta mark á henni.
Auðvelt er að sjá, að Sameinuðu þjóðirnar eru fyrst og fremst vettvangur átaka milli hópa ríkja. Samanlagt mega lýðræðisríki sín ekki mikils á þeim vettvangi. Voldugasti hópurinn byggist á harðstjórnarríkjum þriðja heimsins.
Erfiðara er að átta sig á, að sama gildir um ýmsar sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna, ekki sízt Menningarstofnunina, UNESCO. Menn freistast til að halda, að hún sé ekki eins pólitísk og móðurstofnunin.
Ekki bætir úr skák, að meðal embættismanna Menningarstofnunarinnar er fullt af nytsömum sakleysingjum, einkum skólamönnum, sem hafa mikinn áhuga á að mennta íbúa þriðja heimsins. Undir fána þeirrar hugsjónar láta þeir afvegaleiða sig.
Þeir sjá, að fjölgun skóla og kennara gengur grátlega hægt í þriðja heiminum. Þeir sjá, að útvarp og blöð megi nota til að efla kunnáttu almennings, allt frá getnaðarvörnum yfir í verktækni af ýmsu tagi.
Silkimjúkir umboðsmenn harðstjóranna í Menningarstofnuninni telja skólamönnum hennar trú um, að forsenda þess, að fræðslugildi útvarps og blaða nýtist, sé, að stjórnvöld viðkomandi ríkis séu einráð um fjölmiðlun.
Þeir segja, að fátæk ríki hafi ekki efni á vestrænni tegund fjölmiðlunar. Byggja verði upp innri samstöðu hverrar þjóðar til að efla henni mátt til framfara og menningar og þjóðernisvitundar.
Þeir segja, að upplýsingar um glæpi stjórnvalda þessara ríkja, græðgi þeirra, spillingu, mútuþægni, kúgun og harðstjórn, séu annaðhvort vestrænn fjölmiðlaáróður eða bara til þess fallnar að grafa undan samstöðu og þjóðernisvitund.
Harðstjórum þriðja heimsins er nefnilega ákaflega illa við vestræna tegund fjölmiðlunar. Þeir vilja ekki, að fjölmiðlar séu með nefið niðri í skuggamálum. Þeir vilja fá frið til að kúga þegna sína.
Fulltrúar harðstjóranna hjá Menningarstofnuninni eru svo menntaðir og kurteisir, að hinir nytsömu sakleysingjar trúa því ekki, að harðstjórarnir að baki séu eins ógeðfelldir og sagt er í vestrænum fjölmiðlum.
Embættismenn stofnunarinnar hafa árum saman gengið erinda harðstjóranna í tilraunum þeirra til að grafa undan mannréttindaskránni með útgáfu yfirlýsingar um nýja skipan fjölmiðlunar í heiminum.
Harðstjórarnir stefna að því að stjórna sjálfir öllum straumi upplýsinga innan ríkja sinna, til ríkja sinna og frá þeim. Auðvitað gera þeir þetta til að halda völdum sínum og treysta þau.
Skólamennirnir hjá Menningarstofnuninni virðast ekki gera sér grein fyrir muninum á fólki og stjórnvöldum. Þeim finnst, að kurteisir fulltrúar harðstjóranna tali fyrir munn þjóða þeirra. Þeim finnst vilji harðstjóranna vera vilji þjóðanna.
Í öllu þessu harki gleymist sjálf mannréttindayfirlýsingin, sem harðstjórarnir traðka á í hverjum einasta lið. Þar á meðal gleymist réttur almennings til að fá fjölbreyttar upplýsingar um það, sem er að gerast í nánu og fjarlægu umhverfi.
Vesturlönd hafa enn náð að verjast beinni fjölmiðlayfirlýsingu Menningarstofnunarinnar gegn mannréttindum, en þau eru því miður samt á undanhaldi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið