Látið kjósendur í friði.

Greinar

Dagblaðið getur aðeins gefið kjósendum tvö ráð í lok þessarar kosningabaráttu. Annað ráðið er að taka hóflegt mark á yfirlýsingum flokkanna, því að þær eru hið forgengilegasta heimi hér.

Hitt ráðið er að nota kosningaréttinn, einnig þeir, sem óánægðir eru með alla kosti. Þeir geta þó alténd breytt röð og strikað út á lista þeim, sem illskástur er, eða í versta falli skilað auðu. Umfram allt ekki sitja heima.

Hins vegar getur Dagblaðið gefið stjórnendum og starfsmönnum flokkanna nokkur vel valin ráð, sem öll beinast að auknum mannasiðum, kurteisi og tillitssemi á kjördegi.

Við viljum, að stjórnmálaflokkarnir ljúki kosningabaráttu sinni fyrir miðnætti á laugardagskvöld og láti kjósendur í friði við að gera upp hug sinn á sunnudegi og mánudegi. Slíkt tíðkast í flestum nágrannalöndunum.

Við viljum ekki, að kjósendur þurfi að þola hringingar síma eða dyrabjöllu á vegum stjórnmálaflokka kjörfundardagana tvo. Við viljum ekki, að þeir þurfi að þola hamingjuóskir vegna fengins kosningaréttar né áminningar um að fylgja eftir þátttöku í prófkjöri.

Allra sízt viljum við, að stjórnmálaflokkarnir reyni að notfæra sér þann aðgang, sem vinir og kunningjar kjósenda hafa að heimilum þeirra. Flokkarnir hafa allt of oft gerzt sekir um að rjúfa friðhelgi heimilanna með slíkum hætti.

Alveg eins og við viljum, að kjósendur fái að vera í friði heima hjá sér, þá viljum við, að þeir fái að vera í friði fyrir persónunjósnurum flokkanna í kjördeildum. Á þessu sviði hafa kjörstjórnir brugðizt hroðalega.

Kjósendur hafa skilyrðislausan rétt til að ræða við kjörstjórn, án þess að persónunjósnarar flokkanna séu viðstaddir. Þetta var staðfest af réttum yfirvöldum í kosningunum í fyrra. Enda kemur flokkunum ekki við, hver kaus hvenær og hver kaus ekki hvenær.

Því miður gera fáir kjósendur rekistefnu út af viðurvist persónunjósnaranna. Menn eru almennt svo áreitnislausir, að þeir þola með þögninni tillitsleysi stjórnmálaflokkanna á þessu sviði.

Auðvitað mega flokkarnir hafa menn á kjörstað til að fylgjast með, að kosningarnar fari rétt fram og að meðferð kjörgagna og kjörkassa sé með eðlilegum hætti. En þeir hafa engan rétt til persónunjósna um kjósendur.

Þess vegna mælumst við til þess, að flokkarnir láti af þeim ósið að hafa persónunjósnara inni í hverri kjördeild. Við teljum, að þessi ósiður beri vott um skort á mannasiðum og skort á virðingu fyrir kjósendum.

Persónunjósnir í kjördeildum hafa einkum verið notaðar til að rjúfa friðhelgi þeirra, sem einhverra hluta vegna hafa ekki gefið sér tíma til að kjósa að áliðnum kjörfundi. Þennan séríslenzka ósið viljum við feigan.

Auðvitað geta kjósendur kært fyrir yfirkjörstjórnum þær kjörstjórnir, sem neita að vísa persónunjósnurunum út og neita að halda leyndum fyrir þeim nöfnum kjósenda.

Auðvitað geta kjósendur líka kært fyrir lögreglunni þá útsendara stjórnmálaflokkanna, sem rjúfa friðhelgi heimila með hringingum í síma eða á dyrabjöllu.

En miklu eðlilegra er, að flokkarnir rækti sjálfir með sér hliðstæða mannasiði, kurteisi og tillitssemi, sem flokkar nágrannalandanna sýna kjósendum meðan kjörfundur stendur yfir.

Framfarir í þessu lýsa flokkunum betur en stefnuskrár þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið