Hefðbundið jafnvægi.

Greinar

Enn höfum við fengið dæmi um, að því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til. að í kosningunum muni valdahlutföll stjórnmálaflokkanna færast í hefðbundið horf.

Áratugum saman hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið kringum 40%, Framsóknarflokksins kringum 25%, Alþýðubandalagsins kringum 20% og Alþýðuflokksins kringum 15%. Einu þingkosningarnar, sem rufu þessa hefð, voru þær í fyrra.

Skoðanakönnun Dagblaðsins bendir til, að nú fái Sjálfstæðisflokkurinn 42% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 22%, Alþýðubandalagið 19% og Alþýðuflokkurinn 14%. Þetta eru nánast sömu tölur og hér að ofan.

Frávikin frá hefðinni eru eingöngu þau, sem við má búast, er Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu, en hinir flokkarnir í stjórnaraðstöðu. Menn græða yfirleitt örlítið á að vera utan stjórnar.

Síðustu vikurnar virðist Alþýðuflokkurinn hafa rétt örlítið við eftir fyrra hrun. Í októberkönnuninni fékk hann tæp 13%, en nú rúm 14%. Samt er þetta ekki nema svipur hjá sjón í samanburði við úrslitin í fyrra, er flokkurinn fékk 22%.

Alþýðuflokkurinn hefur greinilega farið verst stjórnarflokkanna út úr stjórnarsamstarfinu. Með réttu eða röngu telja kjósendur, að hann hafi brugðizt þeim vonum, sem ollu velgengni hans í þingkosningunum í fyrra.

Þessar síðustu vikur virðist Sjálfstæðisflokkurinn heldur hafa dalað. Í októberkönnuninni fékk hann rúm 43%, en nú tæp 42%. Auðvitað er þetta gífurleg aukning frá tæpum 33% síðustu kosninga, en eigi að síður mikið hrun frá þeim 50%, sem flokkurinn hafði í júníkönnuninni.

Sjálfstæðisflokknum tekst greinilega ekki að nýta sér til fulls hina hrikalegu óánægju kjósenda með vinstri stjórnina. Sundurlyndi, klofningur og forustuleysi hafa leikið hann grátt á öndverðum þessum vetri.

Leiftursóknin svonefnda hefur ekki dugað til að koma flokknum aftur á flug, þótt þar hafi verið lögð fram einna athyglisverðasta stefnuskrá, sem fram hefur komið á síðustu árum. En stefnuskrár eru líka bara stefnuskrár.

Síðustu vikurnar virðist Alþýðubandalagið hafa dalað úr tæpum 22% í 19%. Í kosningunum í fyrra fékk bandalagið tæp 23%, svo að það er fyrst nú, að einhver bilbugur sést á fylginu. Staða Alþýðubandalagsins er þó mun betri en Alþýðuflokksins.

Framsóknarflokkurinn virðist hafa sótt í sig veðrið á síðustu vikum eins og raunar allt þetta ár. Aukningin frá því í október er úr tæpum 22% í rúm 22%. Þar með ætti hann að hafa endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn.

Telja má víst, að flokkurinn njóti Ólafs Jóhannessonar, sem gerist nú landsföðurlegri með degi hverjum. Hann forðast að tala um stjórnmál og segir í þess stað brandara eða talar beinlínis út og suður.

Auðvitað eru kjósendur þreyttir á stjórnmálum og flokkum. Samt er það alvarlegt umhugsunarefni, ef vinnubrögð Ólafs ná þeim árangri, sem þau virðast ná. Af hverju nær þá ekki Sólskinsflokkurinn líka árangri?

Eftir pólitískt brambolt síðustu tveggja ára standa kjósendur nú nokkurn veginn í sömu sporum og í upphafi, rétt eins og ekkert hafi gerzt. Hið hefðbundna valdajafnvægi flokkanna er aftur komið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið