Séra Ólafur og séra Gylfi

Greinar

Olafur Jóhannesson er ekki á flæðiskeri staddur, þótt svo ólíklega vildi til, að hann félli í aðvífandi þingkosningum. Stjórnmálaaðallinn hefur séð um. að tekjur hans munu síður en svo rýrna, ef hann sezt í helgan stein.

Sem fyrrverandi alþingismaður fengi hann 333 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Sem fyrrverandi ráðherra fengi hann 480 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Og sem fyrrverandi prófessor fengi hann 271 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun.

Samtals eru þetta yfir milljón krónur á mánuði eða nákvæmlega 1.084 þúsund krónur á núverandi verðgildi. Ólíkt eftirlaunum flestra annarra stétta eru þessi eftirlaun verðtryggð af sjálfum ríkissjóði.

Enn mundi bætast í sarp Ólafs hinn 1. marz næstkomandi, þegar hann verður 67 ára. Þá hefur hann aldur til að fá til viðbótar þær 68 þúsund krónur á mánuði, sem tryggingastofnunin ætlar öldruðum smælingjum að lifa á.

Þetta er ekki verðtryggð upphæð, enda ætluð smælingjum þjóðfélagsins. Sama er að segja um þær 55 þúsund krónur á mánuði, sem Ólafur fengí tveimur árum síðar, þegar kona hans nær einnig 67 ára aldri.

Ef við gerum ráð fyrir, að landsfeður okkar verði svo elskulegir að hækka ellilaun smælingja framvegis í takt við verðbólguna, eru samanlögð ellilaun Ólafs 1.207 þúsund krónur á mánuði á núverandi verðgildi.

Þórir Bergsson tryggingafræðingur rakti dæmi Ólafs í ágætri kjallaragrein í Dagblaðinu hinn 29. október síðastliðinn. Þórir rakti einnig dæmi Gylfa Þ. Gíslasonar, sem er enn hrikalegra, enda var Gylfi lengur þingmaður en Ólafur og starfar enn sem prófessor.

Eftir tveggja ára starf sem prófessor til viðbótar verður alþingismaðurinn, ráðherrann og prófessorinn Gylfi Þ. Gíslason búinn að vinna sér fyrir verðtryggðum eftirlaunum, sem nema samtals 1.237 þúsundum króna á mánuði á núverandi verðgildi.

Og Gylfi getur haldið áfram að vera prófessor í fimm ár til viðbótar og bætt við sig 10% lífeyrisrétti sem prófessor. Svo fengi hann auðvitað úr Tryggingastofnuninni eins og starfsbróðir hans, Ólafur.

Í greininni fjallar Þórir Bergsson tryggingafræðingur um skiptingu aldraðra í þrjár stéttir. Í lægstu stétt eru þeir, sem upp á Tryggingastofnunina eina eru komnir eða þá óverðtryggða lífeyrissjóði.

Starfsmenn ríkis og bæja eru hærra settir, því að eftirlaun þeirra eru baktryggð af almannafé. Hæst trónir svo háaðall alþingismanna og ráðherra, sem geta bætt hverjum eftirlaununum ofan á önnur.

Lagafrumvarpið um forréttindi stjórnmálaaðalsins kom fram í þinglok 29. apríl 1965. Með samhljóða atkvæðum var það keyrt í gegn með afbrigðum og samþykkt samhljóða í tæka tíð, 10. maí. Um málið var alger einhugur.

Í sérréttindahópnum voru og eru menn á borð við Eðvarð Sigurðsson og Pétur Sigurðsson, :sem áratugum saman hafa þótzt vera að berjast fyrir lífeyrissjóðum handa stéttum sínum.

Sú styrjöld Eðvarðs, Péturs og fleiri hefur aðeins dugað til að búa til óverðtryggða lífeyrissjóði handa smælingjunum. Þeir þingmenn voru hins vegar ekki nema tvær vikur að búa sjálfum sér til verðtryggðan lífeyri, þar sem hver liðurinn hleðst ofan á annan.

Svo eru stjórnmálamenn hissa á fyrirlitningu og vantrausti almennings!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið