Forustan fattar

Punktar

Sjálfstæðisforustan hefur áttað sig á, að loforð Framsóknar um afskriftir svokallaðra skulda heimilanna er innantómt rugl. Vilja ekki, að Flokkurinn taki ábyrgð á óðaverðbólgu vegna prentunar 300 milljarða af innistæðulausum seðlum. Líkur hafa því aukizt á stjórnarslitum. Málið snýst ekki um nein efnisatriði. Heldur um, hvort hægt sé með einhverjum sjónhverfingum að dylja innihald aðgerða Framsóknar. Sjálfstæðisforustan segir, að peningar, sem gætu náðst á kostnað kröfuhafa gömlu bankanna, eigi að fara í ríkissjóð. Til að leysa hrikalegan vanda hans, svo sem vegna fyrirsjáanlegs hruns Landspítalans.

Nú vantar bara fugla

Punktar

Fer Hofsvallagötu daglega vegna Melabúðarinnar. Sé aldrei umferðarteppu og er sáttur við breytingarnar. Vildi þó tvær akreinar á Hofsvallagötu stuttan kafla sunnan Hringbrautar. Bílar, sem eiga að beygja til vinstri, tefðu síður þá, sem eiga að beygja til hægri. Og bílar, sem þurfa að beygja af Hofsvallagötu austur Víðimel, þyrftu síður að fara gegnum biðröð. Svona smá-aukahugsun, eins og vantaði við færslu gangbrautar við Þjóðminjasafnið. Gott er, að skrautlegt götumálverk, fánar og fuglabúr raski ró Mela-íhaldsins. Fugla vantar samt, fáið raf-fugla til að syngja lævirkjaaríur og kanaríseiði.

Þrír í skammakróknum

Ferðir

Mér sýnist hótelhaldararnir vera orðnir þrír, sem haldi uppi háðslegu umtali ferðamanna um Ísland. Þetta má sjá á TripAdvisor, þar sem fólk rekur raunir sínar. Gamalkunnugt er ástandið á Adam hóteli við Skólavörðustíg og Travel Inn við Sóleyjargötu. 54 vitni eru að skelfingunni á því síðara og 59 á því fyrra. Ég ætla að spara ykkur lýsingarnar, en bendi á, að myndir fylgja á TripAdvisor. Þriðja í skammakrókinn er komið gistiheimilið Tunguvegur, en þar eru vitnin bara orðin fimm. Samtök ferðaþjónustu gerðu vel í að stöðva landkynninguna, sem aðeins þrír hótelhaldarar veita, þvert á ágæti annarra.

Vélræn íslenzka

Punktar

Fjölþjóðlegar þýðingarvélar halda innreið sína. Google hefur forustu með Google Translate. Hún virkar sæmilega milli þekktra tungumála. En erfitt hefur reynzt að þýða af og á íslenzku. Við sjáum það af þessum skemmtilegu Nígeríubréfum, sem við fáum í tölvupósti. Mikilvægt er, að tækni þýðinganna batni hratt og að íslenzka fylgi með í þróuninni. Fyrir framtíð tungunnar er mikilvægt að hún standi jafnfætis öðrum tungum. Hún gerir það í lyklaborðum hefðbundinna tölva og fartölva, en ekki á jafn traustan hátt í snjallsímum og spjaldtölvum. Þegar vélþýðingar fara að renna lipurt, er framtíðin trygg.

Rán aldarinnar

Punktar

Rán aldarinnar er í uppsiglingu. Ríkisstjórnin undirbýr lagafrumvarp um að afhenda kvótagreifum nýtingarétt á þjóðarauðlindinni í aldarfjórðung. Heilan aldarfjórðung. Þá fellur niður möguleikinn á að bjóða út kvótann á frjálsum markaði og fá markaðsverð fyrir hann. Fáum ekki fé í Landspítalann með því. Mesti fleinn, sem ríkisstjórnin getur rekið í þjóðina á öllu kjörtímabilinu. Bindur hendur annarra ríkisstjórna um fyrirsjáanlega framtíð. Gegn því dugir tæpast nokkuð annað en bylting. Við þurfum að reka bófana burt. Fávitarnir, sem kusu bófaflokkanna tvo, eru líka bófar og mega gjarna fara af vettvangi.

SDG í kústaskápnum

Punktar

Sigmundur Davíð siglir ýmist með himinskautum eða byrgir sig í skúmaskotum. Hlaupið var fyrir hann fram og aftur með fundartíma stóra krónufundarins í Hörpu. Var settur á þennan miðvikudag, því þá gat forsætisráðherrann mætt. Samt afboðaði hann sig á síðustu stundu. Sama gerðist í vor á almennum fundi vísinda- og tækniráðs forsætisráðuneytisins. Og í haust á almennum fundi samtaka iðnaðarins um stöðu þekkingar- og hugverkaiðnaðar. Í þremur tilvikum missti forsætisráðherra kjarkinn á síðustu stundu. Ýmist þeytist hann sem Kafteinn ofurbrók í heimsins mestu loforðum eða felur sig í kústaskápnum.

Misjöfn útreið bófaflokka

Punktar

Kjósendur Flokksins vita, að hann er bófaflokkur. Kæra sig kollótta um það. Þeir vilja hafa flokkinn svona, telja sig geta fengið mola af veizluborðinu. Þetta eru 20% þjóðarinnar og fylgi Flokksins lækkar bara niður undir það. Er auðvitað mikil hátíð í samanburði við þær svörtu miðaldir, þegar fylgið var 35-40%. Um Framsókn gegnir öðru máli. Þar er kjarnafylgið hrunið, var komið niður undir 10% árið 2009. Sigmundi Davíð tókst árið 2013 að ljúga sig inn á heimska skuldara og sigla inn með 15% viðbótarfylgi. Nú er lygin farin að sjást, fylgið hrunið í 15% og fer vonandi niður í 10%, þar sem það á heima.

Afturfótafæðing á Akureyri

Punktar

Afturfótafæðing ráðningar forseta hug- og félagsvísindadeildar súpergaggós á Akureyri stingur í augu. Stefán B. Sigurðsson rektor virðist hafa tíu þumla og fjögur handarbök. Búinn að hafa mikið fyrir að hindra forsetastól Ólínu Þorvarðardóttur. Sumpart vegna fjölskylduhagsmuna. Og sumpart vegna þess, að súpergaggó er aðili að ágreiningi kvótagreifa við lattelepjandi lopatrefla í hverfi 101. Súpergaggó á Akureyri hefur ekkert fræðilegt gildi og er bara til að sýnast fyrir Norðlendinga. Tímabært að leggja hann niður og gera að útstöð fyrir alvöru-háskóla. Ef slíkur fyrirfinnst í þessu ríki spillingar.

Fimm tegundir krónu

Punktar

Svana Helen Björnsdóttir hefur bent á, að fjármálaráðherra er ekki bara að halda lífi í krónunni með gjaldeyrishöftunum. Hann er að reyna að verja fimm gjaldmiðla. Þarna er ferðamannakrónan og verðtryggða krónan, aflandskrónan og tvenns konar undanþágukrónur Seðlabankans. Orðið verra en fyrir hálfri öld á tíma bátagjaldeyris og námsmannagjaldeyris. Ríki með minnsta gjaldeyri heims heldur í rauninni úti fimm gjaldmiðlum. Menn eru búnir að belgja sig of átakanlega út í dálæti á hinni einu sönnu og þjóðlegu krónu. Þeir eru að fórna fjárhagslegum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig er grínið á Íslandi í dag.

Innvígðir ræða leyndó

Punktar

Nokkrum sinnum birtast þættir í spjalli innvígðra um samningana við Evrópu. Það sérkennilega við þessa búta er, að þeir snúast um efni, sem er enn lokað fyrir almenningi. Fólk hefur ekki fengið tækifæri til að sjá, á hvaða stigi Evrópusamningarnir voru. Getur því ekki haft skoðun á málsefninu. Að vísu hefur birtingu verið lofað, en þessi ríkisstjórn lofar svo mörgu. Dæmigert fyrir lokað og leyndó stjórnkerfi. Ríkisstjórnin og eigendur hennar í útgerð á kvóta spjalla opinberlega um, hvernig beri að túlka orð stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Betra þætti mér að hafa heimildirnar sjálfar til að lesa.

Flatjarðarfréttir

Punktar

Í bókinni Flat Earth News rekur Nick Davies, hvernig Exxon og aðrir helztu umhverfissóðar dreifa loftslagslygum. Halda fram, að loftslagið sé ekki að breytast og ekki af mannavöldum. Í þessu skyni halda þessir aðilar úti ýmsum gervisamtökum og stofnunum, vísindamönnum og einkum almannatenglum. Davies rekur í smáatriðum, hvernig það er gert. Ein þessara stofnana er World Ocean Council, sem fjármagnar Arctic Circle, er hélt ráðstefnu í Hörpu um daginn. Þar er Ólafur Ragnar Grímsson forseti settur á oddinn. Kunnur af vináttu í garð stórfyrirtækja og stórfursta, sem bregða fæti fyrir þekkingu fólksins.

Suðupottur í Miklagarði

Punktar

Sveitavargurinn í Tyrklandi flýr sult og seyru landsbyggðar til Miklagarðs. Þar efnast margir, linast í trúnni og fara að dýrka Mammon eins og aðrir vestrænir. Mústafa Kemal Tyrkjafaðir vildi að Tyrkir tækju upp evrópska siði og menningu. Mikligarður varð aftur evrópsk borg 1930-2000. Sumir aðkomumenn vildu hins vegar ekki evrópuvæðast, héldu fast í fortíðina. Urðu kaþólskari en páfinn! Leita forskrifta til arabískra wahabíta úr eyðimörkinni. Til urðu hverfi ofsatrúarfólks, sem hafnar vestrænum gildum. Þróun menningar og siða í Miklagarði liggur því í tvær áttir í senn, fram á við og aftur í tímann.

Hanna Birna er þreytt

Punktar

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti þreyttar lummur, þegar hún var spurð um Gálgahraunsveginn á flótta hennar austur á land. Sagði nýja veginn veita meira öryggi. Aldrei hefur það verið rökstutt, en hins vegar bent á aukna hættu af völdum nýja vegarins. Hanna Birna nennti semsagt ekki að kynna sér málið til að geta gefið veigameiri svör. Ráðherratími hennar hefur ekki sýnt svör við neinu. Hún vísar öllu frá sér, svo sem Snowden og uppboðsfresti vegna hæpinna gjaldþrota. Minnir á ferilinn í borgarstjórn. Seldi HS Orku til Magma og gerði Ólaf lækni að borgarstjóra. Gerði hún þar nokkuð fleira?

Allt fyrir Engeyinga

Punktar

Skyndilega er komið í ljós, hvers vegna nauðsynlegt er að leggja aðalbraut um Gálgahraun. Með því kemst jörðin Selskarð í gott samband við vegakerfi höfuðborgarsvæðisins. Jörðina eiga meðal annarra þeir Engeyjarbræður, Einar og Benedikt Sveinsson, faðir fjármálaráðherrans. Með veginum verður hægt að selja lóðir dýrum dómum úr jörðinni. Samkvæmt skipulagi, sem gert var, þegar Bjarni Ben. var í skipulagsnefnd Garðabæjar. Þar með aukast eignir Engeyjarættar um hundruð milljóna og tekjurnar að sama skapi. Bráðræði þessarar vegagerðar er bara hefðbundin lóðaspilling um að auka skyndilega verðmæti landareignar.

Þokan í Gálgahrauni

Punktar

Ýmsum rökleysum er haldið fram til að verja eyðileggingu Gálgahrauns með óþörfum vegi. Ein er, að auka þurfi öryggi Álftanesleiðar. Engar tölur hafa verið birtar um það. Önnur er, að heiti hraunsins sé annað, eins og það komi eyðileggingunni eitthvað við. Þriðja er, að vegurinn sé altjend löglegur. Um það má deila. Lagatæknar segja ýmist. Meðal annars að ljúka þurfi dómsmálinu áður en óafturkræfar skemmdir eru unnar. Ennfremur, að dómstólar hafi ekki farið að alþjóðalögum, er þeir höfnuðu aðkomu almannasamtaka að umhverfinu. Íslenzkir dómarar sýna ítrekað, að þeim eru fáfróðir um rétt almennings.