1. Padova

Borgarrölt

Padova

Fyrsti áfanginn, til Padova, er 42 km.

Gamall háskólabær með fjörlegri borgarmiðju, einkum að morgni dags á markaðstorginu Piazza delle Erbe við Palazzo della Ragione. Í nágrenni þess eru ýmsar sögufrægar byggingar, svo sem Battistero við dómkirkjuna og hallirnar Corte Capitano og Loggia della Gran Guardia. Önnur torg á þessu svæði eru Piazza dei Frutti og Piazza dei Signori.

Caffé Pedrocchi er einnig í þessari gömlu borgarmiðju, miðstöð menningarvita. Stúdentar setja mikinn svip á miðbæinn, enda er háskólinn sá annar elzti á Ítalíu, stofnaður 1222. Í miðbænum er fullt af kaffihúsum, veitingastofum og sérverzlunum með mat.

Við leggjum bílnum á bílageymslusvæði við Via Gaspare Gozzi rétt við norðausturhorn umferðarhringsins um miðborgina. Stæðið er í króknum milli Via Trieste og skurðarins Giotto Popolo og verður tæpast nær miðbænum komizt með góðu móti. 

Giardini dell’Arena

Þaðan göngum við á brú yfir skurðinn inn í miðbæinn og verður þá strax fyrir okkur lystigarður borgarinnar á vinstri hönd.

Leifum gamla borgarmúrsins hefur á þessum hluta verið breytt í lystigarð, sem nær frá borgarskurðinum upp að Cappella degli Scrovegni og Museo Civico Eremitani. Þar er til sýnis nýtízkulegur skúlptúr.

Þegar við vorum þar síðast, var La Foresta di Birnam (sbr. Macbeth eftir Shakespeare) eftir Pino Castagna beint fyrir framan Cappella degli Scrovegni.

Cappella degli Scrovegni, Padova

Cappella degli Scrovegni

Cappella degli Scrovegni

Til þess að komast inn í kapelluna þurfum við að fara inn um innganginn að safninu, sem er í suðvesturhorni garðsins.

Reist 1303 í rómönskum stíl til sáluhjálpar okrara að nafni Scrovegni, einn geimur að innanverðu, allur þakinn steinmálverkum eftir Giotto, máluðum 1303-1305. Bezt er að skoða kapelluna að morgni dags, þegar farþegarúturnar eru enn ekki komnar.

Giotto var fyrsti afburða listmálari Ítalíu, merkisberi hins líflega gotneska stíls, þegar hann tók við af hinum stirða býzanska stíl í upphafi fjórtándu aldar. Hann var fátækur bóndasonur, en varð snemma mikilvirkur í starfi og miðpunktur í hópi ítalskra menningarvita þess tíma. Málverkin í þessari kapellu eru það, sem bezt hefur varðveitzt af verkum hans.

Málverkin í kapellunni eru á fjórum hæðum. Í neðstu röð eru myndir, sem sýna dyggðir og lesti. Síðan koma tvær raðir með myndum af lífi og dauða Krists. Efst er röð mynda úr lífi Maríu meyjar. Innan á kapellustafni er risamynd af dómsdegi og er hún nær býzanska stílnum en hinar.

Museo Civico Eremitani

Við skoðum næst söfnin við kapelluna.

Í klaustrinu við hlið kapellunnar eru nokkur söfn, svo sem fornminjasafn, myntsafn og listasögusafn. Klausturhúsin eru frá 1276-1306.

Merkasti hluti fornminjasafnsins er grafhýsi Volumni-ættar frá 1. öld. Þar eru líka steinfellumyndir frá rómverskum tíma. Í myntsafninu er nánast heilt safn feneyskrar myntar. Listasögusafnið er í mótun og á að sýna þróun myndlistar Feneyjasvæðisins. Verk eftir Giotto skipa þar virðingarsess

Næstu skref

Tími austurferða hafinn

Punktar

Á aldarfresti urðu hallæri á Íslandi og fólki fækkaði, síðast fyrir rúmri öld, á tíma vesturfara. Nú er hafinn nýr landflótti af þessu tagi, tími austurferða að þessu sinni. Noregur freistar fólks, sem hefur menntun eða dugnað til að lifa góðu lífi í mildu ríki. Harka frjálshyggjunnar hér á landi hentar ekki nema fáum ríkum. Aðrir berjast í bökkum, vilja geta alið upp börn og haft mat og húsnæði fyrir hóflega vinnu. Noregur kallar á þetta fólk. Mikil ásókn er í hjúkrunarfræðinga, vinnuvélafólk og marga fleiri. Frjálsborið fólk gefst að lokum upp á, að vera þrælar í ríki, sem sogar burt arðinn af auðlindum okkar.

9. Isole – Torcello

Borgarrölt

Torcello

Santa Maria Assunta, Torcello, Feneyjar

Santa Maria Assunta, Torcello

Héðan er stutt leið með áætlunarbátnum til frægrar eyðieyjar, Torcello.

Einu sinni var þetta þéttbýl eyja með 20.000 íbúum, en nú eru þeir ekki nema um það bil 50. Eyjan er að mestu leyti í eyði, fræg fyrir eina elztu kirkju Feneyja, Santa Maria dell’Assunta, frá 1008. Við hlið hennar er önnur minni kirkja, Santa Fosca, grísk krosskirkja í rómönskum stíl frá 11. og 12. öld, með grönnum súlnagöngum að innan sem utan.

Santa Maria Assunta

Um stundarfjórðungs gönguleið er frá bátastöðinni eftir skurðbakka til kirknanna tveggja. Við hlið þeirra er veitingahúsið Locanda Cipriani, sem er bezta veitingahús Feneyjasvæðisins. Kjörið er að sameina skoðun fornminja hádegisverði á veitingahúsinu og láta hraðbát hússins sækja sig inn í borgina.

Við skoðum nánar meginkirkjuna.

Kirkjan er í býzönskum stíl, í núverandi mynd frá 1008, en að stofni til frá 639, ein elzta kirkja Feneyja. Framan við hana eru léttbyggðar súlnasvalir og að kórbaki er hallur kirkjuturn.
Glæsilegar og upprunalegar steinfellumyndir þekja vesturvegg og hluta kórbaks, einstæðar í sinni röð, mun fjörlegri en slíkar myndir voru venjulega á þessum öldum. Hinar elztu eru frá 7. öld, en flestar frá 12. öld. Á vesturvegg sýna myndirnar dómsdag og í kórbaki sýna þær meðal annars guðsmóður með jesúbarnið framan við gullinn bakgrunn.

Framan við róðubríkina er predikunarstóll, sem að hluta er frá 7. öld. Sjálf róðubríkin er úr vandlega myndskornum marmara.

Við ljúkum hér ferðinni um eyjar Feneyjalóns og tökum næsta bát inn í staðinn. Næst förum við á bílaleigubíl frá Feneyjum til Padova, Vicenza og Verona, samtals 122 km aðra leiðina og 236 km fram og til baka. Fyrsti áfanginn, til Padova, er 42 km.

Bílferðin

 

8. Isole – Burano

Borgarrölt
Burano, Feneyjar

Burano

Bátaleið 12 heldur áfram til Burano og Torcello, svo og bátaleið 14, sem ekki kemur við í Murano. Frá Feneyjum er um 50 mínútna ferð með leið 12 og 90 mínútna ferð með leið 14, sem kemur við í Lido.

Skrautlegasta eyja Feneyjalóns, með skært máluðum smáhúsum, áður fyrr miðstöð feneyskrar blúndugerðar. Enn eru leifar þess handverks í eyjunni og mikið af búðum, sem selja heklaða dúka. Fiskveiðar eru líka stundaðar frá eynni, svo sem sést af góðum fiskréttahúsum staðarins.

Burano, Feneyjar 2

Burano

Aðalgatan í eynni, Via Baldassare Galuppi, liggur frá götunni upp af bátastöðinni að kirkjutorgi eyjarinnar. Við götuna er veitingahúsið Galuppi.

Næstu skref

7. Isole – Murano

Borgarrölt
Murano, Feneyjar

Murano

Við höldum áfram með bátnum örstutta leið yfir sund til eyjarinnar Murano.

Eyjaklasi, tengdur með brúm, og miðstöð glergerðanna, sem hafa gert feneyskan kristal heimsfrægan. Gleriðjan var flutt hingað frá Feneyjum 1291 til að draga úr brunahættu í borginni sjálfri. Lengi var þetta helzta miðstöð glergerðar í Evrópu. Tugþúsundir manna bjuggu á eyjunni og höfðu framfæri af glergerð, en máttu um leið sæta hafnbanni vegna iðnaðarleyndarmála.

Flestir gripirnir eru ómerkilegir og margir smekklausir, en saman við er nokkuð af fögrum munum. Meðal góðra fyrirtækja, sem leggja áherzlu á forna hönnun í feneyskum stíl, eru Barovier e Toso, Paolo Rossi, Seguso og Venini. Gaman er að fara á verkstæðin og fylgjast með glerblæstrinum.

Næstu skref

6. Isole – Isola San Michele

Borgarrölt
Isola San Michele, Feneyjar

Isola San Michele

Við höldum næst í norður frá Feneyjum. Bátaleið 52 fer frá Lido og Feneyjum til Murano, en að auki er hægt að komast frá Feneyjum með bátaleiðum 12, 13 og 23. Leiðir 23 og 52 koma við á Isola San Michele.

Kirkjugarðseyja Feneyja, næstum öll lögð undir leiði, sem mörg eru fagurlega blómum skreytt. Bátastöðin er við eyjarkirkjuna frá 1469, klædda að framan í hvítan Istríu-stein.

Kirkjugarðinum er skipt í hluta eftir kirkjudeildum.

Margir frægir útlendingar eru grafnir á eyjunni, þar á meðal Igor Stravinsky og Ezra Pound.

Næstu skref

5. Isole – Lido

Borgarrölt
Í camping á Lido

Í camping á Lido

Almenningsbátaleið 82 liggur einnig til eyjarinnar Lido, sem og leiðir 1, 6, 14 og 52. Hraðskreiðust þeirra er leið 6, sem fer á 12 mínútum frá San Zaccaria stöðinni til Santa Maria Elisabetta stöðvarinnar á Lido.

Lido er tólf kílómetra langt sandrif milli Adríahafs og Feneyjalóns, sumardvalarstaður fína og fræga fólksins fyrstu áratugi þessarar aldar, þegar Feneyjar voru fremsta sólarströnd Vesturlanda. Þar eru fræg hótel og miklar baðstrendur, sem eru þéttar setnar en áður var. Bezt er að fara um eyjuna á reiðhjóli, sem taka má á leigu andspænis bátastöðinni.

Brezkir bókmenntamenn gerðu Lido fræga á 19. öld. Byron lávarður og Shelley dvöldust þar löngum stundum. Byron synti frá Lido um Canal Grande til Santa Chiara. Um aldamótin var Lido komin í tízku hjá aðalsfólki og filmstjörnum. Þá voru farin að rísa þar hótel. 1912 kom út bókin Dauði í Feneyjum eftir Thomas Mann, þar sem lýst er lífi iðjuleysis-aðalsins á eynni.

Næstu skref

 

D. Amalienborg

Borgarrölt, Kaupmannahöfn
Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv, København

Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv

2. ganga:

Kongens Nytorv

Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).

Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus“. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.

Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.

Næstu skref

4. Isole – Giudecca

Borgarrölt
Santa Maria della Salute, Feneyjar

Eyjan Giudecca með Redontore að baki Dogana di Mare og Santa Maria della Salute

Við tökum almenningsbátinn 82 frá San Giorgio til nágrannaeyjunnar Giudecca.

Eyjan mjóa og langa frá vestri til austurs má muna fífil sinn fegri frá blómaskeiði Feneyja, þegar þar voru sumarhallir borgaraðalsins. Nú eru hallirnar hnípnar og þreytulegar og torgin illa snyrt. Frá Feneyjum blasir við breiður norðurbakki og út frá honum liggja sund í átt til suðurstrandarinnar.

Höfuðprýði eyjarinnar er Il Redentore, kirkja eftir Andrea Palladio, reist 1577-1592 í gnæfrænum stíl, sem minnir á gullöld Rómar, afar formföst og fögur. Hún tekur sig vel út flóðlýst að kvöldlagi, séð frá bakkanum Zattere í Dorsoduro-hverfi Feneyja.

Í austurenda eyjarinnar er hótelið og veitingahúsið Cipriani.

Næstu skref

3. Isole – Andrea Palladio

Borgarrölt

Fondacione Cini, San Giorgio, Feneyjar

Fondacione Cini

Klaustrið er vestan kirkjunnar.

Benediktaklaustrið er frá sama tíma og kirkjan, einnig hannað af Andrea Palladio. Allt í kringum stóra innigarða eru mikil og létt súlnagöng á fyrstu hæð og palladísk gluggaröð á annarri hæð, þar sem annar hver gluggi hefur oddhatt og hinn sveigðan hatt. Þetta form hefur verið stælt um allan heim.

Klaustrinu hefur verið breytt í menningarstofnun, Fondacione Cini, sem heldur þar ráðstefnur og sýningar. Þar hafa ráðamenn Vesturlanda hitzt til skrafs og ráðagerða og eitt sinn var þar kjörinn páfi.

Andrea Palladio

Höfundur klausturs og kirkju er einn merkasti arkitekt allra tíma.

Andrea Palladio var uppi 1508-1580, fæddur í nágrannabæ Feneyja, Vicenza, þar sem sjá má mörg verka hans. Hann nam rómverska byggingarlist keisaratímans í Róm. Síðan hannaði hann mörg sveitasetur feneyskra aðalsmanna í nágrenni borgarinnar og nokkrar hallir í Feneyjum sjálfum, kirkjuna Redentore á Giudecca-eyju, svo og klaustrið og kirkjuna á San Giorgio eyju.

Fleira er sagt af verkum hans í bókarkaflanum um Vicenza.

Næstu skref

2. Isole – Isola di San Giorgio

Borgarrölt

Isola San Giorgio Maggiore, Feneyjar

Isola di San Giorgio

Við byrjum á Isola di San Giorgio. Þangað má komast með almenningsbátaleið 52 frá San Zaccaria við hertogahöllina. Komið er að landi við torgið framan við kirkju eyjarinnar.

Kirkja og klaustur arkitektsins Andrea Palladino, reist 1559-1580, blasa glæsilega við ferðamönnum á bakkanum framan við hertogahöllina. Á eyjunni er einnig lystisnekkjuhöfn, skrúðgarður og útileikhús.

San Giorgio Maggiore

Við beinum athygli okkar að kirkjunni San Giorgio Maggiore.

Hönnun kirkjunnar er skólabókardæmi fyrir þá megingrein endurreisnarstefnunnar, sem kölluð hefur verið Palladismi eftir höfundinum, Andrea Palladio, öll í formföstum, mælirænum einingum. Stafninn er í grísk-rómverskum musterisstíl.

Næstu skref

7. Cannaregio – Ghetto

Borgarrölt
Ghetto, Feneyjar

Ghetto

Við göngum upp með skurðinum austanmegin, tæplega 100 metra, og beygjum til hægri í Calle del Ghetto Vecchio, 200 metra leið, og komum þar að brú, sem liggur yfir til Campo Ghetto Nuovo.

Ákveðið var 1516, að allir Gyðingar í Feneyjum skyldu búa á þessari eyju í Cannaregio, þar sem áður var málmbræðsla = geto. Þaðan kemur nafnið, sem síðan hefur verið notað um slík hverfi, enda var fyrsta hverfið hér í Feneyjum. Tvær vaktaðar brýr lágu frá eyjunni til umhverfisins.

Smám saman fjölgaði Gyðingum í Feneyjum og þeir dreifðust yfir á nágrannasvæðin, en það var þó ekki fyrr en 1866, sem þeir fengu leyfi til að búa hvar sem er í borginni. Nú búa nánast engir feneyskra Gyðinga á þessari eyju, en þar eru þó enn nokkrar verzlanir þeirra, svo og safn um sögu þeirra í borginni.

Campo Ghetto Nuovo, Feneyjar

Campo Ghetto Nuovo

Á einum veggnum við torgið eru lágmyndir, sem sýna helför Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Frá norðurhlið torgsins er stór brú með vönduðum smíðajárnshandriðum.

Við höldum sömu leið til baka eftir Calle del Ghetto Vecchio og til vinstri eftir bakka Canale di Cannaregio til gönguleiðarinnar milli Rialto og Ferrovia, beygjum til hægri, förum yfir brúna og áfram eftir hótelgötunni, sem brátt nefnist Rio terrà Lista di Spagna og liggur að járnbrautarstöðinni. Þessi gönguferð endar þar. 

Næst siglum við út í nálægar eyjar.

Næstu skref

6. Cannaregio – Canale di Cannaregio

Borgarrölt
Canale di Cannaregio, Feneyjar

Canale di Cannaregio

Síðan höldum við sömu leið til baka um Campo San Marziale, Calle Zancani og Campo di Santa Fosca, þar sem við beygjum til hægri inn á gönguleiðina milli Rialto og Ferrovia. Við göngum eftir henni um 900 metra leið að breiðskurðinum Canale di Cannaregio.

Einn breiðasti skurður Feneyja næst á eftir Canal Grande, mikið notaður til vöruflutninga. Honum fylgir ys og þys hafnarhverfis, einkum á kaflanum, sem næstur er Canal Grande.

Næstu skref

5. Cannaregio – Rio della Misericordia

Borgarrölt
Rio della Sensa, Feneyjar

Rio della Sensa

Rio della Misericordia

Að þessu sinni göngum við um 600 metra eftir Strada Nova. Síðan beygjum við til hægri í Campo di Santa Fosca og áfram yfir brú og eftir Calle Zancani um brú til Campo San Marziali og áfram upp á brú yfir Rio della Misericordia.

Við erum hér komin að þremur tiltölulega beinum og breiðum skurðum, sem liggja langsum eftir norðanverðu Cannaregio-hverfinu. Rio della Misericordia er hinn syðsti, síðan kemur Rio della Sensa og loks Rio Madonna del’Orto, sem raunar heitir ýmsum nöfnum.

Við Rio della Sensa er torgið Campo dei Mori með frægri styttu, sem kölluð er Signor Antonio Rioba, með gamansömu málmnefi. Þar á skurðbakkanum Fondamenta dei Mori stendur enn íbúðarhús málarans Tintoretto.

Á norðurbakka skurðanna þriggja eru yfirleitt greiðar gönguleiðir, sem er óvenjulegt í Feneyjum. Þessi borgarhluti er lítt snertur af ferðamennsku. Litlar verzlanir og verkstæði eru á stangli á jarðhæðum, en að öðru leyti er þetta íbúðahverfi. Sólin nær oft að skína lengi á stéttarnar, þar sem eftirlaunamenn standa gjarna og dorga í skurðunum.

Við spókum okkur góða stund á bökkum skurðanna þriggja.

Næstu skref
Rio Madonna dell' Orto, Tintoretto house

Rio Madonna dell’ Orto

4. Cannaregio – Strada Nova

Borgarrölt
Strada Nova, Feneyjar

Strada Nova

Frá kirkjunni göngum við til suðurs Campo dei Gesuiti, Salizzada Seriman, Salizzada larga Borgato og Rio terrà dei Santi Apostoli, um 500 metra nánast beina leið, beygjum til hægri í Calle larga dei Proverbi og til vinstri Salizzada del Pistor til Campo dei Santi Apostoli, alls tæpa 300 metra til viðbótar. Þar beygjum við til hægri inn í breiðgötuna Strada Nova.

Breiðgatan Strada Nova liggur í næstum beina línu samsíða Canal Grande að baki síkishallanna, frá Campo dei Santi Apostoli til Campo di Santa Fosca, 700 metra leið. Þetta er breiðasti og greiðfærasti hluti gönguleiðarinnar milli járnbrautarstöðvarinnar og Rialto-brúar, þétt skipuð verzlunum. Í nágrenni hans eru veitingahúsin A la Vecia Cavana og Vini da Gigio.

Nokkru vestar er annar greiður kafli, Rio terrà San Leonardo, og næst járnbrautarstöðinni er Rio terrà Lista di Spagna, þar sem mikið er af hótelum. Milli þessara kafla eru þrengri hlutar, en leiðin er alls staðar greinileg.

Þetta er hinn fjörlegi hluti hverfisins Cannaregio, mjög ólíkur hinum rólegu og friðsælu skurðbökkum, þar sem heimamenn sitja með veiðistengur sínar.

Næstu skref