7. Cannaregio – Ghetto

Borgarrölt
Ghetto, Feneyjar

Ghetto

Við göngum upp með skurðinum austanmegin, tæplega 100 metra, og beygjum til hægri í Calle del Ghetto Vecchio, 200 metra leið, og komum þar að brú, sem liggur yfir til Campo Ghetto Nuovo.

Ákveðið var 1516, að allir Gyðingar í Feneyjum skyldu búa á þessari eyju í Cannaregio, þar sem áður var málmbræðsla = geto. Þaðan kemur nafnið, sem síðan hefur verið notað um slík hverfi, enda var fyrsta hverfið hér í Feneyjum. Tvær vaktaðar brýr lágu frá eyjunni til umhverfisins.

Smám saman fjölgaði Gyðingum í Feneyjum og þeir dreifðust yfir á nágrannasvæðin, en það var þó ekki fyrr en 1866, sem þeir fengu leyfi til að búa hvar sem er í borginni. Nú búa nánast engir feneyskra Gyðinga á þessari eyju, en þar eru þó enn nokkrar verzlanir þeirra, svo og safn um sögu þeirra í borginni.

Campo Ghetto Nuovo, Feneyjar

Campo Ghetto Nuovo

Á einum veggnum við torgið eru lágmyndir, sem sýna helför Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Frá norðurhlið torgsins er stór brú með vönduðum smíðajárnshandriðum.

Við höldum sömu leið til baka eftir Calle del Ghetto Vecchio og til vinstri eftir bakka Canale di Cannaregio til gönguleiðarinnar milli Rialto og Ferrovia, beygjum til hægri, förum yfir brúna og áfram eftir hótelgötunni, sem brátt nefnist Rio terrà Lista di Spagna og liggur að járnbrautarstöðinni. Þessi gönguferð endar þar. 

Næst siglum við út í nálægar eyjar.

Næstu skref