13. Verona – Arche Scaligere

Borgarrölt
Arche Scaligeri, Verona

Arche Scaligeri

Við förum með suðurhlið hallarinnar nokkra metra að litlu torgi með miklum minnisvörðum.

Hér eru steinkistur Scaligeri-hertoganna hátt á stalli undir berum himni í tilkomumiklum 14. aldar turnum í gotneskum stíl með oddhvössum spírum framan við framhlið Palazzo di Cangrande. Þess háttar greftrun er einsdæmi í miðaldasögu Ítalíu.

Scaligeri-hertogarnir höfðu svo mikið sjálfsálit, að þeir vildu hvíla nær guði en aðrir höfðingjar, sem yfirleitt hvíla í kirkjuhvelfingum.

Að baki kistuturnanna er lítil, rómönsk kirkja frá 7. öld, Santa Maria Antica. Hún var ættarkirkja Scaligeri-hertoganna. Kistuturn Cangrande I er beint fyrir framan kirkjudyrnar.

Næstu skref

13. Verona – Palazzo di Cangrande

Borgarrölt
Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande, Verona

Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande

Loggia del Consiglio

Við förum aftur úr portinu og skoðum höllina Loggia del Consiglio við norðurenda torgsins.

Fögur tengihöll frá 1493 í feneyskum endurreisnarstíl með háum og grönnum súlnasvölum við torgið og veggfreskum yfir svölunum. Á þakskeggi eru styttur af rómverskum frægðarmönnum, sem voru fæddir í Verona, svo sem Catullusi skáldi, Pliniusi náttúruvísindamanni og Vitruviusi byggingameistara.

Palazzo di Cangrande

Hornrétt á tengihöllina er önnur höll, Palazzo di Cangrande.

Höllin er kennd við Cangrande I, þekktasta hertoga Scaligeri-ættarinnar, sem stjórnaði borginni 1263-1387. Hún er núna lögreglustöð.

Næstu skref

 

C. Gamli miðbærinn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Gamli miðbærinn

Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.

Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.

Kóngsins Nýjatorg

Charlottenborg Museum, København

Charlottenborg, Kongens Nytorv

Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.

Gróðurreitur, kallaður Krinsen, var á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis. Nú er komin þarna neðanjarðarlestastöð.

Det kongelige Teater, København

Det kongelige Teater, Kongens Nytorv

Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og ótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.

Til hægri sjáum við Det kongelige Teater, hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.

Næstu skref

12. Verona – Piazza dei Signori

Borgarrölt

Piazza dei Signori

Rómversk gata, Piazza dei Signori, Verona

Rómversk gata, Piazza dei Signori

Við förum um sund norðan Torre dei Lamberti undir steinbogann Arco della Costa inn á annað myndarlegt torg, Piazza dei Signori.

Ferhyrnt torg með feneyskum svip. Á miðju torginu er stytta af rithöfundinum Dante Aligheri, sem bjó í borginni í skjóli Scaligeri-hertoganna, meðan hann var í útlegð frá Flórenz 1301-1304. Hann tileinkaði Scaligeri-hertoganum Cangrande I lokakafla meginverks síns, La Divina Commedia.

Norðan torgsins er höllin Loggia del Consiglio, austan þess er höllin Palazzo di Cangrande, og í suðurhorninu er höllin Palazzo di Ragione, sem er raunar bakhlið hallarinnar Palazzo del Comune.

Scala della Ragione, Verona

Scala della Ragione

Í suðausturhorninu hefur verið grafið niður á leifar hellulagðrar brautar, sem var rómverski þjóðvegurinn inn í borgina.

Scala della Ragione

Við lítum fyrst inn í hallarport Palazzo di Ragione.

Portið var á miðöldum helzti markaður borgarinnar. Af torginu og upp að þáverandi dómsölum borgarinnar liggja voldugar tröppur í síðgotneskum Feneyjastíl, reistar 1446-1450. Sjálf höllin er frá 14. öld.

Næstu skref

 

 

11. Verona – Torre Lamberti

Borgarrölt

Palazzo del Comune

Við austanverðan syðri hluta torgsins er kastalinn Palazzo del Comune.

Torre Lamberti & Palazzo del Comune, Verona

Torre Lamberti & Palazzo del Comune

Ráðhúsið í borginni er gluggalítill miðald
akastali, s
em ber strangan svip við torgið.

Torre Lamberti

Sömu megin götunnar gnæfir hár Torre Lamberti yfir torgið.

Háreistur turn frá 1172, 84 metra hár, með miklu útsýni. Inngangur í turninn er úr porti, sem við skoðum í þessari gönguferð.

Casa dei Mazzanti

Sömu megin torgsins, aðeins norðar er skrautleg höll.

Höll frá 1301, að utanverðu skreytt veggmálverkum, sem hafa verið gerð upp.

Næstu skref
Casa dei Mazzanti, Verona

Casa dei Mazzanti

10. Verona – Piazza delle Erbe

Borgarrölt
Piazza delle Erbe, Verona

Piazza delle Erbe, Madonna di Verona & Palazzo Maffei

Úr norðausturenda götunnar komum við í suðurenda gamla miðbæjartorgsins.

Fagrar byggingar frá endurreisnartíma einkenna þetta langa og mjóa torg, sem hóf göngu sína sem Rómverjatorg, Forum, og hefur verið lifandi borgartorg í tuttugu aldir. Það er nú markaðstorg, þakið sólhlífum torgsala, umkringt listsýningarsölum, tízkuverzlunum og gangstéttarkaffihúsum, af sumum talið eitt fegursta borgartorg Ítalíu.

Á torginu miðju er gosbrunnur með rómverskri höggmynd, sem táknar verzlun, venjulega kölluð Madonna di Verona. Í norðurenda þess er súla frá 1528 með ljóni heilags Markúsar, tákni Feneyjaveldis.

Við norðurendann er Palazzo Maffei, hlaðstílshöll frá 1668, með tízkuverzlunum og lúxusíbúðum.

Næstu skref

9. Verona – Via Mazzini

Borgarrölt

Frá hringleikahúsinu norðanverðu förum við inn í Via Mazzini.

Via Mazzini, Verona

Via Mazzini

Göngugata og eins konar miðbæjarás, sem tengir helztu torg miðborgarinnar, Piazza Brà og Piazza delle Erbe. Helztu tízkuverzlanir borgarinnar eru við þessa 500 metra löngu götu, sem liggur um gamalt hverfi þröngra göngugatna.

Næstu skref

 

8. Verona – Arena

Borgarrölt

Piazza Brà

Við byrjum borgarskoðun á torginu framan við hringleikahúsið.

Stærsta torg miðborgarinnar, útisamkomustaður borgarinnar og forgrunnur hins mikilfenglega hringleikahúss frá fornöld. Það er varðað nýgnæfum byggingum frá 19. öld og fornminjasafninu Museo Lapidario Maffeiano, á nr. 28.

Arena

Arena, Verona

Arena

Hringleikahúsið, Arena, gnæfir austan við torgið.

Byggingu þriðja stærsta hringleikahúss veraldar lauk árið 30. Það er 139 metra langt og 110 metra breitt og rúmar 25.000 áhorfendur í 44 sætaröðum. Það hefur varðveitzt nokkurn veginn í heilu lagi, að öðru leyti en því, að yzta byrðið er að mestu horfið.

Efst uppi er á góðum degi fagurt útsýni yfir borgina og til fjalla. Á sumrin eru haldnar þar miklar tónlistarhátíðir.

Næstu skref

 

7. Verona

Borgarrölt
Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande, Verona

Loggia dei Consilione & Palazzo di Cangrande, Verona

Við höldum svo úr bænum áleiðis til Verona, um 40 km leið.

Frægust er borgin sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu, elskendur frá 1302. Enn eru mörg hús gamla miðbæjarins frá þeim tíma og sum raunar eldri, þar á meðal hið fræga, tuttugu alda gamla hringleikahús. Borgin var 1263-1387 ein af endurreisnarborgum Ítalíu, undir stjórn Scaligeri hertoganna og undir stjórn feneyska heimsveldisins 1405-1814.

Ferðamenn koma til Verona til að komast í stemmningu á söngleik undir berum himni og til að kynnast borg, sem blandar saman endurreisnarstíl meginlands Ítalíu og hinum austræna stíl frá Miklagarði, sem einkennir nágrannaborgina Feneyjar. Gott er að skoða miðbæinn, því að hann er samanrekinn á eins ferkílómetra svæði, sem er vafið fljótinu Adige á þrjá vegu.

Í borginni eru fræg torg, Piazza Brà, Piazza delle Erbe og Piazza dei Signori; frægar hallir, Palazzo del Comune, Palazzo di Cangrande; og frægar kirkjur, Santa Anastasia og Duomo; svo og Péturskastali og gamli borgarkastalinn. Þar eru einnig háloftagrafhýsi Scaligeri-hertoganna og rómverskt útileikhús, auk hringleikahússins fræga.

Næstu skref

Þjóðremban gagnrýnd

Punktar

Að venju flutti Guðmundur Steingrímsson beztu ræðuna í umræðunni um ný fjárlög.  Gagnrýndi þá, sem byggja pólitík sína á því, sem hann kallaði þjóðernisbelging. Það hefur hingað til verið snarpar orðað sem þjóðremba. Hún mergsýgur pólitíska umræðu á Íslandi. Sé ráðherra eða forseti í vondum málum, bregður hann fyrir sig þessari rembu. Sigmundur Davíð og Ólafur Ragnar eru ætið á því lága plani. Engin ástæða er fyrir okkur að vera þjóðrembd. Við höfum farið hörmulega með fullveldið, valið okkur ónýta og hættulega ráðamenn. Við höfum ekki viljað læra af reynslu annarra og sízt af okkar eigin. Hefur bezt sést eftir hrunið stóra.

6. Vicenza – Duomo

Borgarrölt
Duomo, Vicenza

Duomo

Ef við höfum tíma, getum við gengið frá suðvesturenda basilíkunnar um Calle Muscheria og Contrà Garibaldi tæplega 200 metra leið að dómkirkjunni, Duomo.

Kirkjukórinn, sem snýr að torginu, er upprunalegur, sem og útveggir kirkjunnar. Að öðru leyti skemmdist dómkirkjan mikið í síðari heimsstyrjöldinni.

Frá dómkirkjutorginu göngum við norðvestur Via Battisti rúmlega 100 metra leið og beygjum til hægri í Corso Andrea Palladio. Á norðurhorni gatnamótanna er Palazzo Valmarana, ein af höllum Palladio, frá 1566. Síðan förum við Corso Andrea Palladio til norðausturs 600 metra leið til Piazza Matteotti, þar sem er bílastæðið okkar. 

Og þá er Verona næst á dagskrá.

Næstu skref

 

5. Vicenza – Basilica Palladiana

Borgarrölt

Torre di Piazza

Basilica Palladiana & Torre di Piazza, Vicenza

Basilica Palladiana & Torre di Piazza

Frá leikhúsinu förum við upp Corso Andrea Palladio um 200 metra og beygjum til vinstri í Contrà Santa Barbara, þar sem við komum eftir 100 metra að Piazza dei Signori. Þar blasir við borgarturninn mikli.

Óvenjulega grannur múrsteinsturn, reistur á 12. öld og hækkaður á 14. og 15. öld, svo að hann er nú 82 metra hár.

Hann gnæfir yfir Piazza dei Signori, sem er umkringt 15. aldar höllum, þar á meðal Basilica Palladiana. Torgið er líflegt markaðs- og kaffihúsatorg.

Basilica Palladiana

Við beinum athygli okkar að basilíkunni.

Rétt nafn borgarhallarinnar með sívala koparþakið er Palazzo della Ragione, en oftast er hún kennd við höfund súlnaganga hennar, arkitektinn Palladio. Sjálf höllin er frá 15. öld og var farin að gefa sig, þegar hann var fenginn til að styrkja hana með tveggja hæða súlnagöngum árið 1549. Ofan á súlnagöngunum eru marmarastyttur grískra og rómverskra guða.

Loggia del Capitaniato, Vicenza

Loggia del Capitaniato

Myndastytta af Palladio er undir suðvesturgafli hallarinnar.

Loggia del Capitaniato

Norðan torgsins er lögreglustöðin gamla.

Palladio reisti höllina 1571. Fyrst var hún lögreglustöð borgarinnar, en nú er borgarráðssalurinn þar til húsa.

Vinstra megin við höllina er þekktasta veitingahús borgarinnar, Gran Caffè Garibaldi á 2. hæð, sími 544 147, verð fyrir tvo L. 110000.

Hægra megin við hana er gatan Contrà del Monte. Framhald hennar handan Corso Andrea Palladio er Contrà Porti. Við þá götu eru nokkrar gotneskar hallir í feneyskum stíl og nokkrar hallir eftir Palladio í palladískum endurreisnarstíl.

Næstu skref

 

4. Vicenza

Borgarrölt

Vicenza

Við höldum úr bænum áleiðis til Vicenza, um 40 km leið.

Frægust er borgin fyrir arkitektinn Andrea Palladio, sem var uppi 1508-1580. Hann fæddist í borginni og hannaði ýmsar frægustu byggingar miðbæjarins, svo sem Basilica Palladiana, Loggia del Capitaniato, Palazzo Valmarana, Teatro Olimpico og Palazzo Chiericati. Margir telja miðbæ Vicenza einn fegursta miðbæ Ítalíu, enda er hann að mestu leyti frá endurreisnartímanum.

Palladio nam rómverska byggingarlist keisaratímans í Róm. Síðan hannaði hann mörg sveitasetur feneyskra aðalsmanna í nágrenni borgarinnar og nokkrar hallir í Feneyjum sjálfum, kirkjuna Redentore á Giudecca-eyju, svo og klaustrið og kirkjuna á San Giorgio eyju. Flest eru verk hans þó í heimaborginni.

Hér skoðum við ekki aðeins verk Palladio, heldur einnig mannlífið á torgunum umhverfis Basilica Palladiana.

Palazzo Chiericati, Vicenza

Palazzo Chiericati

Palazzo Chiericati

Við komum frá Padova úr austri, förum inn á umferðarhring borgarinnar og inn úr honum eftir Contrà porta Padova, yfir brú og beygjum strax til vinstri inn á torgið fyrir framan Palazzo Chiericati, þar sem eru bílastæði.

Palazzo Chiericati var reist 1550 af Andrea Palladio.

Höllin er núna borgarminjasafn, Museo Civico. Þekktasta listaverkið er sólarvagn Giulio Carpione. Þar eru einnig nokkrar gotneskar altaristöflur.

Teatro Olympico, Vicenza

Teatro Olympico

Teatro Olimpico

Við göngum af torginu yfir Corso Andrea Palladio og í Teatro Olimpico.

Elzta leikhús Evrópu undir þaki, reist 1579-1585, hannað af Palladio og lærisveini hans, Vincenzo Scamozzi.

Áhorfendasalurinn myndar hálfan hring í líkingu við útileikhús Grikkja og Rómverja, en trébekkir koma í stað steinbekkja og eins konar himinn er málaður í loftið. Sviðsmyndin er föst, með Þebustrætum máluðum í þrívídd.

Ödipus konungur eftir Sófókles var fyrsta verkið, sem sýnt var í leikhúsinu. Grísk leikskáld fornaldar skipa fastan sess í sýningarskrá leikhússins.

Næstu skref

3. Padova – Palazzo del Capitaniato

Borgarrölt
Palazzo del Capitaniato, Padova

Palazzo del Capitaniato

Battistero

Battistero, Padova

Battistero

Milli hallar og dómkirkju er skírnhús.

Rómanskt skírnhús stílhreint frá 4. öld, leifar kirkju, sem hér stóð, áður en 16. aldar dómkirkjan var reist. Inni í því eru fjörlegar freskur eftir Giusto de’Menabuoi frá síðari hluta 14. aldar.

Michelangelo hóf hönnun dómkirkjunnar, sem breyttist töluvert í höndum eftirmannanna.

Palazzo del Capitaniato

Við förum frá torginu 50 metra leið norður eftir Via Monte di Pietà að Piazza dei Signori. Gamla herlögreglustöðin, Palazzo del Capitaniato, er við vesturenda torgsins.

Reist 1599-1605 fyrir herlögreglu borgarinnar. Í turninum er stjörnuúr frá 1344.

Við torgið eru fögur boga- og súlnagöng með sérverzlunum og kaffistofum.

Loggia della Gran Guardia

Loggia della Gran Guardia, Padova

Loggia della Gran Guardia

Við vesturenda suðurhliðar torgsins er hásúlnahöll, Loggia della Gran Guardia.

Höll höfðingjaráðsins, reist 1523 í endurreisnarstíl með háu og grönnu súlnaporti, núna notuð sem ráðstefnumiðstöð.

Við höfum lokið skoðun, förum austur úr Piazza dei Signori eftir Via San Clemente og síðan Piazza dei Frutti og Via Oberdan, samtals um 300 metra leið. Á horninu við Caffè Pedrocchi beygjum við til vinstri í Via Cavour og förum norður hana 600 metra að lystigarðinum, sem við göngum langsum til að komast yfir brúna að bílastæðinu.

Næstu skref

2. Padova – Palazzo della Ragione

Borgarrölt
Palazzo della Ragione, Padova

Palazzo della Ragione

Caffè Pedrocchi

Við förum vestur yfir Piazza Eremitani, förum norður fyrir hornið á húsaröðinni og göngum síðan 600 metra til suðurs eftir Via Cavour, þar sem við komum að Caffè Pedrocchi hægra megin götunnar.

Risastórt kaffihús frá 1831 í nýgnæfum stíl, einn helzti hornsteinn menningar- og stjórnmálalífs Ítalíu á sameiningarárum landsins, þegar það brauzt undan veldi austurríska keisaradæmisins. Þar héldu til ýmsar helztu frelsishetjur landsins. Þetta er núna í senn veitingahús og kaffihús, spila- og setustofa, þungamiðja alls þess, sem gerist í Padova.

Palazzo della Ragione

Frá suðurdyrum kaffihússins förum við til hægri 50 metra eftir Via Cesare inn á Piazza dei Frutti við hlið borgarhallarinnar. Við göngum fyrir austurenda hennar inn á Piazza delle Erbe og virðum hana fyrir okkur.

Palazzo della Ragione var reist 1218 sem dómhöll og ráðhús borgarinnar.

Hún hefur að geyma stærsta miðaldasal Evrópu, 80 metra langan, 27 metra breiðan og 27 metra háan. Veggir salarins eru skreyttir 333 freskum eftir Nicola Miretto, frá 1420-1425. Þær komu stað fyrri steinmálverka eftir Giotto, sem eyðilögðust í bruna 1420.

Palazzo del Monte di Pietà

Við göngum vestur úr torginu tæplega 100 metra leið eftir Via Manin og beygjum til vinstri inn á Piazza del Duomo, þar sem dómkirkjan blasir við. Hægra megin torgsins er miðaldahöll.

Höllin Palazzo del Monte di Pietà er frá miðöldum, en bogagöngin framan við hana eru frá 16. öld.

Næstu skref