2. Gamli miðbærinn – Holmens kirke

Borgarrölt

Brimarhólmur

Við röltum til hægri framhjá Hvíti (Hviids Vinstue), yfir Litlu Kóngsinsgötu (Lille Kongensgade), framhjá Mjóna (Stephan á Porta) og höll vöruhússins Magasin du Nord, þar sem áður var sögufrægt hótel, Hótel du Nord, og beygjum til hægri í Víngarðsstræti (Vingårdstræde).

Hér við hægri hlið götunnar er falið í kjallara matarmusterið Kong Hans (sjá bls.23). Við förum ekki þangað svo snemma dags, heldur göngum áfram út að Brimarhólmi (Bremerholm), sem áður var illræmdur og hét Hólmsinsgata (Holmensgade).

Við erum komin í hverfi, sem að stofni til er frá árunum eftir borgarbrunann 1795. Á síðustu árum hafa mörg hinna gömlu húsa verið rifin og ný reist í staðinn, svo að gamli heildarsvipurinn er horfinn. Við getum kíkt inn í sumar litlu og gömlu hliðargöturnar, áður en við höldum til vinstri niður Brimarhólm.

Í gamla daga var þetta þröng gata með öldur- og vændishúsum á báða vegu. Sukkinu var útrýmt héðan með gömlu húsunum og flutt til Nýhafnar fyrst og síðan Istedgade. Nú ríkir hér siðprýðin ein, en hvorki tangur né tetur af fornri frægð.

Við höldum þvert yfir Hólmsinssíki (Holmens Kanal), sem áður var eitt af síkjum borgarinnar, og göngum eftir Hafnargötu (Havnegade) inn á hinn forna Brimarhólm. Þar var áður fyrr skipasmíðastöð konungs og flota. Vinnuaflið var fengið úr þrælakistu Brimarhólms, þar sem geymdir voru lífstíðarfangar.

Holmens Kirke, København

Holmens Kirke

Danmörk var mikið flotaveldi á fyrri tímum. Veldi konungs byggðist mest á flotanum, sem hér var smíðaður, nánast undir glugggum konungshallar Kristjánsborgar. Í eina tíð réð þessi floti öllum Norðurlöndum og í ann
an tíma teygði hann arma sína til fjarlægra heimsálfa.

Á hægri hönd okkar er Hólmsinskirkja (Holmens Kirke), upprunalega reist sem akkerasmiðja skipasmíðastöðvarinnar 1563. Þessa gömlu smiðju í endurreisnarstíl lét hinn mikli byggingastjóri, Kristján IV konungur, dubba upp í kirkju fyrir flotann 1619. Síðan hefur kirkjan nokkrum sinnum verið endurbyggð og lagfærð.

Næstu skref