4. Vicenza

Borgarrölt

Vicenza

Við höldum úr bænum áleiðis til Vicenza, um 40 km leið.

Frægust er borgin fyrir arkitektinn Andrea Palladio, sem var uppi 1508-1580. Hann fæddist í borginni og hannaði ýmsar frægustu byggingar miðbæjarins, svo sem Basilica Palladiana, Loggia del Capitaniato, Palazzo Valmarana, Teatro Olimpico og Palazzo Chiericati. Margir telja miðbæ Vicenza einn fegursta miðbæ Ítalíu, enda er hann að mestu leyti frá endurreisnartímanum.

Palladio nam rómverska byggingarlist keisaratímans í Róm. Síðan hannaði hann mörg sveitasetur feneyskra aðalsmanna í nágrenni borgarinnar og nokkrar hallir í Feneyjum sjálfum, kirkjuna Redentore á Giudecca-eyju, svo og klaustrið og kirkjuna á San Giorgio eyju. Flest eru verk hans þó í heimaborginni.

Hér skoðum við ekki aðeins verk Palladio, heldur einnig mannlífið á torgunum umhverfis Basilica Palladiana.

Palazzo Chiericati, Vicenza

Palazzo Chiericati

Palazzo Chiericati

Við komum frá Padova úr austri, förum inn á umferðarhring borgarinnar og inn úr honum eftir Contrà porta Padova, yfir brú og beygjum strax til vinstri inn á torgið fyrir framan Palazzo Chiericati, þar sem eru bílastæði.

Palazzo Chiericati var reist 1550 af Andrea Palladio.

Höllin er núna borgarminjasafn, Museo Civico. Þekktasta listaverkið er sólarvagn Giulio Carpione. Þar eru einnig nokkrar gotneskar altaristöflur.

Teatro Olympico, Vicenza

Teatro Olympico

Teatro Olimpico

Við göngum af torginu yfir Corso Andrea Palladio og í Teatro Olimpico.

Elzta leikhús Evrópu undir þaki, reist 1579-1585, hannað af Palladio og lærisveini hans, Vincenzo Scamozzi.

Áhorfendasalurinn myndar hálfan hring í líkingu við útileikhús Grikkja og Rómverja, en trébekkir koma í stað steinbekkja og eins konar himinn er málaður í loftið. Sviðsmyndin er föst, með Þebustrætum máluðum í þrívídd.

Ödipus konungur eftir Sófókles var fyrsta verkið, sem sýnt var í leikhúsinu. Grísk leikskáld fornaldar skipa fastan sess í sýningarskrá leikhússins.

Næstu skref