5. Vicenza – Basilica Palladiana

Borgarrölt

Torre di Piazza

Basilica Palladiana & Torre di Piazza, Vicenza

Basilica Palladiana & Torre di Piazza

Frá leikhúsinu förum við upp Corso Andrea Palladio um 200 metra og beygjum til vinstri í Contrà Santa Barbara, þar sem við komum eftir 100 metra að Piazza dei Signori. Þar blasir við borgarturninn mikli.

Óvenjulega grannur múrsteinsturn, reistur á 12. öld og hækkaður á 14. og 15. öld, svo að hann er nú 82 metra hár.

Hann gnæfir yfir Piazza dei Signori, sem er umkringt 15. aldar höllum, þar á meðal Basilica Palladiana. Torgið er líflegt markaðs- og kaffihúsatorg.

Basilica Palladiana

Við beinum athygli okkar að basilíkunni.

Rétt nafn borgarhallarinnar með sívala koparþakið er Palazzo della Ragione, en oftast er hún kennd við höfund súlnaganga hennar, arkitektinn Palladio. Sjálf höllin er frá 15. öld og var farin að gefa sig, þegar hann var fenginn til að styrkja hana með tveggja hæða súlnagöngum árið 1549. Ofan á súlnagöngunum eru marmarastyttur grískra og rómverskra guða.

Loggia del Capitaniato, Vicenza

Loggia del Capitaniato

Myndastytta af Palladio er undir suðvesturgafli hallarinnar.

Loggia del Capitaniato

Norðan torgsins er lögreglustöðin gamla.

Palladio reisti höllina 1571. Fyrst var hún lögreglustöð borgarinnar, en nú er borgarráðssalurinn þar til húsa.

Vinstra megin við höllina er þekktasta veitingahús borgarinnar, Gran Caffè Garibaldi á 2. hæð, sími 544 147, verð fyrir tvo L. 110000.

Hægra megin við hana er gatan Contrà del Monte. Framhald hennar handan Corso Andrea Palladio er Contrà Porti. Við þá götu eru nokkrar gotneskar hallir í feneyskum stíl og nokkrar hallir eftir Palladio í palladískum endurreisnarstíl.

Næstu skref