Erlend mistök stæld

Fjölmiðlun

Í dagskrárgerð er sjónvarpið að gera sömu mistök og erlendar sjónvarpsstöðvar gerðu um aldamótin. DR, danska sjónvarpið, fékk almannatengla til valda. Þeir sögðu fréttir eiga að vera jákvæðar, ekki neikvæðar. Reyndist rugl og skaddaði rannsóknablaðamensku. Næst sögðu þeir fólk hafa meiri áhuga á spyrlum og útliti þeirra en viðmælendum og viðfangsefnum. Því ættu sögumenn frekar að vera í mynd en viðfangsefnin. Sama rugl og það, sem eyðilagði þætti um sagnfræði, lönd og náttúru. Við erum hér að endurtaka mistök annarra lið fyrir lið. Því verðið þið þessa daga að þjást undir fremur sjálfhverfum Andra og húmorlausum Hraðfréttum.

10. Istanbul – Kvennabúrið

Borgarrölt
Istanbul - Topkapi sultan's bedroom

Svefnherbergi soldáns í kvennabúrinu

Kvennabúrið

Viðamestu húsakynni hallar soldáns eru kvennabúrið í norðvesturjaðri garðanna. Þar höfðust við konur soldáns undir stjórn soldánsmóður og sveitar svartra geldinga. Þar voru líka fangelsi soldánsbræðra til að hindra uppreisnir af þeirra hálfu. Flestar voru konurnar 1000 talsins í þessum vistarverum. Þær síðustu voru reknar út á gaddinn árið 1909, þegar gjaldþrota veldi soldáns var að hruni komið.

Í kvennabúrinu má sjá svefnsal soldáns, stofu og borðstofu hans og stofu móður hans, vistarverur kvenna og geldinga. Mikið er af fínlegu skrautvirki í veggjum, einkum blómabeðju-vindingum að hætti múslima.

IMG_0047

Vistarverur í kvennabúrinu

Skartgripasafnið

Vinsælasta safnið í Topkapi er skartgripasafn soldáns, sem glóir allt af þúsund stærstu og dýrustu eðalsteinum. Frægastur er þar Topkapi rýtingurinn, er var smíðaður í Istanbul, gjöf frá soldáni til keisarans í Persíu, sem dó svo, áður en hægt væri að afhenda gjöfina.

Vandað er til uppstillingar gripanna og miklar öryggisráðstafanir. Ráðlegt er að skoða safnið strax við opnun, því að örtröð verður mikil, þegar líður á daginn og erfitt að sjá dýrðina fyrir mannmergð.

Kaffihúsið

IMG_0066

Útsýni frá Topkapi yfir Sæviðarsund til Asíu

Gott er að hvíla sig með tyrknesku kaffi í Konyali, sem situr fremst á klettabrúninni með útsýni yfir Sæviðarsund. Sem veitingahús er Konyali ekki merkilegt og því farsælast að láta kaffið duga á útsýnissvölunum aftan við veitingasalina.

Næstu skref

9. Istanbul – Topkapi

Borgarrölt
Topkapi bókasafn - Istanbul

Bókasafnið í Topkapi hægra megin, hásætishöllin vinstra megin

Brunnur Ahmets III

Við norðausturhorn Ægissifjar er keisarahliðið að Topkapi höll soldánsins. Framan við hliðið er Brunnur Ahmets III frá 1728, lengi helzti stefnumótastaður fína fólksins í borginni. Þar var áður býzanski brunnurinn Perayton.

Nú safnast þar fyrir svartkuflaðar og strangtrúaðar konur, sem bíða bænastundar utan við veggi Ægissifjar. Þær gera það til að krefjast endurreisnar Egisifjar sem mosku og mótmæla notkun hennar sem safns.

Topkapi

Við göngum inn um keisarahliðið að risavöxnum forgarði Topkapi-soldánshallar. Á hægri hönd er kirkjan Hagia Eirene, sem hefur þá sérstöðu að hafa aldrei verið breytt í mosku. Framundan er gangstígur meðfram miðasölunni að hliði hallarinnar sjálfrar.

Topkapi er ekki ein höll, heldur margar smáhallir á víð og dreif um stóran garð. Beint framundan er hásætissalurinn og aftan við hann bókahöll Ahmet III. Vinstra megin er meginhöllin með kvennabúri. Í fjórða og innsta garði eru nokkrar hallir, þar á meðal Bagdað-höllin og veitinghúsið Konyali með flottu útsýni yfir Sæviðarsund.

Í sumum höllunum hefur verið komið fyrir söfnum, svo sem vopnasafni, handritasafni og búningasafni. Frægast er skartgripasafnið með hinum alkunna Topkapi-rýtingi.

Næstu skref
Topkapi - Istanbul

Bagdað-höllin í Topkapi

Byggðastefna Reykjavíkur

Punktar

í Skagafirði og á Rangárvöllum óttast menn aukinn áhuga á að halda Landsmót hestamanna í Reykjavík. Reynslan sýnir, að þáttakendur eru ánægðir með borgina og telja léttara að sækja þjónustu og reka viðskipti í borginni en upp í sveit. Þegar jafnvel hestamennska sækir þannig til Reykjavíkur, má rifja upp kosti borgar. Flestum er auðveldara að fara til Reykjavíkur en til Skagafjarðar eða annarra gæludýra ráðherra á hverjum tíma. Byggðastofnun hrundi, þegar hún var flutt frá Reykjavík. Fiskistofa mun hrynja, þegar hún fer norður. Landflótti magnast og byggðastefna mun senn verða að felast í að bæta innviði Reykjavíkur.

Burt með tanngarðsfólkið

Fjölmiðlun

Mette Fugl hjá Danmarks Radio segir eina delluna, sem drepi fréttir, vera, að meira beri á spyrjanda en viðmælanda. Dellan ríkir víðar en í fréttum. Í gamla daga hafði ég gaman af sjónvarpi um sagnfræði, lönd og náttúru. Slíkir þættir snúast núna um allt annað, um sögumann. Þegar ég vil sjá forna og nýja Persíu, vil ég sjá forna og nýja Persíu, en engan andskotans sögumann með tanngarðinn. Engir slíkir þættir eru lengur í boði, bara endalausar kvikmyndir af Ian Wright eða ýmsu tanngarðsfólki, sem sjónvarpsstöðvar telja merkilegra en Persíu. Mér skilst, að almannatenglar hafi logið þessu rugli að trúgjörnum stöðvarstjórum.

8. Istanbul – Böð og vatnsból

Borgarrölt

Roxelana-böðin

Baðhús Roxelönu, Haseki Hürrem Sultan Hamamı, er milli Ægisifjar og Bláu moskunnar við suðvesturhlið SultanAhmet Meydanı.

Roxelana-böðin frá 1557 voru lagfærð og opnuð að nýju 2011. Þar er hægt að komast í tyrkneskt bað við óvenjulega glæsilegar aðstæður. Böðin voru byggð fyrir hina frægu Roxelönu frá Úkraínu, sem gerðist hjákona Súleimans mikla og ól honum son, sem varð hinn illræmdi soldán Selim róni.

Tyrknesk böð minna á rómversku böðin í fornöld, en hafa formfastara ferli og ekkert ískalt bað í lokin. Baðinu fylgir harðskeytt nudd. Ekki þarf að hafa neitt með sér í böðin, sápa, sloppur og handklæði eru innifalin.

IMG_0071

Yerebatan Sarayı vatnsbólið

Ferðamenn notfæra sér helztu böð gamla bæjarins. Fyrir utan Roxelana eru til dæmis Cağaloğlu og Çemberlitaş milli SultanAhmet Meydanı og Kapalı Çarşı, stóra bazarsins. Stóru hótelin bjóða eigin tyrknesk böð.

Súlna-vatnsbólið

Frá norðurhorni SultanAhmet Meydanı liggur gatan Yerabatan Caddesi til norðvesturs. 50 metrum frá götuhorninu er neðanjarðarhvelfing súlna-vatnsbólsins frá árinu 542. Yerebatan Sarayı er stærsta vatnsbólið af 100 slíkum í gamla miðbænum. Frá þessu vatnsforðabóli rann vatnið til gömlu keisarahallarinnar og síðar til Topkapi, hallar soldánsins.

Vatnsbólið var hreinsað og lagt göngubrautum. Það hefur verið til sýnis frá 1994, 10 þúsund fermetra skógur 336 marmarasúlna, níu metra hárra. Fleiri súlur eru í Binbirdirek vatnsbólinu, alls 1000 talsins, en flötur þess er minni.

Næstu skref

7. Istanbul – Paðreimurinn

Borgarrölt
Paðreimurinn - Istanbul

Paðreimurinn, Hippodrome

Paðreimurinn

Við norðvesturhlið Bláu moskunnar er Hippodrome, paðreimur grísku keisaranna.

Topkapi í istanbul 1988

Þýzki brunnurinn á Hippodrome

Þar var háð var hin fræga kerruhestakeppni bláa, græna, rauða og hvíta liðsins. U-laga skeiðvöllurinn er 450 metra langur og rúmaði 100.000 áhorfendur. Hjarta borgarlífsins á grískum tíma, vettvangur blóðugra átaka fylgismanna keppnisliðanna. Hér brutust árið 532 út Nika-óeirðirnar, sem urðu 30.000 manns að bana.

Fátt stendur eftir af fornri frægð, nema lögun svæðisins, sem nú er göngutorg borgarbúa á frídögum. Á miðjum velli standa enn egypzki einsteinungurinn, steinhlaðinn turn og bronz-spírall. Svo og þýzki brunnurinn í norðurenda vallarins.

Næstu skref

6. Istanbul – Bláa moskan

Borgarrölt
Bláa moskan - Istanbul

Bláa moskan, Sultan Ahmet Camii

Bláa moskan

Andspænis Ægisif við SultanAhmet Meydanı er Bláa moskan, sem raunar heitir Sultan Ahmet Camii. Gælunafnið stafar af bláum postulínsflísum frá İznik, sem skreyta veggina að innan. Hún er hástig þeirrar smíði mustera, sem hófst með Ægisif þúsund árum áður.

Bláa moskan var byggð 1609 to 1616 í tíð soldánsins Ahmet I á rústum gömlu hallar grísku keisaranna. Gott dæmi um meira svif í opinberum byggingum múslima í samanburði við þyngdina í opinberum byggingum Evrópumanna. Munurinn sést í samanburði Bláu moskunnar og Ægisifjar.

Næstu skref

5. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt
Istanbul - Aya Sofia mosaic

Mósaík í Ægisif

Þegar Ægisif og Bláa moskan eru bornar saman, finnst mörgum Bláa moskan vera stílhreinni og fegurri. Þá verður að hafa í huga, að Ægisif er tilraun, þúsund árum eldri en Bláa moskan. Stílfræði og verkfræði höfðu síðan fengið færi á að þroskast í þúsund ár, þegar Bláa moskan var reist.

Með vaxandi öfgum íslamisma í Tyrklandi undir auknu gerræði Erdogan forseta aukast líkur á, að Ægisif verði aftur breytt í mosku með banni við aðgangi trúvillinga á bænastundum. Bezt er að skoða dýrgripinn fyrr en síðar.

Næstu skref

4. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt

Ægisif var stærsta kirkja heims í þúsund ár. Jafnarma kross með feiknarlegu, 31 metra víðu hvolfþaki í miðjum krossi. Hvolfþakið er meistarAyasofia - Istanbulaverk burðarþols, virðist svífa eins og sjálft himinhvolfið. Hefur samt staðið af sér tíða jarðskjálfta. Burðarþolið er flutt úr hvolfinu niður í tröllslegar súlur, sem eru studdar hliðarveggjum til að dreifa þunganum.

Á kristnum tíma voru veggir og hvolf kirkjunnar skreytt mósaíkmyndum, sem kalkað var yfir á moskutímanum. Kalkið hefur nú verið hreinsað og hinar glitrandi myndir eru aftur sýnilegar gestum og gangandi.

IMG_0122

Steinkista Henricus Dandolo

Á marmarahandriði innansvala Ægisifjar í Miklagarði eru norrænar rúnaristur. Þær eru norrænt fámæltar, önnur segir “Hálfdan var hér” og hin segir “Ari var hér”. Syfjuðum Væringjum í lífverði keisarans hefur leiðst að hlýða messu í höfuðkirkju grísks rétttrúnaðar. Rúnaristurnar má sjá á svalahandriðinu andspænis steinkistu Henricus Dandolo Feneyjagreifa.

Næstu skref

3. Istanbul – Ægisif

Borgarrölt
Ayasofia - Istanbul 2

SultanAhmet Meydanı torgið og Ægisif, Hagia Sofia

Ægisif

Miklar biðraðir eru við Ægisif og bezt að vera þar að morgni, áður en rúturnar koma með farþega risaskipanna, sem koma á hverri nóttu úr Eyjahafi. Hægt er að kaupa aðgöngumiða á netinu og prenta hann út til að spara tíma. Ægisif var fyrst kirkja, síðan moska og hefur síðast verið safn í 80 ár, síðan 1935.Ayasofia - Istanbul 4

Ægisif er miðpunktur okkar, merkasta og fegursta mannvirki mannkyns. Með minjum kristni og íslams er hún ennþá skurðpunktur öflugustu trúarbragða heims. Fyrirmynd allra rétttrúnaðarkirkja og moska. Var byggð árin 532-537 í býzönskum stíl á vegum Jústiníanusar mikla, keisara Miklagarðs. Arkitektar hennar voru grískir, eðlisfræðingurinn Isidorus frá Miletus og stærðfræðingur- inn Anþemius frá Tralles.

Næstu skref

2. Istanbul – SultanAhmet Meydanı

Borgarrölt
IMG_0044

SultanAhmet Meydanı torgið séð frá Ægisif að Bláu mosku

SultanAhmet Meydanı

Miðjan í Istanbul er torgið SultanAhmet Meydanı, kennt við Ahmet I soldán, á nesinu milli Marmarahafs, Sæviðarsunds og Gullna hornsins. Þar var gamla borgin og þar gnæfir enn eitt af undrum veraldar, Ægisif, Hagia Sofia á grísku og Aya Sofia á tyrknesku, musteri heilagrar vizku, en ekki neinnar Soffíu, 1.500 ára gamalt listaverk og verkfræðiafrek.

Frá þessu víðáttumikla og gróðursæla torgi er stutt að rölta til flestra merkra minja í borginni. Þar er Bláa moskan, Topkapi-höllin, þjóðminjasafnið, súlna-vatnsbólið, Roxelana böðin og Hippodrome paðreimurinn. Í næsta nágrenni er Kapalı Çarşı markaðurinn og Süleymaniye moskan. Aðeins lengra er til borgarmúra Þeódósíusar keisara.

Næstu skref

B. Kappadokia – Ankara

Borgarrölt, Istanbul
Fornminjasafnið - Ankara

Anatólíusafnið

Ankara

Fyrir ferðamenn er Ankara bara flugvöllur, hlið að töfrum Kappadókíu. Fátt er að sjá í borgini annað en Anatólíusafnið og hugsanlega grafhýsi Mustafa Kemal Atatürk. Kíkjum aðeins í safnið.

Anatólíusafnið, Anadolu Medeniyetleri Müzesi, er fyrst og fremst frægt fyrir minjar um fornþjóð Hittíta. Þeir voru stórveldi 1600-1180 f.Kr. og háðu fræga orrustu við Egypta við Kadesh árið 1274 f.Kr um yfirráð í Sýrlandi. Í safninu er rúmt um sýningargripi, sem gerir skoðun þægilega. Þar er friðarsamningurinn við faraó greyptur í stein.

Grafhýsi Atatürk er mikil höll ofan á felli með voldugum hásúlum í einræðisherrastíl. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja í nærri nöktum húsakynnum. Mustafa Kemal Atatürk vildi gera Tyrkland að vestrænu þjóðríki. Arfleifð hans hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi.

Næstu skref
Atatürk grafhýsi - Ankara 2

Grafhýsi Atatürk

Taugaveiklaður Illugi

Punktar

Illugi Gunnarsson er í hverju taugaveiklunarkastinu á fætur öðru. Fyrst skellir hann fram kröfu um lakara menntaskólanám. Menn eru ýmist forviða eða reiðir, enda er hann að grafa undan menntun. Samhliða leggur hann niður öldungadeild, skærasta ljósið í menntakerfinu. Nú vill hann þar á ofan lengja allt of langan höfundarétt, sem áður náði langt yfir gröf og dauða. Þetta er fyrir þrýsting frá fyrirtækjum í tónlist og kvikmyndum, sem hafa keypt og safnað slíkum rétti. Ekki fyrir þrýsting frá upprunalegum höfundum. Nær væri að semja um styttingu höfundaréttar og ekki síður styttingu og takmörkun einkaleyfa í viðskiptum.

Hávær þögn í 18 mánuði

Punktar

Þrjúhundruð milljarða „leiðrétting forsendubrests“ frestast stöðugt og rýrnar í roðinu. Fór af stað með loforðinu „strax“ og með þeirri skýringu, að þetta væri eins auðvelt og að éta pítsu. Svokallaðir hrægammar yrðu látnir borga. Langt er síðan hrægammarnir gleymdust og pítsan varð köld, en upphæðin er komin niður í áttatíu milljarða frá skattgreiðendum. Enn er verið að fresta framkvæmd, því að búið er að láta peningana í klær kvótagreifa og annarra auðgreifa. Reiknað er og reiknað í nefndinni frægu og reynt að skera utan af loforðinu. Aldrei hef ég heyrt svo þöglan hóp kjósenda bíða eftir útdregna vinningnum sínum í átján mánuði.